Hann Manúel

Þetta er alveg ótrúlegt með hann Manúel!! 

Þetta hlýtur að vera alveg hrikalega pirrandi!!

Til að útskýra málið ... Manúel er leigusali Múrenunnar, lágvaxinn Spánverji um sextugt, með yfirvararskegg og hjarta úr gulli ... það hefur hann margsýnt bæði Múrenunni og spúsunni.  Lífshlaupið hefur einkennst af mikilli vinnu allt frá því hann kom til Ástralíu fyrir meira en 40 árum.  Þrjár vinnur og lítill svefn var hans hversdagsleiki í mörg ár ... en hann hefur líka uppskorið samkvæmt því ... til dæmis hann á tvö hús í Sydney á besta stað í bænum og búgarð í sveitinni, þar sem hann dvelur lungann úr árinum.  En þrátt fyrir miklar eignir og sand af seðlum, hagar hann sér afskaplega skynsamlega í peningamálum, því hann er bæði sparsamur, hagsýnn og afskaplega nýtinn ... og fyrir vikið á hann fullan bílskúr af alls kyns dóti og drasli, sem hann hefur sankað að sér í gegnum tíðina ...  sem er eitthvað sem Múrenan og spúsan hafa notið góðs af ...

"Í guðanna bænum talið þið við mig áður en þið kaupið eitthvað til að hafa hér innanstokks", hefur hann sagt svo oft að Múrenan hefur ekki tölu yfir það lengur, "ég er með fullan bílskúr af öllu mögulegu, sem ég get látið ykkur hafa ef vantar ... bara að nefna það!!"  Svo koma yfirleitt langar upptalningar á öllum mögulegum hlutum sem finna má í bílskúrnum.  Sem dæmi, spurði Múrenan Manúel hvort hann ætti nokkuð viftu til að lána sér, til að kæla aðeins í íbúðinni ... "Hvort viltu litla, miðlungs eða stóra, á fæti eða ekki?" var svarið.  "Ég á fullt af viftum og ég skal bara koma með nokkrar og svo getið þið bara valið!" 
Fyrir utan þetta er líka hægt að óska eftir að fá að skoða dótið í bílskúrnum og velja það sem maður vill ...

Fyrir utan þessi miklu liðlegheit, þá segist hann líka vera alveg hættur að nenna að græða á leigjendum sínum.  "Við höfum þetta bara ódýrt, bara nóg til að standa undir kostnaði og einni máltíð á veitingastað", segir Manúel og klappar Múrenunni á bakið.  Og hann stendur líka alveg við orð sín ... leigan sem Múrenan og spúsan borga er hlægileg ...
"Svo þegar þið farið til Íslands, þá bara lækkum við leiguna, af því að þið notið þá náttúrulega ekki gasið, rafmagnið og vatnið ... eruð þið ánægð með 40% lækkun á leigunni eða viljið þið meiri lækkun?"  Múrenan og spúsan hafa ekki alveg vitað hvernig á að svara þessu ... auðvitað vilja þau meiri lækkun en ... þetta er dálítið óvenjuleg staða ...

Og til að undirstrika enn frekar hvaða mann Manúel hefur að geyma, þá má nefna það að hann keyrði í 5 klukkustundir, frá búgarðinum sínum til Sydney, bara til að hjálpa einum leigjandanum sínum að flytja út úr íbúðinni!!  Já, hann kom gagngert til Sydney, svona til að aðstoða svolítið, því hann vissi að leigjandi var í vandræðum ... 

En þrátt fyrir hjartagæsku sína og ótrúleg liðlegheit, virðist Manúel ekki hljóta náð fyrir augum veðurguðanna, því í hvert einasta skipti sem maðurinn nálgast austurströnd Ástralíu, fer að rigna yfir hausamótunum á honum og öðrum sem eru nærri honum ...

Já, það rignir eldi og brennisteini í Sydney í hvert skipti sem Manúel er í bænum ... undantekningalaust ...

Sjálfur segist hann ekkert skilja í þessu ...

Og þetta gildir ekki bara fyrir Sydney ... því um daginn skrapp Manúel í vikufrí til Brisbane, ásamt konu sinni Fötmu, bara svona til að teygja aðeins úr sér eftir mikla vinnutörn á búgarðinum, sóla sig og sprikla á ströndinni ... og nota bene, Brisbane er þekkt fyrir góðar sólarstrendur, hita og frábært veður ...

En annað kom á daginn því þessa vikuna rigndi andskotann ráðalausan alla dagana og sundskýlan hans fór aldrei uppúr ferðatöskunni.  "Við sátum bara inni á herbergi allan tímann, fyrir utan þegar við skruppum á veitingahús á kvöldin ... það var ekkert hægt að vera á ströndinni", sagði Manúel við spúsuna mæðulega og nuddaði á sér ennið.

Og núna í vikunni, eftir alveg fantablíðu í marga daga, gerði allt í einu þrumuveður á miðvikudagskvöldið ... og viti menn ... á fimmtudagsmorguninn bankaði Manúel á dyrnar hjá Múrenunni og spúsunni.  "Já, ég kom í bæinn í gær!" 

Skýringin á þrumuveðrinu var því augljós ... !!!

Það er því ekkert skrýtið að í hvert skipti sem dropi dettur úr lofti að Múrenan og spúsan leiði hugann að því hvort "Manúel sé í bænum"!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aumingja Manúel. Ja ef hann heldur áfram að trúa því að þetta sé af hans völdum þá heldur bara áfram að rigna. Hann verður að secreta góða veðrið til sín ha ha ha.

Þóra (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 09:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband