Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Sunnudagur 18. mars 2012 - Hitt og þetta, já og samningatækni

Jæja ... þá var tveimur áföngum lokið í dag ... kláraði að skrifa fyrirlestrana og kláraði skýrslugerð í tengslum við vinnu á Snæfellsnesinu.

Fyrir liggur Íslandsferð á miðvikudaginn og svo byrjar ballið ... fyrsta vers verður útvarpsviðtal í þættinum Okkar á milli kl. 9 á fimmtudagsmorguninn og svo tekur eitt við af öðru. Fjórir fyrirlestrar á þremur dögum í næstu viku ... hlakka til ...

Svo þarf að hitta hinn og þennan, já og skreppa svo í Óperuna þann 31. ... að sjá La Boheme eftir Puccini.

Ef allt gengur upp ætti þetta bara að verða hin allra besta ferð ... og jafnvel þótt það gangi ekki alveg allt upp ...

---

Lauga og allir hinir skruppu í góðan túr niður í bæ í dag, kaffihús og Dómkirkjan var dagskráin ...

... lukkaðist vel að sögn ...

---

Stubburinn er alveg að ná tökum á göngunni ... framfarir á hverjum degi, óhætt að segja það. Og hann er mjög ánægður með framfarirnar. Brosir sínu breiðasta ... á milli þess sem hann klórar sér í eyrunum. Annaðhvort er ofurlítil eyrnabólga að plaga hann eða jaxlataka. Það er svolítið á huldu.

---

Einn kennarinn Guddunnar taldi að hún myndi verða samningamaður þegar hún yrði stór ... enda þykir hún mjög snjöll í því að semja.

Sel það ekki dýrara en ég keypti en þó er ég ánægður með að heyra það því við Lauga höfum lagt töluvert á okkur til að kenna GHPL að semja ... persónulega held ég að það sé alveg svakalega mikilvægt að kunna svolítið fyrir sér í því. Enda hvorki gott að láta rúlla yfir sig né að rúlla yfir aðra.

T.d. við matarborðið bjóðum við henni yfirleitt upp á tvo valkosti ... annar valkosturinn er frekar slæmur en hinn vel þolanlegur fyrir hana en jafnfram þolanlegur fyrir okkur.
Velja á milli þess að borða 10 kjötbita eða fjóra. Kartöflur eða gulrætur.

Svo höfum við lagt okkur fram um að gefa svigrúm líka þannig að fjórir kjötbitar séu kannski ekki endilega alltaf fjórir kjötbitar heldur stundum þrír eða jafnvel fimm.

Þetta hefur líka gefist vel þegar þarf að díla við hana um nammi, djúsdrykkju og videogláp. Þar er gefið ofurlítið svigrúm og það er yfirleitt unnið "fram í tímann".
Þannig hefur reynst miklu betur ef maður vill fá hana til að hætta að horfa á video að segja töluvert áður en maður ætlar að slökkva að maður ætli að slökkva. Gefa smá svigrúm til að átta sig á að nú eru hlutirnir að taka enda.

Einu sinni var maður meira í því að segja bara "ok, nú er þetta búið" og slökkva fyrirvaralaust ... hitt er miklu betra ... klárlega ...

... mikilvægur punktur í þessu er þó sá að standa við "nokkurn veginn" orð sín um að slökkva, kannski gefa pínulítið tækifæri en þá bara lítið og bara ef það á við ... hvenær það á svo við er auðvitað algjört matsatriði.

Þetta hefur gengið svo vel að GHPL yfirleitt lýkur við umsamið áhorf, slekkur á tölvunni og stendur upp. ;)  

 


Föstudagur 16. mars 2012 - Að standa á eigin fótum ...

Þessa dagana er maður algjörlega á kafi í fyrirlestrarskrifum ... fyrir liggur að tala um umhverfissálfræði í svona 6,5 klukkutíma á næstu vikum. Það er því betra að vera sæmilega undirbúinn.

Það er því lítið um að hugsa þessa dagana nema "endurheimt" og "endurheimtandi umhverfi" ...

Þess vegna held ég að best sé að láta bara inn video af öðru því sem er að gerast. Hæst stendur auðvitað fótafimi sonar míns sem eykst með hverjum deginum ...

... sjón er sögu ríkari ...

  


Þriðjudagur 13. mars 2012 - Nóg að gera og börnin leika við hvern sinn fingur

Það er allt á fullu hér ... 

... doktorsverkefni, fyrirlestrar og heimasíðugerð í bland við söng og útihlaup er svona það helsta sem er á dagskránni.

Skrapp í kvöld að hitta einhverja hljómsveitargaura sem vildu fá mig í prufu. Gekk ágætlega en ég verð samt að segja að söngprufan var nokkuð stefnulaus :) .
Þeir ætla að testa einhverja í viðbót og hafa svo samband aftur ...

---

Blessuð börnin er í ágætisformi enda fá þau nú svo sannarlega athygli ... hér er horft og haldið í hendina á þeim allan liðlangan daginn ...

... hver myndi ekki vera hress undir svoleiðis kringumstæðum?

Það er hreint ótrúlegur munur að fara núna með GHPL á leikskólann, svona án þess að þurfa að taka stubbalinginn með ... maður er svona 100x fljótari að koma sér út úr húsi og svo er hægt að einbeita sér meira að Guddunni meðan á akstrinum stendur.

Stubbi sleppur líka við 4 klukkutíma í strætó á hverjum degi ... og getur nýtt tímann í eitthvað nytsamlegra ... 


Sunndagur 11. mars 2012 - Gestir, buffkökur og samtöl við BJ

Nú er vorið komið til Uppsala ... alveg dæmalaust fínt veður í dag ... 

... og við erum með gesti því amman á Sauðárkróki og nafna hennar, alnafna meira að segja, frænkan úr Grindavík erum mættar.

Guddan og Stubbi eru alveg í sjöunda himni með sendinguna enda fá þau bæði endalausa athygli núna ...

---

Hljóp aftur í dag rúma 10 km ... miklu auðveldara en síðustu helgi og nú er bara að vona að ég leggist ekki rúmið eins og síðast.

Hitt liðið eins og það lagði sig hélt hinsvegar á vit ævintýranna niðri í bæ ...

Í kvöld voru svo snæddar alveg hreint indælar buffkökur með lauk :)

---

Guðrún hefur verið upptekin af því að teikna myndir síðustu daga ... og það sem meira er henni hefur verið mikið í mun að sýna Bjarna Jóhanni frænda sínum myndirnar. Þar sem þau búa í sitthvoru landinu hefur Skype verið notað í þessum tilgangi.

Það er allmerkilegt hvernig þessi samtöl fara fram ... já og sosum ekki bara þessi samtöl heldur bara öll samtöl yfirleitt þegar GHPL og Bjarni tala saman, því GHPL talar ekkert við Bjarna meðan á útsendingunni stendur, þess í stað hleypur hún út um allt, nær í alls konar hluti, og gerir alls kyns kúnstir sem eiga tiltölulega fátt sameiginlegt við gott samtal í gegnum Skype. Hún er jafnvel löngum stundum í öðru herbergi en tölvan ... sjálfsagt þess fullviss að BJ sitji agndofa fyrir framan tölvuna heima hjá sér og horfi á hvað hún er að sýsla við ... 

En haldi GHPL það, þá er það mikill misskilningur, því BJ gefst upp og úr verða einhver mjög losaraleg samskipti, þar sem blessuðum börnunum bregður fyrir á skjánum öðru hverju :) ... það endar svo með þeim hætti að foreldrarnir taka yfir samtalið. Fyrst eru mæðurnar með en svo taka feðurnir yfir og tala klukkustundum saman ...  gjarnan svo lengi að allir aðrir eru löngu sofnaðir þegar samtalinu lýkur.

Það skemmtilega í þessu er að ferillinn á þessum samtölum er, ég leyfi mér að segja, alltaf nákvæmlega sá sami ... :) 


Fimmtudagur 8. mars 2012 - Stemmning

Ég myndi telja að þessar myndir lýsi ágætlega stemmningunni í stofunni í kvöld sem var með rólegasta móti ...


GHPL setti upp myndasvipinn ... 

Mestur hluti dagsins hefur farið í að skrifa fyrirlestur fyrir málstofu Sálfræðideildar HÍ sem ég mun halda 28. mars nk. 

Tók reyndar þátt í "tele-seminari" hjá Jack Canfield í kvöld ... Canfieldinn er alltaf góður, var að gefa tips hvernig maður á að selja bækurnar sínar. Hann ætti að vita það ... hefur selt yfir 500 milljón eintök sjálfur, átti einu sinni 7 bækur samtímis á metsölulista New York Times ... sem ku víst vera heimsmet ... 


Þriðjudagur 6. mars 2012 - Afmælisbarn dagsins

Hér var haldið upp á afmæli í dag ... já, Lauga bætti einu ári í safnið ...

Reyndar verður að segjast að hátíðarhöldin voru með allra, allra dræmasta móti enda síðuhaldari mjög langt frá sínu besta stærstan hluta dagsins ...

... náði rétt að klóra í bakkann í kvöld með því að bjóða upp á sushi ... sem er uppáhaldsmatur afmælisbarnsins um þessar mundir.

 
Afmælisbarnið og Þristurinn í afmæliskaffinu í dag ... 

Það er alveg ljóst að eitthvað betra verður að gera einhvern næstu daga ... 


Mánudagur 5. mars 2012 - Að vera ekki 100% og GHPL teiknar prins

Þetta var dagurinn sem ég ætlaði að halda upp á eins árs "alvöru hreyfingarafmæli" mitt ... en það var einmitt þennan dag í fyrra sem ég fór að hreyfa mig með markvissum hætti á "réttum forsendum". 

Ég er búinn að halda vel utan um þetta ár að þessu leytinu ... og ætlaði að birta línurit með afrekum mínum.

En hvað ... er þá ekki karl veikur!

Þetta er í annað skiptið á ekki mjög löngum tíma þar sem ég verð veikur ... þ.e. rúmliggjandi. Að vísu ekki nema hluta úr degi.

Maður skyldi þó ekki hafa ofreynt sig í hlaupinu í gær ... ;)

Nafni er líka veikur, Guddan nokkuð góð en Lauga "afmælisbarn morgundagsins" er sú eina sem er alveg 100%.

---

Merkilegur hlutur gerðist í dag ...

GHPL tók upp á því, í fyrsta skipti á ævinni, að teikna karla (já og konur) ... eða kóng, prinsessu og prins.


Sunnudagur 4. mars 2012 - Jógúrt, hlaup og málning

Morgunmatur og GHPL hellir bláberjajógúrt í skál ... niðurstaðan sést á myndinni ...

 

Henni var góðfúslega bent á það að hún yrði að læra að stoppa þegar hún hellti jógúrt í skál. Svo fús var hún til námsins að þegar ég hellti mjög hæfilegum skammti af jógúrt í skál handa sjálfum mér nokkrum mínútum síðar, rak hún upp stór augu og í henni gall: "Pabbi, þú verður að kunna að stoppa!!"

Í morgun hljóp ég, í frábæru veðri, meira en 10 km í fyrsta skipti síðan 2008 ... meira að segja 500 metrum betur.

 

Fínt að sjá að maður er í standi til að gera þetta ... reyndar er alveg rúm fyrir bætingu, ég hljóp þetta á um 70 mínútum.

Ég er nefnilega að stefna á hálfmaraþon á þessu ári ... hið fyrsta síðan 2007, þegar ég hljóp "The Hidden Half Marathon" með James félaga mínum í Bankstown í Sydney.
Málið er samt að þessi hlaup núna eru miklu skemmtilegri heldur þau hafa nokkrum sinnum verið því mér finnst ég vera að framkvæma þau á "réttum" forsendum.

Eftir hádegið var síðan málningarsession hjá okkur ... reyndar var stubbur svo brjálæðislega hjálplegur að vakna nákvæmlega þegar "sessionin" hófst og fara svo aftur að sofa nákvæmlega þegar búið var að ganga frá aftur ... einmitt vegna þess að Laugu gekk lítið að mála með hann í gírnum.
Hún skaut því fram í gríni að hann myndi örugglega sofna þegar við hættum ... gutti tók hana á orðinu!

 

Svo var karl kominn með hita í kvöld þannig að þetta er bara "eins og það á að vera" ;) . 

En það er alveg merkilegt hvað maðurinn ætlar að vera lengi að koma sér upp á endann ... um áramótin hélt ég að þetta væri dagaspursmál ... hann tók nú reyndar 5 - 6 skref óstuddur í morgun en kommon ... það eru liðnir 60 dagar af nýja árinu. 

--- 

GHPL er búin að finna það út að kalla bróður sinn "Gussa" ... óskiljanlegt ...

Mun skiljanlegra er þegar hún sagði við mig í miðri málningarvinnunni: "Þegiðu drengur!" ... hún spurði mig líka þegar ég var að fara út að hlaupa í morgun: "Ertu að fara að syngja eða sk*ta?" "Guðrún(?!) ... ég er að fara út að hlaupa!" "Ókei!"

Þessi kjaftháttur er kominn beint frá mér ... mér virðist ganga illa að skilja að "pottarnir hafa eyru" :/ . 


Laugardagur 3. mars 2012 - Að vilja ekki gera hlutina ...

Guðrún kemur oft með mjög góðar hugmyndir ...

Í morgun stakk hún t.d. upp á því að fá tyggjó í morgunmat frekar en hafragraut eða jógúrt.

Því næst lagði hún til að horfa á Mikka mús þangað til hún yrði hitalaus en hún var með 3 kommur í morgun.

Oft telur hún líka heppilegra að hún fái ís frekar en almennilegan mat.

Já og svo núna þá er hún ýmist mjög þreytt eða illt í maganum þegar hún þarf að borða eitthvað annað en ís og kökur.

Annars verður það að segjast um blessuð börnin bæði tvö að þau eru afskaplega miklir vælukjóar þessa dagana. GHPL ýmist rífur kjaft í allar áttir eða er vælandi yfir óréttlæti heimsins. Stubbi vælir bara yfir óréttlætinu ... sem felst í því að mamma hans nennir ekki að halda á honum og leika við hann 24/7. 

Ég neita því ekki að ég er dálítið hugsi yfir dótturinni ...

---

Í dag lauk ég svo við gerð fyrirlestranna fyrir námskeiðið hjá Endurmenntun HÍ, þetta verður fínt námskeið ... vona bara að sem flestir láti sjá sig þar ...

---

Við Lauga áttum líka gott spjall í dag ... ræddum um mikilvægi þess að vera ekki sama um hlutina.

Það er mín einlæga trú að ef fólk lætur eftir sér "að vera sama" um menn og málefni, þá rýri það í raun líf þess.
Alltof margir afgreiða fjölmarga hluti einfaldlega með því að segja "ég hef ekki áhuga á þessu" og í mörgum tilfellum er það án þess að hlutirnir hafi nokkurn tímann verið íhugaðir eða reyndir. 

Sjálfur var ég lengi þannig að ég var ekki tilbúinn að gefa hlutunum tækifæri.
Ég hlustaði bara á KISS og ég spilaði bara fótbolta. Ég horfði aldrei á Eurovision og mátti ekki heyra minnst á sálfræði. Ég gekk bara í jogging-fötum. Bara svona til að nefna eitthvað ...

Ef ég var spurður hvort ég vildi ekki hlusta á eitthvað en annað en KISS, gera eitthvað annað en að spila fótbolta, horfa á Eurovision, tala um sálfræði og ganga í öðru en jogging-fötum aftók ég það með öllu. 
Einn góðan veðurdag vitkaðist ég svo ... ég fann út að það var rými fyrir aðra tónlist en KISS, og guð minn góður ... síðan þá hefur opnast fyrir mér gjörsamlega nýr heimur og líf mitt hefur orðið ríkara, þó KISS sitji enn í hásætinu. Ég fór að sinna öðrum hlutum en bara fótbolta ... skrifa, mála, syngja, leika, spila á gítar, synda ... nýr heimur opnaðist, nýir möguleikar. 
Núna missi ég ekki af Eurovision ... íslenska undankeppnin, sænska undankeppnin, öll kvöldin í aðalkeppninni ... ég leita stundum að Eurovision-lögum á YouTube til að hlusta og hafa gaman ... og já, sumt af stöffinu er bara mjög skemmtilegt.
Á sálfræðina þarf ég ekki að minnast ... en ég man alltaf þegar ég hét því eftir hafa verið í sálfræðitímum í Háskólanum á Akureyri á vormisserinu 1995 að ég skyldi aldrei læra aftur sálfræði, stóð reyndar ekki við það, því í "klásusnum" í læknisfræðinni þá um haustið tók ég aftur sálfræðikúrs. Ætlaði aldrei að lesa staf meira eftir það ...

Verð að viðurkenna að þetta með fötin er enn svolítið vandamál ... ;)

Þessi þvergirðingsháttur að vilja ekki prófa hlutina, gefa þeim sjéns ... þetta rýrir bara tilveruna hjá manni ... og því ástæðulaust að vera að eitthvað sérstaklega metnaðarfullur í því að vilja ekki gera hlutina. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband