Sunnudagur 19. desember 2010 - Að trúa á guð

Í gær var haldin í hér Uppsala jólahelgistund og jólaball í Turnabergskyrkan.

Undirritaður söng þar og var söngprógrammið í föstum skorðum ... Bjart er fyrir Betlehem, Nóttin var sú ágæt ein, Heims um ból og eitthvað eitt annað sem ég man ekki hvað var.

Svo flutti presturinn örstutta hugvekju ... hugvekju sem eiginlega hefði varla getað verið styttri.

En það sem hann sagði fjallaði á sjálfsögðu um kærleikann ... ágætt inntak það út af fyrir sig.

Það sem mér hinsvegar leiðist alveg hroðalega er þegar fólk er að gera mér upp skoðanir ... og mér finnst prestar oft mjög gjarnir á það svona almennt séð.  Í gær fullyrti t.d. presturinn alveg blákalt að allir viðstaddir elskuðu Jesú ...

... í alvöru talað ... ég hef aldrei pælt í því hvort ég elski Jesú ...

Ég lít einhvern veginn ekki þeim augum á málið.  Mér finnst margt af því sem Biblían segir að Jesú hafi sagt og gert vera hrein snilld.  Mér finnst t.d. dæmisagan þar sem hann segir að sá sem syndlaus sé, skuli kasta fyrsta steininum vera einhver mesta speki sem til er ... hún segir svo hrikalega margt og það væri svo margt öðruvísi ef allir færu eftir þessu. 

Annars finnst mér betra að setja saman-sem-merki milli guðs og Jesús og hins góða í heiminum frekar en að líta á þessa tvo "aðila" sem "menn".  Þeir eru bara afl í mínum huga.

Og þrátt fyrir að margir kjósi að líta svo á að tilvist guðs og Jesús sé bara blekking og rugl hef ég kosið að vera þeim aðilum ósammála.

Ég vil að það sé til guð og Jesú og ég vil að það sé líf eftir dauðann (ég hef aldrei skilið af hverju það er svona mörgum metnaðarmál að halda því fram að dauðinn sé endastöð ... mér finnst það alltaf vera hundfúlt "gáfumanna"-sjónarmið ;) ).
Ég vil signa Gudduna og Laugu á hverju kvöld til að vernda þær.
Ég vil að það sé til fólk sem fær skilaboð að handan og segi mér þau þó ekkert vit sé í þeim.
Ég vil að það sé einhver dulúð í heiminum, eitthvað sem maðurinn mun aldrei geta skilið, sama hvað hann reynir. 
Ég vil að geta talað við afa, ömmu og pabba og raunar geri ég það ansi oft ... sérstaklega þegar ég þarf á einhverri aðstoð að halda ... og mér finnst þær samræður bera ansi oft árangur. 

 

En allavegana ... ég vil því bara hafa mína trú og hafa þann háttinn á sem ég helst kýs ... þess vegna loka ég eyrunum þegar einhverjir trúboðar (s.s. prestar) ryðjast fram á sviðið og segja manni hvernig hlutirnir eru ... án þess að hafa neina hugmynd um það. 

Það væri nær að þeir leggju fyrir mann áleitnar spurningar um lífið og tilveruna ... útveguðu eitthvert andlegt fóður til að pæla í ...  

---

Annars allt í góðu ... allir við hestaheilsu ... búinn að vera mikill vinnudagur í dag hjá báðum foreldrum Guddunnar.

Guddan heldur samt sínu striki, rífur kjaft og er hress.

Hún hefur síðastliðna daga síendurtekið boðskap sem mér finnst mun merkilegri en sá sem ég heyrði í gær.  Það veit enginn hvar blessað barnið lærði þennan frasa en hann hljómar svona:

"Allir eiga það besta skilið!"  

 
Spekingur dagsins borðar peru


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband