Fimmtudagur 25. ágúst 2011 - Tíska, Jimi og ungir Íslendingar sem ná árangri

Mér er sagt að það hafi verið magnað í morgun kl. 6 þegar Guddan reisti sig upp í rúminu sínu og sagði glaðlega: "Hæ mamma, ég er vöknuð!!"

En svo lagði hún sig bara aftur og svaf í 2,5 tíma í viðbót.

---

Það er búið að græja dansskóna ... og Guddan hefur ekki fengist til að fara úr þeim síðan ... gengur um íbúðina í kjól, með hálsmen og armbönd, já og í dansskónum ...

Ég segi það aftur ... ég skil ekki hvernig þriggja ára gamall barn getur haft svona mikinn áhuga á þessu ... það er allavegana ljóst að ég ber ekki ábyrgð á þessu verandi 99% í gallabuxum, T-bol og rauðri flíspeysu, sem allir eru að fá ógeð af nema ég sjálfur ... 

Svo byrjaði blessað barnið á þessu í dag ... sjá myndband ...

---

Nafni hefur verið á ferð og flugi með móður sinni í allan dag ... mér skilst hann hafi verið dálítið vælinn, jafnvel gæti hann verið að taka tennur ... það er þó ekki vitað ...

---

Svo allt í einu í kvöld bar leit mín að hljómsveit árangur ... þrjú tilboð bárust á klukkutíma ...

Niðurstaðan er allavegana sú að ég er búinn að boða mig á hljómsveitaræfingu á sunnudaginn næsta.  Það er bara meiningin að byrja létt eða þannig ... planið er að vera með Jimi Hendrix prógramm á Menningarnótt 2011 hér í Uppsala þann 10. september nk.

Málið er að ég hef aldrei sungið Jimi Hendrix ... mér hefur bara aldrei dottið í hug að syngja Jimi Hendrix og þessi lög sem þessir gaurar eru með í huga ... ég hef aldrei einu sinni heyrt þau ...

... en ég ætla að sjá hvað ég get gert í málinu ... smá "challenge" ... ég er alveg kominn í þörf fyrir slíkt. 

---

Svo sá ég afar hallærislega frétt á DV.is í dag sem fjallaði um að Kastljósstýran fyrrverandi, Ragnhildur Steinunn væri að gera heimildarmyndir um unga Íslendinga sem hefðu náð árangri.

Að sjálfsögðu var tíndur til tónlistarmaður, fatahönnuður og íþróttamaður, auk tveggja leikara.

Auðvitað ætla ég ekki að gera lítið úr árangri þessa fólks, hann er allrar athygli verður og sjálfsagt hafa þessir aðilar þurft að hafa verulega fyrir hlutunum.  Það hallærislega í þessu er að það er alltaf eins og enginn geti náð árangri í neinu nema vera listamaður, hönnuður eða íþróttamaður.

Það er fullt af fólki t.d. á sviði raun- og félagsvísinda sem er að gera frábæra hluti og hefur náð árangri sem er alveg á pari við það hönnuðina, lista- og íþróttafólkið. 
Það er fólk í heilbrigðisgeiranum sem er að gera mjög merkilega hluti.  Hvað með iðnmenntað fólk? Fólk sem starfar innan landbúnaðargeirans eða á sviði ferðamála?

Manni finnst stundum að það megi alveg líta aðeins upp og í kringum sig ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snillingur þessi krakki :)

Þóra (IP-tala skráð) 4.9.2011 kl. 22:43

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

:)

Páll Jakob Líndal, 6.9.2011 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband