Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Þriðjudagur 6. september 2011 - Svona dagur

Ekki hefur leitin að nýrri íbúð borið árangur í dag ... 

... en unnið er að því hörðum höndum að setja allar klær út.  Það er ómögulegt að hafa þetta svona.

---

Til að gera þessa leit og allt mitt starf enn skemmtilegra hefur kvefið heldur sótt í sig veðrið í dag ...

---

Lauga fór til tannlæknis í dag ...

---

Það er enginn matur til í ísskápnum ...

---

Guddan pissaði á stofugólfið í dag ... í fyrsta skiptið í 250 daga.

--- 

Ég fór ekki á fótboltaæfingu í kvöld ...

 

...

æi ... hlutirnir einhvern veginn ekki alveg að gera sig í dag ...  


Mánudagur 5. september 2011 - Að láta sparka sér út úr íbúðinni

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er ég kominn með bullandi kvef núna ... skil að bara alls ekki ... en svona er þetta bara.

Það er komið á hreint að það á að sparka okkur út úr íbúðinni hið fyrsta ... alltaf hressandi ... þannig að það bíður okkar að finna nýja.
Þetta er auðvitað ekki alveg það sem er allra skemmtilegast í heiminum að gera en þarf engu að síður að gera stundum. Það sem setur samt smá skorður er leikskólavistin hjá fröken GHPL.  Maður nennir eiginlega ekki að vera að hjóla einhverjar ofsavegalengdir til að koma henni í og úr skóla.  

Svo vorum við einmitt svo glöð um daginn að við fundum einhvern fimleikahóp í nágrenninu hjá okkur og skráðum Gudduna í hópinn.  

Það er sum sé ofurlítil pressa að fara ekki mjög langt frá núverandi stað.

---

Annars er þetta bara með kyrrum kjörum. 


Sunnudagur 4. september 2011 - Sirkus, listasafn og 3-1

Guddan er "fíllinn"!  Eða svo segir hún sjálf ...

Þessi dægrin er hún sum sé í hlutverkaleik og nær hann yfirleitt hámarki í rúminu okkar en þar lætur "fíllinn" sig falla ótt og títt með miklum tilþrifum ... "fíllinn er að detta", öskur og svo dúar allt herbergið og hristist.

"Fíllinn" fær sér líka að "grekka" (drekka), hann fer að pissa og þarf að klæða sig ... og meira segja var "fíllinn" svo óheppinn í morgun að hann meiddi sig á fætinum.

Þessi fílasótt hefur verið í mjög örum vexti frá því að við fórum í Cirkus Maximum í gær.

 
Poppílát úr sirkusnum

Þegar GHPL er spurð hvað hafi verið skemmtilegast í sirkusnum, segir hún umsvifalaust að fílarnir hafi verið skemmtilegastir ...

... sem er alveg stórfurðulegt því það voru engir fílar á sýningunni, að ég best veit.

En Guddan nennir ekkert að hlusta á svoleiðis úrtölur ... 

 
Þessir hundar, já og póný-hesturinn, voru hinsvegar á sýningunni

---

Í dag skruppum við svo á listasafn Uppsala ... heldur betur fjör að vera þriggja ára þar!  Sérstaklega innan um keramikið ... einn safnvörðurinn fékk hér um bil slag þegar GHPL var langt komin í þeirri vinnu að taka upp stóran og mikinn frosk sem var með kórónu á höfðinu.  

"Ómetanleg verðmæti" sagði þessi ágæti vörður þegar hann hafði jafnað sig eftir mesta sjokkið.  ""Grúdan" (froskur á sænsku) með kórónu" sagði Guddan á móti og andlit hennar ljómaði eins og sól í heiði. 

Þessi ágæti safnvörður leit ekki sekúndu af okkur eftir þetta atvik og tók ávallt spígsporandi á móti okkur þegar við stigum út úr lyftunni sem flytur gesti milli hæða á safninu.  Hlýtur að hafa hlaupið eins og eldibrandur upp stigana ... 


Fyrir utan listasafnið sá GHPL þessa "fossa"

---

Leikur í kvöld í Rosernberg ... hann tapaðist 3-1 ... hlutdrægasti dómari sögunnar blés í flautuna.

Síðuhaldari lét það fara í taugarnar á sér og það endaði með því að fá gult spjald eftir að hafa neglt einhvern snillinginn niður af fullkomnum ásetningi ... ójá, þetta skap ... eftir spjaldið var karl rólegri en þar með er ekki sagt að hann hafi verið rólegur.


Föstudagur 2. september 2011 - Klipping og fyrsta máltíðin

Þá eru hlutirnir teknir að skýrast ... það er óhætt að segja að það sé nóg framundan ...

Þann 25. september fer ég til Eindhoven í Hollandi á ráðstefnu og verð með erindi þar ... sem verður skemmtilegt.  Frá Hollandi verður svo haldið til Íslands, þar sem ótal verkefni bíða mín og þaðan mun ég svo fara aftur til Svíþjóðar í byrjun október.

Svo verður gerð önnur atlaga og farið aftur til Íslands í lok október til að takast á önnur verkefni. 

Í millitíðinni þarf ég að vinna að greina- og fyrirlestraskrifum ... ég myndi eiginlega segja að stundaskráin sé að verða full, því svo þarf auðvitað að sinna fjölskyldu, vinum, fótbolta og tónlist. 

---

Í gær fór GHPL í klippingu í fyrsta skiptið á ævinni ... tja ... reyndar ekki í fyrsta skiptið.  Þetta var í annað skiptið en hinsvegar í fyrsta skiptið sem hún fór í klippingu og fékk klippingu.

Sú var nú heldur betur lukkuleg áður en farið var af stað.  Tilkynnti öllum, kunnugum sem ókunnugum hvert ferðinni væri heitið og hvað ætti að gera.

Hún settist hróðug í stólinn hjá rakaranum, sagði honum hvað stæði til, sagði konu sem kom inn á rakarastofuna einnig hvað væri í pípunum og svo var lagt í 'ann.

Allt gekk vel til að byrja með ... eða allt þar til klipparinn fékk þá flugu í höfuðið að úða vatni yfir hárið á henni.
Já, nei, nei ... hingað og ekki lengra ... þetta hafði GHPL ekki hugsað sem hluta af dílnum.  Hún algjörlega útilokaði frekari aðgerðir, reif af sér svuntuna og bjó sig til heimferðar.
Eftir miklar sáttatilraunir fékkst hún þó til að setjast aftur í stólinn ... en þá bara með þeim skilyrðum að hún myndi ekki hafa neina svuntu framan á sér og enga vatnsúðun - takk!! 

Af mikilli varfærni hélt klipparinn áfram starfi sínu og í þetta sinnið var vatni sprautað í greiðuna og hún svo borin ofurgætilega í hárið.
Þessi aðferð gekk allsæmilega þar til sú stutta fékk nóg ... ástæða þess var að svo mikið af hári var komið inn undir nærbolinn hennar að ómögulegt var að sitja kyrr ...

Aðgerðum var hætt áður en upp úr sauð ... dóttirin fékk afslátt af klippingunni því verkinu var langt frá því að vera lokið og toppurinn rammskakkur ...

Því miður hefur algjörlega láðst að taka mynd af hinni nýklipptu dóttur ... en það kemur ... 

---

Nafni er búinn að haga sér vel í dag ... eins og nánast alltaf ... hann fæst mest við að rúlla sér af baki yfir á maga og öfugt ... eða minnsta kosti reyna það.

Jú, og svo hámar hann í sig ávaxtamauk ... en slíkt er nú leyfilegt að gefa honum ...


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband