Mánudagur 16. ágúst 2010 - Dela fylgir eftir draumum sínum

Í dag fékk ég skemmtilegt email frá fyrrum lærisveini mínum í Ástralíu, Dela Hoyde.  Strákur sem ég þjálfaði í fótbolta í nokkra mánuði árið 2008 ... áður en ég var rekinn.  Brottvikning mín frá Gladesville Ryde Magic er saga sem sennilega flestir lesendur Múrenunnar þekkja.

Í tölvupóstinum var Dela, sem nú er 16 ára gamall, að segja mér að hann væri kominn til Spánar. 

Já, takk ... þessi gutti, sem ég var að díla við fyrir 2 árum, ætlar að leggja allt í sölurnar á næstu árum til að landa atvinnumannasamning í fótbolta og það í einu helsta vígi fótboltans ... ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.

Þegar ég var rekinn frá GRM, sendi Dela og margir fleiri mér póst og sögðust harma brotthvarf mitt. 

Ég man ennþá þegar ég settist niður á laugardegi um miðjan júlí árið 2008 og skrifaði Dela tveggja blaðsíðna email, þar sem ég fór í gegnum styrkleika hans og veikleika og hvað hann gæti gert til að ná þeim árangri sem hann dreymdi um.  Ég hvatti hann til dáða og sagði honum að gefa drauma sína aldrei upp á bátinn, heldur fylgja hjartanum alla leið.

Drengurinn tók mig á orðinu ... hann lagði allt undir.  Hann sendi mér reglulega upplýsingar um hvernig hlutir þróuðust hjá sér og ég sendi honum á móti nokkur "tips" til að pæla í.

Fyrir nokkrum vikum þegar ljóst var að hann væri á leiðinni til Spánar sendi hann mér þessar línur: " ... the very first email that you sent me really gave me that bit more self belief in myself that I did not have.  I still carry that email, it meant a lot to me.  You always manage to say the right things that inspire me to do better and to achieve more than I would have hoped ... "

Og þetta smýgur alveg inn að hjartarótum ...

---

Dela er búinn að sýna og sanna úr hverju hann er gerður.  Drengurinn, sem aðalþjálfari og yfirstjórn klúbbsins var búinn að dæma úr leik vegna þess að hann væri "einfættur, eigingjarn og skapstyggur" ... hann er mættur til Spánar.

Samskipti mín við Dela hafa sýnt mér hvað hvatning skiptir miklu máli.  Þau hafa líka sýnt mér hvað uppbyggileg gagnrýni, sem ég vil frekar kalla ábendingar, getur gert.  Og þau hafa sýnt mér að það þarf oft ekki að gera mikið til að hafa mikil áhrif.

Auk þessa er árangur Dela er mér mikil hvatning.  Hann er til marks um hverju er hægt að áorka ef vilji og dugnaður er fyrir hendi.  Dela er orðinn að fyrirmynd minni og ég er sannfærður um að "einfætti, eigingjarni og skapstyggi" guttinn með stóru draumana, mun einn daginn spila meðal þeirra bestu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband