31. júlí

Þessi dagur hefur verið heldur tíðindalítilll, en ákaflega nytsamur þó ...

Eftir fremur rólegan morgun með dótturina í fanginu, stökk ég til og ákvað, þó með semingi þó, að greiða skólagjöldin fyrir þessa önn ... samtals $11.040, sem jafngilda meira en 800.000 ÍSK.  Þess má geta að þessi sömu gjöld voru um 550.000 í mars síðastliðnum ... þannig að maður fer nú ekki varhluta af efnahagsástandinu á Íslandi, þrátt fyrir að vera óralangt í burtu. 

Svo er endanlega búið að skera úr um það að ég má ekki sækja um svokallaðan EIPRS skólastyrk, sem er stærsti skólastyrkur sem háskólinn veitir.  Ástæða þessa er að ég sótti um í fyrra og fékk ekki.  Þess má líka að geta að umsóknarfresturinn rann út í dag.

Það sem er athyglisvert í því sambandi var að stuttu eftir að ég lagði inn umsókn mína með skólastyrkinn fyrir um ári, þá fékk ég að vita það að ég ætti engan möguleika á að hljóta þennan styrk.  Tvær bachelor-gráður, umtalsverð rannsóknarreynsla, ritstýring bókar í sálfræði, birting rannsóknarniðurstaðna á ráðstefnum bæði á Íslandi og erlendis, og gerð rannsóknarskýrslna, virtist eiga litla möguleika gegn gráðu sem flestir framhaldsnemar hafa hér í Ástralíu, en það er svokölluð Honours-gráða.  Honours-gráða er sjálfstætt rannsóknarverkefni sem tekur 2 annir.

Fyrir að hafa slíka gráðu fá nemendur allt að 60 stig, en þess má geta að til að hljóta EIPRS skólastyrkinn er gott að fá svona um 90 stig.  Aftur á móti fást 0 stig fyrir tvær bachelor-gráður.  Fyrir einnar annar BA-verkefni fást 0 stig.  Fyrir einnar annar BS-verkefni fást 0 stig, þrátt fyrir að saman séu þessi verkefni ígildi Honours-gráðu.

7 stig fást fyrir að hafa birt einn abstrakt í ráðstefnuriti, og 10 stig fyrir grein í ráðstefnuriti en þó aðeins ef abstraktinn eða greinin er yngri en 5 ára.  Rannsóknarniðurstöður eldri en 5 ára skipta sumsé engu máli.
10 stig fást fyrir að skrifa kafla í ritstýrðri bók.  0 stig fást fyrir að ritstýra bók.  Fyrir 3-5 ára rannsóknarreynslu fást 5 stig.  Meðmæli leiðbeinanda 0 stig, en þrátt fyrir það eru þau algjört skilyrði fyrir að umsóknin sé tekin til meðferðar og leiðbeinendur er beðnir um að meta umsækjanda í bak og fyrir.

Þessar viðmiðunartölur fékk ég að sjá síðasta haust þegar niðurstöður úthlutunarnefndar fyrir skólaárið 2008 voru tilkynntar.  Mér var tjáð þá að minn möguleiki til að hljóta styrkinn á næsta ári, væri að vinna vel, reyna að birta efni á ráðstefnum og sækja svo aftur um.

Þetta gerði ég.  Á síðastliðnu ári hafa þrír abstraktar verið samþykktir á þremur ráðstefnum og mér hefur verið boðið að vera með fyrirlestur á þeim öllum og þar að auki hef ég skrifað, ásamt Sigrúnu Helgadóttur kafla í ritstýrðri bók, sem verður gefin út í haustmánuðum.

Ég talaði fyrir um viku við yfirmann rannsókna í deildinni minni og hann tjáði mér að hann ætlaði að legga til að ég yrði settur í flokk yfir nemendur sem hefðu sýnt afurðaárangur á síðastliðnu ári, en slíkir nemendur fá yfir 60 stig hvort sem þeir eru með Honours-gráðu eða ekki.  Ég tel því að ég hefði átt nokkuð góða möguleika á að ná 90 stigum og tryggja mér vænan skólastyrk ... en ...

... þá var mér tjáð að ég mætti ekki sækja um styrkinn aftur ... af því að ég sótti um hann í fyrra.

Ég er enn að skilja hvernig maður kemst í flokkinn sem yfirmaður rannsókna nefndi, því:
Hvernig á maður að komast í flokk yfir þá sem hafa sýnt afburðaárangur í eitt ár, þegar maður er búinn að nota eina tækifæri sem maður fær til að sækja um styrkinn.  Ég hefði væntanlega verið betur settur ef ég hefði misst af tækifærinu í fyrra fyrir klaufaskap, unnið vinnuna mína vel og sótt um núna.

... þannig hefur vinna mín við að koma efni á ráðstefnurnar verið dulítið út í bláinn, þrátt fyrir að auðvitað sé alltaf gott að birta efni.  Hinsvegar hefur sú vinna tafið virkilega fyrir þeirri vinnu sem ég ætti að vera að vinna, sem er að doktorsverkefnið mitt ... 

Já, svona virkar nú regluverkið hér í Háskólanum í Sydney ... og ég þarf kannski ekki að nefna það að ég er búinn að koma á framfæri kvörtun yfir þessu, því mér finnst nauðsynlegt að undantekningartilfelli séu tekin til sérstakrar skoðunar eða settar séu skýrari reglur varðandi hver má sækja um, því til hvers að vera að sækja um ef möguleikarnir eru fyrirfram engir en gætu legið í því að doka við, vinna ákveðna vinnu og sækja svo um?

Af öðrum fréttum dagsins ... æi, þetta er orðið svo langt og þvælt blogg að það nennir örugglega enginn að lesa meira, ef fólk yfirleitt les þessa setningu ... ;)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband