Melbourne - Dagur 1

Ferðin til Melbourne síðustu helgi var góð. 

IMG_4794
Lauga í upphafi ferðarinnar

Eftir fremur svefnlausa ferð með næturlestinni frá Sydney til Melbourne, rann lestin í mark um kl. 7.30 að staðartíma.
Án frekari bollalegginga var hringt í móðursystur Crightons, sem ber hið góða nafn Beverly.  Hún sagðist vera reiðubúin að ná í okkur á lestarstöðina Mount Waverly, sem er í 40 mínútna fjarlægð frá miðbæ Melbourne.

Það voru ekki dónalegar móttökurnar sem við fengum hjá Bev, eins og hún er kölluð.  Uppábúin rúm og góður morgunverður, jógúrt, egg og brauð.
Eftir að hafa sporðrennt því öllu saman og spjallað við húsráðanda, heimtaði Lauga að fá að leggja sig í klukkutíma ... sem var náttúrulega auðsótt mál ... hvað annað??

Upp úr hádegi var haldið aftur af stað með lestinni niður í bæ.  Við hoppuðum út á Flinders- brautarstöðinni, fullkomlega tilbúin að takast á við verkefnið.
Við gengum svo í hægðum okkar niður að Yarra-ánni, sem rennur ljúflega um miðbæ Melbourne, og austur með árbakkanum.  Það má svo geta þess hér að Melbourne varð til á bökkum þessarar ár fyrir ekki svo mörgum árum.  Ekki svo að skilja að þar hafði verið mannlaust þegar bresku landnemarnir komu, því frumbyggjar höfðu búið við ána og í næsta nágrenni hennar í meira en 50.000 ár!!  


Frá bökkum Yarra-árinnar

En jæja, engir sáust nú frumbyggjarnir á þessu rölti okkar, enda löngu búið að flæma þá í burtu.  Það sem hinsvegar sást var nánast segilslétt á, töluvert af gróðri og háar byggingar til beggja handa.  Andrúmsloftið var fremur rólegt, og mjög ólíkt því sem gerist í Sydney, þar sem maður hefur einhvern veginn alltaf á tilfinningunni að rosalegir hlutir séu um það bil að fara að gerast.

Hitinn var vel þolanlegur, líklega um 30°C, og við ákváðum að fá okkur sæti og svolítið í gogginn.  Við völdum stað í skugga undir trjánum til að verjast sterkri sólinni.  Allt svo undurfriðsælt og notalegt.
Adam var þó ekki lengi í Paradís, því fljótlega flugu yfir tvær orustuflugvélar með slíkum ógnargný, að manni var varla vært.  Í töluverða stund sveimuðu þær yfir hausamótunum á okkur. 


Reynt að hafa það notalegt þrátt fyrir hávaðann

Og þegar þær höfðu lokið sér af, tók varla betra við.  Tímataka í Melbourne-kappakstrinum, hinni sívinsælu Formúlu 1.  Ég leit á kortið og sá að Albert Park, þar sem kappaksturinn fór fram, var í meira en 2 km beinni loftlínu frá viðkomustað okkar við Yarra-ána.  Hljóðin voru samt slík að maður hefði vel getað verið með eyrað upp við púströrið á einhverjum kappakstursbílnum.
Samt var eitthvað heillandi við þetta.  Mér fannst ég svo sannarlega vera staddur þar sem hlutirnir voru að gerast ... og allur heimurinn að horfa.

Við ákváðum því að setja stefnuna á Albert Park, en til þess að komast þangað þurftum við að þvera grasagarð Melbourne-borgar.  Það var gert í fljótheitum ... þessi grasagarður er mjög fínn ... en nóg um það.


Úr grasagarðinum

Við flýttum okkur sem mest við máttum ... eins og gefur að skilja var það kannski ekkert rosalega hratt, þar sem vanfærar konur verða að fara varlega ... og þó, það var nú bara góður gangur á þessu hjá okkur!! 
Hávaðinn glumdi og bergmálaði, þyrlur sveimuðu yfir, lögreglan stjórnaði umferð, sporvagnar gengu fram og aftur og leiðbeiningaskilti voru við hvert fótmál.  Augljóslega vorum við að nálgast Albert Park.

Og þarna var hann.  Háar girðingar umluktu keppnissvæðið og hindruðu útsýni.  Það gerði þetta allt saman bara meira spennandi.  En í sömu mund og við gengum yfir Albert Road þagnaði allt. 


Í þögninni við Albert Park

Þyrlurnar hurfu.  Fólk tók að tínast í burtu.  Ballið var klárlega búið.  Ohhh ... alveg ótrúlega týpískt!!

Við héldum niður Kerferd Road, sem er mjög skemmtileg gata.  Hún er mjög breið og lágreistar byggingar sitthvoru megin, en í miðju hennar er stórt og mikið grænt svæði með trjám, sem skilur að gagnstæðar akstursstefnur.  Brátt komum við að Port Phillip Bay.  Þar eru meðal annars sólarstrendur Melbirninga ... bara nokkuð huggulegt þar.

IMG_4824IMG_4844

Við áttum alveg ágæta stund á stöndinni, allt þar til tími var kominn að taka sporvagn niður í bæ, í þeim tilgangi að taka annan sporvagn til St. Kilda, en á Espy Hotel hafði aðdáendaklúbbur KISS í Ástralíu "KISS Army Australia" skipulagt KISS-partý, svona til að hita upp fyrir tónleikana daginn eftir.

Það var margt um manninn í KISS-partýinu ... þar sem leikin voru KISS-lög fram í rauðan dauðann, ýmist lifandi eða af geisladiskum.  Þetta var mjög skemmtilegt!!
Þarna mátti sjá að KISS-aðdáendur eru fjarri því að vera bara síðhærðir karlmenn á aldrinum 25-45 ára.  Konur voru jafnt sem karlar og aldursdreifingin meiri en ég átti von á.  Sú sem gjörsamlega átti kvöldið, var kona sem ... tja, segjum að hún hafi ekki verið á unglingsaldri.  Hún fílaði KISS það var nokkuð ljóst, þar sem hún dansaði og lét öllum illum látum.  Og til að toppa allt fór hún upp á svið og söng "Rock and roll all nite" af mikilli innlifun!!  Snilld!!


Kona kvöldsins á sviðinu í Espy Hotel

Við ákváðum að fara heim upp úr klukkan 23, enda afkomandinn orðinn snarruglaður, berjandi og sparkandi af miklum móð ... persónulega held ég að hann hafi einfaldlega viljað komast út.  Hvað er eiginlega gaman að vera á kafi í einhverjum vatnsbelg, allur samanvöðlaður á sama tíma og fjörið er sem mest???


Yfirlit yfir yfirferð á degi eitt í Melbourne
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það á aldeilis að taka heiminn í nefið. Þið eruð nú meiri ferðalangarnir. Ég sé að þú ert búinn að fara á Kiss. Það hlýtur að hafa slegið í gegn. Allavega flottar myndir. Gleðilega páska og hafið það gott.

Þóra (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 19:53

2 identicon

Ég hef nú fengið útskýringu á því hver hin yndislega Bev er ;) betra að lesa þetta í réttri tímaröð áður en maður kemur upp um sig...

Sigrún ligrún (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 09:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband