Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Mánudagur 17. janúar 2011 - Forsýning

 
 
Væntanleg(ur) í maí 2011 ...

Sunnudagur 16. janúar 2011 - Fleiri áfangar nást

Hlutirnir gerast hratt hér í Uppsala þessi dægrin, því í kvöld var sett nýtt met ...

... Guddan tók sig til að pissaði í klósettið ... og ekki nóg með það ... hún tilkynnti áður en athöfnin átti sér stað að hún þyrfti að komast á klósettið.

Já, þótt almennt þykir nú ekki í frásögu færandi að fólk noti klósett, þá er fyrsta skiptið alltaf áfangi.

Og svo tilkynnti Syd aftur í dag að "pabbi væri bestur" ...

... ég ítreka það sem sagði í gær:

Það er eitthvað vit að komast í kollinn á henni :) . 

---

Annars má ég ekki vera að neinu meira kjaftæði nú, því vinnan kallar ... 


Laugardagur 15. janúar 2011 - Sögur af stubb

Það gerðust tveir stórkostlegir hlutir í dag.

Fyrir það fyrsta tók dóttirin sig til og pissaði í kopp í fyrsta skiptið á ævinni ... og hlaut mikið lof fyrir.  Stór áfangi má segja.

Í annað stað sagði hún "já" þegar hún var spurð spurningar.  Hingað til hafa svörin yfirleitt verið "nei" og "á morgun".  En hún sem sagt sagði "já" ...

... og hver var þá spurningin sem fékk svona jákvæðar undirtektir ...

"Guðrún ... mátt þú vera upp á eldhúsborðinu?" "Já.

---

Í gær gerðust líka merkilegir hlutir.

Guddan var spurð að því hver væri bestur ...

"Pabbi er bestur" var svarið ... 

Það er eins og það sé eitthvað vit að komast í kollinn á henni ... það er alveg á hreinu ;) . 

---

Hreint magnað atvik átti sér einnig stað ...

Sverrir, Dana og Jóndi komu í heimsókn til okkar í gær að horfa á handboltaleikinn við Ungverja. Eftir leik ákváðum við Sverrir svo að skreppa út í búð að kaupa eitthvað í matinn.

Stubbur kom með ... og krafðist þess jafnframt að fá að hafa stóran hringsundkút með ... sjálfan Kaj krókódíl.

Svo var dröslast með þennan kút út um alla búð og ég var sífellt að röfla um þennan kút bæði við Sverri og Gudduna sjálfa ...

"Ég hef nú aldrei farið með neinum út í búð sem er með kút undir hendinni ... "
"Hvað ertu eiginlega að gera með þennan kút?"

o.s.frv. o.s.frv.

En Syd vissi sínu viti því rétt utan við búðina flaug hún á hausinn á klakabunka og það hefði ekki verið fyrir þá einskæru heppni að hún hélt á Kaj krókódíl, hefði restinni af kvöldinu sennilega verið varið á slysadeildinni.

Trýnið á stubb skall nefnilega beint á Kaj krókódíl sem bjargaði því sem bjarga þurfti.

Hér eftir mun Kaj krókódíll fá að koma með hvenær sem þess er óskað ... gjörsamlega athugasemdalaust.  

--- 

Loks er konfektkassamynd af mæðgunum ...  

 


Fimmtudagurinn 13. janúar 2011 - Lestur og fleira

Það var dálaglegt upplitið á dótturinni þegar hún vaknaði í morgun ... eins og skorinn hrútur ...

Blessað barnið hefði nú mátt erfa eitthvað annað frá mér en þetta blóðnasarvesen ...

---

Annars hefur Syd verið í alveg hörkustuði í dag ... og rifið tiltölulega lítið kjaft ...

Hefur þó nokkrum sinnum sagt okkur Laugu að "sluta að tala" ... kannski er sú beiðni alveg réttlætanleg.

Það var engin snjóþotuferð farin í dag ... bara innivera og lestur ...


Gluggað í Andrés-blað ...


Gluggað í stóru prinsessubókina ...

---

Fór í dag og átti góðan fund með leiðbeinandanum mínum ...

... mikið af verkefnum framundan ... það er óhætt að segja.

Eiginlega svo mikið að ég fékk smá fiðring í magann ... sem gerist nú ekki oft þegar verkefni liggja fyrir. 


Miðvikudagur 12. janúar 2011 - Öfugsnúið

Það er alveg merkilegt hvað ég hef komist upp með það að hafa drykki af öllum stærðum og gerðum á skrifborðinu hjá mér án þess að velta ílátunum um koll þannig að sullist yfir alla "merkilegu" pappírana og tækin sem eru á borðinu. 

En í dag brustu múrar Jeríkó þegar ég rak lúkuna í glas sem í var epladjús. Markmiðabunkinn (þ.e. markmiðin mín 100) fór á flot ásamt einhverju glósunum.

Og ég var ekki sérlega kátur nema fyrir það að glasið valt til vinstri en ekki til hægri. Ef hægri ... þá hefði ég sennilega verið myndavélinni fátækari, dagbókin hefði farið í klessu, sem og bók sem ég fékk í jólagjöf. Þar að auki hefðu öll jólakortin subbast út ... en þau eru einmitt á borðinu hjá þessa dagana.

---

Guddan gerði það gott í dag þegar við komum heim af leikskólanum.

Hún vildi óð og uppvæg fara út í snjóinn ... bara varð að komast út að "moka" eins og það var orðað.

Ok ... þar sem ég er hættur að vera "5 mínútna leikfélagi" þá bara samþykkti ég það. Við náðum í "púlkuna" (snjóþotuna) og lögðum af stað.

Allt gekk vel og fórum við í brekkuna góðu, þar sem meiningin var að Guddan gæti tekið nokkrar salibunur.

Nema hvað í miðri fyrstu salibunu velti hún sér af snjóþotunni og rúllaði sér fram og aftur æmtandi og skræmtandi í brekkunni ...

... og þegar ég nálgaðist var svo sannarlega hellt úr skálum reiði sinnar, jafnvel svo að þegar tækifæri gafst, barði hún mig í lærið til að leggja áherslu á orð sín.

Eftir smá vafstur átti eftirfarandi samtal sér stað, þar sem öllum spurningum var svarað með miklum þjósti. 

"Viltu fara inn?" "Á morgun."

"Viltu vera úti?" "Á morgun."

"Viltu renna þér á "púlkunni?" "Á morgun."

"Ætlar þú bara að liggja hérna?"  "Á morgun."

Smá þögn. 

"En þú vildir fara út?!" "Nei."

"Nújá ... ?!?

Þarna rann upp fyrir mér að frekari rökræður væru gjörsamlega tilgagnslausar ... 

... ég neita því ekki að mér fannst þessi útivera vera dálítil tímasóun ... svo ég tók fröken Sydney undir hendina án frekari málalenginga.

 

Þessi mynd er tekin í mun betur heppnaðri snjóþotuferð fyrir rétt rúmu ári.
16. janúar 2010. 


Þriðjudagur 11. janúar 2011 - Að borða hollt

Ekki veit ég hversu oft maður hefur heyrt að mataræðið skipti máli fyrir andlegt og líkamlegt ástand.

Milljón sinnum ... lágmark!

Í gegnum tíðina, hef ég samt tekið þann pól í hæðina að líta framhjá því. "Gúrkur og sesamfræ eru fyrir aumingja" hefur dálítið verið "attitjúdið" hjá mér. 
Maður étur bara það sem maður vill og hreyfir sig þá bara þeim mun meira.

--- 

Raunveruleikinn er hinsvegar allur annar því maður étur eins og hross en hreyfir sig lítið sem ekkert.  

---

Enda var svo komið í síðustu viku, eftir hátíðarnar að ég gat varla orðið hreyft mig fyrir stífleika og verkjum í vöðvum sem má rekja til subbulegs mataræðis annars vegar og fullkomins hreyfingarleysis hinsvegar ...

Ójá ... ég át eins og ég gat alla daga vegna þess að ég var alltaf alveg að fara að hreyfa mig ... en svo komst ég bara aldrei til þess vegna þess að það var alltaf kominn matartími þegar ég ætlaði að fara gera eitthvað. Þvílík óheppni!!

En svo fór þó loks að ég drattaðist í fótbolta í síðustu viku ... að drepast í skrokknum, gat ekki drullu, reifst bara og skammaðist og var viðbjóðlega tapsár. Hét því að spila aldrei fótbolta aftur.

Og af því það var svo leiðinlegt í boltanum og vont að hreyfa sig, þá hef ég ekki beinlínis fundið fyrir argandi löngun til vinna frekari afrek.

---

Þá settist ég niður með sjálfum mér og fór að hugsa um þessi mál í samhengi og hvenær ég yrði í standi til að byrja að hreyfa mig.

Þetta eru helstu staðreyndir málsins. 

1. Ég er að bólgna út af spiki.
2. Ég hef engan áhuga á því að bólgna út af spiki.
3. Ég verð að hreyfa mig til að bólgna ekki út af spiki.
4. Ég nenni ekki að hreyfa mig vegna þess að ég finn fyrir miklum stirðleika og verkjum í fótum.
5. Ein helsta ástæða þess að ég verð stirður og fæ verki í fæturna er subbulegt mataræði og óhófleg kókdrykkja.
6. Samt ætla ég að byrja á því að hreyfa mig áður en ég tek til í mataræðinu vegna þess að gúrkur og sesamfræ eru fyrir aumingja.

Þetta lítur svolítið út eins og vítahringur ...  

Þess vegna held ég að það þurfi að innleiða breytingar: Ég hlýt að þurfa að taka til í mataræðinu hjá mér til að geta hreyft mig og komið þannig í veg fyrir óhóflega spikmyndun sem er það sem ég kæri mig ekki um.

---

Breytingar á mataræði hófust sl. laugardag og strax í dag er ég bara allur annar ... gjörsamlega allur annar.

Mataræðið er samt ekkert eitthvað 100% en 100x betra en það var um hátíðarnar. 

---

Þetta er náttúrulega alveg "stupid" að vera 37 ára að kvarta og kveina yfir verkjum, og komast ekki út að hreyfa á sér r******ið.

Núna verð ég líklega að sætta mig við að ég, líkt og allir aðrir, hef gott af því að borða hollt.

--- 

Fyrsti liður í þeirri vinnu er að "kötta" út hveitibrauð (sem ég reyndar gerði í haust), minnka mjólkurneyslu, auka grænmetis- og ávaxtaneyslu, skera niður kók, sælgæti og kexkökuát, og borða minna af rauðu kjöti.  Já, og bara borða minna yfir höfuð.

Sjáum hvert þetta leiðir mann. 

Rifjum upp myndina sem birtist á þessu bloggi í sumar ... ;) 

 


Mánudagur 10. janúar 2011 - Frídagur í skólanum

Það var frídagur í leikskólanum í dag ... þetta sem kallað er því skrýtna nafni "starfsdagur kennara". Eftir því sem ég best veit var allsherjar "starfsdagur kennara" í Uppsala.

Lauga fór til Stokkhólms í dag ... 

Þetta þýddi að við Guddan vörðum deginum saman ...

---

Annars hef ég tekið eftir því hvað ég leik alltof lítið við Gudduna, svona almennt séð.  

Ég er svona "fimm mínútna leikfélagi" ... sem þýðir að ég leik við hana í svona hámark fimm mínútur í einu og svo fer ég að gera eitthvað annað. Ekki endilega neitt merkilegt ... bara eitthvað.

Ég fór nýlega að pæla í því af hverju ég er bara "fimm mínútna leikfélagi" og hef komist að þeirri niðurstöðu að ég fyllist óþoli við að leika við hana ... 

... einhvers konar tilfinning um að tímaeyðsla sé að eiga sér stað.

Svona svipað og þegar maður keyrir einhvern í apótek og bíður út í bíl ... og afgreiðslan tefst af einhverjum ástæðum og það er ekkert í útvarpinu til að hlusta á. Þá fyllist maður samskonar óþoli. 

---

Ég dauðskammast mín fyrir þetta ... satt að segja ...

... og þess vegna tók ég mig tak í dag og sinnti engu nema samskiptum við dótturina.

Engir "short-cuttar" eins og video voru leyfðir, engar skammir og rifrildi, grátur eða gnístan tanna ... bara "basic"-atriði tekin fyrir ... kjöt og kartöflur ... 

Við spjölluðum saman, sungum, rökræddum aðeins ;) , dönsuðum, skrifuðum, teiknuðum, lásum, fórum út, fórum í gamnislag, borðuðum, drukkum, fórum í eltingaleik, lögðum okkur og fórum svo í sund með Sverri og Jónda í kvöld. 

Við vorum sumsé algjörir perluvinir í dag ... og óþolið hjá mér var í algjöru lágmarki.

Þetta er náttúrulega ekki hægt að láta svona ... ég veit ekki hvað maður heldur að maður sé eiginlega ... andskotinn hafi það!!!


Manneskja dagsins hjá síðuhaldara ... 


Sunnudagur 9. janúar 2011 - Dálítið af svolitlu

Margt skemmtilegt búið að gerast í dag ...

Fórum að skoða dýrin í 4H Gränby ...

... og hittum svo Dönu, Sverri og Jónda í kaffi í Gränby Centrum. Einmitt þar tilkynnti sá síðastnefndi að síðuhaldarinn væri bæði mjög ruglaður og pirrandi ... :) 

... augljóst að ég verð eitthvað að endurskoða framkomu mína ... :)

 
Frá kaffinu í Gränby Centrum.

Svo var svolítið unnið og spjallað ...

---

Í kvöld náðist góður áfangi þegar Guddan klæddi sig í fyrsta skiptið (næstum) hjálparlaust í buxur ... 

... buxurnar sneru að vísu öfugt. Vrtist sú stutta átta sig á því að ekki var allt með feldu þegar hún reyndi að setja hendurnar í vasana. Eitthvað skrýtið ... 

---

Í kvöld fórum við líka yfir fornöfn liðsmanna KISS ...

 

 

 


Laugardagur 8. janúar 2011 - Bíóferð og ábyrgð

Vegna áhuga míns á hvatningarsálfræði þá kemur það fyrir endrum og eins að fólk leitar ráða hjá mér hvernig það á að bæta líf sitt.

Eitt af því fyrsta sem ég geri þegar slíkt ber á góma er að slengja framan í fólk að það sé eins og það er vegna þess að það vilji vera þannig.

Flestir bregðast ókvæða við ... 

--- 

Tökum sem dæmi manneskju sem er að kvarta yfir því hvað lífið sé leiðinlegt vegna þess að það gerist aldrei neitt spennandi.

Viðbrögðin láta ekki á sér standa þegar maður segir: "Já, það er vegna þess að þú vilt hafa lífið leiðinlegt og óspennandi". 

"Hva ... heldurðu að ég vilji láta mér leiðast?!? Heldurðu að ég vilji lifa lífi þar sem ekkert spennandi gerist?!? Það VILL enginn lifa þannig lífi!!!"

"Af hverju er þetta þá svona leiðinlegt  hjá þér?"

Þá eru nægar afsakanir á reiðum höndum ... "ég hef ekki tíma", "ég á ekki pening", "ég er ekki í stuði", o.s.frv.

Það liggur því nokkuð ljóst fyrir að ef þessi aðili trúir þessum afsökunum sínum, þá hlýtur hann með öðrum orðum að telja hag sínum betur borgið með því að gera ekki neitt skemmtilegt og spennandi ... 

Tækifærin eru út um allt en þau eru bara ekki nýtt ... það er valið að nýta þau ekki ... viljinn til að nýta tækifærin er ekki fyrir hendi.

Og ef tækifærin eru það sem gera lífið spennandi, þá hlýtur að mega segja að sá sem upplifir aldrei neitt spennandi vilji ekki upplifa neitt spennandi.

---

Málið snýst því um að ábyrgð ... þ.e. að bera ábyrgð á sjálfum sér.

Það er oft alveg svakalega erfitt vegna þess að það kallar á aðgerðir ... sem geta verið erfiðar og ógnvekjandi.

Það sem vinnst hinsvegar á móti er frelsi ... því um leið og ábyrgðin er viðurkennd sest maður í ökumannssætið.

Sem er gaman og spennandi ... en stundum erfitt og ógnvekjandi ...

---

Ég varð að skrifa um þetta í dag vegna þess að ég fékk svo fína tilvitnun senda í tölvupóstinn minn ... einmitt í dag.

"Þú er eins og þú ert vegna þess að svoleiðis langar þig til að vera. Ef þig raunverulega langar til að vera öðruvísi, þá ættir þú að vera að vinna í því í þessum töluðu orðum".
Það er Fred Smith stofnandi FedEx sem á þessi orð.

---

Af heimavígstöðvunum er það helst að segja að blað var brotið í dag þegar Houdini fór í fyrsta skipti í bíó.

Það var sýning kl. 13.10 í Filmstaden - Prinsessan Lillifee 

 

Upplifunin var mikil.

Það var talað í bíóinu ... þegar froskurinn birtist var kallað "Froskur" (reyndar á sænsku ... "groda") og þegar prinsessan flaug um var kallað "Prinsessa fljúga" o.s.frv.

Bíóferðin tók svo á að ekki dugði minna en 2 klst svefn á eftir til að jafna sig. 


Föstudagur 7. janúar 2011 - Sirkusinn endurvakinn

Síðla sumars skruppum við í sirkus, sem er ekki í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að Syd upplifði þar einn af hápunktum ævi sinnar.

Frá þessu var sagt hér á blogginu einhvern tímann.

Svo ber við í dag, þegar, aldrei þessu vant, er kveikt á sjónvarpinu að sýnt frá þessum sama sirkus ... þ.e. Cirkus Maximus.

Þar með gafst tækifæri á að upplifa alla dýrðina á nýjan leik ... og ó já ... það var svo sannarlega gert.

Guddan stillti sér upp í svona 10 cm fjarlægð frá sjónvarpinu og fylgdist með hverri hreyfingu á skjánum og rak upp margvísleg fagnaðaróp á milli þess sem hún gerði tilraun til að kyssa vini sína úr sirkusnum.

 

Annars er ég búinn í dag að vera á fullu í að vinna í rannsókninni sem meiningin er að fari fram á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi síðar í þessum mánuði.

Þetta er rosalega spennandi verkefni sem þarna er á ferðinni og það verður alveg hrikalega spennandi að sjá hvað kemur út úr því. 

Djúpavogsskýrslan fór í yfirlestur til þriggja aðila í dag ... þannig að það mál er allt í góðum fasa.

Á hliðarlínunni bíður svo doktorsverkefnið en það mun sennilega detta inn yfir helgina ... leiðbeinandinn að koma heim úr fríi og tími til kominn að legga algjöra lokalokalokahönd á greinina sem ég er búinn að minnast oftar á, á þessu bloggi, en ég hef sjálfur áhuga á. 

Ef ég drykki brennivín þá held ég að ég myndi skoli niður einni vodka-flösku sama dag og ég sendi þessa f***ing grein til Journal of Environmental Psychology ... slíkur verður áfanginn.

Alltént verður full ástæða til að gera sér dagamun þegar sá áfangi næst.

---

Ekkert lát er á snjókomu hérna í Uppsala ...

 

... annars er engin ástæða til að kvarta yfir því ...

Andrés stórvinurinn á Djúpavogi sagði mér í gær að vindhraði í Hamarsfirði hefði náð 69 metrum á sekúndu í fyrradag. Til samanburðar má geta þess að 32 m/s teljast fárvirði ... þannig að það hefur eitthvað blásið ...

... og sennilega hefðum við ekki farið í heita pottinn í þeirri veðurhæð líkt og við gerðum í lok október, sama dag og ég hélt fyrirlestur í Löngubúð á Djúpavogi.

Þá var nú alveg slatta hvasst ... þó 69 m/s hafi verið í ljósára fjarlægð ...  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband