Mánudagur 21. maí 2012 - Danssýningin

Það er nú bara búið að vera í mörg horn að líta síðustu daga.

Á laugardagsmorguninn síðasta steig heimasætan, í annað skiptið á ævinni, á stokk í "Uppsala Konsert & Kongress"-húsinu og dansaði á stóra sviðinu þar. Tilefnið var sýningardagur dansskólans sem hún hefur sótt í allan vetur.


Beðið eftir að danssýningin hefjist (óhætt að segja að ekki megi slaka neitt á í líkamsræktinni - undirhakan helst til mikil ...)

Hérna má sjá dansinn sem var hreint út sagt stórkostlegur. Þetta var Pocahondas-dans, sem var svona indjánadans. Allir voru í indjánabúningum nema GHPL sem var meira í búning sem líktist kúrekabúning ... eða "spari-indjána-búningi" ... ;) . Gæðin á myndbandinu er því miður mjög lítil en síðar verður ráðin bót á því. 

 


Dansarinn að sýningu lokinni ... 


Beðið eftir að dansarinn láti sjá sig ... að sýningu lokinni ... 

Eftir sýninguna var haldið upp á áfangann með því að bjóða upp á ís og fleira, við góðar undirtektir dansarans. Af því tilefni var haldið á Café Katalin sem er við lestarstöðina hér í bæ.


Mikið fjör eftir danssýninguna ... GHPL fékkst ekki til að stoppa fyrir myndatöku ... 

Góð samvera í klukkutíma þar inni ... svo var haldið áleiðis heim á leið. Á heimleiðinni áttu sér stað tvö smávægileg óhöpp. Annars vegar stjakaði dansarinn heldur hraustlega við bróðurnum, þannig að hann datt á fjórar fætur, og í framhaldinu fór hægri hlið andlitsins í götuna. Tilheyrandi gól, blóð og svekkelsi hjá honum. Stuttu síðar, var dansarinn að sýna listir sínar og skrikaði fótur. Svo mikið að það kom einn rauður punktur, á stærð við títuprjónshaus, í lófann. Allt ætlaði um koll að keyra og í djúpu dramakasti voru bróðurnum, sem þá var sjálfur allur blár og marinn í andlitinu, sérstaklega sýnd meiðslin.
Af þessu að dæma er ljóst að dansarinn hefur ekki enn öðlast þann þroska að setja sig í spor annarra.

Þegar heim var komið tók dansarinn hitasótt mikla ... svo mikla að nú tveimur dögum síðar er hitinn enn að slá yfir 40°C. Það er ekki laust við að maður þakki fyrir hina hitastillandi stíla sem hægt er að kaupa í öllum betri apótekum hins vestræna heims. 

Stubbur er hinsvegar afar hress, þrátt fyrir að vera svolítið gulur og blár í andlitinu. Hann nýtur sín langbest þegar hvorki systir hans né móðir eru nálægar. Það er hreint alveg merkilegt hvað hann er sem tveir menn eftir því hvort móðirin er í sigtinu eða ekki. Sé hún í sigtinu grenjar karlpútan nánast stanslaust en sé hún víðs fjarri, þá leikur hann við hvurn sinn fingur. Og þá sérstaklega ef GHPL er einnig hvergi nærri. 
Það verður að segjast alveg eins og er að þó Guddan sé nú góð við bróður sinn, þá stríðir hún honum alveg svakalega. Eitt aðalfjörið er að setja á hann derhúfu og keyra hana niður fyrir augun. Þá bregst karl illa við. 

Læt þetta nú duga í bili ... klukkan er orðin alltof margt ...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband