Þriðjudagur 14. febrúar 2012 - Að fara öfugu megin framúr

Dagurinn byrjaði nú ekki gæfulega ... því ég fór þráðbeint öfugur fram úr rúminu. Það er orðið svo langt síðan það gerðist síðast að ég vissi varla hvernig ég átti að haga mér. 

Og það fóru fleiri öfugt framúr í morgun ... minn ástkæri sonur var hreint ekki með á nótunum því eftir að hafa fengið gómsætan hafragraut í skál, tók hann ekki í mál að sporðrenna nema einni skeið.

GHPL sem hafði farið kórrétt fram úr át hinsvegar sinn graut með góðri list ...

Eftir nokkra geðillsku af minni hálfu og margar talningar upp á 10, tókst að koma dótturinni og syninum í strætóinn upp úr kl. 8.30.
Í strætónum skánaði stemmningin nokkuð ... þar sem við ræddum um liti á húsum og fötum, sungum og gerðum nokkra "fagur fiskur í sjó". Aðalfjörið í litaumræðunni er þegar ég spyr GHPL hvaða litur sé á tilteknum hlut og á spurningin, skv. fyrirmælum GHPL, að vera leiðandi þannig að ég spyr t.d. "er gallinn þinn grænn?" og liturinn sem ég spyr um á alltaf að annar en hann er í raun og veru. Með þessu móti fær Guddan tækifæri til að leiðrétta föður sinn aftur og aftur.

Greinilegt er að dótturinni líkar þetta allt saman því þegar mamma hennar náði í hana í dag sagði hún: "Það er gaman að vera í strætó með pabba ... já, og það er líka gaman að vera í strætó með mömmu." 

En ... Guddan skilaði sér á leikskólann upp úr kl. 9.30 og þá var svona mesti hrollurinn úr mér en stubbi var ekki búinn að segja sitt síðasta orð.

Á leiðinni heim vaknaði hann í strætónum ... eitthvað sem ekki hefur gerst áður ... og þegar við komum heim, kærði hann sig ekki um neinn mat.

Svo allt í einu eftir svona hálftíma, þá fann hann það út að vilja borða. Bara lítið samt, og samfara átinu nuddaði hann ákaft á sér augun. Sem er oftast nær mjög augljóst þreytumerki.

Ruglið náði svo hámarki þegar ég ákvað að leggja hann kl. 11.30 og við steinsofnuðum báðir í einn og hálfan klukkutíma.

Það er sem ég segi ... vitleysan var ekki öll eins þennan morguninn.

Í kjölfarið var unnið sleitulaust til kl. 21.30 í kvöld, þá var farið út að hlaupa í 45 mín og í kjölfarið nánast beint farið í að gera raddæfingar ... því söngnámið heldur áfram, þó daglegar æfingar fari oftast nær fram upp úr kl. 22.30 eða síðar. "Það verður að vera agi í hernum", sagði Svjek og ef maður ætlar að syngja á La Scala einhvern tímann þá er nú víst betra að æfa sig svolítið ;) .
Sem betur fer eru þetta ekki æfingar sem þarfnast þess að maður blási allt út ... þetta er laufléttar og skemmtilegar tækniæfingar.  

---

Í fyrradag hringdi Sverri vinur minn í mig ... "það er bara komið vor!" sagði hann glaður í bragði enda full ástæða til því veðrið var virkilega fínt.
"Já, er það ekki bara?" svaraði ég eins og fífl, enda búinn að steingleyma því að 8. febrúar í fyrra, sagði Sverrir nákvæmlega þessa sömu setningu og þá svaraði ég henni með nákvæmlega sama hætti. Enda full ástæða til, því þá var veðrið virkilega fínt.

Í fyrra fylgdi þessari "vorspá" svo hroðalegur kuldi að það verður lengi í minnum haft. Mínus 20 til 30 stiga gaddur í nokkrar vikur.
Í kjölfar þess skipaði ég Sverri að láta af öllum frekari spádómum um að vorið væri á næsta leyti.

Í fyrradag gleymdi ég mér svo. Og hvað? Snjónum kyngir niður í þessum skrifuðum orðum!

Sverrir!! Nú hættir þú þessari veðurspámennsku!! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband