Þriðjudagur 27. apríl 2010 - Shock me

Vorið er komið hér í Uppsala ... algjör rjómablíða, hitinn fór hæst í 17°C en var að meðaltali 12°C.  Hljómar eins og góður dagur á Íslandi en fremur kaldur dagur í Sydney.

---

Ég er ennþá hugsi yfir því hvort forsetinn hafi gert rétt með því að vara við Kötlugosi ... það er kannski allir hættir að spá í það ....

... en allavegana ... þá er það niðurstaða mín að hann hafi gert rétt.  Mér finnst það alveg ótrúlegt hvað þetta mikilvæga kerfi, sem flugsamgöngur eru, er fullkomlega berskjaldað gagnvart svona sjálfsögðum hlutum og eldgos eru í raun og veru. 

---

Annars heyrði ég í Chumporn vini mínum í dag.  Chumporn er frá Thailandi, en þessa dagana ríkir óöld í höfuðborginni Bangkok.  Hann sagði ástandið grafalvarlegt og afskaplega flókið. 

Ferðamenn hafa verið varaðir við að fara til Bangkok, en þess má geta að borgin og landið í heild sinni, er einn helsti áningarstaður Asíu og Thailendingar eiga gríðarlega mikið undir ferðamönnum. 

Þeir eru svo sannarlega í slæmum málum þessa dagana ... 

---

Í Uppsala ríkir friður.  Eins og stundum áður, hefur Guddan verið heldur öfugsnúin í dag ... og má faðirinn helst ekki ávarpa hana nema fá handapat og reiðilegt "mmmmmmmm ... " í andlitið.

Það má nú alveg brosa af því ... það er í raun alveg stórfyndið ...

Mér tekst þó af og til að komast aðeins nær henni ... t.d. þegar ég býð henni "að fljúga".  Þá kemur hæverkst en ánægjulegt "mmm hmmmm ... " frá henni.
Svo stillum við okkur upp í öðrum enda gangsins og þotan tekst á loft með tilheyrandi gný.

---

Eins og kom fram á blogginu fyrir nokkrum dögum, keyptum við nokkrar bækur handa dótturinni.  Ástæðan var sú að hún er komin með leið á meira og minna öllum bókunum sem til eru á heimilinu.  Enda er hún alltaf lesandi.  Sannkallaður bókaormur.
Meira að segja Doddabókin sem búið er að lesa á hverju kvöldi síðan í júlí í fyrra er komin út af sakramentinu ... skrýtið?!?

Ekki voru bókarkaupin til fjár.  Guddan hefur bókstaflega engan áhuga á bókunum og ætlum við að skila tveimur þeirra og gá hvort ekki er hægt að finna eitthvað betra. Og það verður áskorun ...

En það vinsælasta í augnablikinu er þetta hér ...

Þetta er dýrakort sem við keyptum í Dalarna um daginn.  Syd er búin að læra hvað flestöll dýrin heita.  Á það reyndar til að rugla saman refnum og úlfinum, og benda á moldvörpuna þegar maður spyr um hreindýrin ...

Otur, hreysiköttur, bjór, mörður, elgur, greifingi, broddgöltur, gaupa, héri o.s.frv. ... allt í vasanum.  Músin er í sérstöku uppáhaldi.

Öll þessi dýr segja "mmmmmmm ... ", alveg eins og kötturinn, hesturinn, kýrin og kindin. 

***********************
Líkamsræktarátakið 2010 (3. tilraun) er fullum gangi.

Í dag var gengið í klukkutíma í morgun og hlaupið í 30 mín í kvöld.  Þetta er sum sé allt á blússandi siglingu þó ég hafi verið spar á að nefna það á þessum vettvangi.  Þarf að bæta úr því ...
**********************

Ace Frehley, fyrrum gítarleikari KISS, 59 ára í dag ... mesta "gítarlegend" í heimi ...

Jón Þór vinur minn sendi mér meira að segja kveðju af þessu tilefni ... geri aðrir betur!!

Hér fyrir neðan, er linkur á lagið "Shock me" af plötunni tónleikaplötunni Alive II sem kom út haustið 1977.  Upprunalega var lagið þó hluti af plötunni Love gun sem hafði þá verið gefin út nokkrum mánuðum áður.

Shock me er fyrsta lagið sem Ace Frehley söng með KISS og segir sagan að við upptökur á laginu hafi hann kosið að liggja á gólfinu meðan hann söng það, sökum þess hversu últra stressaður hann var.
Ace fékk hugmyndina að laginu eftir sögulega tónleika KISS í Lakeland í Florida í desember 1976.  Á tónleikunum fékk manngreyið nefnilega í gegnum sig 220 volta rafstuð eftir að hafa rekið hendina í handrið sem var hluti af geysilega viðamikilli sviðsmynd hljómsveitarinnar. 

Sjálfur segir hann að undir eðlilegum kringumstæðum hefði hann átt að drepast.  En hann gerði það ekki, en þess í stað stóð hann upp 10 mínútum síðar, fór aftur á sviðið og tónleikarnir héldu áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Meira síðar um Ace Frehley ... ;)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband