Miðvikudagur 12. janúar 2011 - Öfugsnúið

Það er alveg merkilegt hvað ég hef komist upp með það að hafa drykki af öllum stærðum og gerðum á skrifborðinu hjá mér án þess að velta ílátunum um koll þannig að sullist yfir alla "merkilegu" pappírana og tækin sem eru á borðinu. 

En í dag brustu múrar Jeríkó þegar ég rak lúkuna í glas sem í var epladjús. Markmiðabunkinn (þ.e. markmiðin mín 100) fór á flot ásamt einhverju glósunum.

Og ég var ekki sérlega kátur nema fyrir það að glasið valt til vinstri en ekki til hægri. Ef hægri ... þá hefði ég sennilega verið myndavélinni fátækari, dagbókin hefði farið í klessu, sem og bók sem ég fékk í jólagjöf. Þar að auki hefðu öll jólakortin subbast út ... en þau eru einmitt á borðinu hjá þessa dagana.

---

Guddan gerði það gott í dag þegar við komum heim af leikskólanum.

Hún vildi óð og uppvæg fara út í snjóinn ... bara varð að komast út að "moka" eins og það var orðað.

Ok ... þar sem ég er hættur að vera "5 mínútna leikfélagi" þá bara samþykkti ég það. Við náðum í "púlkuna" (snjóþotuna) og lögðum af stað.

Allt gekk vel og fórum við í brekkuna góðu, þar sem meiningin var að Guddan gæti tekið nokkrar salibunur.

Nema hvað í miðri fyrstu salibunu velti hún sér af snjóþotunni og rúllaði sér fram og aftur æmtandi og skræmtandi í brekkunni ...

... og þegar ég nálgaðist var svo sannarlega hellt úr skálum reiði sinnar, jafnvel svo að þegar tækifæri gafst, barði hún mig í lærið til að leggja áherslu á orð sín.

Eftir smá vafstur átti eftirfarandi samtal sér stað, þar sem öllum spurningum var svarað með miklum þjósti. 

"Viltu fara inn?" "Á morgun."

"Viltu vera úti?" "Á morgun."

"Viltu renna þér á "púlkunni?" "Á morgun."

"Ætlar þú bara að liggja hérna?"  "Á morgun."

Smá þögn. 

"En þú vildir fara út?!" "Nei."

"Nújá ... ?!?

Þarna rann upp fyrir mér að frekari rökræður væru gjörsamlega tilgagnslausar ... 

... ég neita því ekki að mér fannst þessi útivera vera dálítil tímasóun ... svo ég tók fröken Sydney undir hendina án frekari málalenginga.

 

Þessi mynd er tekin í mun betur heppnaðri snjóþotuferð fyrir rétt rúmu ári.
16. janúar 2010. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband