Annar í jólum - 26. desember 2011 - Lesið rangt í aðstæður?

Hjá okkur hafa jólin verið alveg ljómandi góð. Töluvert annasöm þó ... alltént í samanburði við fyrri jól.

Mikill spenningur var hér á aðfangadag þar sem GHPL mátti bíða og bíða og bíða eftir því að komast í pakkana. Mikið suð og dálítið "attitjúd" í gangi. Að lokum var gefið leyfi á að horfa á Mikka mús og þá lagaðist allt. 

En svo nálguðust jólin óðfluga og dóttirin vinsamlegast beðin um að fara úr náttkjólnum og í almennilegan jólakjól. Þá byrjaði darraðardans mikill, þar sem kjóllinn var í sífellu tekinn og honum hent í gólfið undir því yfirskyni að allt væri þetta bara "rugl". 
Loks tókst að koma henni í kjólinn og þegar verknaðurinn var yfirstaðinn, sat Guddan eftir í hjónarúminu, allsúr og tautaði: "Týpískt, týpískt.

 

Eftir að hafa tekið syrpu við kvöldmatarborðið, þar sem m.a. Guddan hellti appelsínusafa þráðbeint ofan í hálsmálið hjá sér, sem leiddi til að skipta varð um dress, var tekið hressilega til hendinni við pakka-upptökuna. Þar tók GHPL upp pakkana fyrir sjálfa sig og bróður sinn, en sá var með hugann við allt annað en pakka allt kvöldið. Þess í stað veltist hann um ýmist á gólfinu eða í sófanum. 
GHPL var svo sofnuð svona tveimur mínútum eftir að síðasti pakkinn hafði verið tekinn upp.

 

 

Þá gafst okkur Laugu smá tími til að ræða málin og fá okkur svolítið góðgæti, áður en farið var að sofa. 

Á jóladeginum vaknaði PJPL með 39°C hita, foreldrum sínum til mikillar gleði ... eða þannig. Og þannig rúllaði hann fram og aftur úr 38°C - 39,5°C í takti við virkni hitalækkandi lyfja sem honum voru gefin. Fjörugur fyrsti jóladagurinn hjá honum ... já eða þannig.

En systirin hans tók af honum ómakið, því hún sýndi gjörsamlega fráleita hegðun strax eftir að hafa risið upp af koddanum. Hegðun sem aldrei hefur hreinlega sést áður hjá þessu stelpuskotti. Tvisvar þurfti að grípa heldur hressilega inn í ... sem er ömurlega leiðinlegt.
Rétt eftir hádegið fór hún svo bara að leggja sig ... sennilega er hlaupabóla, jólapakkar, sælgæti, skógjafir, spenna og of mikil athygli móður á litla bróður slæmur hegðunarkokteill.

 

Reyndar verð ég að viðurkenna að sennilega hefur maður gjörsamlega vanmetið spennuna hjá Guddunni fyrir pökkunum og jólunum. Þetta er fyrstu jólin þar sem hún er að meðtaka pakkana og það að "fá í skóinn" ... og bara ekkert ráðið við þetta og við foreldrarnir alls ekki verið með á nótunum.
Þannig að það verður bara að skrifa þessa bombu á okkur.

Bróðirin hélt bara áfram að láta sér vera heitt síðdegis og Guddan var ögn rólegri eftir að hún vaknaði. Þá byrjaði bara suð um Mikka mús ...

 

 

Kaffi og spjall, já og púsluspil var það sem gekk á allt til kl. 18, þegar opnað var fyrir sjónvarpsdagskrána hjá GHPL. Eftir það var allt í himnalagi.  Þetta er alveg ótrúlegt dálæti sem þetta sjónvarp hefur. 

Kvöldið leið svo við púsluspil og sjónvarpsgláp, þar sem við horfðum á Liar, liar með Jim Carrey á Stöð 3.

 

Svo hélt púslið áfram hjá mér ... fram eftir nóttu.

Í morgun var svo stemmningin heldur tekin að róast. GHPL tók smá syrpu og ég smá syrpu og eftir það vorum við bara fín bæði tvö. Stubbur hélt áfram veru sinni í innbyggða kyndiklefanum.

Ég og Guddan fórum svo í jólaboð til Sverris, Jónda og Dönu eftir hádegið. Síðdegis bauð Sverrir svo upp á ferð á körfuboltaleik en ég hef ekki farið á slíkt síðan í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar. Það var ágætis skemmtun.

Aftur var farið í boðið og voru þar fjörugar umræður um klám, feminisma og fleira. Sitt sýndist hverjum í þeim efnum.

Nenni ekki að skrifa meira núna ... en ég ítreka að jólin voru góð hjá okkur. Það kann að vera að ég dragi upp nokkuð dökka mynd af ástandinu hér en það er kannski meira fyrir sjálfan mig til að muna hvernig hlutirnir æxluðust og hvernig má læra af þeim. 

En hér er jólaveðrið í Uppsala 2011 ... það er um 30°C munur í hitastigi frá því í fyrra ... hvorki meira né minna ...

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband