Miðvikudagur 11. janúar 2012 - Söngur, skrif og Fitbook.com

Skrapp í minn fyrsta söngtíma á árinu. Það gekk nú alveg ágætlega en það er alveg merkilegt hvað eilíflega er verið að benda manni á sömu skekkjurnar ... það er ekki bara þessi söngkennari, því þessar ábendingar eru búnar að hringla í eyrunum á mér árum saman.

Það sem ég var að díla við í kvöld var það að fara ekki beint á tóninn þegar ég byrjaði á nýju versi, já og bara alltaf þegar ég byrjaði aftur eftir þögn sem var lengri en kannski einn taktur. Þetta er leiðindaávani að svinga upp og niður fyrir tóninn þangað til maður finnur að maður hittir á hann. Maður á nefnilega bara að negla hann í fyrsta ... ;)

Með Per Bristow tækninni finnst mér samt eins og þetta tónasvig hafi minnkað en ég hef töluvert spáð í af hverju ég geri þetta. Niðurstaðan eins og mál standa í dag, er að hálsinn og tungurótin eru ekki nægjanlega afslöppuð og því tekur alltaf smá tíma að stilla "græjurnar". En séu þessi atriði í lagi, ásamt nokkrum öðrum, þá ætti maður að komast hjá þessu ...

... en jæja ... þetta er nú bara svona pæling ... 

---

Og svo er hér önnur pæling.

Ég skráði mig nefnilega á Fitbook.com um daginn. Þetta er vefsíða sem heldur utan um mataræðið hjá manni, reiknar út næringargildi, kaloríur o.s.frv. maður getur skráð inn æfingar o.s.frv. o.s.frv.
Ekkert vitlaust að kíkja á þetta ... það er frír aðgangur í viku og svo 600 kall/mán.

En jæja ... ætlaði nú ekki að fara að auglýsa þessa síðu neitt sérstaklega. Heldur þvert á móti.

Það sem ég fattaði í dag er að þessi Fitbook.com er bara ekki að gera neitt fyrir mig og í raun er hún í andstöðu við mína hugmyndafræði um heilsu og heilsueflingu.

Af hverju?

Jú, ég komst að því eftir að hafa fyllt matardagbókina út í tvo daga að matur var farinn að vera "áhyggjuefni" hjá mér.
Bæði það að ég fyllti dagbókina ekki út af nægjanlega nákvæmlega en ekki síður ... og þetta er miklu stærra atriði ... neysla á mat var farin að valda mér samviskubiti. Hversu fáránlega hljómar það?

Allt í einu var kaloríufjöldi og hlutfall kolvetna, fitu og próteina farið að verða aðalmálið, í stað þess að ég fylgdist bara með eigin líðan eins og ég hef gert síðustu misseri.

Í mörg ár hef ég verið að æfa mig í því að fylgjast með eigin líðan og hvaða áhrif ólíklegustu hlutir hafa á hana. T.d. hef ég látið eigin líðan stjórna líkamsræktarprógramminu hjá mér um nokkurt skeið. Á þeim tíma hef ég fundið út úr fjölmörgum hlutum.

Af hverju fannst mér leiðinlegt að hlaupa úti?

Af hverju fannst mér leiðinlegt að lyfta?

Af hverju fannst mér leiðinlegt að synda? 

Allt eru þetta dæmi um eitthvað sem ég hef leyst með því að horfa inn á við.

Mesti sigurinn í þessum efnum var svo í sumar þegar ég áttaði mig loks á verkjum í hásinum og kálfum sem ég hef þurft að kljást við árum saman. Ég hafði leitað í fjölmargra aðila, s.s. lækna, nuddara, sjúkraþjálfara og stoðtækjasérfræðings. Allir höfðu þeir "lausnina" en engin þeirra virkaði og það var einmitt þá sem ég ákvað að taka málin í mínar hendur.

Það tók töluverðan tíma að finna ástæðu þessara verkja enda var hún tvíþætt. Tvö óskyld atriði sem unnu saman, annars vegar of lágt sýrustig í líkamanum vegna gosdrykkjaneyslu, lítillar vatnsneyslu og of mikils sykuráts, en lágt sýrustig hefur neikvæð áhrif á vöðva, liðbönd og sinar og hinsvegar slæmur stóll, ódýr IKEA stóll, sem ég sat á við vinnu mína.
Hljómar kannski ekki flókið en það var snúið að finna út úr þessu, því til að finna út úr þessu þurfti ég að taka út bæði þessi atriði á sama tíma í nokkra daga meðan líkaminn var að jafna sig.

Ef ég hefði farið að ráðum sérfræðinganna, drykki ég enn mikið kók, sæti í vonda stólnum, æti bólgueyðandi töflur, ætti rándýra hlaupaskó með sérsmíðuðum innleggjum og þyrfti að eyða stórfé í nudd og/eða sjúkraþjálfun. 

 

Síðastliðna 9 mánuði hef ég svo sérstaklega fókuserað á mataræðið hjá mér ... og núna er ég kominn aftur að Fitbook.com ...
Ég hef verið að horfa til þess hvaða matur veldur vellíðan og hvaða matur velur vanlíðan. Og það er bara þannig að þegar vel er að gáð þá veldur hollur matur vellíðan en óhollur vanlíðan. Of mikill eða of lítill matur veldur vanlíðan, hæfilegur skammtur veldur vellíðan.

Ég hef t.d. skorið pizzuskammtinn minn niður úr einni og hálfri pizzu með miklu pepperoni í hálfa pizzu án pepperonis. Bara af því að mér líður ekki vel af því að borða hið fyrrnefnda.

Af sama skapi drekk ég innan við 20% af því kókmagni sem ég drakk áður. Bara af því mér líður ekki vel ef ég drekk mikið meira kók en það.

Ég borða helmingi minni skammt af hafragraut á morgnana en áður. Bara af því mér leið ekki vel af því að borða of mikinn hafragraut. 

Einfalt? Já. 

Segir Fitbook.com mér eitthvað um þetta? Nei. Fitbook.com telur bara kaloríurnar og reiknar hlutföll.

Og hvað?

Ef maður fær sér glas af undanrennu og kleinuhring með súkkulaði, þá eru kaloríurnar ekkert svo hrikalega margar og meira að segja er hlutfall próteins, kolvetna og fitu mjög nálægt því að vera eins og ráðlagt er.

Hollt? Ekkert sérstaklega. Verður manni gott af þessu? Ekkert sérstaklega. 

Í mínum huga taka aðferðir eins og Fitbook.com býður upp á, já og margir fleiri, fókusinn af því sem maður ætti að einblína á og setja hann á það sem maður ætti ekki endilega að vera að einblína svo mikið á.

Af hverju að horfa á kaloríufjölda og hlutföll, já auðvitað að ógleymdu mittismáli og kílóatölu sem í raun segja takmarkaða sögu ef maður getur hreinlega fundið áhrifin sjálfur? Maður finnur það alveg hvenær eitthvað fer vel í maga og hefur góð áhrif á líkamann, ef maður nennir bara að bera sig eftir því. Þarf eitthvað forrit til að segja manni það að óæskilegt sé fyrir líkamann að borða löngu eftir að maður er orðinn saddur? Hélt ekki. Af hverju treystir maður ekki bara á þá tilfinningu?

Núna er ég alveg að detta í gírinn að fara að skrifa um tilhneigingu fólks til að leita alltaf lausna utan eigin líkama, vitsmuna og/eða tilfinninga ... ætla ekki að gera það ... því færslan er orðin alltof löng og klukkan alltof margt.

En eins og áður segir ... þetta með Fitbook.com er pæling. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband