Gosbrunnurinn á fimmtu hæðinni ...

Múrenan gerði það gott um daginn ... ójá!!! Og nú skal sögð sagan af því ... !!

Þannig vildi til fyrir löngu, löngu áður en Múrenan var samþykkt inn í námið í arkitektadeildinni við Sydney-háskólann, að tveir menn skruppu út í búð ... svona sérstaka gosbrunnabúð.  Já, í Sydney, þykir ekki galinn "business" að stofna og reka slíka búð, sem er uppfull af alls kyns "sprautufírverki" stóru sem smáu, mjóu og breiðu, lögulegu eða ólögulegu í öllum regnboganslitum.  

Jæja, en þessir tveir menn, sum sé fóru í búðina, og fjárfestu í einni lítilli sætri vatnsdælu, einu löngu svörtu röri og einhvers konar "millistykki".  Tilgangurinn með þessum peningaútlátum, var höfðinglegur ... og markaðist af því að búa til mannvænna samfélag úti á svölunum á fimmtu hæð Wilkinson byggingarinnar, en einmitt þar er áðurgreind arkitektadeild til húsa.

Á svölunum á fimmtu hæðinni var fyrir nokkrum árum útbúinn vísir að þakgarði, plöntum af ýmsum toga og trjám var komið þar fyrir, reistir voru veglegir staurar og hálfgegnsætt segl strengt á milli þeirra, í því augnamiði að verja fólk fyrir sterkum sólargeislum ... og ekki er vanþörf á, eftir því sem Múrenan kemst næst.  Út á svalirnar voru líka bornir stólar og borð, að ógleymdum bekkjum ... með öðrum orðum, sköpuð var ljómandi fín aðstaða.  Það getur Múrenan skrifað upp á hiklaust ...

Jæja, en aftur að dælunni, rörinu og millistykkinu.  Eftir innkaupaferðina var dælunni, einhverra hluta vegna komið fyrir inn í skjalaskáp (?!?) og mátti hún dúsa þar mánuðum saman eða allt þar til nýverið, þegar annar mannanna tók á sig rögg og bað Múrenuna, sem þá hafði hafið nám við skólann, um aðstoð.  "Við að gera hvað??" spurði Múrenan í sakleysi sínu.  "Nú að tengja dæluna og koma gosbrunninum af stað!", var svarið.  "Jú, jú", svaraði Múrenan.

Úti á svölunum blasti við risastór leirkrukka, ættuð af markaði einhverjum, sem Múrenan kann engin deili á ...  Hún var í nokkrum brúnum litum, dökkum og ljósum, bara helvíti falleg, að mati Múrenunnar ...

Og svo tók vinnan við ... að tengja dæluna.  Og það var höfuðverkur í meira lagi ... Múrenan tók stjórnina ... "já, við tengjum þetta bara svona og svona og svo gerum við þetta og réttu mér svo þetta stykki og það kemur hér!!  Náðu svo í skiptilykil og spýtubúta niður á verkstæði og gleymdu ekki að biðja um járnsög til að saga handfangið hérna af!!"  Múrenan var komin í ham ... og allt leit þeitta vel út ... nema hvað fjögur óskilgreind plaststykki gengu af ... þrjár framlengingar einhverjar og einn vinkill ...

En þegar líða tók á vinnuna fór dálítill vafi að gera vart við sig innra með Múrenunni ... Hún reyndi að tengja dæluna, svarta rörið og millistykkið, en viti menn, það var ekki hægt.  Ef róin á millistykkinu átti að vera á sínum stað, var alveg vonlaust að skrúfa dæluna á millistykkið ... Múrenan ákvað að sleppa þá bara rónni ...
Úpsss!!!  Það mátti greinilega ekki!!!  Múrenan horfði á leirkrúsina, dæluna, rörið, millistykkið, róna og allt draslið.  Greinilega þurfti lengra millistykki ... Annar mannanna stakk upp á að aftur yrði farið í búðina ... Það var gert. 
Og gosbrunnakaupmaðurinn hló.  "Nei, nei, nei, nei, þið eigið að setja slöngubút á millistykkið og tengja hann svo við dæluna ... Guð minn almáttugur ... þið hefðuð geta rústað dæluna!! Hahahahaha!!"

Allt í einu skildi Múrenan hvert gosbrunnakaupmaðurinn var að fara ... hún þaut út úr búðinni og út í bíl ... kom við í verkfæravöruverslun á leiðinni upp í skóla, festi kaup á slöngubút.  Þegar upp á svalirnar á fimmtu hæðinni var komið, tengdi hún dæluna, slöngubútinn og millistykkið eins og ekkert væri, skrúfaði svarta rörið á millistykkið, fyllti leirkrúsina af vatni og ...

Afraksturinn má sjá á myndinni hér að neðan ...

En þá má spyrja, af hverju fylgdi ekki bévítans slöngubúturinn með, þegar dælan var keypt?!?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband