Færsluflokkur: Bloggar
10.4.2012 | 21:46
Þriðjudagur 10. apríl 2012 - Nokkrir punktar
Þá eru nú páskarnir liðnir ...
Á þessum bæ var m.a. skroppið í Skansen í Stokkhólmi í líka þessum bruna and$%&"#s gaddi. Samt mjög fín ferð.
Myndirnar verða að bíða því GHPL tók að sér það vanþakkláta verkefni að týna myndavélinni þegar hún var að leika sér með hana hérna innanhúss í gær. Sennilega liggur hún nú á góðum stað milli þils og veggjar.
Annars er óhætt að segja að blessuð börnin eigi stórleiki hér á hverjum degi ... ég þarf satt best að segja að fara að skrá þetta niður hjá mér jafn óðum. GHPL á margar gullvægar og kolbrenglaðar setningar á hverjum degi, t.d. "Af hverju varstu að tala með mér?" sem útleggst á sæmilegri íslensku "Af hverju vildirðu tala við mig?"
Þessa dagana er algjört teikniæði ... það hefur reyndar staðið í töluverðan tíma en það hefur aldrei held ég náð þeim hæðum sem nú. Það er bókstaflega teiknað á allt sem hægt er að teikna á. Blaðabunkinn í prentarann sem taldi svona 450 blöð fyrir 1,5 mánuði telur svona 30 blöð núna (reyndar er nú meiningin að eitthvað af þessum 420 blöðum verði nýtt betur).
En Guddan er eins og Stefán frá Möðrudal að því leytinu til að hún er mjög trú viðfangsefninu og teiknar næstum alltaf það sama, þ.e. prinsa og prinsessur (en Stefán málaði næstum ekkert annað en Herðubreið).
PJPL er í feiknastuði líka ... setti í dag persónulegt met þegar hann svaf í morgunlúrnum í 2,5 klukkutíma. Hann var að vonum ánægður með árangurinn.
Það er gaman að sjá hversu mikla aðdáun hann hefur á systur sinni. Lýsir hún sér ekki síst í því að hann reynir að elta hana á röndum um alla íbúðina. Oftast nær virkar það bara ágætlega enda GHPL oft mjög góð við hann ... og tekur raunar mjög virkan þátt í uppeldinu á honum. Sussar á hann og siðar til af miklum móð. Stubbur tekur því bara ágætlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2012 | 21:33
Föstudagur 6. apríl 2012 - Föstudagurinn langi
"Ég elska að horfa á video" sagði GHPL mjög einlæglega við mig í kvöld. Slíkt kom mér ekki á óvart ... ég held að ekkert í heimi GHPL geti komið í stað þess að horfa á video. Alveg merkilegt!
Reyndar tók aðeins að syrta í álinn þegar Nabbi refur, ein söguhetjan í Dóru landkönnuði, birtist en Guddan hefur tekið upp á því að vera alveg logandi hrædd við hann. Sem er líka mjög merkilegt því Nabbi refur er einhver saklausasti refur í heiminum. Hann er svolítið stríðinn ... það er allt og sumt ... en hvað gerist í kolli þessarar litlu dömu er ekki gott að geta sér til um.
Í dag skruppum við niður í bæ, sýndum okkur og sáum aðra. Mjög góð ferð ... nokkuð kalt þó ... og já, veðurguðirnir tóku upp á því að láta snjóa í nótt og allt var hvítt í morgun ...
Við fengum okkur gott að borða í Forno Romano, Guddan lék við hvern sinn fingur og PJPL gerði það líka. Hann var ógurlega hress og meðan etið var vildi hann endilega rölta út af veitingastaðnum og inní matvöruverslun sem var beint á móti. Það var víst það mest spennandi í veröldinni þann daginn.
Systkinin að leik ... Syd valdi sjálf "dressið" sem hún er í ...
Meðan Steinunn frænka Laugu sem dvelur hjá okkur þessi misserin skrapp í eina búð ... ákvað GHPL að pósa í skóverslunni Bianco.
Þetta með að hún sé að pósa er sagt í fullri alvöru því svona stillti hún sér upp og óskaði eftir að tekin væri mynd. Steinunn sagði í dag að hún hefði aldrei kynnst nokkru barni sem pósaði jafn mikið og GHPL ... hvaðan þau ósköp eru komin skal ég alls ekkert segja um ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fór í "absolút" tilgangslausustu strætóferð ævi minnar í morgun. Guddan var með í för enda tilgangur ferðarinnar að fara með hana á leikskólann (skírdagur er ekki frídagur í Svíþjóð). Allt gekk eins og í sögu meðan ekið var frá Gottsunda til Årsta. Það var lesið, rifið kjaft, híað út um afturrúðuna á aðra bílstjóra (nýjasta æðið hjá GHPL er að sitja aftast í strætónum) og spjallað saman.
Svo stigum við út, gengum spölkorn. "Mér er illt í maganum" sagði Guddan allt í einu. Ég hlustaði nú lítið á það enda eru "magaverkir" mjög tíðir hjá dótturinni, sérstaklega þegar hún nennir ekki eða vill ekki gera það sem fyrir hana er lagt.
Ég hefði samt betur hlustað því hún var varla búin að sleppa orðinu þegar jógúrtstrókur stendur út úr munninum á henni. Og svo var bætt um betur. Og svo var enn bætt um betur. Þarna stóðum við feðginin á göngustíg með jógúrtpolla allt í kringum okkur auk þess sem hvítir taumar teygðu sig niður eftir "randagallanum" (þ.e. samfestingnum sem hún klæðist þegar hún fer út).
Eftir að hafa þurrkað gallann eins og hægt var farið á leikskólann til að tilkynna ástandið og svo var haldið beint heim aftur.
Þess má þó geta að GHPL hefur verið hin hressasta síðan þetta atvik átti sér stað en gagnsemi ferðarinnar var nákvæmlega engin ... maður er nú ekkert óður og uppvægur að fá að sitja í strætó þessi dægrin ...
---
Annars er gaman að sjá hvað Guddan hefur tekið mikið stökk síðustu vikur ... ég merki greinilegan mun á henni fyrir og eftir Íslandsferðina.
Hún talar skýrar, hún skilur meira, er glaðari, vingjarnlegri og samvinnufúsari en áður ... ekki amalegt það!
---
Að öðru leyti var dagurinn nokkuð hefðbundinn ... ég sat fyrir framan tölvuna og vann. Var m.a. að skrifa grein um málefni Laugavegarins í Reykjavík. Svo skrapp ég út að skokka og æfði mig svolítið að syngja.
Það er óhætt að segja að söngurinn hjá mér sé að taka á sig nýja mynd þessa dagana. Nálgunin hjá mér er gjörólík þeirri sem sífellt var verið að hamra á í náminu.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að söngur og raddtækni séu tvö aðskilin atriði, þar sem hið fyrra hvílir á hinu síðara. Í formlegu söngnámi er þó miklu meira fókuserað á fyrra atriðið og raddtækninni tilviljanakennt blandað við eftir hentugleika þannig að úr verður eitthvað mjög torskilið viðfangsefni.
T.d. er mér með öllu óskiljanlegt að verið sé að ræða við söngnemenda um hvort sjást eigi í tennurnar þegar sungið er á sama tíma og nemandinn getur ekki sungið með afslappaða tungurót. Það að geta ekki sungið með afslappaða tungurót er raddtæknilegt atriði, það hvort sést í tennurnar hefur með ákveðinn hljóm að gera sem byggist á smekk. Enda er það svo að sumir söngkennarar vilja að sjáist í tennurnar en aðrir ekki. Hinsvegar vilja allir söngkennarar að nemendur syngi með afslappaða tungurót.
Málið er einfaldlega þannig að ef ekki tekst að leysa um tungurótina mun þetta atriði með tennurnar ekki skipta neinu máli. Ástæðan er sú að með fasta tungurót mun viðkomandi nemandi mun aldrei geta sungið neitt af viti. Fyrr en síðar mun hann lenda í öngstræti hvort sem tennurnar sjást eða ekki.
Svona er það ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2012 | 22:03
Miðvikudagur 4. apríl 2012 - Að standa uppréttur er mikið mál
Nú er svo komið á þessum bæ að allir standa uppréttir ... ójá, sonurinn hefur nú látið af því barnalega atferli að skríða um á fjórum fótum. Hann endanlega náði tækninni meðan ég var á Íslandi. Núna gengur hann um eins og herforingi, reyndar alltaf eins og hann sé að detta fram fyrir sig og auk þess er hann svolítið valtur. Hann má því ekki við miklu ... eitt lítið pot í öxlina getur alveg dugað til að setja allt á annan endann.
Það er geysilegur munur á honum og GHPL. Á sama aldri gat GHPL alls ekki staðið upprétt hjálparlaust, þrátt fyrir ákafar tilraunir þess efnis. Stóra vandamálið hjá henni var, og víst má telja að það hafi truflað "processinn" töluvert, að hún lærði aldrei að bregðast við ójafnvæginu. Því var það svo að í hvert sinn sem hún fann að jafnvæginu var ábótavant, spenntist hún öll upp og pinnstíf datt hún svo þráðbeint á höfuðið.
Það er svolítið merkilegt og raunar rannsóknarefni út af fyrir sig af hverju GHPL hoppaði svona sannfærandi yfir þennan hluta þroskaferlisins. Hugsanleg skýring er sú að hún hreyfði sig lítið af sjálfsdáðum á fyrstu stigum ævi sinnar en ástæða þess var að við vorum á miklu flandri út um allar trissur þegar við bjuggum í Sydney og GHPL dvaldi löngum stundum í BabyBjörn. Önnur ástæða gæti verið sú að við höfðum ekki geð á því að láta hana leika sér mikið á gólfinu í íbúðinni í Sydney. Aðeins of margir kakkalakkar og kóngulær fyrir okkar smekk ;) .
Stubbi hefur á hinn bóginn fengið allt það frelsi sem hann hefur getað hugsað sér að þessu leytinu til. Og svo hefur hann auðvitað GHPL til að líta upp til.
En það er merkilegt hvað þetta er flókið ferli að standa upp á endann ... ótrúlega mikil samæfing og færni í rauninni sem maður hefur tileinkað sér, þó maður hafi lítið spáð í hana síðustu árin. Sjálfsagt er það eins og með svo margt annað ... maður myndi pæla meira í hæfninni ef mann skorti hana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2012 | 22:11
Mánudagur 2. apríl 2012 - Mættur aftur ...
Jæja ... þá er maður skriðinn aftur til Svíþjóðar eftir mjög árangursríka og skemmtilega ferð til Íslands. Sennilega er besta ferðin sem ég hef farið til landsins svona í seinni tíð ...
Ég ætla að byrja varlega að blogga aftur ... og ætla bara að setja kommentið frá GHPL sem kom í dag eftir að bróðir hennar hafði slegið leikfangastýri í höfuðið á henni.
Eftir að ég hafði huggað hana inn í herbergi þar sem ósköpin dundu yfir, þá kom hún fram, byrjaði svolítið að vola aftur og sagði við móður sína: "Litli bróðir skemmdi hausinn minn!"
Á þessum rúmum 38 árum sem ég hef lifað hef ég aldrei heyrt nokkurn mann taka svona til orða eftir að hafa verið laminn í hausinn ... einhvern tímann er allt fyrst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2012 | 22:11
Sunnudagur 18. mars 2012 - Hitt og þetta, já og samningatækni
Jæja ... þá var tveimur áföngum lokið í dag ... kláraði að skrifa fyrirlestrana og kláraði skýrslugerð í tengslum við vinnu á Snæfellsnesinu.
Fyrir liggur Íslandsferð á miðvikudaginn og svo byrjar ballið ... fyrsta vers verður útvarpsviðtal í þættinum Okkar á milli kl. 9 á fimmtudagsmorguninn og svo tekur eitt við af öðru. Fjórir fyrirlestrar á þremur dögum í næstu viku ... hlakka til ...
Svo þarf að hitta hinn og þennan, já og skreppa svo í Óperuna þann 31. ... að sjá La Boheme eftir Puccini.
Ef allt gengur upp ætti þetta bara að verða hin allra besta ferð ... og jafnvel þótt það gangi ekki alveg allt upp ...
---
Lauga og allir hinir skruppu í góðan túr niður í bæ í dag, kaffihús og Dómkirkjan var dagskráin ...
... lukkaðist vel að sögn ...
---
Stubburinn er alveg að ná tökum á göngunni ... framfarir á hverjum degi, óhætt að segja það. Og hann er mjög ánægður með framfarirnar. Brosir sínu breiðasta ... á milli þess sem hann klórar sér í eyrunum. Annaðhvort er ofurlítil eyrnabólga að plaga hann eða jaxlataka. Það er svolítið á huldu.
---
Einn kennarinn Guddunnar taldi að hún myndi verða samningamaður þegar hún yrði stór ... enda þykir hún mjög snjöll í því að semja.
Sel það ekki dýrara en ég keypti en þó er ég ánægður með að heyra það því við Lauga höfum lagt töluvert á okkur til að kenna GHPL að semja ... persónulega held ég að það sé alveg svakalega mikilvægt að kunna svolítið fyrir sér í því. Enda hvorki gott að láta rúlla yfir sig né að rúlla yfir aðra.
T.d. við matarborðið bjóðum við henni yfirleitt upp á tvo valkosti ... annar valkosturinn er frekar slæmur en hinn vel þolanlegur fyrir hana en jafnfram þolanlegur fyrir okkur.
Velja á milli þess að borða 10 kjötbita eða fjóra. Kartöflur eða gulrætur.
Svo höfum við lagt okkur fram um að gefa svigrúm líka þannig að fjórir kjötbitar séu kannski ekki endilega alltaf fjórir kjötbitar heldur stundum þrír eða jafnvel fimm.
Þetta hefur líka gefist vel þegar þarf að díla við hana um nammi, djúsdrykkju og videogláp. Þar er gefið ofurlítið svigrúm og það er yfirleitt unnið "fram í tímann".
Þannig hefur reynst miklu betur ef maður vill fá hana til að hætta að horfa á video að segja töluvert áður en maður ætlar að slökkva að maður ætli að slökkva. Gefa smá svigrúm til að átta sig á að nú eru hlutirnir að taka enda.
Einu sinni var maður meira í því að segja bara "ok, nú er þetta búið" og slökkva fyrirvaralaust ... hitt er miklu betra ... klárlega ...
... mikilvægur punktur í þessu er þó sá að standa við "nokkurn veginn" orð sín um að slökkva, kannski gefa pínulítið tækifæri en þá bara lítið og bara ef það á við ... hvenær það á svo við er auðvitað algjört matsatriði.
Þetta hefur gengið svo vel að GHPL yfirleitt lýkur við umsamið áhorf, slekkur á tölvunni og stendur upp. ;)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.3.2012 | 23:24
Föstudagur 16. mars 2012 - Að standa á eigin fótum ...
Þessa dagana er maður algjörlega á kafi í fyrirlestrarskrifum ... fyrir liggur að tala um umhverfissálfræði í svona 6,5 klukkutíma á næstu vikum. Það er því betra að vera sæmilega undirbúinn.
Það er því lítið um að hugsa þessa dagana nema "endurheimt" og "endurheimtandi umhverfi" ...
Þess vegna held ég að best sé að láta bara inn video af öðru því sem er að gerast. Hæst stendur auðvitað fótafimi sonar míns sem eykst með hverjum deginum ...
... sjón er sögu ríkari ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það er allt á fullu hér ...
... doktorsverkefni, fyrirlestrar og heimasíðugerð í bland við söng og útihlaup er svona það helsta sem er á dagskránni.
Skrapp í kvöld að hitta einhverja hljómsveitargaura sem vildu fá mig í prufu. Gekk ágætlega en ég verð samt að segja að söngprufan var nokkuð stefnulaus :) .
Þeir ætla að testa einhverja í viðbót og hafa svo samband aftur ...
---
Blessuð börnin er í ágætisformi enda fá þau nú svo sannarlega athygli ... hér er horft og haldið í hendina á þeim allan liðlangan daginn ...
... hver myndi ekki vera hress undir svoleiðis kringumstæðum?
Það er hreint ótrúlegur munur að fara núna með GHPL á leikskólann, svona án þess að þurfa að taka stubbalinginn með ... maður er svona 100x fljótari að koma sér út úr húsi og svo er hægt að einbeita sér meira að Guddunni meðan á akstrinum stendur.
Stubbi sleppur líka við 4 klukkutíma í strætó á hverjum degi ... og getur nýtt tímann í eitthvað nytsamlegra ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2012 | 22:26
Sunndagur 11. mars 2012 - Gestir, buffkökur og samtöl við BJ
Nú er vorið komið til Uppsala ... alveg dæmalaust fínt veður í dag ...
... og við erum með gesti því amman á Sauðárkróki og nafna hennar, alnafna meira að segja, frænkan úr Grindavík erum mættar.
Guddan og Stubbi eru alveg í sjöunda himni með sendinguna enda fá þau bæði endalausa athygli núna ...
---
Hljóp aftur í dag rúma 10 km ... miklu auðveldara en síðustu helgi og nú er bara að vona að ég leggist ekki rúmið eins og síðast.
Hitt liðið eins og það lagði sig hélt hinsvegar á vit ævintýranna niðri í bæ ...
Í kvöld voru svo snæddar alveg hreint indælar buffkökur með lauk :)
---
Guðrún hefur verið upptekin af því að teikna myndir síðustu daga ... og það sem meira er henni hefur verið mikið í mun að sýna Bjarna Jóhanni frænda sínum myndirnar. Þar sem þau búa í sitthvoru landinu hefur Skype verið notað í þessum tilgangi.
Það er allmerkilegt hvernig þessi samtöl fara fram ... já og sosum ekki bara þessi samtöl heldur bara öll samtöl yfirleitt þegar GHPL og Bjarni tala saman, því GHPL talar ekkert við Bjarna meðan á útsendingunni stendur, þess í stað hleypur hún út um allt, nær í alls konar hluti, og gerir alls kyns kúnstir sem eiga tiltölulega fátt sameiginlegt við gott samtal í gegnum Skype. Hún er jafnvel löngum stundum í öðru herbergi en tölvan ... sjálfsagt þess fullviss að BJ sitji agndofa fyrir framan tölvuna heima hjá sér og horfi á hvað hún er að sýsla við ...
En haldi GHPL það, þá er það mikill misskilningur, því BJ gefst upp og úr verða einhver mjög losaraleg samskipti, þar sem blessuðum börnunum bregður fyrir á skjánum öðru hverju :) ... það endar svo með þeim hætti að foreldrarnir taka yfir samtalið. Fyrst eru mæðurnar með en svo taka feðurnir yfir og tala klukkustundum saman ... gjarnan svo lengi að allir aðrir eru löngu sofnaðir þegar samtalinu lýkur.
Það skemmtilega í þessu er að ferillinn á þessum samtölum er, ég leyfi mér að segja, alltaf nákvæmlega sá sami ... :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.3.2012 | 23:18
Fimmtudagur 8. mars 2012 - Stemmning
Ég myndi telja að þessar myndir lýsi ágætlega stemmningunni í stofunni í kvöld sem var með rólegasta móti ...
GHPL setti upp myndasvipinn ...
Mestur hluti dagsins hefur farið í að skrifa fyrirlestur fyrir málstofu Sálfræðideildar HÍ sem ég mun halda 28. mars nk.
Tók reyndar þátt í "tele-seminari" hjá Jack Canfield í kvöld ... Canfieldinn er alltaf góður, var að gefa tips hvernig maður á að selja bækurnar sínar. Hann ætti að vita það ... hefur selt yfir 500 milljón eintök sjálfur, átti einu sinni 7 bækur samtímis á metsölulista New York Times ... sem ku víst vera heimsmet ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)