Miðvikudagur 4. janúar 2011 - PJPL, söngur og hræðileg fyrirbæri

Hér er myndband sem ég ætlaði setja inn fyrir löngu en gat það ekki því ég kláraði ekki að setja það saman fyrr en í fyrrakvöld. 

Þetta er ofurlitlar svipmyndir af syninum ... já og dótturinni í aukahlutverki ...

 

Annars hefur dagurinn farið í skrif ... já, það er verið að skrifa um umhverfissálfræði ... hvað annað?

Jú og svo æfði ég mig í söng í kvöld, eins og ég geri reyndar jafnan á kvöldin. Nýt núna leiðsagnar Per Bristow sem er gaur í Kaliforníu sem heldur úti svona online-einkatímum.  Mér finnst leiðsögn hans vera bara að virka vel fyrir mig og er hún í fullu samræmi við mínar pælingar varðandi söng og söngtækni.

Persónulega held ég að söngkennsla sé á algjörum villigötum. Það að læra að syngja getur ekki verið svona hrikalega flókið, jæja kannski getur það verið flókið upp að vissu marki en að það sé nánast undir hælinn lagt hvort maður kunni að syngja eftir margra ára nám er í meira lagi undarlegt ... ég segi ekki meira.

Það að hugsa eigi um 10 tæknilega hluti í einu meðan maður syngur, ásamt því að túlka og performa, og hafa auk þess á reiðum höndum nokkur vel valin trikk sem grípa á til ef maður lendir í vandræðum, er eitthvað sem tilraunasálfræði og hugræn sálfræði hafa sýnt fram á að er ekki hægt. Við bara getum það ekki.

Ég man alltaf vel eftir stuttri "tilraun" sem gerðum í tíma þegar ég var í sálfræðinni í HÍ.
Kennarinn sýndi okkur video sem tekið var í flugstjórnarklefa rétt fyrir lendingu. Kennarinn bað okkur um að fylgjast vel með einhverjum mæli sem birtist á framrúðu flugstjórnargluggans. Eftir nokkra stund stoppaði kennarinn videoið og spurði hvað hefði gerst í myndbandinu. Jú, jú ... allir eða um 60 nemendur voru sammála um það að mælirinn hefði náð einhverju tilteknu gildi.

En hafði eitthvað annað gerst? Nei, það hafði nú enginn tekið eftir neinu öðru.
Kennarinn kveikti aftur á videoinu og þá mátti sjá hvar risastór Boeing 747 júmbóþota stóð á miðri flugbrautinni, beint fyrir framan vélina "okkar" sem var að fara að lenda. Ferlíkið hafði þá þokað sér inn á brautina meðan allir fylgdust með mælinum. 

Það athyglisverða í þessu er að, mælirinn var eins og áður segir, staðsettur í framrúðunni þannig að júmbó-inn var beinni sjónlínu fyrir "aftan" mælinn sem allir voru að horfa á. 

Svo er verið að segja manni að halda einbeitingu á 10 tæknilegum atriðum, plús túlkun, plús trikkum þegar gefa á frá sér nokkra tóna!!

Per Bristow leggur áherslu á að fækka þessum atriðum sem þarf að halda einbeitingu, henda öllum trikkunum út í hafsauga, leggja meiri rækt við tilfinningu en hlustun, leggja meiri rækt við túlkun og performance og ... hafa gaman ... 
Þetta er í grundvallaratriðum það saman og Jón Þorsteinsson söngkennari leggur áherslu á. 

En auðvitað er þetta örlítið flóknara en þetta ... en eftir að hafa verið viðloðandi söng síðan 1998 gæti ég skrifað langan pistil um söngkennslu og söngtækni ... og geri það kannski einn daginn ;) . 

---

GHPL er búin að finna út það hræðilegasta í þessum heimi ... Nappi refur (sá sem skýtur upp kollinum í þáttunum um Dóru landkönnuð), "monster" og "lirfa"(?!?).

Þessi þrjú fyrirbæri leynast að mér skilst í hverju skúmaskoti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðar pælingar varðandi söngkennslu. Við höfum nú rætt þetta mikið og oft í gegnum tíðina...

Ég hef komist að því að margt af því sem ég hef upplifað í mínum söngtímum skrifast á það að kennararnir hafa hreinlega verið of "góðir" söngvarar. Náttúrutalentar sem hafa aldrei þurft að spá í því hvernig þeir geta það sem þeir geta og vita í raun ekkert hvað þeir eru að gera, þeir bara gera'ða! Þegar svo kemur að því að kenna öðrum grípa þeir í allt sem þeir hafa nokkurn tímann heyrt og séð svo úr verður þessi líka fíni hrærigrautur :)

Svo ég vitni í Einstein (hann var nú alveg ágætur): “If you can't explain it simply, you don't understand it well enough” :)

Anna Klara (IP-tala skráð) 7.1.2012 kl. 10:31

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Ég er hjartanlega sammála þér í þessu ... ég held að orð Einsteins gildi líka um hinn flokkinn, þ.e. söngkennara sem eru ekki náttúrutalentar :) .

Páll Jakob Líndal, 8.1.2012 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband