Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Laugardagur 4. desember 2010 - Nýjustu æðin

Það er skollið á nýtt æði hjá dótturinni ...

Í dag fórum við að kaupa jólagjafir og skruppum í verslunarmiðstöðina Gränby Centrum.  Eftir að hafa hlaupið út um allar trissur, þá var dóttirin látin setjast í innkaupakerru. 

Við erum svo að trilla með innkaupakerruna, þá byrjar blessað barnið að góla "hjálp, hjálp" í allar áttir, líkt og væri verið að gangi í skrokk á henni ... sem var alls ekki verið að gera.  Ég hafði bara beygt mig niður að henni og spurt hvað strumpurinn sem hún hélt á væri að gera.  
Ég lít snarlega í kringum við til að gá hvort nokkur tæki mark á þessum köllum og bað hana í guðanna bænum um að hætta þessu ósköpum ...

Það var ekki tekið til greina fyrr en löngu seinna.

En skömmu síðar, þegar ég er staddur inn í einni búðinni, heyri ég hvar dóttirin hrópar "hjálp, hjálp" þar sem hún situr í kerrunni fyrir utan búðina í félagsskap móður sinnar.  Aftur var tónninn í þessum hrópum eins og einhver væri virkilega í nauðum staddur.

Við heimkomuna skreið stubbur upp í rúm og lagði sig.  Eftir rúma tvo tíma mátti heyra hvað eftir annað kallað á hjálp innan úr svefnherberginu, þannig að engu líkara var en rúmið og nálægir hlutir stæðu í ljósum logum ... en hún var sumsé að láta vita að hún væri vöknuð.

Hvaðan þetta er sprottið er mikil gáta.

---

Annars er gaman að segja frá öðru æði sem tröllríður öllu hér í Uppsala nú ... og það eru Strumparnir.

"Stumpa" eins þeir eru kallaðir, "Tartan" galdrakarl og kötturinn "Rander" (sem reyndar hljómar eins og hún sé að tala um Randver frænda sinn í Grundarfirði) eru svo vinsælir núna að sjálf Dóra landkönnuður má hafa sig alla við.

 

Þessir aðilar, sem um ræðir, fylgja Guddunni hvert á land sem er og þegar boðið er upp á að horfa á DVD, eru "Stumpa" alltaf í fyrsta sæti.

---

Svo eru í lokin tvær myndir af heimasætunni með bleiku lambhúshettuna sem amma á Sauðárkróki prjónaði og sendi á sínum tíma.
Efri myndin er tekin í desember 2010 en sú neðri í desember 2009.

 

 


Fimmtudagur 2. desember 2010 - Að skorta efni

Gagnagreining hefur verið viðfangsefni dagsins ... og hún endaði í hreinu bulli í kvöld ...

Þannig að það verður greinilega að verja morgundeginum í sambærileg verkefni.  Sem er svo sem í góðu lagi því gagnagreining er mjög skemmtileg.

---

Annars hefur hreinlega ekkert gerst í dag ... svona fyrir utan það sem gerist iðulega á hverjum degi ...

- Lauga kom heim úr vinnunni upp úr kl. 16.

- Guddan neitaði að vera með vettlinga í útivistartímanum á leikskólanum.  Spurning um að fara bara að líma vettlingana á hana.

- Ég æfði mig að syngja.

- Milljón stiga frost úti.

- Spælt egg og "danskt" rúgbrauð í hádegismat hjá mér.

---

Jú auðvitað ... ég talaði í marga klukkutíma í kvöld við Dóra vin minn ... það er reyndar mjög markvert, því við höfum ekki talað saman í nokkrar vikur.

Hann var bara hress ...

---

Svo bjó Lauga til rosalega góðan mat í kvöld.

Hún er öll að detta inn í heilsumataræði.  Er að lesa sig til um mataræði og næringu og fræðir mig svo.  
T.d. sagði hún mér að maður ætti helst að borða ávexti og grænmeti á fastandi maga, því þá væri upptaka næringarefna og vítamína "effektífust".  Svo á maður ekki að borða kex og ost samtímis ... miklu frekar borða ostinn með grænmeti.

Það er náttúrulega málið að borða hollan mat ... alveg merkilegt hvað maður hefur verið svakalega linur við það svona í gegnum tíðina.

Ég heyrði einhvern segja um daginn að fæstum myndi detta í hug að setja eitthvert subbubensín á bílinn sinn, en þeir hinir sömu eru á móti alveg til í að setja 100% rusl ofan í sjálfa sig.

Þetta er áhugaverð pæling. 

 


Miðvikudagur 1. desember 2010 - Frosthörkur, sannleikur, rokk og ról

Vá ... árið 2010 er bráðum á enda runnið ... það er óhætt að segja að tíminn fljúgi ...

---

Verð að minnast aðeins á veðrið hér í Uppsala ... bara stutt ...

Í morgun þegar ég fór með Gudduna í skólann ... hitastig -23°C!!

Þetta er náttúrulega bara alls ekki hægt!

Einn leikskólakennarinn sagði mér að í uppsiglingu væri, skv. upplýsingum frá fróðu fólki, mesti kuldavetur í manna minnum.
Hitastig dagsins lofar að minnsta kosti góðu ... ;)

Við Lauga spyrjum okkur hvort ekki sé réttara að færa sig eitthvert annað á jarðkringluna á þessum árstíma ... í alvöru ... 
Ég sakna að minnsta kosti veðurblíðunnar í Ástralíu ... svo mikið er víst ...

Jæja, ... nóg af væli ... 

Fór í söngtíma í kvöld ... alveg hrikalega gaman.
Kennslukonan er líka svo svakalega ánægð með mig.  Fyrir mig er einhvers konar endurfæðing að fara að eiga sér stað ... eftir magalendingu fyrir nokkrum árum.

Reyndar er ég að syngja allt annars konar músik núna en þá ... núna er það bara popp og rokk sem er á stefnuskránni.

Var t.d. að synga Bon Jovi í dag ... Bed of Roses ...
... og þrátt fyrir að það eigi náttúrulega eftir að slípast heilmikið, þá setti ég það bara í vasann í fyrstu tilraun.  Viðurkenni reyndar að ég á aðeins eftir að vinna hæsta tóninn í enda lagsins ... en það kemur ;) ...

Lauga hefur alltaf sagt við mig að mér henti miklu betur að syngja popp og rokk heldur en klassík.  "Það er einhvern veginn miklu meira þú" segir hún ... og það er auðvitað alveg kórrétt hjá henni.  Hún er nefnilega ansi glúrin oft hún Lauga.

Hún fattar hluti um mig oft löngu áður en ég fatta þá sjálfur.  T.d. sagði hún mörgum árum áður en ég fór í sálfræðina í HÍ að ég ætti að skella mér í sálfræði ... það væri eitthvað fyrir mig.
Ég fussaði ...

Í kvöld vorum við svo kíkja á fleiri lög sem ég gæti tekið fyrir ... alveg hrikalega skemmtilegt :) . 

---

Í kvöld horfðum við líka á skemmtilega en í raun mjög athyglisverða mynd ... The Invention of Lying með Ricky Gervais í aðalhlutverki.

Aðalsögusvið myndarinnar er veröld þar sem fólk segir alltaf það sem því finnst ... m.ö.o. það lýgur aldrei.
Samtölin í myndinni verða því oft ansi furðuleg og fyndin.  Þau fá mann til að staldra aðeins við og spá í samskipti fólks svona almennt séð og hvað margt af því sem maður segir, er oft hliðrun á sannleikanum ... mismikil hliðrun þó ... 

En væri heimurinn betri ef allir segðu alltaf nákvæmlega það sem þeim raunverulega finnst?

Þetta er spurningin sem ég tek með mér í draumaheiminn ...  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband