Föstudagur 22. júní 2012 - Midsommarafton

Í dag er Midsommarafton sem er hátíðardagur hér í Svíþjóð ... allt er lokað og fólk í sólskinsskapi, geri ég ráð fyrir.

Hátíðarhöld eru hingað og þangað ... en við Lauga tókum smá "tvist" á 'etta og vörðum stórum hluta dagsins í að flytja draslið okkar á milli íbúða. Já, nú fer að nálgast sú stund að við yfirgefum núverandi íbúð og flytjum okkur um set. 

Af þeim sökum ákváðum við að leigja okkur bíl og hefur hann verið nýttur í dag til flutninga. Við erum alveg hjartanlega sammála um það að það er afar þægilegt að hafa bíl ;) .

Hluti dagsins fór líka í annað ... t.d. að heimsækja Sverri, Jónda og Dönu tvisvar í dag. Í fyrra skiptið ákváðum við að skreppa til þeirra með afmælisgjöf handa Jónda sem einmitt á afmæli í dag. Í þeirri heimsókn duttum við í rúgbrauð og síld, sem einmitt er það sem Svíar eta á þessum mikla degi. Skömmu fyrir brottför okkar var okkur svo boðið í kvöldmat, sem við að sjálfsögðu þáðum með þökkum. Mættum "rúmlega" kl. 19, gæddum okkur á himnesku bolognese-i, fengum afmælistertur og loks var boðið upp á leik Grikklands og Þýskalands á EM. Góður pakki þetta!

Eitt er klárt eftir þennan dag ... nafna mínum finnst ekki gaman í bíl!
Það mátti vart milli sjá hvor okkar var pirraðri í bílferðinni, hann yfir því að vera ólaður niður í barnastól eða ég yfir því að hafa orgin í eyrunum á mér allan tímann sem drengurinn sat í stólnum. Hér er því komið mjög verðugt verkefni fyrir mig ... sem er að halda sönsum meðan sonur minn gólar í bílstól. 

--- 

Guddan hefur átt marga góða spretti síðustu daga. Því miður gleymir maður þeim alltof auðveldlega en hér eru tvö "móment".

"Nei mamma, sjáðu bílinn!!" sagði hún í versluninni Biltema og benti á garðsláttuvél en í Biltema má finna allt frá naglaklippum yfir í hestakerrur.

Dana: "Sjáðu Guðrún, þetta er sprauta eins læknirinn er með!" 
GHPL: "Má ég sjá?" Sprautan skoðuð.
Dana: "Hefur þú verið sprautuð?"
GHPL: "Já"
Dana: "Ég var einu sinni sprautuð hérna." Bendir á öxlina á sér. "Viltu sjá?"
GHPL: "Ég er ekki læknir!!" Labbar í burtu.

Svo eru hér tvær samræður sem oft eiga sér stað og eru einhvern veginn með þessum hætti.  

Snemma morguns á virkum degi. PJPL og GHPL eru nývöknuð.
PJPL: "Mamma."
GHPL: "Nei, litli bróðir, mamma er að vinna."
PJPL: "Mamma." 
GHPL: "Nei, litli bróðir, þú mátt ekki segja mamma, mamma ekki heima, mamma er að vinna!"
PJPL: "Mamma."
GHPL (lítur á mig): "Litli bróðir skilur ekkert. Ég segja honum mamma er að vinna!"
PJPL: "Mamma."
GHPL: "Ooooohhhh litli bróðir. Ég er búin að segja að mamma er að vinna!!!"

Við kvöldmatarborðið.
GHPL: "Nú moste ég aðeins að fara og horfa á sjónvarpið. Svo kem ég aftur og svo fer ég aftur að horfa á sjónvarpið ... ókei?" Býr sig undir að víkja frá borðinu.
Ég: "Hvað segirðu?"
GHPL: "Ég moste fara nu og horfa á sjónvarpið, svo kem ég aftur?"
Ég: "Viltu ekki bara borða núna og horfa svo á sjónvarpið á eftir?"
GHPL: "Nei, nei, ég moste fara nu, svo kommer jag að borða meira ... ókei?" 
Ég: "Nei, nei, nú borðar þú bara."
GHPL: "Nei, pabbi ... ég moste fara nu ... snella pabbi snella ..."
Ég: "Jæja ... ok, en bara smástund og svo verðurðu að koma aftur og klára matinn:"
GHPL: "Ok!!" Hleypur inn í stofu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband