Jæja, ...

Fróðlegur dagur í dag ...

Ég er að ná dálítið góðum tökum á gerð sýndarveruleika fyrir verkefnið mitt ... veruleikinn er alltaf að verða raunverulegri og raunverulegri, betri og betri
Nýjasta afurðin er hérna ...

complexity_low_advanced#20000 by you.

Ég tek það samt fram að þetta myndefni var allt saman bara gert í miklum fljótheitum og gæti því verið betra, því betur má ef duga skal ... en samt ég er mjög ánægður með þetta.  Þetta lofar góðu.
Það má geta þess að upprunalega eru gluggarnir af velkunnu húsi í miðbæ Reykjavíkur, en með tækninni er hægt að plokka út einn glugga og fjölfalda hann eins og sést á myndinni þannig að út komi heilt íbúðarhverfi ...
Sá sem getur fundið út hvert rætur gluggans liggja, fær verðlaun Múrenunnar - í Sydney, sem er flug og bíll í 2 vikur í Evrópu.  Sum sé til mikils að vinna.

Svo er mjög gaman að segja frá því að ég er þessa dagana að taka tvo menn í sátt ... ég meina, í fyrsta skipti á ævinni er ég að "fíla"þá og það sem þeir eru að gera eða hafa gert.
Þessi tveir menn eru Hallgrímur Helgason og Sverrir Stormsker ...

... ég er þessa dagana að lesa Rokland eftir Hallgrím ... og hún er alveg helvíti góð.  Ég var búinn að heita því að lesa ekki fleira eftir hann eftir að ég las eða reyndi að lesa Höfund Íslands fyrir nokkrum árum.  Ég dó nærri því úr leiðindum og gafst upp á bókinni.  Síðan þá hefur sú bók verið notuð undir borðfót til að "jafnvægisstilla".  Hentar vel í það!
Sömuleiðis hefur mér aldrei líkað "attitjúdið" í Hallgrími, mér hefur alltaf fundist hann helst til góður með sig og fullkominn beturviti ...
En viti menn ... Fjóla lánaði Laugu Rokland og ég greip bókina glóðvolga og er eins og áður greinir á bólakafi að lesa hana ...
... og í gær datt mér í hug að lesa brot úr bókinni fyrir einkadótturina, en þá vildi nú ekki betur til að kaflinn fjallaði meira og minna um kynferðislegar athafnir Böðvars H. Steingrímssonar og Dagbjartar Albertsdóttur í skottinu á golgrænni Toyotu Corolla á bílastæðinu við Reiðhöllina á Sauðárkróki.
Ég dró hvergi af mér við lesturinn og fékk dóttirin, tæplega 8 vikna, lýsingarnar beint í æð ef svo má segja.
En ég ætla að segja Hallgrími það til hróss að þessi bók er að virka ... svo mikið er víst!  Og ég hef heitið því að líta á hann í jákvæðu ljósi, enda engin ástæða að vera að útmála hann ... ég þekki manninn ekki baun og hef aldrei talað við hann.

Hinn maðurinn, Sverrir Stormsker ... alltaf að reyna að vera eitthvað ógurlega fyndinn og dónalegur ...
... þetta viðhorf mitt til Stormskersins hefur algjörlega umturnast, eftir að ég fór að hlusta á þáttinn hans Miðjuna á Útvarpi Sögu.  Ég er á því að maðurinn sé snillingur ... og hann er ekki þessi strigakjaftur sem ég hélt hann væri.
Jú, jú ... það flýtur eitt og eitt klúryrði frá karlinum, sem er yfirleitt hnitmiðað og á mjög vel við í þeirri umræðu sem er í gangi hverju sinni.  Oft er hann bara alveg helvíti fyndinn ...
Stormskerið er því flottur gæi á ferðinni, með á nótunum og uppörvandi húmoristi sem hefur gaman að stíga einu skrefi lengra en flestir þora.
Og mæli ég eindregið með þáttunum hans á www.stormsker.net ...

Svo hefur hann samið fjölmörg góð lög ... og ég er með eitt þeirra á heilanum núna ...
Lag sem hann og Bubbi Morthens sungu fyrir líklega einum 20 árum eða svo ...

Ó hve sár er dauði þinn,
þú varst eini vinur minn,
einn ég stari í sortann inn
með sorgardögg á kinn.

Ég verð loks að geta þess að vinur minn Arnar Freyr lauk frægilegri för frá London til Ulaanbaatar í Mongólíu núna í morgun.  Hann var eins og þjóðinni ætti að vera kunnugt meðal keppenda í Mongol Rally 2008, og lagði að baki um 15.000 km á 17 dögum.  Uppskeran varð þriðja sætið.  Vefsíða er hér.

Ég óska karlinum til hamingju með árangurinn!!!

Og nú held ég að sé tilefni til að birta góða mynd af mér og Arnari sem tekin var í Steinnesi sumarið 1985, þegar við skelltum andlitsfarða KISS framan í okkur, með hjálp hennar Jóku.
En þess má geta að Arnar er, eins og undirritaður, massífur KISS-aðdáandi ... sem er gott!!

Arnar og Bobbi by you.

Hér að neðan eru þrjár myndir af dótturinni fyrir alla þá sem hafa meira gaman af því að skoða myndir af henni heldur en að lesa pistla eftir mig ...

Já, einu gleymi ég ...
... í dag var stór dagur í lífi dótturinnar og móður hennar, því þær urðu í fyrsta skipti viðskila í næstum 4 klukkutíma!!  Ótrúlegt!!
Fjóla bauð Laugu og fleiri vinkonum í mat og spjall og því var röðin komin að mér að gæta dótturinnar lengur en í 30 mínútur.  Þetta krafðist undirbúnings af hálfu móðurinnar og fyllt var á pela, sem nota átti í neyðartilfelli.
Viti menn, klukkan um 19 brast á neyðartilfelli og fékk dóttirin því í fyrsta skipti í dag að drekka úr pela, heila 90 ml sem voru kláraðir á mettíma.  Dóttirin tók vel við pelanum og ekki að sjá að hér væru fyrstu kynni að eiga sér stað ...

Mynd var tekin þegar þessi mikli atburður átti sér stað ...

 IMG_7569 by you.

Samvera okkar feðginanna gekk með miklum ágætum ... en um hálftíuleytið kom móðirin másandi og blásandi heim ... ægilega spennt að vita hvernig hefði gengið ...
Svarið við þeirri spurningu var einfalt: "Bara eins og við mátti búast" ... jáaaaaaúúú ... maður kann nú lagið á afkomendum sínum.

Bæti tveimur við ...

 IMG_7566 by you.
Þessi er tekin í dag ...

... en þessi var tekin þann 19. júní sl. ...

IMG_6402 by you.

Svei mér ef dóttirin hefur ekki vaxað og þroskast ...

... satt að segja finnst mér hún vera orðin svo stór að ég verð alltaf jafnhissa þegar hún pissar í bleyjuna ... og ég er alltaf að segja henni að það séu bara smábörn sem pissi í bleyjur ...
... hún virðist ekki vera alveg að fatta það ...  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband