Miðvikudagur 26. október 2011 - Gamanmál og PJPL

Jæja ... eftir að hafa komið nokkuð óskaddaður úr fótbolta í kvöld þá fékk ég þá afar slæmu hugmynd að kíkja á "gamanþáttinn" Kexvexsmiðjuna sem RÚV sýnir á laugardagskvöldum. Nánar tiltekið horfði ég á þáttinn sem sýndur var síðasta laugardagskvöld.

Ég held að ég hafi bara töluverðan "tolerans" fyrir gamanefni, og þá sérstaklega íslensku gamanefni ... get hlegið vel og lengi að kúka- og pissubröndurum en líka af gamanmálum í þroskaðri kantinum ... já og svo auðvitað öllu þar á milli.

En um þennan þátt þarf ekki að fjölyrða ... þetta sé algjörlega ömurlegasti gamanþáttur sem ég hef nokkurn tíma séð ... þetta er í raun alveg pínlega ófyndið. Mögulega gæti verið hægt að brosa örlítið út í annað af nokkrum "sketsum" ef þeir væru svona 95% styttri.

Verstir voru rannsóknarlögreglumennirnir tveir ... sá skets var alveg átakanlega gjörsneyddur öllu því sem fyndið getur talist.

Jæja ... ekki orð um þetta meir ... enda sjálfsagt allir hættir að nenna að horfa á þessi ósköp ...

---

PJPL er orðinn alveg ægilega sperrtur og leikur við hvurn sinn fingur þessa dagana. Brosir hringinn í hvert skipti sem hann er ávarpaður. Í morgun vaknaði hann árla og hóf þá að berja rúmdýnuna af miklum móð auk þess að hjala öll lifandis ósköp. Var svo hinn hressasti þegar hann var búinn að vekja alla.

Pilturinn raðar svoleiðis í sig veitingunum að annað eins hefur ekki sést á þessu heimili. Spænir í sig hafragraut og hálfa peru í morgunmat, tekur svo millimál og annan vænan skammt í hádeginu, svo millimál, gúffar vel í sig í kaffinu og aftur í kvöldmatnum. Klárlega borðar hann svona á við 3 eða 4 Guddur, þegar hún var á sama aldri. 

Mér sýnist að hann verði ekki lengi að éta upp sparnaðinn sem hlóðst upp vegna mjög svo hóflegrar matarinntöku dótturinnar á sínum tíma. Ekki það að hún sé eins og einhver ryksuga núna.
Já ... það er svo sannarlega öldin önnur nú ...

Handæðið er líka að tikka hressilega inn núna ... það má ekkert vera innan við metra frá honum öðruvísi en það lendi ... tja ... einhvers staðar ... 

Hér er maður dagsins ...

Hér er svo systirin í kaffitímanum í dag ... kókómalt og "smörgoss" ...

... og aftur herrann ... að fikta í tölvu systur sinna. Gott að nýta tækifærið þegar hún er ekki heima.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband