Þriðjudagur 3. janúar 2011 - Hopp í Friskis og skyldur á heimilum

Núna er fyrsta líkamsræktaræfingin á árinu 2012 að baki. Mikið svakalega var hún góð. Ég hef skipt um líkamsræktarstöð, þannig að ég er þó enn hjá sömu keðjunni, þ.e. Friskis og Svettis, en vegna búferlaflutninganna um daginn hætti ég á stöðinni á Väderkvarnsgatan og fór þess í stöðina í Ultuna. 

Geri ráð fyrir að flestum sé nokkuð sama um þetta í sjálfu sér en það sem ég vildi segja er að þessi skipting hefur boðið upp á nýja möguleika því nú hef ég aðgang að stórum eróbikk-sal þar sem ég get gert öðruvísi æfingar en mögulegt var að gera á hinum staðnum.

Í dag, líkt og á æfingunum fyrir áramót, þá var ég að hoppa upp á palla. Var t.d. að hoppa upp á 60 cm pall í dag. Þessi hopp eru ótrúlega góð.  Þetta eru afleiðingar þess að skoða cross-fit æfingar og horfa á video með Anný Mist hirða heimsmeistaratitilinn í cross-fit. Svo tók ég framstigsæfingar með stöng. Það vildi nú ekki betur en svo að ég fékk ótrúlegan sinadrátt aftan í lærið eftir um 20 framstig. Greinilegt að þessir vöðvar hafa ekki mikið verið notaðir upp á síðkastið.

En af því að ég var að nefna Anný Mist ... hvar er nafnið hennar á tilnefningalistanum fyrir Íþróttamann ársins 2011?? Það verður nú að segjast með ólíkindum að heimsmeistari nái ekki að komast á lista yfir 10 bestu íþróttamenn á Íslandi. Annars eru nú svo sem engin aumingjar á þessu tilnefningalista. Ég veit að vísu ekkert um þennan golfara ... en það segir nú sjálfsagt meira um mig en hann.

---

Yfir kvöldmatnum var Lauga að segja mér frá bók sem hún var að lesa ... man ekki hvað hún heitir eða hver skrifar hana en hún fjallar um fjölskyldur og samskipti innan þeirra.

Umræðan bar okkur að því álitaefni hvort börn eigi að fá "plikt" innan heimilisins ... m.ö.o. eiga börn að hafa skyldur innan heimilisins, náttúrulega svona fyrir utan að vera sæmilega húsum hæf? 
Höfundur bókarinnar segir ekkert um það í sjálfu sér heldur ítrekar að slíkar skyldur bera að umgangast af mikill varfærni.

T.d. sagði hann að tilgangslaust væri að skylda barn allt upp að 10 ára aldri taka til í herberginu sínu þrisvar í viku. Barnið hefði einfaldlega ekki vitsmuni til að geta staðið við það. Þegar allt kæmi til alls skildi barnið ekki "dílinn".

Mér finnst þetta athyglisvert.

Reyndar verð ég að segja að ég er svona fremur andsnúinn því að börn fái tiltekið hlutverk innan heimilisins sem þau eiga að inna af hendi.
Frekar er ég hlynntur því að verkefni sem þarf að vinna, verkefni sem eru ólík og fjölbreytt, séu sett í einhvern áhugaverðan búning, þar sem lögð er áhersla á tilgang verksins. Verkið er svo unnið í góðri sátt og allir sem vilja fá að vera með en engu að síður er gefið svigrúm til að vera ekki með.

Dæmið er hinsvegar sett upp þannig að sá/sú sem vill ekki vera með er bara alveg rosalega "óheppin(n)" að vilja ekki vera með.

Pælingin hjá mér með þessu er að börnin fá að kynnast ólíkum verkum í stað þess að eiga alltaf að gera sama verkið, kannski á hverjum degi. Ekki síður, læra þau að vinna í hóp, þar sem fólk hjálpast bara að að vinna öll þau verk sem þarf að vinna og ekki skiptir máli hver vinnur hvað.

Þegar ég skrifa þessar línur dettur mér í hug, aðili sem starfaði á sama vinnustað og ég fyrir um 10 árum. Þessi aðili sem vann hin ýmsu verk innan stofnunarinnar, þverneitaði að skera fjórar vínarbrauðslengjur í bita á föstudagsmorgnum, vegna þess að það stóð ekki í starfslýsingunni. Breytti það engu um, þó í starfslýsingunni stæði að hann ætti að taka til leirtau fyrir máltíðir og ganga frá í matsal eftirá. 

Ég er nú kannski ekki að segja að börn með skyldur á heimilum verði öll slagbrandar á við þennan, en ég er engu að síður hugsi yfir því, hvaða sjónarmið er verið að innræta með þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér skilst að Annie Mist (eða íþróttin) sé ekki aðili að ÍSÍ og því ekki gjaldgeng í kjörinu. Þetta á einnig við um Gunnar Nelson sem ku vera einn sá besti í heimi í hinum ýmsustu glímu- og bardagaíþróttum. Íþróttafréttamenn gáfu skít í þetta fyrir nokkrum árum og völdu kraftlyftingamann sem íþróttamann ársins en sá féll á lyfjaprófi viku eftir kjörið! Skylduþátttaka í lyfjaprófum og eflaust eitthvað fleira fylgir aðild að ÍSÍ en ég veit svo sem lítið um þetta ... og ekki veit ég af hverju kraftlyftingakappinn fór í lyfjapróf ef hann þurfti þess ekki :)

Frábærar pælingar í sambandi við skylduverkefni barnanna ... og eins og svo oft áður færð þú mann til að hugsa og spá í ólíkustu hluti :)

Stjóri (IP-tala skráð) 4.1.2012 kl. 00:56

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Nújá ... þá er komið svar við þessum vangaveltum mínum ... síðuhaldari þakkar Stjóra kærlega fyrir ábendinguna :) .

Páll Jakob Líndal, 4.1.2012 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband