Sunnudagur 8. janúar 2011 - Elvis og strætóævintýri

"Kóngurinn" er sennilega frægasta afmælisbarn dagsins ... 77 ára ...

Það væri gaman að vita hvar Elvis Presley væri staddur í lífinu en hann væri enn lifandi.
Ég varð Elvis-aðdáandi á "einni nóttu" árið 2003. Hafði aldrei nennt að hlusta á "kónginn", þó svo vissulega hefði maður heyrt eitthvað í honum í gegnum árin.

En eftir að hafa komið við í Memphis og heimsótt slotið Graceland í Ameríkuferðinni okkar Laugu var ekki aftur snúið.  
Ætlaði varla að nenna þangað, lét mig hafa það ... sennilega ein mesta "safnareynsla" ævinnar varð niðurstaðan. Mér leið eins og nánum vini "kóngsins" þegar ég labbaði út og augun vöknuðu þegar ég gekk framhjá grafreitnum hans. 

Við keyptum "ELVIS as recorded at Madison Square Garden" - og á hann var hlustað upp á hvern dag það sem eftir lifði ferðarinnar og líka oft eftir að henni lauk. 

Fann plötuna "komplet" á YouTube ... þvílík snilld!! 

 

Fyrir utan þessi mál er ýmislegt að gerast hérna í Uppsala ...

... loksins í gær, já í gær, upplifði ég að vera í strætó sem villtist. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort strætóbílstjórar lendi aldrei í því að gleyma hvaða leið þeir eru að aka og fari eitthvert tómt rugl.

Ég meina, ef maður er búinn að keyra sömu leiðina aftur og aftur og aftur og aftur og ... þá er ekkert nema eðlilegt að maður "forritist" og fari leiðina án þess að vera nokkuð að pæla í því.

Leifur, blessaður frændi minn, blessuð sé minning hans, var t.d. alveg skæður með þetta. Það var eiginlega alveg sama hvert hann var að fara, hann hafði tilhneigingu til að enda alltaf inn hjá Múlastöð Landsímans við Suðurlandsbraut, ef maður var ekki sjálfur þeim mun betur á nótunum. Hann vann sko í Múlastöð Landsímans við Suðurlandsbraut lengi og var orðinn fullkomlega "forritaður".

En aftur að strætóunum ... 

Við vorum að koma úr bænum, tókum 7-una til Gottsunda og svo bara við bensínstöðina þar sem hann á að fara beint áfram, tók stjórinn hægri beygju.
Fattarinn hjá mér var gríðarlega langur á þessu augnabliki en þetta var eitthvað skrýtið og sjálfsagt hefði strætóinn endað í Hågaby ef ekki hefðu 10 - 12 ára guttar stokkið fram í vagninn og spurt bílstjórann hvert hann væri eiginlega að fara. 

Þá rankaði herrann við sér ... og tilkynnti í hátalakerfið að hann væri svo vanur að keyra 6-una, sem einmitt endar í Hågaby. Hann varð því að snúa strætónum við, sem sjálfsagt var ekkert auðvelt því þetta var "nikkustrætó". En það tókst ... og bílstjórinn tilkynnti að núna myndum við vonandi enda í Gottsunda.

Þrátt fyrir mikla innri gleði með þessi tímamót í mínu lífi hefðu þau vel mátt vera við ögn skemmtilegri aðstæður, því GHPL var gjörsamlega að pissa í buxurnar ... eiginlega svo mikið að hún var farin að gráta ... þannig að útúrdúrinn var kannski ekki alveg það sem þurfti. En það bjargaðist allt saman fyrir rest.

Það er samt eitt alveg ótrúlegt í þessu.
Fullur vagn af fólki, meira segja fullur "nikkuvagn" af fólki þannig að það hafa örugglega verið 40 - 50 manns í vagninum. Flest allir fullorðnir. Margir sennilega búnir að fara þessa leið oftar en tvöhundruð sinnum.
Það þurfti barnaskólastráka til að stíga fram og benda á þróun mála.

Hinir fullorðnu, og ég þar með talinn, sátum bara og veltum því fyrir okkur hvað þetta væri skrýtin leið sem væri farin þetta skiptið. Það er nú ekki eins og ferð í strætó sé einhver óvissuferð ... og maður endi bara einhvers staðar ...

Minnti dálítið á nýju fötin keisarans .... ó hvað fullorðið fólk getur stundum verið ömurlega hallærislegt ... :)   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband