Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Mánudagur 30. janúar 2012 - Stubbur 9 mánaða

Í dag er sonur minn 9 mánaða gamall ... hvorki meira né minna.

Óhætt að segja að staðan sé töluvert önnur en hérna ... þegar hann var með húfuna ...

 

Eins og áður er helsta áhugamálið að vasast í uppþvottavélinni ...

... og svo er mikið reynt að standa á eigin fótunum ... 

 


Laugardagur 28. janúar 2012 - Nokkrir bitar

Setning dagsins er tvímælalaust þessi: 

"Ég verð að baka áður en kökurnar brenna"

- GHPL þegar ég spurði hana hvort hún ætlaði að baka í dag.

---

Vorum með ofurlítið kaffiboð í dag. Hingað mættu Sverrir og Jóndi, Ari, Hrafnhildur og Viktor. Fínasta stemmning og veitingarnar hennar Laugu (já, og Guddunnar) góðar. Sjálfur nennti ég ekkert að gera til að undirbúa nema taka svolítið til.

---

Þessa dagana er Guddan að fatta Karíus og Baktus. Dana vinkona okkar var nefnilega svo afskaplega hugulsöm að lána okkur bókina um þá félaga um daginn.

Núna er Syd afar áhugasöm um að bursta tennurnar og ekki bara það ... hún rekur alla í tannburstun við hin ýmsu tækifæri. Og ef í harðbakkann slær, þá mætir hún með tannburstann og tannkremið og afhentir hlutaðeigandi ...

Það eru sumsé allir vel burstaðir hér.

---

Pípus hefur verið mjög mikill pípus síðustu daga ... það er eins og karlanginn sé svolítið slappur en samt er hann ekki með hita en hóstagelt svolítið.

Hann er eins móðursjúkur og hægt er að hugsa sér. Móðirin má ekki víkja spönn frá rassi án þess að gólið byrji og barningur um að komast aftur til hennar t.d. ef ég er með hann í fanginu.

Það má þó telja blessuðu barninu það til tekna að ef móðirin er bara víðsfjarri, þ.e. stödd utan heimilisins þá er hann eins og ljós. Málið snýst bara um að tryggja hæfilega fjarlægð á milli þeirra tveggja ... þá er ég með þetta í vasanum ... vægt til orða tekið.

---

Í næstu viku fer alvara lífsins að taka við. Lauga byrjar þá að vinna og börnin í minni umsjá frá yfir hádegið.

Það má því telja nokkuð víst að sumir komi til með að vinna frameftir á næstu vikum og mánuðum ef takast á að ljúka doktorsverkefninu í sumar og vinna einnig að öðrum mikilvægum verkefnum.


Fimmtudagur 26. janúar 2012 - Magaveiki, salat og væl

Þessi dagur hefur nú ekkert verið neitt sérstakur ... sérstaklega þó fyrri partur hans. Upp úr miðnætti síðustu nótt fór að örla á magaveiki hjá síðuhaldaranum, svona rúmum klukkutíma eftir að spúsan tók að finna fyrir einkennum.

Nóttin fór sum sé í það að fást við einkenni magaveikinnar ...

Í dagrenningu fórum við að bera saman bækur okkar og niðurstaðan var sú að súrmjólkin sem við borðuðum í gærkvöldi væri orsakavaldurinn, því blessuð börnin fengu ekki súrmjólk úr sömu fernu og hafa ekki sýnt nein einkenni ... sem er auðvitað algjörlega frábært!

Það sem er svo auðvitað langskemmtilegast við að vera veikur er það að verða frískur aftur, því þá finnur maður svo óskaplega vel hvað það er dásamlegt að vera frískur. Ég vildi að ég hefði þetta oftar að leiðarljósi í hinu daglega amstri í stað þess að líta á það sem sjálfsagðan hlut að vera frískur.

Maður einhvern veginn tekur góðri heilsu svolítið eins og sjálfsögðum hlut, og fattar ekki mikilvægi hennar fyrr en krankleiki sækir á mann.

Slíkt á nú við um fleiri þætti í lífinu ... og þess vegna á spakmælið "enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur" svo oft vel við.

---

Seinni partinn í dag þegar ástandið var orðið þannig að mögulegt var að vinna svolítið, sat Guddan hjá mér í vinnuherberginu og las bók. Þetta hefur greinilega verið mjög merkileg bók því að hún endurtók hvað eftir annað: "Pizza-salat"!! 

Ég reyndi að fá upp úr henni hvað "pizza-salat" væri ... en það var fullkomlega árangurslaust ...

Pizza-salat!!

---

Á síðustu vikum hefur færst í vöxt að GHPL tilkynni, þegar þannig árar, að hún sé "bálreið". Þetta er dálítið merkilegt, því við Lauga notum aldrei þetta orð ... þannig að uppruninn er dálítið óljós ... sennilega eru þó Strumparnir orsakavaldurinn.

Þeir voru það að minnsta kosti þegar GHPL var alltaf að segja "reipi, reipi" hér fyrir nokkrum mánuðum.

---

"Pabbi ... hættu þessi væli" er setning sem mjög oft heyrist á heimilinu og þá sérstaklega úr einum tilteknum 3,5 ára gömlum munni og þá helst þegar við erum ekki alveg sammála um hlutina.

Mér finnst stundum eins og stubburinn skilji ekki almennilega sjálfur hvað hann er að segja, því iðulega er ég ekki baun að væla þegar gripið er til þessa orðavals.

Uppruna þessa má að öllum líkindum rekja til mín og þá til þeirra tilfella þegar ég bið minn ástsamlegan son, herra Pípus, vinsamlegast um að slökkva á hátalaranum.

---

Það er alveg klárt hver er mesti svampheilinn á þessu heimili ...

... og alveg klárt hver þarf að fara að passa hvað hann segir ... 

 

 


Þriðjudagur 24. janúar 2012 - Tvær tilvitnanir

"Ég hef oft sagt að karakterar fólks kristallist á fótboltavellinum" - Guðjón Þórðarson

Ég hef pælt svolítið í þessum orðum Guðjóns. Ef ég tala fyrir minn munn þá held ég að karakter minn komi ágætlega í ljós inn á fótboltavellinum, bæði veikleikar og styrkleikar.

Blanda af kappsemi, baráttu, stundum óstýrilátu skapi og heiðarleika :) ... er mitt mat á eigin karakter sé þessi aðferð notuð.

Þannig að vilji fólk kynnast sjálfu sér þá mæli ég með því að skreppa í fótbolta.  

---

"Þetta er ljótt úr. Ég verð að viðurkenna það. Ég geri ekki ráð fyriri að nota það sjálfur. Ætli ég gefi ekki einhverjum það. Þetta er tækifærisgjöf" - Rúnar Kárason, nýliði í handboltalandsliði Íslands þegar hann var valin maður leiksins í leik gegn Spánverjum á EM 2012. 

Ég gat ekki annað en glott út í annað. Frábært að fá þessa gjöf frá Rúnari. Alltaf gaman að fá ljótt úr að gjöf.

En annars verð ég að segja að mér fannst hann standa sig mjög vel í þessum leik og það var ekki sjá að þarna færi nýliði í landsliði í öðrum leik sínum á stórmóti. 

Var að hugsa meðan á leiknum stóð hvað eins dauði er annars brauð ætti vel við ... þarna var þessi maður mættur í hægri styttustöðuna ... stöðuna sem besti handboltamaður Íslands hefur haldið nokkuð fast um í meira en áratug. Sá er nú meiddur og fyrsti "varamaður" hans er svo líka meiddur, og þá allt í einu er kastljósinu beint að þessum náunga, sem þoldi það vel. 


Mánudagur 23. janúar 2012 - Sambandsleysi

Aldrei þessu vant er mér orða vant nú ... ég  hef ekki hugmynd um hvað ég á eiginlega að rita á þessa síðu nú í kvöld.

Ég hef verið að lesa og hugsa, já og skrifa umhverfissálfræði stóran hluta dagsins. Tók síðan góða söngæfingu hérna heima áður en ég hélt á 3,5 tíma hljómsveitaræflingu.

Það er alveg hrikalega gaman á þessum hljómsveitaræfingum. Hef örugglega sagt það áður á þessari síðu.
Helst myndi ég vilja fara á hljómsveitaræfingu einu sinni á dag, en það gengur ekki alveg upp.

Vorum að þreifa á nýjum lögum í kvöld. Þannig "repertoir-arið" stækkar óðum. Það verður rosalega gaman að taka þessi lög þegar búið verður að slípa þau betur til.

---

Af öðrum er bara allt gott að frétta.

Nafni er mikið að brölta við að koma sér upp á endann og vill helst hlaupa um íbúðina allan daginn ... en getur það ekki því enginn nennir að hjálpa honum við það nema stutta stund í einu.

Og svo er hann alveg óður í að komast í appelsínugula ljósið á fjöltenginu sem aðstoðar tölvuna og fleira dót að komast í rafmagn. Það þarf náttúrulega ekki að fjölyrða um myndi gerast ef hann kæmist í þann takka og næði að slökkva á honum.

---

En jæja ... eins og ég sagði ... ég er eitthvað stirður í hausnum og fingrunum núna, þannig að ég ætla að láta þetta duga.

Andinn hlýtur að fara að koma yfir mig aftur ... það hefur verið dálítið sambandsleysi við hann síðustu daga. 


Sunnudagur 22. janúar 2012 - Plan og aðferðafræði

Það er alveg ljóst að ætli maður ekki bara að missa dagana út úr höndunum á sér, þá er gott ráð að plana þá fyrirfram. Helst hafa fleiri en einn möguleika.

Við ætluðum að taka góðan göngutúr í dag, ganga í Gottsundagipen en svo kom það bara upp úr dúrnum að heimasætan var með hitaslæðing ... og þá datt göngutúrinn upp fyrir og ekkert varð neitt úr neinu.

Sjálfur ætlaði ég þá að fara út að hjóla en kom mér aldrei í það ... og datt þess í stað að æfa svolítið söng ... en dagurinn náði aldrei að komast í almennilegan "rythma".

---

Í morgun settum við Lauga upp dæmi sem við köllum "X-factor" en "X-factorinn" er einfaldlega það að ganga frá hlutunum eftir sig. Af hverju "X-factor"? Hef ekki hugmynd.

En allavegana erum við bæði voðalega slæm með að skilja hlutina eftir á víð og dreif og eyða svo löngum tíma í að finna þá næst þegar þarf að nota þá.
Og núna í viku ætlum við að leggja áherslu á að ganga frá eftir okkur og minna hvort annað á ef hlutirnir eru ekki alveg að gera sig. En í stað þess að jagast, þá minnum við bara á "X-factorinn".

Svo innleiddum við aðra aðferðafræði. Ég hef stundum notað þessa aðferð þegar ég er einn að ganga frá í eldhúsinu en hún felst í því að ætla sér stuttan tíma til að ljúka tilteknu verki, t.d. að tína allt af eldhúsborðinu og ganga frá inn í ískáp og uppþvottavél á innan við tveimur mínútum.  

Í matarboðinu hjá Gunna og Ingu Sif í gær ... sem nota bene var últragott ... barst viðameiri útgáfa af þessari aðferðafræði inn í umræðuna en hún felst í því að láta alla heimilismenn taka þátt í einhverju verkefni í tiltekinn tíma. En með þessum hætti er hægt að auka skemmtanagildi verkefnisins töluvert mikið, samvinna lærist og minni tími fer í verkefnið.

Ég hef trú á að eitthvað gott komi út úr þessu öllu saman ...  


Föstudagur 20. janúar 2012 - Sittlítið af hverju

Þá eru hér um bil liðnar þrjár vikur af nýja árinu ... rosalega líður tíminn ... 

Ísland komið í milliriðil í þessum blessaða handbolta. Leikurinn var sýndur hér í Svíþjóð, þannig að ég ómakaði mig til að horfa á hann.
Arfaslakur leikur verð ég að segja ... held að íslenska liðið sé lítið að fara að gera í þessum milliriðli. 

En tíminn verður svo sem bara leiða það í ljós ...

---

Dagurinn fór í lestur rannsóknagreina ... svipað stöff og í gær ... bara skemmtilegt að brjóta heilann um þetta og púsla þekkingunni saman atriði fyrir atriði.

---

Milli umhverfissálfræðilegra pælinga hefur maður aðeins spáð í þetta ótrúlega Geirs Haarde mál.

Á sínum tíma fannst mér hallærislegt að senda Geir einan á "vígvöllinn", hinir þrír áttu auðvitað að fylgja með ... þó reyndar ég hafi ákveðna samúð með Björgvini, sem virðist nú bara hafa verið rangur maður á röngum stað á röngum tíma. 

En úr því sem komið er, er náttúrulega ekki nokkur leið að hætta bara við þetta allt saman ... ef Geir hefur ekki brotið af sér, þá fellur dómurinn væntanlega honum í hag og málið er úr sögunni.
Sé hann sekur, þá verður það bara að vera svo.

Sú röksemdarfærsla að það eigi að sleppa Geir vegna þess að hinir sluppu gengur bara ekki upp að mínu mati. Þá má ekki gleyma því að Geir var æðstráðandi og því fylgir auðvitað ábyrgð. Hann sóttist eftir þessu embætti á sínum tíma og þá verður hann bara að sitja uppi með þá ákvörðun sína.

En sanngirnin í því að aðrir stjórnmálamenn, núverandi og fyrrverandi, sem augljóslega bera líka ábyrgð, strjúki nú um frjálst höfuð, er náttúrulega engin.
Ef það væri einhver dugur í þessu liði þá myndi það biðja um að fá að axla ábyrgð og láta dómstóla skera úr um hvort það hefði gerst brotlegt við lög eða ekki.

Það er svoleiðis slegist um að halda um valdasprotann, allir gaspra um hvað þeir séu miklu hæfari og betri til þess arna en um leið og hlutir fara á annan veg en ætlað er, þá er það öllum öðrum að kenna og allir aðrir svo vondir ...  

Held að það hefði verið nær að taka þetta Landsdómsmál á þeim forsendum hvort ekki væri hægt að greiða aftur atkvæði um að senda hina þrjá ásamt Geir og nokkra í viðbót fyrir dóm ... að mönnum hafi einfaldlega orðið á mistök þarna um árið.


Fimmtudagur 19. janúar 2012 - Eitthvað að gerast

Nokkrir ágætir áfangar sem náðust í dag. 

Þar bar hæst viðtal sem Læknablaðið tók við mig varðandi sem rannsókina á krabbameinsdeildinni sem ég í slagtogi við aðra stóð fyrir á síðasta ári. Það er alltaf gaman þegar einhver sýnir áhuga á því sem maður er að gera.
Viðtalið verður sennilega birt í næsta eða þarnæsta hefti Læknablaðsins. 

Svo ræddi ég við stórvinkonu mína, Auði Ottesen í dag. Allaf hressandi að spjalla við hana. Við vorum að ræða verkefni sem eru á döfinni hjá okkur. Mjög spennandi verkefni sem að sjálfsögðu tengjast umhverfissálfræði. 

Seinnipartinn lá ég svo yfir mjög skemmtilegri rannsóknargrein þar sem verið var að kanna tengslin milli dálætis (preference) og sálfræðilegrar endurheimtar, en hið síðarnefnda er það sem doktorsverkefnið mitt snýst um.

Það er alveg óþarfi að óttast þetta mikla hugtak "sálfræðileg endurheimt", því með svolítilli einföldun má segja að sálfræðileg endurheimt sé það sama og "hlaða batteríin" ... ekkert flókið við það.

Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að dálæti okkar á tilteknu umhverfi er að töluverðu leyti tilkomið vegna mats okkar hvort umhverfið hjálpi okkur að hlaða batteríin. Þetta á sérstaklega við ef við erum þreytt.

Þar sem nútíma borgarumhverfi er mjög ágengt og þreytandi er dálæti okkar á því almennt minna en á náttúrunni, þar sem við teljum okkur í flestum tilfellum hafa tækifæri til að hlaða batteríin.

En jæja ... þetta var nú bara smá umhverfissálfræði ... hún er skemmtileg ...

Já ... af hverju ekki að nefna það hér að ég verð einmitt með námskeið í umhverfissálfræði hjá Endurmenntun HÍ í mars nk. ... tvö pottþétt kvöld ... 

Tékkið á þessu: Austurvöllur - Hlemmur: Áhrif umhverfis á líðan fólks 

 


Miðvikudagur 18. janúar 2012 - Þrjár bækur

Í gær fékk ég senda í póst bók - Cities for People - eftir Jan nokkurn Gehl, danskan prófessor sem er nú einn fremst ráðgjafi heims í hvernig hanna á borgarumhverfi til að auka lífsgæði fólks. 

Gehl fékk fyrst alvöru athygli þegar hann tók þátt í því að gera Strikið í Kaupmannahöfn að göngugötu á 7. áratugnum og nota rannsóknarliteratúr og athuganir til að þróa prójektið. Á 7. áratugnum skrifaði hann svo bókina "Livet mellam husene", bók sem náði síðar gríðarlegum vinsældum og er álitið mjög gagnlegt og merkilegt rit. Og skemmtilegt.

Það sama verður sagt um þessa bók sem ég fékk í hendurnar í gær ... maður sogar hvert einasta orð í sig ... og sjaldan hef ég verið í jafnmiklu "sinki" við eina bók. 

---

Áður en ég fékk þessa bók í hendurnar hafði ég nýlokið við ævisögu gítarsnillingsins Ace Frehley ... fyrrum gítarleikara KISS. Hann kom dýrðinni fyrir á rúmum 300 bls. sem ekki tók mjög langan tíma að rúlla í gegnum.

Þessi saga hans er nú mjög áþekk sögum annarra tónlistarmanna sem leiðast út í drykkjuskap og dópneyslu.

Það sem mér þótti samt merkilegast í þessari bók var hversu fljótt Ace fékk leið á því að vera í KISS. Ég hélt að það hefði ekki verið fyrr en í kringum 1980 en það var strax í lok árs 1975, aðeins tæpum þremur árum eftir að bandið var stofnað. 

Ástæðuna segir hann hafa verið hversu "business-orienteraðir" félagar hans í hljómsveitinni hafi verið. Meiri áhersla á "business" og "show" en á tónlistina.

---

En svo er það játningin ... eftir að hafa lokið við ævisögu Ace ákvað ég að fá mér Laxdælu á rafrænu formi. Það er víst hægt að fá hana ókeypis á einhverri síðu sem ég man ekki lengur hvað heitir.

Eftir að vera búinn að lesa rúm 10% af bókinni (í Kindle eru ekki blaðsíður heldur prósentur) gafst ég upp ... þetta er alveg hrútleiðinleg saga. 

Endalausar nafnarunur, lýsingar af einhverjum atburðum og ferðalögum sem segja manni ekki neitt, og svo eru bara allir orðnir fúlir og þá byrja menn bara að drepa hvern annan. Frábær söguþráður.

Það má auðvitað ekki tala svona um þessar þjóðargersemar sem Íslendingasögurnar eru ... æi ég veit það ekki. Það eru bara sumir hlutir þannig að það rúmast bara ein skoðun. Sé maður á öndverðum meiði þá er maður bara "menningarsnauður fáráðlingur".

Annars get ég ekki séð menninguna í því að lesa um fólk sem útkljáir flestar ef ekki allar sínar deilur með því að drepa hvert annað. Ég held að það væri nú nær að setjast bara niður og ræða málin af einhverju viti ... en nei, nei ...

... ég er bara orðinn afskaplega þreyttur á hversu drápum, vopnaburði og stríðsrekstri er gert hátt undir höfði. Sjónvarp, útvarp, blöð, video, tölvuleikir, bækur o.s.frv.
Ég skil bara ekki þessa tilhneigingu hjá fólki að sogast að þessum hlutum. Vinsælustu bækurnar á Íslandi fyrir jólin var annars vegar hryllingssaga og hins vegar sakamálabull.

Ég held bara að þetta geti ekki verið hollt ... 

Persónulega nenni ég aldrei að horfa á stríðs-, sakamála- eða glæpamyndir, nenni alls ekki að lesa þessar bókmenntir (að undanskildum þessum 10% af Laxdælu) og nenni alls ekki að lesa, horfa eða hlusta á stríðsfréttaflutning eða fréttir af glæpum, morðum eða einhverju viðlíka ... 

Svo er sumt fólk sérlegt áhugafólk um orrustur, vopn, skriðdreka, orrustuflugvélar o.s.frv. ... frábært að sjá og vita til þess að verið er að framleiða vélbyssu sem getur skotið 200 skotum á sekúndu í 10 mínútur samfleytt ... eða eitthvað álíka ...

Æi ... nú er ég kominn út í það að vera að dæma aðra ... sem sagt út í tómt rugl ...

... en Jan Gehl er góður ... alveg djöfulli góður ... !! 


Þriðjudagur 17. janúar 2012 - Lykt, uppþvottavél og kaflaritun

"Mmmmm ... góð lykt!" sagði dóttirin þegar hún gekk inn í ruslageymslu hverfisins í kvöld. 
"Ha?!" sagði ég.
Hún endurtók sömu setninguna.
Ég hristi hausinn. "Jæja ... þú segir það!"

Já, það er óhætt að segja að hlutirnir birtist börnum og fullorðnum með ólíkum hætti.
Þessi "góða" lykt var hæfileg blanda af lykt upp úr gömlum bjórdósum, 100 kg af lífrænum úrgangi, almennu heimilissorpi, dopíu af pappa og einhverju fleira jukki.

... en hún um það. 

---

Það er ekkert sem vekur viðlíka kátínu hjá mínum gervilega syni og þegar uppþvottavélin er opnuð.

Óðara og maður lýkur vélinni upp, skríkir hann af fögnuði og kemur æðandi að á fjórum fótum. Svo reisir hann sig upp á endann með hjálp hurðarinnar og djöflast í þvottagrindunum og/eða leirtauinu, þannig að maður má hafa sig allan við ef ekki á illa að fara.

Maður getur sannarlega sagt að það þarf ekki mikið til að gleðja blessað barnið.

---

Síðustu daga hef ég verið að rita kafla í bók, sem gefin verður út í Þýskalandi fljótlega og mun kaflinn því verða þýddur yfir á þýsku. Efni kaflans er að sjálfsögðu umhverfissálfræðilegt og mun kaflinn (enska útgáfan auðvitað) verða hluti af doktorsverkefninu mínu.

Þetta doktorsverkefni er alveg að verða eitthvað sem maður getur verið ánægður með. Einn bókarkafli og þrjár rannsóknargreinar, plús inngangur og niðurstöður. Svei mér þá ...

Ritunin hefur verið ofurlítill hausverkur, því kaflinn á að vera um aðdraganda þeirra rannsókna sem ég hef unnið að á síðustu árum. Það er svolítið erfitt að vinna þannig að maður þarf eiginlega að vinda sér svona þrjú ár aftur í tímann og láta sem maður viti ekki margt af því sem maður veit núna. En í morgun náði ég utan um verkefnið þannig að aðeins á eftir að reka smiðhöggið ... það verður gert á morgun.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband