Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Sunnudagur 15. janúar 2012 - Bakað og blöðrur

Nú þegar þetta er skrifað er mikill eltingaleikur í gangi hér ... systkinin elta hvort annað til skiptis ... sá stutti nýtur aðstoðar móður sinnar. 

Ágætis æfingar fyrir svefninn ...

---

Dagurinn hefur liðið fremur rólega hér. Svolítið hefur verið grautast í vinnu.

Lauga og Guðrún bökuðu líka þessa fínu gulrótarköku í dag ...svipmyndir frá því ...

 

Og til að gæta fyllsta hlutleysis ... þá dúndra ég þessu inn líka ...

 


Laugardagur 14. janúar 2012 - Bara stutt

Þessi dagur hefur nú verið rólegri heldur ég hafði hugsað mér ... ég ætlaði að verja mestum hluta hans í skrif á bókarkafla sem ég þarf að skila inn á miðvikudaginn en einhvern veginn varð minna úr því en efni stóðu til.

Þess í stað ræddum við Lauga saman um hin ýmsu mál, það var lagað til í íbúðinni, spilað við Gudduna, hlustað á tónlist, æfður söngur eða kannski heldur raddtækni, spilað svolítið á gítar, passað sig á að fara ekkert út til að maður fengi örugglega ekki ferskt loft í lungun og sitthvað smálegt fleira.


Fimmtudagur 12. janúar 2012 - Skil og gítarleikur

Óskaplega var góður árangur sem náðist í dag ... mér tókst að loksins, já loksins að senda inn svör við athugasemdum við fyrstu vísindagreinina mína til ritstjóra Journal of Environmental Psychology.

Þessi vegur hefur verið þyrnum stráður. Óhætt að segja það.

Það tók langan tíma að koma greininni saman en hún fór til JEP 20. janúar 2011 ... fyrir rétt tæpu ári. Svo heyrðist bara ekkert frá blaðinu fyrr en 30. ágúst sl. ... þ.e. 7 mánuðum síðar. Venjan hjá þessu blaði er að ekki líði meira en 3 mánuðir frá því maður sendir inn og þar til maður fær eitthvert svar.

Þann 30. ágúst fékk ég sum sé svar ásamt umsögnum. Tvær voru mjög pósitífar og ein mjög neikvæð ... sagði bara allt ömurlegt og vildi ekki sjá þessa rannsókn á prenti.
Þegar rýnt var í þessa umsögn kom í ljós einhver mesta þvæla sem ég hef lengi lesið. Sá sem skrifaði sagði tæknina sem ég notaði í rannsókinni, sem var þrívíddar tækni sem aldrei hefur verið notuð fyrr í rannsóknum innan þess geira sem ég starfa, úrelta og sagði að tölfræðilegu greiningarnar mínar væru rugl og alltof flóknar, en viðurkenndi svo að reyndar að tölfræði væri ekki hans sterkasta hlið.

Í lokin sagðist hann ekki geta metið hvort niðurstöður mínar væru góðar eða vondar því þetta væri bara allt svo lélegt ...

... persónulega held ég frekar að mat á gæðum niðurstaðna hafi byggst á því að viðkomandi aðili skildi ekki baun í því sem verið var að gera í rannsókninni.

En jæja, það þurfti að verja töluverðum tíma í að vinda ofan af þessari vitleysu og svara henni. Það getur nefnilega verið mjög erfitt að svara gagnrýni sem byggist að megninu til á tómri vitleysu.

Með aðstoð leiðbeinanda míns hafðist það svo af í kvöld, þremur mánuðum eftir að því átti að vera lokið.

Það er von okkar að greinin verði samþykkt í þetta sinnið ... án teljandi athugasemda ...

---

Í kvöld vorum við Lauga búin að ákveða að vinna áfram í laginu sem við erum að semja ... en það fór allt í rugl því ég var svo lengi að senda greinina frá mér ... var ekki kominn heim fyrr en um 8-leytið og við borðuðum ekki fyrr en um 10-leytið.

Allt í bullinu sum sé ...

... en Lauga ákvað að grípa í gítarinn engu að síður ... 

 

Það er hægt að telja á skiptum annarrar handar þau skipti sem hún hefur tekið í gítar ... og það verður að segjast eins og er að framfarirnar eru ótrúlega miklar á ótrúlega stuttum tíma ... :)  


Miðvikudagur 11. janúar 2012 - Söngur, skrif og Fitbook.com

Skrapp í minn fyrsta söngtíma á árinu. Það gekk nú alveg ágætlega en það er alveg merkilegt hvað eilíflega er verið að benda manni á sömu skekkjurnar ... það er ekki bara þessi söngkennari, því þessar ábendingar eru búnar að hringla í eyrunum á mér árum saman.

