Laugardagur 19. nóvember 2011 - Bullið á landsfundi

Ég slysaðist inn á útsendingu frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins þegar ég var að kíkja á fréttirnar á mbl.is síðdegis í dag
Af einhverri óskiljanlegri ástæðu lagði ég við hlustir í smástund. Meðal efnis voru einhverjar mínúturæður frá landsfundarfulltrúum þegar þeir sögðu skoðun sína á því hvort ætti að senda einhverja tillögu frá framtíðarnefnd flokksins í frekari vinnslu eða greiða um hana atkvæði á fundinum. Þar töluðu menn hver um annan þveran.

Jæja, svo þegar þessum "umræðum" lauk, gekk í púltið Hanna nokkur Birna Kristjánsdóttir frambjóðandi í formannssæti. Hún talaði í dágóða stund og ég hlustaði.

Ég veit eiginlega ekki hvað á að segja um þessa ræðu hennar. Það er bara eins og Hanna Birna, já og aðrir sjálfstæðismenn séu bara alveg búnir að gleyma því hverjir stjórnuðu landinu á árunum 1991 - 2008. 
Hún talaði eins og öll þjóðin stæði alveg á öndinni yfir því að fá Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda. Fólk gæti bara varla beðið. Hún nefndi einnig að margir segðu að flokkurinn væri í sókn en sjálf sæi hún það ekki því allar skoðanakannanir síðastliðna 15 mánuði sýndu 36% fylgi. Því miður láðist henni alveg að nefna hvert svarhlutfallið var í þessum könnunum. Var það 50%, 60% eða 70%? Það hlýtur að skipta höfuðmáli þegar rætt er um þessi 36%.
Svo ræddi hún um að hvað ríkisstjórnin væri ömurleg og aðeins 14% þjóðarinnar treystu henni til góðra verka. Það verður þó að segja Hönnu Birnu til hróss að hún tók það fram að traustið til stjórnarandstöðunnar væri nú svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir. Eða 13%.

Mér er það hulin ráðgáta hvernig Hanna Birna fær það reikningsdæmi til að ganga upp að þjóðin sé að bíða eftir að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda en aðeins 13% treysti honum þó til þess (já og gleymum því ekki að Framsóknarflokkurinn og Hreyfingin eiga sjálfsagt nokkrar kommur í þessum 13%).

Eftir þessa þversagnarkenndu ræðu Hönnu Birnu steig formaðurinn í ræðustól. Hann var ekki búinn að tala lengi þegar reiknikúnstirnar byrjuðu.
Árið 2003 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 33% á landsvísu og árið 2007 fékk hann 36% á landsvísu. Stórglæsilegt? Já vissulega. Svo bætti formaðurinn við að hann hefði haft það á stefnuskrá sinni sem formaður að endurreisa fylgi flokksins eftir háðuglega útreið árið 2009. Og já, þá kom rúsínan í pylsuendanum ... hann sagði að nú þegar væri því takmarki náð?!?

Það var á þessum tímapunkti í ræðu formannsins sem ég slökkti. Ég gat ekki hlustað á meira rugl. 

Hvernig hann fær það út að búið sé að ná takmarkinu á nýjan leik? Hefur verið kosið aftur til alþingis á Íslandi síðan 2009? Svarið við því er nei.
Hvernig getur hann þá sagt að búið sé að ná aftur sama kjörfylgi og árið 2007? Sennilega með því að líta til sömu skoðanakannana og Hanna Birna vísaði til. Þessara sem segja Sjálfstæðisflokkinn með 36% fylgi. 

Í gamni kíkti ég á Þjóðarpúls Gallup frá 8. nóvember sl. Viti menn, Sjálfstæðisflokkurinn er með 36% en þó aðeins meðal þeirra sem tóku afstöðu sem voru 61,5%. Það er eitthvað um 25% kjörfylgi sem er litlu betra en niðurstöður kosninga 2009 sýndu. Það er nú öll sóknin og allur árangurinn.

Svo ákvað ég að hlusta aðeins á ræðu Davíðs Oddssonar. Mér, eins og mörgum öðrum, finnst Davíð Oddsson dálítið skemmtilegur. Á því var engin breyting í dag, ólíkt hrútleiðinlegum ræðum þeirra sem standa í formannsslagnum.
Á máli Davíðs mátti skilja það að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekkert haft með hrunið að gera og björgun Íslands frá því að fara ekki lóðrétt til helvítis hefði fyrst og fremst verið vegna fumlausra vinnubragða og skynsamlegra ákvarðana Sjálfstæðisflokksins. Frá því að sú neyðarbjörgun, sem heppnaðist fullkomlega að mati DO, fór fram, hefði ekkert verið gert af viti af hálfu ríkisstjórnarinnar og mikilvæg tækifæri farið í súginn. 

Þessi stjórnmálaflokkar eru eins og trúarhópar. Þarna í Laugardalshöll sitja 1000 manns eða fleiri og það virðist bara vera hægt að segja blákalt hvaða bull sem er. Höfuðið er á kafi ofan í sandinum og veruleikinn skrumskældur. Öllu þessu lýkur svo með dúndrandi lófataki og fólk klappar á bak og óskar hvort öðru til hamingju með að hvað allir á samkundunni og flokknum séu frábærir og hvað það sé nú frábært að vera hluti af þessari æðislegu fjölskyldu ... og blabla ...

... og Sjálfstæðisflokkurinn er lagt frá því eini flokkurinn sem svona er komið fyrir ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nákvæmlega!!

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 20.11.2011 kl. 15:38

2 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

- much ado about nothing :))

Vilborg Eggertsdóttir, 20.11.2011 kl. 23:32

3 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Ættli það sé eitthvað pláss í sandinum?Er ekki Ríkisstjórnin búinn að leggja allarsand bleiður undir sína hausa?

Eyjólfur G Svavarsson, 21.11.2011 kl. 01:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband