Alls konar

Þá er James farinn.
Já, hann James, félagi okkar kvaddi í morgun og hélt á vit ævintýranna ... nánar tiltekið til Suður-Ameríku.  Hann hyggst ferðast þar um í eina 3 mánuði held ég.
Þokkalegur pakki það ... ég væri til í að slást í för með honum, ef ég hefði ekki svo sem eins og eitt doktorsverkefni á stefnuskránni hjá mér.

Og í tilefni brottfarar sinnar, þá bauð hann vinahópnum út að borða í gærkvöldi.  Herlegheitin fóru fram á P J O´Briens, sem er veitingastaður við King Street. 
Rosalega fínn matur þar og allir í stuði.

IMG_8223 by you.
Þarna má sjá flesta af þeim sem voru á staðnum.

IMG_8224 by you.
Uncle Dave og Sydney Houdini

Reyndar gerðumst við Lauga svo dónaleg að við þökkuðum James ekkert fyrir matinn, né heldur buðumst til að borga okkar skammt, heldur stormuðum bara út af staðnum upp úr klukkan 22.  Föttuðum svo þegar við komum heim að við höfum algjörlega orðið okkur til skammar ... hringdum með skottið milli lappanna í James og báðumst afsökunar á þessari yfirsjón okkar og þökkuðum kærlega fyrir okkur ... dálagleg frammistaða þetta!

Annað er allt í föstum skorðum, enn er unnið að sýndarveruleikanum og þokast hann áfram.  Það góða við þessa vinnu að gerð sýndarveruleikans er, að það er hægt að hlusta á endalausa tónlist eða útvarpsþætti meðan vinnan fer fram.  Það er ekki oft sem ég get leyft mér slíkan munað þegar ég er að vinna því ég þeirrar náttúru gæddur að geta með engu móti, til dæmis lesið eða skrifað og haft tónlist í bakgrunni. 
Ef aðstæður eru með þeim hætti fer allt fyrir ofan garð og neðan hjá mér, bæði viðfangsefnið, sem og tónlistin.

Annars er það eiginlega þannig að mér finnst góð tónlist, eiga betra skilið en að vera látin hljóma einhvers staðar í bakgrunni.  Mér finnst ég einhvern veginn þá vera að eyða í óþarfa, svolítið svona eins og borga sig inn á bíómynd og vera svo fastur á klósettinu meira og minna alla myndina. 

Og það líkar mér ekki ...

En jæja, við sýndarveruleikagerðina get ég vel einbeitt mér að hlusta á tónlist, meðan ég dreg strik á tölvuskjáinn og vinn myndir í Photoshop.  Ef ég þarf að hugsa, eins og stundum kemur fyrir, er slökkt á tónlistinni augnablik ...
Og hvað ... maður fær náttúrulega alls konar lög á heilann og um þessar mundir eru það tvö lög sem glymja í hausnum á mér daginn út og inn ...

... Eternal flame með The Bangles og We don´t need another hero með Tinu Turner ...
Þessi tvö lög eru náttúrulega ekkert nema tær snilld ...

Það vita það kannski ekki mjög margir að mér hefur alltaf fundist The Bangles hrikalega góð hljómsveit ... og þetta lag er alveg ógeðslega gott ... Susanna Hoffs (sú sem syngur) spillir heldur ekki myndbandinu ...

Annars var ég að lesa að Tina Turner sé að fara í "global" tónleikaferð í október næstkomandi, aðeins 69 ára að aldri.  Hversu kúl er það eiginlega?!?

En jæja, er þetta ekki að verða frekar tilgangslaust kjaftæði ...

... enda færsluna á góðri myndasyrpu af dótturinni.  Í dag var hún beðin fallega um að sitja stillt í sófanum meðan myndataka færi fram.  Og auðvitað varð hún við beiðninni ... sjón er sögu ríkari ...

IMG_8264 by you.
Allt byrjaði þetta vel ...

IMG_8272 by you.
En svo fór fyrirsætan að líta í kringum sig ...

IMG_8274 by you.
... en slíkt getur verið varasamt þegar maður er 11 vikna og heldur ekki haus ...

IMG_8275 by you.
... og hefur ekki vit á því að bera hendurnar fyrir sig ...

IMG_8276 by you.
Svona fór um sjóferð þá!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Guðrún Helga er eitthvað svo dömuleg á fyrstu myndinni... en svo er engu líkara en að hún fái augastað á einhverju í sófanum sem hún vill kanna frekar - í mikilli nálægð :O) Algjör dúlla!

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband