Föstudagur 6. janúar 2011 - Sushi, köll og betra samband

Þrettándinn er frídagur hér í Svíþjóð ... sem er fínt ... ekki það að ég hafi tekið mér frí. Ojæja ... reyndar seinnipartinn. Við skruppum nefnilega að fá okkur sushi.

Við Lauga erum komin með æði fyrir sushi. Sem er mjög fyndið hugsandi um það að þegar við vorum í Sydney, þá var Fjóla vinkona okkar alltaf að tala um hvað hana langaði mikið í sushi. Það virtist alltaf vera pláss og stemmning fyrir slíku.

Ég var bara alls ekki að ná því ... en rosalega næ ég því núna :) ... mér finnst samt bara sushi sem samanstendur af fiskmeti og hrísgrjónum gott.  Ekki þetta með ... er vafningurinn utan um sushi ekki söl? Alltént finnst mér innvafið sushi ekki gott ... í það minnsta ennþá.

Smakkaði samt á einu slíku í dag ... og svei mér ef það minnir mig ekki á bragðið af veturgömlu þurrheyi í hlöðunni í Steinnesi.  Ekki það að ég hafi verið að úða mikið heyi í mig ... var meira að taka svona strá og strá, þegar venjubundnum verkefnum var sinnt.

---

Guðrún hefur tvisvar í dag átt stórleik.

Fyrri stórleikurinn var þegar við vorum í búðinni að kaupa mat. Þá stöndum við öll í hnapp, þ.e. ég, GHPL og Lauga með stubb í BabyBjörn og erum að skoða gott ef ekki var hráefni í sushi. Guddan er eitthvað í því að taka vörur úr hillunum og setja í körfuna, og við svolítið í því að taka vörurnar aftur upp úr körfunni og setja í hilluna.

Allt í einu, rýkur dóttirin af stað. Hleypur burt frá okkur og hrópar af öllum mætti með mikilli örvæntingu í röddinni: "Mamma, mamma ... vänta på mig!! Vänta på mig!!" Við horfðum á eftir barninu og kölluðum svo: "Guðrún, Guðrún ... mamma þín er hérna!" Eftir nokkur köll frá GHPL eftir móður sinni og frá okkur eftir henni, rankaði hún við sér og leit við ... sjá þá móður sína og sólskinbros breiddi úr sér. Svo gekk hún lafmóð til okkar: "Ég var að leita af mömmu!!"

Í kvöld þegar við sátum og vorum að horfa á "Bad Teacher" með Cameron Diaz, já og Guddan að horfa á "Mikka mús", nei reyndar var að "Lína langsokkur" í kvöld, stekkur GHPL niður úr sófanum, þar sem hún sat við hliðina á móður sinni, og þýtur fram í eldhús. "Mamma, mamma!! Hvar ertu??" "Mamma þín er hérna í stofunni" kallaði ég til hennar. En hún hélt áfram að leita. "Guðrún, komdu!" Hún kom aftur inn í stofuna, sá móðurina og aftur breiddist út sólskinsbros. "Ég var að leita að mömmu!"
Svo hélt hún bara áfram að horfa á "Línu langsokk". 

Hvað er málið eiginlega?!? :)

---

Til minnis:

Þessa dagana missir Guðrún alltaf kúlið þegar hún að fara í útifötin. Það að fara mjög þægilegar angóruullarbuxar yfir sokkabuxurnar skapar alltaf sorg, sem og að setja á sig lambhúshettuna og fara í ullarleista.

Það er svolítið mál að fara í "randagallann" (rauður vetrarsamfestingur) og stígvélin. Að fara í lúffur er hrikalegt mikið vesen. Í dag hundskammaði hún lúffurnar, sem hún kallar "vantar" upp á sænsku fyrir að vera svona leiðinlegar.

Nafni er alltaf mjög óhress að fara í sinn "randagalla" og að fá lambhúshettu er martröð. Alverst er samt að vera settur í vagninn.

Af þessu má álykta að morgnarnir, þegar verið að taka blessuð börnin til svo hægt sé að koma Guddunni á leikskólann, eru mjög hressilegir :) .

--- 

Eins og dyggir lesendur þessarar bloggsíðu hafa eflaust áður lesið, þá hef ég ekki alltaf átt upp á pallborðið hjá dóttur minni.

Á tímabili í haust var ekki nokkur leið fyrir mig að ná til hennar og ég var mikið að velta því fyrir mér hvað skyldi til bragðs taka. Ég lagði mig fram um að vera skemmtilegur og vinsamlegur við hana, tala við hana, stríða henni smá en ekkert gekk ... ég prófaði að stíga svolítið til baka og vera ekkert að bögga hana. Árangur lítill.

Eftir töluverðar vangaveltur, þá komst ég að því að ég var kannski ekki mikið að sinna henni, svona í hennar daglega lífi. Ég var bara að vinna og leit frá vinnunni í smá stund til að segja við hana nokkrar setningar eða kitla hana pínulítið ... 

... ég skipti mér hinsvegar lítið af matarmálum hennar og háttatíma ... undir því yfirskyni að ég væri alltaf að vinna.

Ég ákvað að söðla aðeins um taktík. Ég ákvað að stíga inn í "hringiðuna" af alvöru. Ég fór að skipta mér af matarvenjum og háttatíma, hjálpa henni að klæða sig úr og í, fór að tala við hana oftar yfir daginn, draga línuna hvað varðar hin ýmsu mál, grípa inn í þegar hún var að gera eitthvað rugl, vera til taks þegar hún óskaði eftir hjálp, ræða við hana þegar einhver "vandamál" voru í gangi, bjóða henni að koma með mér út, t.d. út í búð, leyfa henni að sitja hjá mér þegar ég vann, sýna henni eitthvað "sniðugt" ...

... með öðrum orðum fór ég að taka meira þátt í hennar tilveru og gefa henni svigrúm til að taka þátt í minni ...

Niðurstaðan er hreint ótrúleg ... allt frá ég byrjaði á þessu, fyrir um mánuði síðan, hefur samband okkar batnað stórkostlega og frá jólakastinu fræga hefur það verið algjörlega eins og best verður á kosið. 

Þannig að ... þeir sem standa í þeim sporum sem ég var í ... ættu að hugleiða þessa aðferð ...  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband