Barseta Múrenunnar ...

Nú er 3ja daga helgi að baki hjá Múrenunni og næsta vika blasir við björt og frískandi ...

Þessi helgi hefur við töluvert merkileg fyrir margra hluta sakir og hefur sumt af því verið rakið nú þegar hér á síðunni.  Það sem hins vegar hefur ekki verið minnst á, er óvenju óvenjulegur laugardagur í lífi Múrenunnar, sem átti sér stað í gær.

Í fyrsta skipti á ævinni, eyddi Múrenan bróðurpartinum af deginum á bar ... já, frá klukkan 12 á hádegi til klukkan 19.30 hékk hún eins og hver annar róni á hverjum barnum á fætur öðrum. 

Allt byrjaði þetta þó að því að Múrenan fór að mótmæla APEC ásamt spúsunni ... eða mótmæla APEC(?!?)  Það var nú kannski ekki alveg málið ... Múrenan hafði ekkert á móti APEC í raun, en jú, hún er á móti Íraksstríðinu og aðild Íslands að því, og finnst líka að Ástralir, Bandaríkjamenn og Kínverjar geti vel reynt að komast niður á einhverja niðurstöðu varðandi "global warming" ... Þess vegna fór Múrenan að mótmæla því ... svo var hún nú náttúrulega í hlutverki fréttaritara FMS (Fréttastofu Múrenunnar í Sydney).  Jæja, en nóg um það ... þessi pistill átti að fjalla um hangs Múrenunnar á börum í Sydney!! 

Fyrsti barinn sem var heimsóttur var, bar fyrir samkynhneigða á Oxford Street.  Vart hafði Múrenan fengið sér sæti þegar "skemmtikraftur" sem líklega hafði vakað samfleytt í um 68 klukkutíma og drukkið nokkrum bjórum meira en hann hefði átt að gera, birtist eins og þruma úr heiðskíru lofti.  Hann vildi óður og uppvægur bjóða upp á skemmtiatriði.  Hann rétti fram þrjá af fimm fingrum hægri handar og óskaði eftir því að togað yrði í einn þeirra.  Spúsan brást vel við beiðninni og togaði og um leið og það hafði verið gert, hóf skemmtikrafturinn upp rausn sína.  Hann taldi sig sum sé vera í hlutverki nokkurs konar "glymskratta". 

Langatöngin bauð til dæmis upp á "Wonderworld", sem Oasis gerðu frægt hér einu sinni.  Flutningur lagsins átti þó fátt skylt við flutning Oasis því söngurinn var vægast sagt hræðilegur og fór illa í hið viðkvæma og músikalska eyra Múrenunnar.  Henni létti því verulega þegar skemmtikrafturinn var dreginn í burtu.  Já, afskaplega "huggleg" vinkona, sem sjálfsagt var búin að vaka jafnlengi og drekka jafnmikið og skemmtikrafturinn, dró hann "af sviðinu" algjörlega óumbeðin, þrátt fyrir hávær mótmæli og kraftmikla andspyrnu af hálfu skemmtikraftsins.

Fyrir þetta afrek ákvað Múrenan að skrá þessa konu sem vinkonu sína í Facebook og skrifaði á "vegginn" hjá henni smá þakklætisvott fyrir það eitt að fjarlægja þetta "mikla talent"(?!)

Jæja, eftir þetta, kláraði Múrenan Spite-ið og hélt af stað á næsta bar ... einhvern bar á Crown Street.  Þar var boðið upp á beina útsendingu frá áströlskum fótbolta.  Múrenan og spúsan, sem nota bene var með í för, eins og áður hefur verið greint frá, ákváðu að fá sér góða samloku og greiddu fyrir það slétta 30 ástralska dollara.  Múrenunni fannst samlokan bara fjári góð og á meðan flutningur hennar af disknum ofan í maga Múrenunnar fór fram, fræddi samferðamaður og leiðsögumaður dagsins Crighton nokkur Nichols, Múrenuna um töfra og leyndardóma fótboltans, þess ástralska það er að segja ...

Múrenunni dettur þó ekki í hug að fara neitt að úttala sig um reglurnar hér á þessari vefsíðu, og enn síður ætlar hún að fara ofan í saumana á leikreglum krikketsins, sem hún á fremur bágt með að skilja þrátt fyrir að hafa á síðustu tveimur vikum fengið útskýringar beint í æð tvisvar sinnum, frá þaulvönum krikketspilurum og krikketáhugamönnum.  Það eitt að vita að einn bévítans krikketleikur getur tekið um 5 daga og að krikketspilarar fara í morgunmat, hádegismat, kaffi og hætta svo snemma til að ná kvöldmat, er nóg til þess að Múrenan fyrirlítur þessa íþrótt!!!  Fara í kaffi í miðjum leik!!!  Það hljómar náttúrulega fáránlega ... en hvað eiga leikmenn svo sem að gera þegar einn leikur stendur yfir í hérumbil viku!! 

En eftir útskýringar á áströlskum fótbolta og krikket, var haldið áfram á næsta stað ... já, það var að vísu ekki bar í eiginlegum skilningi ... því það var heimili Crightons, sem er við Crown Street.  Svona til að upplýsa lesendur, þá er umræddur Crighton, bekkjarbróðir Múrenunnar í háskólanum og þrátt fyrir stutt kynni hefur tekist með þeim ágætis vinskapur og Múrenan telur Crighton vera prýðisnáunga!!

Crighton bauð upp á rauðvín, sem Múrenan þáði ekki, enda stakur bindindismaður þar á ferð, en aðrir samferðamenn þáðu ... bíðum nú við ... aðrir samferðamenn voru Matthew, Chris, Peter, kona Matthews og margnefnd spúsa.  Allir þessir aðilar vættu kverkarnar með rauðu víni meðan Múrenan teygði Coke Zero, í fyrsta skipti á ævinni ...

Svo var haldið niður á bar á horni Bourke Street og Cleveland Street ... og þar var setið lengi ... flestir voru þá komnir í bjórstuð og runnu ófáir bjórarnir niður í ófáa belgina það sem eftir lifði dags.  Múrenan hefur oft velt fyrir sér hvers vegna í ósköpunum, fólk drekkur alltaf svona rosalega mikið af bjór þegar það fer á bar.  Á 4 klukkutímum drakk Múrenan 2 vatnsglös og spúsan eitt en sessunautar þeirra drukku að minnsta kosti 10 bjóra hver, auk annarra veiga. 

Þetta er nú meiri þorstinn!!!  Ef hver bjór er um hálfur lítri þá er verið að drekka 5 lítra af bjór á 4 klukkutímum eða um 1,25 lítra/klukkutíma ... sem væri kannski skiljanlegt ef menn skryppu alltaf út og hlypu 10 km eftir að hafa hvolft ofan í sig 1,25 lítra og væru orðnir frávita af þorsta þegar þeir kæmu aftur.  En nei, nei ... menn sitja bara á görninni, segja brandara og verða fyrir vikið alveg afskaplega þyrstir ... þetta er eitthvað sem Múrenan finnur ekki fyrir ... hún getur reytt af sér brandara í marga klukkutíma og þarf bara að væta varirnar rétt öðru hverju!!!

Fleira fólk bættist í hópinn ... Brendan nokkur mætti, ásamt pólskum læknanema og nokkru síðar birtist hinn svissneski Sebastian.  Múrenan getur ekki frætt lesendur nokkurn skapaðan hlut um þetta fólk nema það að kona Brendans, les stundum fréttirnar á Channel Nine ...  Fjóla og Neil létu svo sjá sig upp úr klukkan 18.30. 

Þetta var stórfínn félagsskapur ... reyndar var hann orðinn fullyfirspenntur í lokin vegna ölvunar nokkurra aðila, aðeins of mikið af aðeins of lélegum bröndurum og faðmlögum ... aðrir voru hófstilltari ...

Eins og sagt var í upphafi, þetta var fyrsti dagurinn í ævi Múrenunnar sem fer í að sitja á bar ... fram að þessu hefur Múrenan frekar farið á bari að kvöldi til, og setið þar fram á nótt.  En eins og kannski margir vita sem þekkja Múrenuna, þá er barseta ekki meðal þess sem er, öllu jafna, efst á verkefnalistanum hjá Múrenunni ... þannig að framganga gærdagsins var bara töluvert afrek og alveg þessarar bloggfærslu virði!!

Svo mörg voru nú þau orð!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

wonderwall.......

frex (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 10:15

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Úpppssss ... hér með upplýsist það að Múrenan var og er enginn sérlegur aðdáandi Oasis ... fer rangt með nafn eins vinsælasta lags sveitarinnar. Fullkomin falleinkunn ...

Múrenan biðst afsökunar!!

Páll Jakob Líndal, 10.9.2007 kl. 21:51

3 identicon

Sértakur endir á sérstakri helgi! Lifandi glymskratti, útlistun á reglum í krikket og maraþon barseta. Það verður nú að segjast að 5 lítrar af bjór á 4 klst er frekar mikið en samkvæmt minni reynslu ná engin þorstalögmál yfir bjórdrykkju. Hann rennur á ógnarhraða í gegnum kerfið....og maður verður alltaf skemmtilegri og skemmtilegri 

Halldór (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 02:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband