Mánudagur 9. janúar 2012 - Aðferðafræðin að virka og enska töluð

Syd Houdini opnaði dyrnar inn í vinnuherbergið mitt af mikilli gætni seinnipartinn, gægðist inn og spurði undirljúft: "Hvort vilt þú fá heitt kakó eða kalt kakó?"
"Ég vil fá heitt kakó ... þakka þér fyrir", svaraði ég.
"Alltílagi", sagði hún, lokaði hurðinni varlega og hljóp svo fram í stofuna.
Ég heyrði mömmu hennar spyrja tíðinda varðandi kakóið.
"Pabbi minn er alltaf svo góður við mér! Hann vill fá heitt kakó!", sagði sú stutta á sænsksyngjandi íslensku. 

Ég kinkaði kolli þar sem ég sat fyrir framan tölvuna ... glæsilegur vitnisburður um hversu vel nýja aðferðafræðin mín er að virka. 

Meðan ég var á hljómsveitaræfingu í kvöld, ákvað GHPL að hringja í mig ... reyndar úr sínum eigin síma. Mér skilst að samræðurnar hafði verið einhvern veginn á þessa leið.
"Pabbi ... ég er búin að segja þér að nú á ég að fá tyggjó og horfa á Mikka mús!"
Þögn í smástund.
"Neeeiiii pabbi ... ég er búin að segja þér að ég á að fá tyggjó og horfa á Mikka mús og bara budda!!" (við skiljum ekki alveg hvað þetta budda-dæmi er en það er ósjaldan notað í rökræðum).
Eitthvað virtist ég nú vera tregur á hinni línunni því tyggjó-, Mikka mús-, budduumræðan hélt áfram nokkra stund.

Svo allt í einu lauk samtalinu.
Þetta má líta á sem annan vitnisburð um að aðferðafræðin sé að virka ... því GHPL hefur aldrei áður haft fyrir að "hringja" í mig þegar ég hef verið einhvers staðar út í bæ að "hitta mennina" ...

--- 

Guddan upplýsti það í hádeginu í dag, hún var sko heima því það var starfsdagur á leikskólanum ... ég veit að það er útþynnt umræða að undra sig á sérstökum starfsdögum í skólum eins og ekkert sé gert þar alla hina dagana ... skil ekki af hverju kennarar eru ekki löngu búnir að finna eitthvað annað heiti á þessa daga, þetta er alveg mega "devaluering" á þeirra störfum ...

... en jæja, þeir um það ...

Guddan sumsé upplýsti það í fullkomlega óspurðum fréttum að litli bróðir hennar tali "ensku". Bablið í honum, sem ekki nokkur maður fær nokkurn einasta botn í, er sum sé enska í eyrum hinnar ástsælu dóttur.

Ég bað hana um að tala svolitla "ensku", sem hún gerði umsvifalaust, bróðurnum til mikillar gleði. Brást hann við með því að tala enn meiri "ensku" og úr varð dálítið samtal milli systkinana ... á "ensku".

Það er kannski ágætt að þau geti rætt saman á "ensku", því stundum grípum við Lauga til þess að ræða saman á annars konar "ensku" ef "potta-eyrun" eiga ekki að skilja umræðuefnið.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband