Margt í mörgu

Það hefur rignt alveg feiknin öll í Sydney í dag, Múrenan hefur ekki nákvæmar tölur á hreinu ... núna til dæmis er alveg hellirigning.

Sydney-búar kvarta í einu orðinu um að það hafi ekkert sumar komið þetta árið, en segjast svo eiginlega vera hálffegnir í hinu orðinu.  Af hverju?  Af því að eðlilegt sumar hér í Sydney er með afbrigðum sólríkt, heitt, rakt en samt þurrt(!?!).  En í sumar hefur þetta allt saman verið öfugsnúið, það hefur rignt mikið (sem er gott fyrir vatnsbúskapinn), það hefur ekki verið heitt (bara svona 25°C að meðaltali), alls ekkert rakt og sól hófleg.

Þar að auki komst Múrenan að því í dag, að fólk sem les yfir vísindagreinar er furðulegur þjóðflokkur. Fyrir nokkru sendi Múrenan inn grein, sem hún vonaði að hlyti náð fyrir augum ráðstefnuhaldara 39. ráðstefnu EDRA, sem halda á í Mexíkó í maí.  Svona til að gera langa sögu stutta, smaug greinin í gegnum nálaraugað og var samþykkt.  Hinsvegar fylgdu með samþykki ráðstefnuhaldara, þrjú bréf frá ónafngreindum yfirlesurum.  Einn þeirra réð sér varla fyrir kæti vegna greinarinnar, sagði hana hreina snilld.  Næsti sagði greinina í meðallagi en sá þriðji sá bara rautt, sagði greinina hörmulega!!

Múrenan myndi skilja ólík viðhorf yfirlesara ef um væri að ræða skáldsögu eða eitthvað því um líkt ... en hvernig í ósköpunum hægt er að vera svona hræðilega ósammála um vísindagrein, er Múrenunni illskiljanlegt.  Þessi grein var svokölluð "review"-grein, þar sem Múrenan reifaði hvað hefur verið gert fram til dagsins í dag innan þess fræðasviðs sem hún hefur áhuga á.  Þetta voru engar rannsóknarniðurstöður eða þess háttar ...
Í ljósi þessa má skilja það betur en fyrr af hverju stríð og óöld er í veröldinni. Úr því menn hafa svona ótrúlega ólíka sýn á einni, lítilli, sætri grein, sem gerir engum mein, hvernig er þá hægt að ætlast til þess að menn séu sammála um hver og hvernig eigi að stjórna í Kenýa eða Pakistan?
En jæja, ... greinin fór í gegn og það er það sem skiptir máli!!

Svo komst Múrenan að því einnig í dag að hún er fyrsti doktorsneminn innan arkitektardeildar Háskólans í Sydney frá upphafi, til að ljúka svokölluðu "research proposal" á fyrstu önn doktorsnáms.  En þess má geta að Múrenan náði þessum áfanga 7. desember síðastliðinn.
Þetta hlýtur því óhjákvæmilega að gefa til kynna að Múrenan er bara andskoti snjöll ... fyrsti neminn frá upphafi!!!  Ekki slæmt hlutskipti það!!  Það er nú ekki eins og deildin hafi verið stofnuð í gær!!

Að lokum ... Múrenan ætlar að "treina" það svolítið lengur að setja ferðasöguna inn á netið ... í alvöru talað, hún bara nennir því ekki núna enda klukkan orðin eitthvað yfir 11.  Múrenan býður því bara góða nótt ...

... ferðasagan (fyrsti kafli) kemur líklega á morgun!! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Glæsilegt! Eins og maður vissi er Múrenan snillingur og hamhleypa til verka. Ekki slæmt að vera sá fyrsti í deildinni til að klára þetta á fyrstu önninni.

Já, athugasemdir frá ritrýnum geta verið skrautlegar. Um daginn fékk einn gamall og góður sem kenndi okkur í HÍ greinina sína til baka. Hún var samþykkt nánast án athugasemda....og henni var hafnað! Þá tekur oft við mikil vinna við að rökstyðja hvert einasta atriði sem sett var út á en ritstjórinn hefur sem betur fer úrslitavaldið. Þetta getur verið flóknara en að stjórna Kenýa eða Pakistan

Halldór (IP-tala skráð) 1.3.2008 kl. 02:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband