Laugardagur 4. febrúar 2012 - Frost og beiðnir

Já ... núna er veturinn kominn hér í Uppsala ... 

Liggur í mínus 17°C núna ... stefnir í 25°C í nótt ... samt eru það nú bara hlýindi miðað við hitastigið í norðurhluta landsins. Þar er kuldinn að rúlla niður fyrir 40°C.  Fínt að vera ekki þar.

 

Skruppum í göngutúr í dag ... vorum í svona 1,5 klukkutíma og hitastigið það lækkaði um tæpar 8°C rétt meðan við vorum úti. Guddan, þrátt fyrir að vera vel búin, fraus næstum inn að beini þar sem hún sat á snjóþotunni.

Það var því ekki annað í stöðunni en að fara í "ljónaleik" og láta hana bara hlaupa heim, sem hún gerði ... rúmir 600 metrar, mér fannst það bara ágætlega af sér vikið í snjógalla og bomsum.

 

Ég hef verið mjög hugsi í dag yfir viðtalinu sem tekið var við skipbrotsmanninn sem var bjargað var í um daginn þegar Hallgrímur fórst, en ég hlustaði á viðtalið í gærkvöldi.

Þetta er ótrúlega áhrifarík saga sem hann hafði að segja ... og ómögulegt að gera sér í hugarlund þá þrekraun sem maðurinn gekk í gegn um.

Ég hjó sérstaklega eftir einu atriði í frásögninni og það var þegar hann sagðist trúa því að hugar manna gætu tengst. Þar sem hann veltist einn um úti á rúmsjó í kolvitlausu veðri, ákvað hann að tala og hugsa til vinar síns og tala við samferðamenn sína á skipinu sem þá þeim tímapunkti voru hvergi sjáanlegir. Hann bað um hjálp ...

Það rifjaðist upp fyrir mér samtal sem ég átti við mann á Akureyri fyrir um 15 árum, samtal sem ég raunar hugsa oft um, en sá maður sagði við mig að ef mig vantaði hjálp, þá ætti ég að tala við fólk, þó það væri víðsfjarri. 
Ennfremur sagði hann við mig: "Hefurðu einhvern tímann setið alveg grafkyrr og allt í einu fundið eins og hreyfingu á loftinu í kringum þig, ofurlítill kaldur gustur, svona eins og einhver hafi gengið framhjá þér?"
Ég vissi ekki alveg hverju ég átti að svara ...
"Athugaðu þetta ... prófaðu að sitja grafkyrr og athugaðu hvort þú finnur þetta. Þetta er nefnilega fólkið þitt sem er að ganga í kringum þig ... pabbi þinn, ömmur þínar og afar ... og fleira fólk. Og allir vilja þeir þér vel. Talaðu við fólkið og sjáðu hvað gerist ... óskaðu eftir leiðsögn eða aðstoð ef þú þarft á að halda."

Þó ég sé ekki alveg viss hvað ég á að halda um þessa hluti, þá hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að best sé að útiloka ekkert í þessum efnum. Gefa hlutunum tækifæri. Þó ekki hafi verið sýnt fram á tilvist þessa með vísindalegum hætti finnst mér það alls ekki útiloka tilvist þess. Mér finnst það svolítið eins og að útiloka að vitiborið líf á öðrum hnöttum af því það hefur aldrei verið sýnt frá á það vísindalega.

Þess vegna hef ég prófað að tala við mitt fólk og satt best að segja, þá finnst mér það bara virka ... þ.e. þegar maður biður einlæglega og af einhverju viti ... um eitthvað sem skiptir raunverulega máli.  Kannski er það bara hugarburður og ef maður tæki saman og skráði nákvæmlega árangurinn er ekki víst að neitt vitrænt kæmi út.  

Mér fannst bara eitthvað svo magnað að heyra þessa aðferð notaða í því samhengi sem skipbrotsmaðurinn var í ... og það leit út eins og hún hefði hjálpað. Ég ætla að frekar trúa því en ekki. Jafnvel þótt einhver reynslubolti hafi sagt að líkurnar á að finna mann í svona aðstæðum séu nokkuð miklar ... það leit nú ekki beinlínis út þannig af frásögn Eiríks, já loksins man ég nafn skipbrotsmannsins ... já af frásögn Eiríks að dæma ...

Nóg í bili ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband