Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Þriðjudagur 5. júní 2012 - Íbúð landað

Það tókst loks að landa íbúð í dag. Hlaut að koma að því.

En það var ekki áreynslulaust.

Lauga fór eftir vinnu í gær og náði í GHPL á leikskólann. Hélt svo áfram sem leið lá til þeirrar ágætu konu sem á þeim tíma var hugsanlegur leigusali.

Raunar hafði allt ballið byrjað á laugardagskvöldið kl. 22.45 þegar Lauga hringdi í konuna til að tilkynna áhuga sinn. Að hringja kl. 22.45  í Svíþjóð jafngildir örugglega því hringja í einhvern kl. 00.45 á Íslandi. Ekki beint viðeigandi ... en þar sem hart er bitist  um hverja íbúð sem býðst hér í Uppsala er betra að vera ekki að láta slík formsatriði vefjast fyrir sér.

Konan tók erindinu fremur fálega í fyrstu en Lauga náði henni á flug og loks var ástandið orðið þannig að það var nánast ómögulegt að losna við hana úr símanum. Þegar það loks tókst, leið ekki á löngu þar til okkur barst tölvupóstur og í honum var að finna um það bil 20 atriði sem við yrðum að fallast á ef við ætluðum að láta okkur svo mikið sem dreyma um að landa þessari íbúð.

En jæja ... í gær var sumsé fundur með konunni. "Ætli maður verði ekki svona tíu mínútur korter, eitthvað svoleiðis" sagði Lauga þegar við ræddum um fundinn fyrirfram.
Kl. 1500 mætti Lauga og til að gera langa sögu stutta, þá slapp hún út aftur kl. rétt fyrir kl. 18. Þá voru bæði börnin búin að taka sér góðan blund. Óhætt er að segja að málin hafi verið rædd út í hörgul.

Niðurstaðan var sú að íbúðin væri okkar, ef við vildum og ef við gætum uppfyllt þær kröfur sem settar voru upp. Ef allt gengi upp, fyrirskipaði konan að þær Lauga myndu hittast kl. 13 í dag og ganga frá málunum. Skipti þar engu um hvort sá tími hentaði Laugu eða ekki. 

Þegar 100 manns eru búin að lýsa yfir áhuga á að fá íbúð og maður er sá sem er að landa henni, getur sennilega lítið rifið kjaft þannig að ...

Eftir að hafa hringt í að ég held, alla meðmælendur sem við gáfum upp sem voru örugglega ekki færri en 10, hringt í bankann, flett upp launagreiðslum Laugu síðustu 12 mánuðina, hringt í sálfræðideild Uppsala háskóla til að fá það staðfest að ég væri á skráð þar og væri með sænska kennitölu, ásamt ganga úr skugga um nokkur atriði í viðbót, gat konan sannfærst um að við værum fólk sem óhætt væri að leiga út íbúð.

Hún hitti Laugu kl. 13 og þá tók við tveggja klukkutíma samningsgerð, þar sem öll "helstu" atriði voru vandlega skráð s.s. númer á húslyklum, moppa sem við megum nota til hreingerningastarfa og fata, en allir þessir hlutir ásamt fleirum eru hluti af "dílnum".

Svo var komið að því að afhenta lykla en það varð að gerast alveg með sérstökum hætti. Hún vildi fara með Laugu í bankann til að fá útprent af stöðunni á reikningnum hennar til að sjá hvort hún ætti fyrir tveggja mánaða leigu og tryggingu. Þegar hér var komið sögu var hinsvegar búið að loka bönkunum en þessi ágæta kona vildi engu að síður rölta á milli sem flestra útibúa til að fullvissa sig um að þau væru öll lokuð.  Það var einmitt á því rölti sem ég varð beinn þátttakandi í þessari atburðarrás en ég sat í 7-unni á leiðinni heim þegar ég rak augun í þær. Ég og afkomendurnir stukkum út úr vagninum og hlupum þær uppi.

Þá var mér tilkynnt að þær væru á leiðinni á bókasafnið til að komast í tölvu svo Lauga gæti millifært. Þangað var farið og þá þurfti að hanga þar í hálftíma, þrjú kortér meðan sú atburðarrás átti sér stað. Lauga lýsti því fyrir mér hvernig konan hefði andað ofan í hálsmálið á sér meðan hún var í internet-bankanum. Peningurinn rann á milli reikninga og þá sagðist konan myndi vilja fara heim og tékka hvort peningarnir væru ekki örugglega komnir áður en hún léti okkur fá lyklana ... og það jafnvel þó hún hefði í höndunum útprentun af millifærslunni þar sem reikningsnúmer komu fram. Þá sagði fröken Sigurlaug stopp og fékk lyklana.

Loks þegar þetta var frágengið, bað blessuð konan um að fá að taka mynd af okkur. Sagðist vilja fá mynd til að sýna fjölskyldunni. Meðan myndin var tekin, hugsuðum við Lauga það nákvæmlega sama: "Þá er hún komin með mynd af okkur sem send verður lögreglunni umsvifalaust ef eitthvað kemur upp á".

Þessu umstangi öllu lauk upp úr klukkan 16.30 og var þá búið að taka samanlagt hátt í heilan vinnudag hjá Laugu og mér varð mjög lítið úr verki í dag, því ekki var hægt að láta blessuð börnin ganga sjálfala.

Og kvaddi hún okkur svo með þeim orðum að ef við myndum einu sinni klikka á því að borga á tilsettum tíma þá væri þetta búið ... 

Svona er nú hægt að gera einfalda hluti flókna ...

... eftir að við komum heim þurfti Lauga að leggja sig ... "orkusuga, þessi manneskja! Sennilega nákvæmasta manneskjan í heiminum! Ég er með dúndrandi hausverk!


Laugardagur 2. júní 2012 - PJPL í aðalhlutverki

Sonurinn hefur verið að gera ágæta hluti í dag ...

... í örstutta stund komust litlir fingur í lyklaborðið á fartölvunni og hvað gerðist? 

Jú, litlu fingurnir sendu tölvunni skipun um að snúa skjámyndinni á hvolf ... líkt og sjá má á myndinni.

Það tók tíma sinn að lagfæra þetta.

Með þessu fetaði sá stutti í fótspor systur sinnar, sem sneri skjámyndinni 90° þegar hún slapp í tölvuna hjá ömmu sinni og afa á Sauðárkróki í kringum jólin 2008. Þá tók enn lengri tíma að finna út úr hlutunum.

Í kvöld vildi PJPL endilega komast upp í sófann í stofunni. Í viðleitni sinni til að komast þangað sneri hann bakinu í sófann, hallaði höfðinu aftur og teygði hendurnar upp fyrir höfuð ... sbr. mynd hér fyrir neðan ...

Maður verður bara að vona að verkvitið eða hvað maður skyldi kalla það, skáni með aukinni reynslu ... en það var alveg ljóst öllum öðrum en honum sjálfum að þessi aðferð er gjörsamlega vonlaus.

En svo var honum hjálpað aðeins og þá var gaman ...

 

Og á þessari mynd má sjá herramanninn taka til hendinni í eldhúsinu. Er þarna með sína eigin "eldavél", pott og allar græjur.

Þessi eldamennska endaði þó með svolitlum látum því litli kokkurinn, á einhverjum tímapunkti, leit snögglega við til að sjá hvað væri að gerast bakvið sig, missti jafnvægið, snerist hálfhring, kútveltist og endaði með einhverjum snilldarhætti liggjandi ofan í pottlokinu sem sést á myndinni. Hreint óborganlega sena.

Okkur Laugu finnst þessi ungi maður oft minna töluvert á Peter Sellers í Bleika pardus-myndunum eða Leslie Nielsen í Naked gun-myndunum, svo ég tali nú ekki um snillinginn Chris Farley í myndinni Beverly Hills Ninja. Það er bókstaflega ekkert að gerast, allt í friði og spekt. Svo á sér stað eitthvert ofurlítið atvik. Við því er brugðist sem verður til að í gang fer einhver keðjuverkun. Eitt leiðir af öðru og skyndilega er allt í hers höndum. Um gólfin er kútveltst og öllu sem í vegi verður er rutt um koll án þess að nokkur fái rönd við reist. Svo þegar gauragangurinn er yfirstaðinn, þannig að það beinlínis rýkur úr rústunum, stendur okkar maður upp og heldur áfram iðju sinni ... eins og ekkert hafi í skorist. 

Svo eru tvær að lokum af systkinunum sem nú keppast um að fá að sitja fyrir borðsendanum í Trip-Trap stólnum. 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband