Færsluflokkur: Bloggar
6.3.2012 | 22:30
Þriðjudagur 6. mars 2012 - Afmælisbarn dagsins
Hér var haldið upp á afmæli í dag ... já, Lauga bætti einu ári í safnið ...
Reyndar verður að segjast að hátíðarhöldin voru með allra, allra dræmasta móti enda síðuhaldari mjög langt frá sínu besta stærstan hluta dagsins ...
... náði rétt að klóra í bakkann í kvöld með því að bjóða upp á sushi ... sem er uppáhaldsmatur afmælisbarnsins um þessar mundir.
Afmælisbarnið og Þristurinn í afmæliskaffinu í dag ...
Það er alveg ljóst að eitthvað betra verður að gera einhvern næstu daga ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2012 | 23:00
Mánudagur 5. mars 2012 - Að vera ekki 100% og GHPL teiknar prins
Þetta var dagurinn sem ég ætlaði að halda upp á eins árs "alvöru hreyfingarafmæli" mitt ... en það var einmitt þennan dag í fyrra sem ég fór að hreyfa mig með markvissum hætti á "réttum forsendum".
Ég er búinn að halda vel utan um þetta ár að þessu leytinu ... og ætlaði að birta línurit með afrekum mínum.
En hvað ... er þá ekki karl veikur!
Þetta er í annað skiptið á ekki mjög löngum tíma þar sem ég verð veikur ... þ.e. rúmliggjandi. Að vísu ekki nema hluta úr degi.
Maður skyldi þó ekki hafa ofreynt sig í hlaupinu í gær ... ;)
Nafni er líka veikur, Guddan nokkuð góð en Lauga "afmælisbarn morgundagsins" er sú eina sem er alveg 100%.
---
Merkilegur hlutur gerðist í dag ...
GHPL tók upp á því, í fyrsta skipti á ævinni, að teikna karla (já og konur) ... eða kóng, prinsessu og prins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2012 | 21:36
Sunnudagur 4. mars 2012 - Jógúrt, hlaup og málning
Morgunmatur og GHPL hellir bláberjajógúrt í skál ... niðurstaðan sést á myndinni ...
Henni var góðfúslega bent á það að hún yrði að læra að stoppa þegar hún hellti jógúrt í skál. Svo fús var hún til námsins að þegar ég hellti mjög hæfilegum skammti af jógúrt í skál handa sjálfum mér nokkrum mínútum síðar, rak hún upp stór augu og í henni gall: "Pabbi, þú verður að kunna að stoppa!!"
Í morgun hljóp ég, í frábæru veðri, meira en 10 km í fyrsta skipti síðan 2008 ... meira að segja 500 metrum betur.
Fínt að sjá að maður er í standi til að gera þetta ... reyndar er alveg rúm fyrir bætingu, ég hljóp þetta á um 70 mínútum.
Ég er nefnilega að stefna á hálfmaraþon á þessu ári ... hið fyrsta síðan 2007, þegar ég hljóp "The Hidden Half Marathon" með James félaga mínum í Bankstown í Sydney.
Málið er samt að þessi hlaup núna eru miklu skemmtilegri heldur þau hafa nokkrum sinnum verið því mér finnst ég vera að framkvæma þau á "réttum" forsendum.
Eftir hádegið var síðan málningarsession hjá okkur ... reyndar var stubbur svo brjálæðislega hjálplegur að vakna nákvæmlega þegar "sessionin" hófst og fara svo aftur að sofa nákvæmlega þegar búið var að ganga frá aftur ... einmitt vegna þess að Laugu gekk lítið að mála með hann í gírnum.
Hún skaut því fram í gríni að hann myndi örugglega sofna þegar við hættum ... gutti tók hana á orðinu!
Svo var karl kominn með hita í kvöld þannig að þetta er bara "eins og það á að vera" ;) .
En það er alveg merkilegt hvað maðurinn ætlar að vera lengi að koma sér upp á endann ... um áramótin hélt ég að þetta væri dagaspursmál ... hann tók nú reyndar 5 - 6 skref óstuddur í morgun en kommon ... það eru liðnir 60 dagar af nýja árinu.
---
GHPL er búin að finna það út að kalla bróður sinn "Gussa" ... óskiljanlegt ...
Mun skiljanlegra er þegar hún sagði við mig í miðri málningarvinnunni: "Þegiðu drengur!" ... hún spurði mig líka þegar ég var að fara út að hlaupa í morgun: "Ertu að fara að syngja eða sk*ta?" "Guðrún(?!) ... ég er að fara út að hlaupa!" "Ókei!"
Þessi kjaftháttur er kominn beint frá mér ... mér virðist ganga illa að skilja að "pottarnir hafa eyru" :/ .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2012 | 23:19
Laugardagur 3. mars 2012 - Að vilja ekki gera hlutina ...
Guðrún kemur oft með mjög góðar hugmyndir ...
Í morgun stakk hún t.d. upp á því að fá tyggjó í morgunmat frekar en hafragraut eða jógúrt.
Því næst lagði hún til að horfa á Mikka mús þangað til hún yrði hitalaus en hún var með 3 kommur í morgun.
Oft telur hún líka heppilegra að hún fái ís frekar en almennilegan mat.
Já og svo núna þá er hún ýmist mjög þreytt eða illt í maganum þegar hún þarf að borða eitthvað annað en ís og kökur.
Annars verður það að segjast um blessuð börnin bæði tvö að þau eru afskaplega miklir vælukjóar þessa dagana. GHPL ýmist rífur kjaft í allar áttir eða er vælandi yfir óréttlæti heimsins. Stubbi vælir bara yfir óréttlætinu ... sem felst í því að mamma hans nennir ekki að halda á honum og leika við hann 24/7.
Ég neita því ekki að ég er dálítið hugsi yfir dótturinni ...
---
Í dag lauk ég svo við gerð fyrirlestranna fyrir námskeiðið hjá Endurmenntun HÍ, þetta verður fínt námskeið ... vona bara að sem flestir láti sjá sig þar ...
---
Við Lauga áttum líka gott spjall í dag ... ræddum um mikilvægi þess að vera ekki sama um hlutina.
Það er mín einlæga trú að ef fólk lætur eftir sér "að vera sama" um menn og málefni, þá rýri það í raun líf þess.
Alltof margir afgreiða fjölmarga hluti einfaldlega með því að segja "ég hef ekki áhuga á þessu" og í mörgum tilfellum er það án þess að hlutirnir hafi nokkurn tímann verið íhugaðir eða reyndir.
Sjálfur var ég lengi þannig að ég var ekki tilbúinn að gefa hlutunum tækifæri.
Ég hlustaði bara á KISS og ég spilaði bara fótbolta. Ég horfði aldrei á Eurovision og mátti ekki heyra minnst á sálfræði. Ég gekk bara í jogging-fötum. Bara svona til að nefna eitthvað ...
Ef ég var spurður hvort ég vildi ekki hlusta á eitthvað en annað en KISS, gera eitthvað annað en að spila fótbolta, horfa á Eurovision, tala um sálfræði og ganga í öðru en jogging-fötum aftók ég það með öllu.
Einn góðan veðurdag vitkaðist ég svo ... ég fann út að það var rými fyrir aðra tónlist en KISS, og guð minn góður ... síðan þá hefur opnast fyrir mér gjörsamlega nýr heimur og líf mitt hefur orðið ríkara, þó KISS sitji enn í hásætinu. Ég fór að sinna öðrum hlutum en bara fótbolta ... skrifa, mála, syngja, leika, spila á gítar, synda ... nýr heimur opnaðist, nýir möguleikar.
Núna missi ég ekki af Eurovision ... íslenska undankeppnin, sænska undankeppnin, öll kvöldin í aðalkeppninni ... ég leita stundum að Eurovision-lögum á YouTube til að hlusta og hafa gaman ... og já, sumt af stöffinu er bara mjög skemmtilegt.
Á sálfræðina þarf ég ekki að minnast ... en ég man alltaf þegar ég hét því eftir hafa verið í sálfræðitímum í Háskólanum á Akureyri á vormisserinu 1995 að ég skyldi aldrei læra aftur sálfræði, stóð reyndar ekki við það, því í "klásusnum" í læknisfræðinni þá um haustið tók ég aftur sálfræðikúrs. Ætlaði aldrei að lesa staf meira eftir það ...
Verð að viðurkenna að þetta með fötin er enn svolítið vandamál ... ;)
Þessi þvergirðingsháttur að vilja ekki prófa hlutina, gefa þeim sjéns ... þetta rýrir bara tilveruna hjá manni ... og því ástæðulaust að vera að eitthvað sérstaklega metnaðarfullur í því að vilja ekki gera hlutina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.2.2012 | 23:38
Miðvikudagur 29. febrúar 2012 - Veikindi, tannburstun og já, svolítið um feminisma
Þessi hlaupársdagur fór aðeins öðruvísi en lagt var upp með ... en upp úr hádeginu tók "stubburinn" upp á þeim óskunda að hækka líkamshitann upp um 2°C og þar með setja dagskrána úr skorðum. Þegar Lauga kom heim úr vinnunni var ekki mögulegt að taka "stubb" með að ná í GHPL og skaust ég því yfir í Årsta til að heimasætuna ... sem var allforn í skapi þegar mig bar að garði.
Þannig fóru 4 klukkutímar af hlaupársdeginum í strætóferðir ... sem er persónulegt met hjá mér.
Í kvöld var Guddan svo komin með hita líka þannig að þetta var bara allt "eins og það á að vera".
---
Guddan bað mig í dag að hjálpa sér að tannbursta sig. Tannburstunaræðið er enn við lýði ...
Þetta var í miðjum kaffitímanum og ég sagði henni bara að redda sér sjálf því ég væri að borða. Því var ekki við komandi.
Ef töluvert rex stóð ég upp opnaði baðherbergisdyrnar, kveikti ljósið og greip tannburstann sem stóð í tannburstaglasinu. Þá brást GHPL, sem hafði fylgt í humátt á eftir, ókvæða við og galaði: "Pabbi!!! Ég getta alveg sjálf!! Ég getta alveg sjálf tannbursta! Skammast!!" (sem er útgáfa GHPL af "skammastu þín", veit ekki hvar hún hefur lært það, því hvorki ég né Lauga segjum henni að "skammast sín").
Svo var þrifinn af mér tannburstinn, horft reiðilega á mig og mér ýtt út af baðherberginu.
Tja ... það er vandlifað ... ;) ...
---
Já, það er stundum vandlifað ... það nennir kannski enginn að pæla í þessu en ég hef svolítið verið að fylgjast með þessu máli þar sem Hildur Lilliendahl tók saman niðrandi ummæli nokkurra karlmanna um konur sem birtust á internetinu og setti í myndaalbúm sem hún kallaði "Karlar sem hata konur".
Án þess að vera á nokkurn hátt að verja þá bjánalegu iðju sumra að skrifa óhróður á netið um menn og málefni, þá finnst mér þetta framtak Hildar fremur kjánalegt. Þetta leysir ekki neitt ... fylkingarnar herðast bara í skoðun sinni ... öllum finnst þeir hafa rétt fyrir sér, allir eru fórnarlömb, öllum finnst gengið á rétt sinn.
Persónulega finnst mér fólk sem hefur tileinkað sér það sem kalla má "pólitíska rétthugsun" alveg frámunalega þröngsýnt og hafa lítið áhugavert fram að færa. Alhæfingunum er fleygt fram hægri, vinstri ... og það getur verið mjög erfitt að fá einhverja vitræna umræðu, einfaldlega vegna þess að það rúmast oft engin önnur sjónarmið. Allt er það gert í nafni jafnréttis og bræðralags sem enginn fær neinn botn í.
Mér skilst að Hildur hafi með framtakinu viljað bæta umræðuna og láta gott af sér leiða ... en svo segir hún að það dugi engar "mjúkar baráttuaðferðir".
Almennt séð, getur það varla verið bættri umræðu til framdráttar að byrja á því að veita viðmælenda sínum ærlegan kinnhest allt í nafni þess að hann "eigi það bara skilið"!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2012 | 22:56
Þriðjudagur 28. febrúar 2012 - KISS í SVT2
Það er alltaf hressandi að sjá kunnugleg andlit á sjónvarpsskjánum ...
... í kvöld var nefnilega þáttur úr þáttaröðinni Saga þungarokksins á SVT2 og var þessi þáttur tileinkaður svokölluðu "sjokk-rokki". Fyrirbæri sem Alice Cooper er sagður eiga heiðurinn af í kringum 1970 en svo tóku félagar mínir í KISS við keflinu um miðjan 8. áratuginn.
KISS-kúlutyggjó frá árinu 1978.
Þó KISS hafi verið "sjokk-rokkband" í upphafi rann mesti móðurinn af hljómsveitinni eftir því sem líða tók á 8. áratuginn og 1979/1980 var "sjokk"-ímyndin gjörsamlega horfin. KISS var orðin eins og leikfangafabrikka og tónleikar sveitarinnar orðnir að fjölskylduskemmtun, þar sem meðlimir áttu að haga sér vel á sviðinu ... já, og ekki blóta ...
Upp úr þessu tók KISS að liðast í sundur ...
Fyrir mig var svo sem ekkert nýtt í þessu ... en samt gaman að sjá þetta ...
---
Æi ... nenni ekki að skrifa meira núna ... ætlaði samt að segja eitthvað mjög merkilegt ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2012 | 22:33
Sunnudagur 26. febrúar 2012 - Gönguferðin
Skruppum í alveg hreint ágætan göngutúr í dag ... þar sem við gengum frá Gottsunda niður í bæ ...
Sjón er sögu ríkari ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.2.2012 | 23:56
Föstudagur 24. febrúar 2012 - Myndir og Piaget
Það er ekki laust við að yngsti fjölskyldumeðlimurinn sé nokkuð krambúleraður þessa dagana. Í gærmorgun rak hann ennið í stólfót þannig að hann marðist undir vinstra auga og í morgun datt hann á borðbrún og fékk lítinn skurð í vinstri augnabrún ...
Svona leit hann út um hádegisbilið í dag ...
Ekki hægt að segja annað en drengurinn taki sig vel út með plásturinn ...
---
Guddan heldur áfram að matreiða ...
... það verður fínt þegar GHPL tekur við matseldinni á heimilinu ...
Svo er ryksugað ...
Og þurrkað af ...
Í lok dags sofna svo systkinin svona ...
Guddan átti stórleik í dag ...
Samkvæmt svissneska fræðimanninum Jean Piaget þá má skipta þroska barna upp í fjögur stig. Eitt þeirra er svokallað "foraðgerðastig" sem börn eru á 2 - 6 ára.
GHPL er sumsé á miðju "foraðgerðastigi" en eitt einkenni þess er að rök- og aðgerðahugsun er ekki fyrir hendi. Það meðal annars sýnir sig í vangetu á varðveislu magns, sem t.d. lýsir sér þannig að barnið telur að ef sama magn af vatn er sett í mjótt og hátt glas annars vegar og breitt og lágt glas hinsvegar, að meira vatn sé í hinu fyrrnefnda einfaldlega vegna þess að vatnið stígur hærra í fyrrnefnda glasinu.
Stórleikur Guddunnar sem bar kenningu Piaget fagurt vitni var að í dag þá hellti hún úr vatnsglasinu mínu yfir í sitt glas og var all ánægð með árangurinn. "Ég getta alveg sjálf!" sagði hún og brosti.
Ég fyllti glasið mitt aftur af vatni en þá var eins og GHPL fengi einhverja bakþanka. Hún ákvað að hella vatninu úr sínu glasi aftur í mitt glas.
Það var ekki að sökum að spyrja að glasið fylltist fljótt og mestur hluti vatnsins flaut út yfir. En GHPL hætti ekki fyrr en hún hafði tæmt glasið. Hún var líka alveg steinhissa þegar hún sá vatnið flæða um allt matarborðið.
Mér fannst þetta alveg frábært móment ... maður hugsar oft um það hvað þessi litla manneskja er orðin klár og hvað hún veit margt og skilur margt. Ég er oft hreinlega undrandi á því hvað hún skilur og getur en þarna komu takmörk hennar mjög svo berlega í ljós.
Við leyfum henni oft að sulla svolítið við matarborðið og þá er hún stundum að hella á milli glasa. En í þessu tilfelli gat hún ekki rakið sig vitsmunalega aftur til þess þegar hún horfði á mig fylla glasið mitt aftur eftir að hún hafði tæmt það.
Hún vissi bara að hún hefði tæmt það og þess vegna hlyti að vera hægt að hella sama magni aftur til baka.
Eins og ég segi ... þetta var alveg frábært móment ...
Þó vissulega hafi kenningar Piaget verið gagnrýndar er að finna í þeim marga skemmtilega punkta, sem sýna að börn eru ekki eins ólík og margir vilja halda fram ... ;)
Bloggar | Breytt 25.2.2012 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2012 | 23:10
Fimmtudagur 23. febrúar 2012 - Tvöföld skil og viðmót
Jæja ... þá loksins var bókarkaflinn sem ég hef verið að skrifa í samvinnu við leiðbeinandann minn, sendur inn.
Það var mjög mikill léttir ... þá eru tveir hlutar af fjórum hlutum doktorsverkefnsins míns komnir nokkurn veginn í hús. Næst er að snúa sér að næstu rannsóknargrein sem er mjög langt komin hjá okkur og verður send inn í mars.
Þetta er allt saman að skríða saman og það er gaman að sjá það gerast :) .
---
Í dag var líka sendur inn abstrakt fyrir ráðstefnu sem verður í Lillehammer í sumar ... meiningin er að taka þátt í "work-shop" þar en þá leggur maður til grein og þátttakendur kommenta á greinina og spyrja mann útúr.
Ég hef aldrei tekið þátt í svona "work-shop" fyrr ... þannig a það verður spennandi að prófa það.
---
Strætóbílstjórinn á leiðinni heim í morgun var alveg sérstaklega viðmótsþýð kona. Alveg óvenju vinsamleg.
Ekki nóg með að hún heilsaði manni með virktum ... hún óskaði manni alls hins besta um alla framtíð (svona hér um bil) bæði þegar maður kom inn og fór út.
Það er náttúrulega voðalega notalegt.
Þetta fékk mig til að velta fyrir mér viðmóti mínu gagnvart fólki ... það væri mjög gaman að prófa að mæta sjálfum sér og taka sig svolítið út.
Ég er nú ekki viss um að vera neitt sérstaklega upplitsdjarfur oft á tíðum en ég hef ég tekið mig mikið á í þessu sambandi á síðustu árum.
Það sem er samt ljóður á ráði mínu er að það er voðalega stuttur alltaf þráðurinn í mér, svona eins og leiðbeinandinn minn sagði um daginn þegar við vorum að svara athugasemdum við fyrstu rannsóknargreina okkar: "Þú ert alltaf tilbúinn í einhver slagsmál". Það er mikið til í því ... stundum hef ég tilhneigingu til að bregðast dálítið hranalega við.
T.d. kom eldri maður með göngugrind á hjólum inn í vagninn í dag. Í vagninum er svona stæði fyrir barnavagna, já og göngugrindur, við erum að tala um stæði fyrir allt að þrjá barnavagna. Ég stóð í stæðinu við vagninn hans "hlunka" og mér fannst karlinn líta á mig eins og ég ætti að færa mig til í stæðinu svo hann gæti sest nákvæmlega þar sem ég stóð á þeim tímapunkti (það er sum sé möguleiki að fella niður sæti í stæðinu). Ég sá bara enga ástæðu til þess enda vagninn hálftómur og yfirdrifið rými, og því skipti engum togum en karlinn var drepinn með augnaráðinu og önnur höstugri viðbrögð voru í startholunum ef á þyrfti að halda.
Samt veit ég ekkert um það hvort karlinn hafði nokkurn skapaðan hlut í hyggju annan en að finna sér hentugt sæti án nokkurra afskipta af mér.
Ef ég segi sjálfur frá, þá fer þessi eiginleiki minn mikið í taugarnar á mér ... en ég hef ekki enn fundið lausn á honum.
Sama t.d. gerist þegar ég er úti að labba og svo kemur hjólreiðarmaður og hringir bjöllunni. Það fer alveg svakalega í taugarnar á mér. "Andsk?#?$ er þetta!! Það er nú ekki eins og ég taki allan heiminn" er það sem ég hugsa.
Þetta er náttúrulega algjör óþarfi að láta svona ...
Ég ætti að taka mér vagnstjórann í dag til fyrirmyndar ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2012 | 22:43
Miðvikudagur 22. febrúar 2012 - Hálka og karlremba
Það að leggja í hátt í tveggja stunda strætó- og gönguferðalag frá Gottsunda til Årsta og til baka á hverjum degi (nánast) er eitthvað sem allir ættu að prófa.
Við Lauga erum sammála um að hver ferð hafi upp á eitthvað sérstakt að bjóða ... ný ævintýri á hverjum degi.
Í morgun upplifðum við GHPL og PJPL í lengstu dvöl í strætó hingað til á leiðinni til Årsta ... vanalega tekur það strætóinn um 40 mínútur en í morgun tók ferðin um 55 mínútur.
Ástæðan var gjörsamlega fljúgandi hálka á götum Uppsala-borgar. Slík var glæran að strætóinn ók stundum svo hægt að nánast hefði verið hægt að taka framúr honum fótgangandi.
Samhliða þessari nýju reynslu komst ég líka að því að "karlremba" finnst í fórum mínum. Dálítið sérstakt fyrir mann sem meira og minna hefur verið alinn upp af kvenfólki.
Þegar við settumst upp í vagninn, þá var ég alveg hissa á því hversu hægt bílstjórinn, sem var kvenkyns og fremur ungur að árum, ók.
Ég hugsaði nú með mér að hún væri sennilega ekkert sérstaklega vön úr því að hún keyrði svona rosalega hægt ... "það er aldrei of varlega farið" hugsaði ég í hæðnislegum "tón". "Alveg týpískt!"
Það var ekki fyrr á miðri leiðinni að ég áttaði mig almennilega á því hverjar aðstæðurnar voru en þá rann vagninn, sem þó var ekki á meira en 10 km hraða, tvær vagnlengdir þegar hann ætlaði að stoppa við eina biðstöðina. Og hér er verið að tala um harmonikku-strætó sem er örugglega 15 metrar á lengd.
Þegar við stigum út úr vagninum átti GHPL í mestu erfiðleikum að standa á fótunum, sökum hálku ... meira að segja mölin sem borin er á gangstéttirnar og göturnar var hjúpuð ís og var flughál. Og það þrátt fyrir að frostlaust væri ... mjög skrýtið ... :)
Einn leikskólakennarinn sagði mér svo við komuna á leikskólann að það hefðu verið felldar niður ferðir hjá strætó vegna hálku! Hef aldrei heyrt um slíkt fyrr ...
Af þessu má sjá að ferðin var mjög lærdómsrík ...
... svei mér þá ... ég vissi ekki að ég ætti þennan karlrembu-hugsunarhátt til en svona er maður alltaf að læra ...
Já og á bakaleiðinni voru aðstæður miklu betri ... og ungur og vaskur karlmaður við stýrið. Sá keyrði ansi greitt enda leiðaráætlunin komin í tómt rugl. Aksturinn var mjög höstugur og litlu mátti þó muna þegar vagninn lenti á svellbunka. Ég veit ekki hvað kom í veg fyrir að hann fór út af ...
... en svona keyra alvöru karlmenn ;) .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)