Það sem ég var að díla við í kvöld var það að fara ekki beint á tóninn þegar ég byrjaði á nýju versi, já og bara alltaf þegar ég byrjaði aftur eftir þögn sem var lengri en kannski einn taktur. Þetta er leiðindaávani að svinga upp og niður fyrir tóninn þangað til maður finnur að maður hittir á hann. Maður á nefnilega bara að negla hann í fyrsta ... ;)

Með Per Bristow tækninni finnst mér samt eins og þetta tónasvig hafi minnkað en ég hef töluvert spáð í af hverju ég geri þetta. Niðurstaðan eins og mál standa í dag, er að hálsinn og tungurótin eru ekki nægjanlega afslöppuð og því tekur alltaf smá tíma að stilla "græjurnar". En séu þessi atriði í lagi, ásamt nokkrum öðrum, þá ætti maður að komast hjá þessu ...

... en jæja ... þetta er nú bara svona pæling ... 

---

Og svo er hér önnur pæling.

Ég skráði mig nefnilega á Fitbook.com um daginn. Þetta er vefsíða sem heldur utan um mataræðið hjá manni, reiknar út næringargildi, kaloríur o.s.frv. maður getur skráð inn æfingar o.s.frv. o.s.frv.
Ekkert vitlaust að kíkja á þetta ... það er frír aðgangur í viku og svo 600 kall/mán.

En jæja ... ætlaði nú ekki að fara að auglýsa þessa síðu neitt sérstaklega. Heldur þvert á móti.

Það sem ég fattaði í dag er að þessi Fitbook.com er bara ekki að gera neitt fyrir mig og í raun er hún í andstöðu við mína hugmyndafræði um heilsu og heilsueflingu.

Af hverju?

Jú, ég komst að því eftir að hafa fyllt matardagbókina út í tvo daga að matur var farinn að vera "áhyggjuefni" hjá mér.
Bæði það að ég fyllti dagbókina ekki út af nægjanlega nákvæmlega en ekki síður ... og þetta er miklu stærra atriði ... neysla á mat var farin að valda mér samviskubiti. Hversu fáránlega hljómar það?

Allt í einu var kaloríufjöldi og hlutfall kolvetna, fitu og próteina farið að verða aðalmálið, í stað þess að ég fylgdist bara með eigin líðan eins og ég hef gert síðustu misseri.

Í mörg ár hef ég verið að æfa mig í því að fylgjast með eigin líðan og hvaða áhrif ólíklegustu hlutir hafa á hana. T.d. hef ég látið eigin líðan stjórna líkamsræktarprógramminu hjá mér um nokkurt skeið. Á þeim tíma hef ég fundið út úr fjölmörgum hlutum.

Af hverju fannst mér leiðinlegt að hlaupa úti?

Af hverju fannst mér leiðinlegt að lyfta?

Af hverju fannst mér leiðinlegt að synda? 

Allt eru þetta dæmi um eitthvað sem ég hef leyst með því að horfa inn á við.

Mesti sigurinn í þessum efnum var svo í sumar þegar ég áttaði mig loks á verkjum í hásinum og kálfum sem ég hef þurft að kljást við árum saman. Ég hafði leitað í fjölmargra aðila, s.s. lækna, nuddara, sjúkraþjálfara og stoðtækjasérfræðings. Allir höfðu þeir "lausnina" en engin þeirra virkaði og það var einmitt þá sem ég ákvað að taka málin í mínar hendur.

Það tók töluverðan tíma að finna ástæðu þessara verkja enda var hún tvíþætt. Tvö óskyld atriði sem unnu saman, annars vegar of lágt sýrustig í líkamanum vegna gosdrykkjaneyslu, lítillar vatnsneyslu og of mikils sykuráts, en lágt sýrustig hefur neikvæð áhrif á vöðva, liðbönd og sinar og hinsvegar slæmur stóll, ódýr IKEA stóll, sem ég sat á við vinnu mína.
Hljómar kannski ekki flókið en það var snúið að finna út úr þessu, því til að finna út úr þessu þurfti ég að taka út bæði þessi atriði á sama tíma í nokkra daga meðan líkaminn var að jafna sig.

Ef ég hefði farið að ráðum sérfræðinganna, drykki ég enn mikið kók, sæti í vonda stólnum, æti bólgueyðandi töflur, ætti rándýra hlaupaskó með sérsmíðuðum innleggjum og þyrfti að eyða stórfé í nudd og/eða sjúkraþjálfun. 

 

Síðastliðna 9 mánuði hef ég svo sérstaklega fókuserað á mataræðið hjá mér ... og núna er ég kominn aftur að Fitbook.com ...
Ég hef verið að horfa til þess hvaða matur veldur vellíðan og hvaða matur velur vanlíðan. Og það er bara þannig að þegar vel er að gáð þá veldur hollur matur vellíðan en óhollur vanlíðan. Of mikill eða of lítill matur veldur vanlíðan, hæfilegur skammtur veldur vellíðan.

Ég hef t.d. skorið pizzuskammtinn minn niður úr einni og hálfri pizzu með miklu pepperoni í hálfa pizzu án pepperonis. Bara af því að mér líður ekki vel af því að borða hið fyrrnefnda.

Af sama skapi drekk ég innan við 20% af því kókmagni sem ég drakk áður. Bara af því mér líður ekki vel ef ég drekk mikið meira kók en það.

Ég borða helmingi minni skammt af hafragraut á morgnana en áður. Bara af því mér leið ekki vel af því að borða of mikinn hafragraut. 

Einfalt? Já. 

Segir Fitbook.com mér eitthvað um þetta? Nei. Fitbook.com telur bara kaloríurnar og reiknar hlutföll.

Og hvað?

Ef maður fær sér glas af undanrennu og kleinuhring með súkkulaði, þá eru kaloríurnar ekkert svo hrikalega margar og meira að segja er hlutfall próteins, kolvetna og fitu mjög nálægt því að vera eins og ráðlagt er.

Hollt? Ekkert sérstaklega. Verður manni gott af þessu? Ekkert sérstaklega. 

Í mínum huga taka aðferðir eins og Fitbook.com býður upp á, já og margir fleiri, fókusinn af því sem maður ætti að einblína á og setja hann á það sem maður ætti ekki endilega að vera að einblína svo mikið á.

Af hverju að horfa á kaloríufjölda og hlutföll, já auðvitað að ógleymdu mittismáli og kílóatölu sem í raun segja takmarkaða sögu ef maður getur hreinlega fundið áhrifin sjálfur? Maður finnur það alveg hvenær eitthvað fer vel í maga og hefur góð áhrif á líkamann, ef maður nennir bara að bera sig eftir því. Þarf eitthvað forrit til að segja manni það að óæskilegt sé fyrir líkamann að borða löngu eftir að maður er orðinn saddur? Hélt ekki. Af hverju treystir maður ekki bara á þá tilfinningu?

Núna er ég alveg að detta í gírinn að fara að skrifa um tilhneigingu fólks til að leita alltaf lausna utan eigin líkama, vitsmuna og/eða tilfinninga ... ætla ekki að gera það ... því færslan er orðin alltof löng og klukkan alltof margt.

En eins og áður segir ... þetta með Fitbook.com er pæling. 


Mánudagur 9. janúar 2012 - Aðferðafræðin að virka og enska töluð

Syd Houdini opnaði dyrnar inn í vinnuherbergið mitt af mikilli gætni seinnipartinn, gægðist inn og spurði undirljúft: "Hvort vilt þú fá heitt kakó eða kalt kakó?"
"Ég vil fá heitt kakó ... þakka þér fyrir", svaraði ég.
"Alltílagi", sagði hún, lokaði hurðinni varlega og hljóp svo fram í stofuna.
Ég heyrði mömmu hennar spyrja tíðinda varðandi kakóið.
"Pabbi minn er alltaf svo góður við mér! Hann vill fá heitt kakó!", sagði sú stutta á sænsksyngjandi íslensku. 

Ég kinkaði kolli þar sem ég sat fyrir framan tölvuna ... glæsilegur vitnisburður um hversu vel nýja aðferðafræðin mín er að virka. 

Meðan ég var á hljómsveitaræfingu í kvöld, ákvað GHPL að hringja í mig ... reyndar úr sínum eigin síma. Mér skilst að samræðurnar hafði verið einhvern veginn á þessa leið.
"Pabbi ... ég er búin að segja þér að nú á ég að fá tyggjó og horfa á Mikka mús!"
Þögn í smástund.
"Neeeiiii pabbi ... ég er búin að segja þér að ég á að fá tyggjó og horfa á Mikka mús og bara budda!!" (við skiljum ekki alveg hvað þetta budda-dæmi er en það er ósjaldan notað í rökræðum).
Eitthvað virtist ég nú vera tregur á hinni línunni því tyggjó-, Mikka mús-, budduumræðan hélt áfram nokkra stund.

Svo allt í einu lauk samtalinu.
Þetta má líta á sem annan vitnisburð um að aðferðafræðin sé að virka ... því GHPL hefur aldrei áður haft fyrir að "hringja" í mig þegar ég hef verið einhvers staðar út í bæ að "hitta mennina" ...

--- 

Guddan upplýsti það í hádeginu í dag, hún var sko heima því það var starfsdagur á leikskólanum ... ég veit að það er útþynnt umræða að undra sig á sérstökum starfsdögum í skólum eins og ekkert sé gert þar alla hina dagana ... skil ekki af hverju kennarar eru ekki löngu búnir að finna eitthvað annað heiti á þessa daga, þetta er alveg mega "devaluering" á þeirra störfum ...

... en jæja, þeir um það ...

Guddan sumsé upplýsti það í fullkomlega óspurðum fréttum að litli bróðir hennar tali "ensku". Bablið í honum, sem ekki nokkur maður fær nokkurn einasta botn í, er sum sé enska í eyrum hinnar ástsælu dóttur.

Ég bað hana um að tala svolitla "ensku", sem hún gerði umsvifalaust, bróðurnum til mikillar gleði. Brást hann við með því að tala enn meiri "ensku" og úr varð dálítið samtal milli systkinana ... á "ensku".

Það er kannski ágætt að þau geti rætt saman á "ensku", því stundum grípum við Lauga til þess að ræða saman á annars konar "ensku" ef "potta-eyrun" eiga ekki að skilja umræðuefnið.  


Sunnudagur 8. janúar 2011 - Elvis og strætóævintýri

"Kóngurinn" er sennilega frægasta afmælisbarn dagsins ... 77 ára ...

Það væri gaman að vita hvar Elvis Presley væri staddur í lífinu en hann væri enn lifandi.
Ég varð Elvis-aðdáandi á "einni nóttu" árið 2003. Hafði aldrei nennt að hlusta á "kónginn", þó svo vissulega hefði maður heyrt eitthvað í honum í gegnum árin.

En eftir að hafa komið við í Memphis og heimsótt slotið Graceland í Ameríkuferðinni okkar Laugu var ekki aftur snúið.  
Ætlaði varla að nenna þangað, lét mig hafa það ... sennilega ein mesta "safnareynsla" ævinnar varð niðurstaðan. Mér leið eins og nánum vini "kóngsins" þegar ég labbaði út og augun vöknuðu þegar ég gekk framhjá grafreitnum hans. 

Við keyptum "ELVIS as recorded at Madison Square Garden" - og á hann var hlustað upp á hvern dag það sem eftir lifði ferðarinnar og líka oft eftir að henni lauk. 

Fann plötuna "komplet" á YouTube ... þvílík snilld!! 

 

Fyrir utan þessi mál er ýmislegt að gerast hérna í Uppsala ...

... loksins í gær, já í gær, upplifði ég að vera í strætó sem villtist. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort strætóbílstjórar lendi aldrei í því að gleyma hvaða leið þeir eru að aka og fari eitthvert tómt rugl.

Ég meina, ef maður er búinn að keyra sömu leiðina aftur og aftur og aftur og aftur og ... þá er ekkert nema eðlilegt að maður "forritist" og fari leiðina án þess að vera nokkuð að pæla í því.

Leifur, blessaður frændi minn, blessuð sé minning hans, var t.d. alveg skæður með þetta. Það var eiginlega alveg sama hvert hann var að fara, hann hafði tilhneigingu til að enda alltaf inn hjá Múlastöð Landsímans við Suðurlandsbraut, ef maður var ekki sjálfur þeim mun betur á nótunum. Hann vann sko í Múlastöð Landsímans við Suðurlandsbraut lengi og var orðinn fullkomlega "forritaður".

En aftur að strætóunum ... 

Við vorum að koma úr bænum, tókum 7-una til Gottsunda og svo bara við bensínstöðina þar sem hann á að fara beint áfram, tók stjórinn hægri beygju.
Fattarinn hjá mér var gríðarlega langur á þessu augnabliki en þetta var eitthvað skrýtið og sjálfsagt hefði strætóinn endað í Hågaby ef ekki hefðu 10 - 12 ára guttar stokkið fram í vagninn og spurt bílstjórann hvert hann væri eiginlega að fara. 

Þá rankaði herrann við sér ... og tilkynnti í hátalakerfið að hann væri svo vanur að keyra 6-una, sem einmitt endar í Hågaby. Hann varð því að snúa strætónum við, sem sjálfsagt var ekkert auðvelt því þetta var "nikkustrætó". En það tókst ... og bílstjórinn tilkynnti að núna myndum við vonandi enda í Gottsunda.

Þrátt fyrir mikla innri gleði með þessi tímamót í mínu lífi hefðu þau vel mátt vera við ögn skemmtilegri aðstæður, því GHPL var gjörsamlega að pissa í buxurnar ... eiginlega svo mikið að hún var farin að gráta ... þannig að útúrdúrinn var kannski ekki alveg það sem þurfti. En það bjargaðist allt saman fyrir rest.

Það er samt eitt alveg ótrúlegt í þessu.
Fullur vagn af fólki, meira segja fullur "nikkuvagn" af fólki þannig að það hafa örugglega verið 40 - 50 manns í vagninum. Flest allir fullorðnir. Margir sennilega búnir að fara þessa leið oftar en tvöhundruð sinnum.
Það þurfti barnaskólastráka til að stíga fram og benda á þróun mála.

Hinir fullorðnu, og ég þar með talinn, sátum bara og veltum því fyrir okkur hvað þetta væri skrýtin leið sem væri farin þetta skiptið. Það er nú ekki eins og ferð í strætó sé einhver óvissuferð ... og maður endi bara einhvers staðar ...

Minnti dálítið á nýju fötin keisarans .... ó hvað fullorðið fólk getur stundum verið ömurlega hallærislegt ... :)   

 

 


Föstudagur 6. janúar 2011 - Sushi, köll og betra samband

Þrettándinn er frídagur hér í Svíþjóð ... sem er fínt ... ekki það að ég hafi tekið mér frí. Ojæja ... reyndar seinnipartinn. Við skruppum nefnilega að fá okkur sushi.

Við Lauga erum komin með æði fyrir sushi. Sem er mjög fyndið hugsandi um það að þegar við vorum í Sydney, þá var Fjóla vinkona okkar alltaf að tala um hvað hana langaði mikið í sushi. Það virtist alltaf vera pláss og stemmning fyrir slíku.

Ég var bara alls ekki að ná því ... en rosalega næ ég því núna :) ... mér finnst samt bara sushi sem samanstendur af fiskmeti og hrísgrjónum gott.  Ekki þetta með ... er vafningurinn utan um sushi ekki söl? Alltént finnst mér innvafið sushi ekki gott ... í það minnsta ennþá.

Smakkaði samt á einu slíku í dag ... og svei mér ef það minnir mig ekki á bragðið af veturgömlu þurrheyi í hlöðunni í Steinnesi.  Ekki það að ég hafi verið að úða mikið heyi í mig ... var meira að taka svona strá og strá, þegar venjubundnum verkefnum var sinnt.

---

Guðrún hefur tvisvar í dag átt stórleik.

Fyrri stórleikurinn var þegar við vorum í búðinni að kaupa mat. Þá stöndum við öll í hnapp, þ.e. ég, GHPL og Lauga með stubb í BabyBjörn og erum að skoða gott ef ekki var hráefni í sushi. Guddan er eitthvað í því að taka vörur úr hillunum og setja í körfuna, og við svolítið í því að taka vörurnar aftur upp úr körfunni og setja í hilluna.

Allt í einu, rýkur dóttirin af stað. Hleypur burt frá okkur og hrópar af öllum mætti með mikilli örvæntingu í röddinni: "Mamma, mamma ... vänta på mig!! Vänta på mig!!" Við horfðum á eftir barninu og kölluðum svo: "Guðrún, Guðrún ... mamma þín er hérna!" Eftir nokkur köll frá GHPL eftir móður sinni og frá okkur eftir henni, rankaði hún við sér og leit við ... sjá þá móður sína og sólskinbros breiddi úr sér. Svo gekk hún lafmóð til okkar: "Ég var að leita af mömmu!!"

Í kvöld þegar við sátum og vorum að horfa á "Bad Teacher" með Cameron Diaz, já og Guddan að horfa á "Mikka mús", nei reyndar var að "Lína langsokkur" í kvöld, stekkur GHPL niður úr sófanum, þar sem hún sat við hliðina á móður sinni, og þýtur fram í eldhús. "Mamma, mamma!! Hvar ertu??" "Mamma þín er hérna í stofunni" kallaði ég til hennar. En hún hélt áfram að leita. "Guðrún, komdu!" Hún kom aftur inn í stofuna, sá móðurina og aftur breiddist út sólskinsbros. "Ég var að leita að mömmu!"
Svo hélt hún bara áfram að horfa á "Línu langsokk". 

Hvað er málið eiginlega?!? :)

---

Til minnis:

Þessa dagana missir Guðrún alltaf kúlið þegar hún að fara í útifötin. Það að fara mjög þægilegar angóruullarbuxar yfir sokkabuxurnar skapar alltaf sorg, sem og að setja á sig lambhúshettuna og fara í ullarleista.

Það er svolítið mál að fara í "randagallann" (rauður vetrarsamfestingur) og stígvélin. Að fara í lúffur er hrikalegt mikið vesen. Í dag hundskammaði hún lúffurnar, sem hún kallar "vantar" upp á sænsku fyrir að vera svona leiðinlegar.

Nafni er alltaf mjög óhress að fara í sinn "randagalla" og að fá lambhúshettu er martröð. Alverst er samt að vera settur í vagninn.

Af þessu má álykta að morgnarnir, þegar verið að taka blessuð börnin til svo hægt sé að koma Guddunni á leikskólann, eru mjög hressilegir :) .

--- 

Eins og dyggir lesendur þessarar bloggsíðu hafa eflaust áður lesið, þá hef ég ekki alltaf átt upp á pallborðið hjá dóttur minni.

Á tímabili í haust var ekki nokkur leið fyrir mig að ná til hennar og ég var mikið að velta því fyrir mér hvað skyldi til bragðs taka. Ég lagði mig fram um að vera skemmtilegur og vinsamlegur við hana, tala við hana, stríða henni smá en ekkert gekk ... ég prófaði að stíga svolítið til baka og vera ekkert að bögga hana. Árangur lítill.

Eftir töluverðar vangaveltur, þá komst ég að því að ég var kannski ekki mikið að sinna henni, svona í hennar daglega lífi. Ég var bara að vinna og leit frá vinnunni í smá stund til að segja við hana nokkrar setningar eða kitla hana pínulítið ... 

... ég skipti mér hinsvegar lítið af matarmálum hennar og háttatíma ... undir því yfirskyni að ég væri alltaf að vinna.

Ég ákvað að söðla aðeins um taktík. Ég ákvað að stíga inn í "hringiðuna" af alvöru. Ég fór að skipta mér af matarvenjum og háttatíma, hjálpa henni að klæða sig úr og í, fór að tala við hana oftar yfir daginn, draga línuna hvað varðar hin ýmsu mál, grípa inn í þegar hún var að gera eitthvað rugl, vera til taks þegar hún óskaði eftir hjálp, ræða við hana þegar einhver "vandamál" voru í gangi, bjóða henni að koma með mér út, t.d. út í búð, leyfa henni að sitja hjá mér þegar ég vann, sýna henni eitthvað "sniðugt" ...

... með öðrum orðum fór ég að taka meira þátt í hennar tilveru og gefa henni svigrúm til að taka þátt í minni ...

Niðurstaðan er hreint ótrúleg ... allt frá ég byrjaði á þessu, fyrir um mánuði síðan, hefur samband okkar batnað stórkostlega og frá jólakastinu fræga hefur það verið algjörlega eins og best verður á kosið. 

Þannig að ... þeir sem standa í þeim sporum sem ég var í ... ættu að hugleiða þessa aðferð ...  


Miðvikudagur 4. janúar 2011 - PJPL, söngur og hræðileg fyrirbæri

Hér er myndband sem ég ætlaði setja inn fyrir löngu en gat það ekki því ég kláraði ekki að setja það saman fyrr en í fyrrakvöld. 

Þetta er ofurlitlar svipmyndir af syninum ... já og dótturinni í aukahlutverki ...

 

Annars hefur dagurinn farið í skrif ... já, það er verið að skrifa um umhverfissálfræði ... hvað annað?

Jú og svo æfði ég mig í söng í kvöld, eins og ég geri reyndar jafnan á kvöldin. Nýt núna leiðsagnar Per Bristow sem er gaur í Kaliforníu sem heldur úti svona online-einkatímum.  Mér finnst leiðsögn hans vera bara að virka vel fyrir mig og er hún í fullu samræmi við mínar pælingar varðandi söng og söngtækni.

Persónulega held ég að söngkennsla sé á algjörum villigötum. Það að læra að syngja getur ekki verið svona hrikalega flókið, jæja kannski getur það verið flókið upp að vissu marki en að það sé nánast undir hælinn lagt hvort maður kunni að syngja eftir margra ára nám er í meira lagi undarlegt ... ég segi ekki meira.

Það að hugsa eigi um 10 tæknilega hluti í einu meðan maður syngur, ásamt því að túlka og performa, og hafa auk þess á reiðum höndum nokkur vel valin trikk sem grípa á til ef maður lendir í vandræðum, er eitthvað sem tilraunasálfræði og hugræn sálfræði hafa sýnt fram á að er ekki hægt. Við bara getum það ekki.

Ég man alltaf vel eftir stuttri "tilraun" sem gerðum í tíma þegar ég var í sálfræðinni í HÍ.
Kennarinn sýndi okkur video sem tekið var í flugstjórnarklefa rétt fyrir lendingu. Kennarinn bað okkur um að fylgjast vel með einhverjum mæli sem birtist á framrúðu flugstjórnargluggans. Eftir nokkra stund stoppaði kennarinn videoið og spurði hvað hefði gerst í myndbandinu. Jú, jú ... allir eða um 60 nemendur voru sammála um það að mælirinn hefði náð einhverju tilteknu gildi.

En hafði eitthvað annað gerst? Nei, það hafði nú enginn tekið eftir neinu öðru.
Kennarinn kveikti aftur á videoinu og þá mátti sjá hvar risastór Boeing 747 júmbóþota stóð á miðri flugbrautinni, beint fyrir framan vélina "okkar" sem var að fara að lenda. Ferlíkið hafði þá þokað sér inn á brautina meðan allir fylgdust með mælinum. 

Það athyglisverða í þessu er að, mælirinn var eins og áður segir, staðsettur í framrúðunni þannig að júmbó-inn var beinni sjónlínu fyrir "aftan" mælinn sem allir voru að horfa á. 

Svo er verið að segja manni að halda einbeitingu á 10 tæknilegum atriðum, plús túlkun, plús trikkum þegar gefa á frá sér nokkra tóna!!

Per Bristow leggur áherslu á að fækka þessum atriðum sem þarf að halda einbeitingu, henda öllum trikkunum út í hafsauga, leggja meiri rækt við tilfinningu en hlustun, leggja meiri rækt við túlkun og performance og ... hafa gaman ... 
Þetta er í grundvallaratriðum það saman og Jón Þorsteinsson söngkennari leggur áherslu á. 

En auðvitað er þetta örlítið flóknara en þetta ... en eftir að hafa verið viðloðandi söng síðan 1998 gæti ég skrifað langan pistil um söngkennslu og söngtækni ... og geri það kannski einn daginn ;) . 

---

GHPL er búin að finna út það hræðilegasta í þessum heimi ... Nappi refur (sá sem skýtur upp kollinum í þáttunum um Dóru landkönnuð), "monster" og "lirfa"(?!?).

Þessi þrjú fyrirbæri leynast að mér skilst í hverju skúmaskoti.


Þriðjudagur 3. janúar 2011 - Hopp í Friskis og skyldur á heimilum

Núna er fyrsta líkamsræktaræfingin á árinu 2012 að baki. Mikið svakalega var hún góð. Ég hef skipt um líkamsræktarstöð, þannig að ég er þó enn hjá sömu keðjunni, þ.e. Friskis og Svettis, en vegna búferlaflutninganna um daginn hætti ég á stöðinni á Väderkvarnsgatan og fór þess í stöðina í Ultuna. 

Geri ráð fyrir að flestum sé nokkuð sama um þetta í sjálfu sér en það sem ég vildi segja er að þessi skipting hefur boðið upp á nýja möguleika því nú hef ég aðgang að stórum eróbikk-sal þar sem ég get gert öðruvísi æfingar en mögulegt var að gera á hinum staðnum.

Í dag, líkt og á æfingunum fyrir áramót, þá var ég að hoppa upp á palla. Var t.d. að hoppa upp á 60 cm pall í dag. Þessi hopp eru ótrúlega góð.  Þetta eru afleiðingar þess að skoða cross-fit æfingar og horfa á video með Anný Mist hirða heimsmeistaratitilinn í cross-fit. Svo tók ég framstigsæfingar með stöng. Það vildi nú ekki betur en svo að ég fékk ótrúlegan sinadrátt aftan í lærið eftir um 20 framstig. Greinilegt að þessir vöðvar hafa ekki mikið verið notaðir upp á síðkastið.

En af því að ég var að nefna Anný Mist ... hvar er nafnið hennar á tilnefningalistanum fyrir Íþróttamann ársins 2011?? Það verður nú að segjast með ólíkindum að heimsmeistari nái ekki að komast á lista yfir 10 bestu íþróttamenn á Íslandi. Annars eru nú svo sem engin aumingjar á þessu tilnefningalista. Ég veit að vísu ekkert um þennan golfara ... en það segir nú sjálfsagt meira um mig en hann.

---

Yfir kvöldmatnum var Lauga að segja mér frá bók sem hún var að lesa ... man ekki hvað hún heitir eða hver skrifar hana en hún fjallar um fjölskyldur og samskipti innan þeirra.

Umræðan bar okkur að því álitaefni hvort börn eigi að fá "plikt" innan heimilisins ... m.ö.o. eiga börn að hafa skyldur innan heimilisins, náttúrulega svona fyrir utan að vera sæmilega húsum hæf? 
Höfundur bókarinnar segir ekkert um það í sjálfu sér heldur ítrekar að slíkar skyldur bera að umgangast af mikill varfærni.

T.d. sagði hann að tilgangslaust væri að skylda barn allt upp að 10 ára aldri taka til í herberginu sínu þrisvar í viku. Barnið hefði einfaldlega ekki vitsmuni til að geta staðið við það. Þegar allt kæmi til alls skildi barnið ekki "dílinn".

Mér finnst þetta athyglisvert.

Reyndar verð ég að segja að ég er svona fremur andsnúinn því að börn fái tiltekið hlutverk innan heimilisins sem þau eiga að inna af hendi.
Frekar er ég hlynntur því að verkefni sem þarf að vinna, verkefni sem eru ólík og fjölbreytt, séu sett í einhvern áhugaverðan búning, þar sem lögð er áhersla á tilgang verksins. Verkið er svo unnið í góðri sátt og allir sem vilja fá að vera með en engu að síður er gefið svigrúm til að vera ekki með.

Dæmið er hinsvegar sett upp þannig að sá/sú sem vill ekki vera með er bara alveg rosalega "óheppin(n)" að vilja ekki vera með.

Pælingin hjá mér með þessu er að börnin fá að kynnast ólíkum verkum í stað þess að eiga alltaf að gera sama verkið, kannski á hverjum degi. Ekki síður, læra þau að vinna í hóp, þar sem fólk hjálpast bara að að vinna öll þau verk sem þarf að vinna og ekki skiptir máli hver vinnur hvað.

Þegar ég skrifa þessar línur dettur mér í hug, aðili sem starfaði á sama vinnustað og ég fyrir um 10 árum. Þessi aðili sem vann hin ýmsu verk innan stofnunarinnar, þverneitaði að skera fjórar vínarbrauðslengjur í bita á föstudagsmorgnum, vegna þess að það stóð ekki í starfslýsingunni. Breytti það engu um, þó í starfslýsingunni stæði að hann ætti að taka til leirtau fyrir máltíðir og ganga frá í matsal eftirá. 

Ég er nú kannski ekki að segja að börn með skyldur á heimilum verði öll slagbrandar á við þennan, en ég er engu að síður hugsi yfir því, hvaða sjónarmið er verið að innræta með þessu.


Mánudagur 2. janúar 2012 - Gleðilegt ár!!!

Ég ætlaði auðvitað að byrja árið á að setja góða og gagnmerka færslu inn á bloggið hjá mér í gær.
En hvað?
Svolítið miklu betra gerðist hjá mér en það ... ég talaði við Dóra vin minn í 4 klukkutíma á Skype í gærkvöldi ... það var eins og við hefðum talað saman í svona hálftíma þegar samtalinu lauk.

---

Nýja árið hefur verið okkur hliðhollt það sem af því er liðið og ef það heldur svona áfram gæti þetta bara orðið eitt besta ár ævi minnar.

Síðasta ár var það nú ekki alveg og segja má að maður hafi kvatt það með glans ... eða þannig ... við buðum Sverri, Jónda og Dönu í hátíðarmat á gamlárskvöld. Þríréttað í tilraunaeldhúsinu.

Sveppasúpa í forrétt ... sem var svona ágæt fannst mér ... of mikið piparbragð af henni fyrir minn smekk.

Pörusteik í aðalrétt. Aldrei gert pörusteik fyrr en mikið rosalega leit hún vel út þegar ég tók hana úr ofninum. Brúnaðar kartöflur, Waldorfsallat að hætti hússins og ýmislegt fleira. Reyndar gleymdi ég að kaupa rauðkál ... frekar glatað þegar maður er með pörusteik enda er rauðkál meðlæti nr. 1 í mínum huga.
Það hefði þó sloppið fyrir horn ef snillingurinn sem heldur úti þessari bloggsíðu hefði haft vit á því að kaupa ósaltað svínakjöt!!

Þó pörusteikin hafi litið vel út þegar ég tók hana úr ofninum fannst mér hún samt dálítið rauð ... en ég reyndi að bægja hugsuninni um að einhver skandall væri í uppsiglingu frá mér ...

En það var engin miskunn hjá Magnúsi ...

... framvindunni verður sennilega best lýst með því að segja að á nýjársnótt hentum við Lauga restinni af "saltkjötspörusteikinni með negulnagla- og lárviðarlaufsbragðinu". 


 
Meðan allt lék nokkurn veginn í lyndi ...

Sverrir og Dana voru samt ósköp góð við okkur, sögðu að þetta væri bara gott og stríddu okkur ekkert. Í dag sagði Sverrir að þetta hefði alls ekki verið neinn skandall, en af einhverjum ástæðum væri hann búinn að syngja "Saltkjöt með pöru ... túkall!!!" síðan á nýjársnótt.

Í eftirrétt var svo einhver réttur sem Lauga bjó til og tókst hann ljómandi vel ... klárlega það besta á matseðlinum það kvöldið.

---

Svo var Skaupið bara mjög gott fannst mér ... á eftir að horfa á það aftur.  Mér fannst Noregsbrandarinn frekar vondur þarna um kvöldið en eftir því sem ég hef pælt í því atriði hef ég eiginlega komist að því að meiningin hafi ekki verið að gera grín að þessum hörmungaratburðum í sumar. Miklu frekar hafi ætlunin verið að skjóta á þessa gríðarlegu þörf fólks, ekki bara Íslendinga, um að halda að grasið sé alltaf grænna hinum megin.

Noregur er í hugum margra Paradís á jörð en einmitt þar gerast svona martraðaratburðir ... 

Þeir geta í sjálfu sér gerst hvar sem er ...

En Íslendingar vilja oft gleyma því að Ísland hefur gríðarlega marga kosti. Bara svona til að nefna einn sem örugglega fæstir hugsa um.
Á Íslandi hafa allt fram á þennan dag fáir þurft að hafa áhyggjur af skógarmítlum, þ.e. blóðsugum sem líma sig á spendýr og þá auðvitað á menn og geta borið með sér bakteríur sem valda skaða á taugakerfinu.

Þessi kvikindi eru mjög algeng hér í Svíþjóð og ég segi það fyrir mig að tilvist þeirra spillir mjög fyrir upplifun minni í náttúrunni hérna. Ég á ekki von á öðru en kvikindin finnist líka í Noregi. 

Þegar við bjuggum í Ástralíu þurfti maður sífellt að hafa augun á sér varðandi einhver kvikindi. Andskotans kakkalakkarnir í eldhúsinu hjá okkur, já og maurarnir.

Þó mítlar og kakkalakkar, já og kannski maurar finnist á Íslandi er það, enn sem komið er, ekki í neinni líkingu við víða annars staðar.

... og það er alveg hrikalega mikill plús!! 

--- 

Jæja ... hérna átti að koma voðalega fín nýjársdagsmynd af snillingunum hér á heimilinu ... ef ég hefði ekki þurrkað myndirnar út af minniskubbi myndavélarinnar núna í kvöld.

Maður er bara í því að gera það gott :) .

En þetta er mynd dagsins í dag.

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband