Færsluflokkur: Bloggar
6.1.2012 | 23:54
Föstudagur 6. janúar 2011 - Sushi, köll og betra samband
Þrettándinn er frídagur hér í Svíþjóð ... sem er fínt ... ekki það að ég hafi tekið mér frí. Ojæja ... reyndar seinnipartinn. Við skruppum nefnilega að fá okkur sushi.
Við Lauga erum komin með æði fyrir sushi. Sem er mjög fyndið hugsandi um það að þegar við vorum í Sydney, þá var Fjóla vinkona okkar alltaf að tala um hvað hana langaði mikið í sushi. Það virtist alltaf vera pláss og stemmning fyrir slíku.
Ég var bara alls ekki að ná því ... en rosalega næ ég því núna :) ... mér finnst samt bara sushi sem samanstendur af fiskmeti og hrísgrjónum gott. Ekki þetta með ... er vafningurinn utan um sushi ekki söl? Alltént finnst mér innvafið sushi ekki gott ... í það minnsta ennþá.
Smakkaði samt á einu slíku í dag ... og svei mér ef það minnir mig ekki á bragðið af veturgömlu þurrheyi í hlöðunni í Steinnesi. Ekki það að ég hafi verið að úða mikið heyi í mig ... var meira að taka svona strá og strá, þegar venjubundnum verkefnum var sinnt.
---
Guðrún hefur tvisvar í dag átt stórleik.
Fyrri stórleikurinn var þegar við vorum í búðinni að kaupa mat. Þá stöndum við öll í hnapp, þ.e. ég, GHPL og Lauga með stubb í BabyBjörn og erum að skoða gott ef ekki var hráefni í sushi. Guddan er eitthvað í því að taka vörur úr hillunum og setja í körfuna, og við svolítið í því að taka vörurnar aftur upp úr körfunni og setja í hilluna.
Allt í einu, rýkur dóttirin af stað. Hleypur burt frá okkur og hrópar af öllum mætti með mikilli örvæntingu í röddinni: "Mamma, mamma ... vänta på mig!! Vänta på mig!!" Við horfðum á eftir barninu og kölluðum svo: "Guðrún, Guðrún ... mamma þín er hérna!" Eftir nokkur köll frá GHPL eftir móður sinni og frá okkur eftir henni, rankaði hún við sér og leit við ... sjá þá móður sína og sólskinbros breiddi úr sér. Svo gekk hún lafmóð til okkar: "Ég var að leita af mömmu!!"
Í kvöld þegar við sátum og vorum að horfa á "Bad Teacher" með Cameron Diaz, já og Guddan að horfa á "Mikka mús", nei reyndar var að "Lína langsokkur" í kvöld, stekkur GHPL niður úr sófanum, þar sem hún sat við hliðina á móður sinni, og þýtur fram í eldhús. "Mamma, mamma!! Hvar ertu??" "Mamma þín er hérna í stofunni" kallaði ég til hennar. En hún hélt áfram að leita. "Guðrún, komdu!" Hún kom aftur inn í stofuna, sá móðurina og aftur breiddist út sólskinsbros. "Ég var að leita að mömmu!"
Svo hélt hún bara áfram að horfa á "Línu langsokk".
Hvað er málið eiginlega?!? :)
---
Til minnis:
Þessa dagana missir Guðrún alltaf kúlið þegar hún að fara í útifötin. Það að fara mjög þægilegar angóruullarbuxar yfir sokkabuxurnar skapar alltaf sorg, sem og að setja á sig lambhúshettuna og fara í ullarleista.
Það er svolítið mál að fara í "randagallann" (rauður vetrarsamfestingur) og stígvélin. Að fara í lúffur er hrikalegt mikið vesen. Í dag hundskammaði hún lúffurnar, sem hún kallar "vantar" upp á sænsku fyrir að vera svona leiðinlegar.
Nafni er alltaf mjög óhress að fara í sinn "randagalla" og að fá lambhúshettu er martröð. Alverst er samt að vera settur í vagninn.
Af þessu má álykta að morgnarnir, þegar verið að taka blessuð börnin til svo hægt sé að koma Guddunni á leikskólann, eru mjög hressilegir :) .
---
Eins og dyggir lesendur þessarar bloggsíðu hafa eflaust áður lesið, þá hef ég ekki alltaf átt upp á pallborðið hjá dóttur minni.
Á tímabili í haust var ekki nokkur leið fyrir mig að ná til hennar og ég var mikið að velta því fyrir mér hvað skyldi til bragðs taka. Ég lagði mig fram um að vera skemmtilegur og vinsamlegur við hana, tala við hana, stríða henni smá en ekkert gekk ... ég prófaði að stíga svolítið til baka og vera ekkert að bögga hana. Árangur lítill.
Eftir töluverðar vangaveltur, þá komst ég að því að ég var kannski ekki mikið að sinna henni, svona í hennar daglega lífi. Ég var bara að vinna og leit frá vinnunni í smá stund til að segja við hana nokkrar setningar eða kitla hana pínulítið ...
... ég skipti mér hinsvegar lítið af matarmálum hennar og háttatíma ... undir því yfirskyni að ég væri alltaf að vinna.
Ég ákvað að söðla aðeins um taktík. Ég ákvað að stíga inn í "hringiðuna" af alvöru. Ég fór að skipta mér af matarvenjum og háttatíma, hjálpa henni að klæða sig úr og í, fór að tala við hana oftar yfir daginn, draga línuna hvað varðar hin ýmsu mál, grípa inn í þegar hún var að gera eitthvað rugl, vera til taks þegar hún óskaði eftir hjálp, ræða við hana þegar einhver "vandamál" voru í gangi, bjóða henni að koma með mér út, t.d. út í búð, leyfa henni að sitja hjá mér þegar ég vann, sýna henni eitthvað "sniðugt" ...
... með öðrum orðum fór ég að taka meira þátt í hennar tilveru og gefa henni svigrúm til að taka þátt í minni ...
Niðurstaðan er hreint ótrúleg ... allt frá ég byrjaði á þessu, fyrir um mánuði síðan, hefur samband okkar batnað stórkostlega og frá jólakastinu fræga hefur það verið algjörlega eins og best verður á kosið.
Þannig að ... þeir sem standa í þeim sporum sem ég var í ... ættu að hugleiða þessa aðferð ...
Bloggar | Breytt 7.1.2012 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2012 | 22:33
Miðvikudagur 4. janúar 2011 - PJPL, söngur og hræðileg fyrirbæri
Hér er myndband sem ég ætlaði setja inn fyrir löngu en gat það ekki því ég kláraði ekki að setja það saman fyrr en í fyrrakvöld.
Þetta er ofurlitlar svipmyndir af syninum ... já og dótturinni í aukahlutverki ...
Annars hefur dagurinn farið í skrif ... já, það er verið að skrifa um umhverfissálfræði ... hvað annað?
Jú og svo æfði ég mig í söng í kvöld, eins og ég geri reyndar jafnan á kvöldin. Nýt núna leiðsagnar Per Bristow sem er gaur í Kaliforníu sem heldur úti svona online-einkatímum. Mér finnst leiðsögn hans vera bara að virka vel fyrir mig og er hún í fullu samræmi við mínar pælingar varðandi söng og söngtækni.
Persónulega held ég að söngkennsla sé á algjörum villigötum. Það að læra að syngja getur ekki verið svona hrikalega flókið, jæja kannski getur það verið flókið upp að vissu marki en að það sé nánast undir hælinn lagt hvort maður kunni að syngja eftir margra ára nám er í meira lagi undarlegt ... ég segi ekki meira.
Það að hugsa eigi um 10 tæknilega hluti í einu meðan maður syngur, ásamt því að túlka og performa, og hafa auk þess á reiðum höndum nokkur vel valin trikk sem grípa á til ef maður lendir í vandræðum, er eitthvað sem tilraunasálfræði og hugræn sálfræði hafa sýnt fram á að er ekki hægt. Við bara getum það ekki.
Ég man alltaf vel eftir stuttri "tilraun" sem gerðum í tíma þegar ég var í sálfræðinni í HÍ.
Kennarinn sýndi okkur video sem tekið var í flugstjórnarklefa rétt fyrir lendingu. Kennarinn bað okkur um að fylgjast vel með einhverjum mæli sem birtist á framrúðu flugstjórnargluggans. Eftir nokkra stund stoppaði kennarinn videoið og spurði hvað hefði gerst í myndbandinu. Jú, jú ... allir eða um 60 nemendur voru sammála um það að mælirinn hefði náð einhverju tilteknu gildi.
En hafði eitthvað annað gerst? Nei, það hafði nú enginn tekið eftir neinu öðru.
Kennarinn kveikti aftur á videoinu og þá mátti sjá hvar risastór Boeing 747 júmbóþota stóð á miðri flugbrautinni, beint fyrir framan vélina "okkar" sem var að fara að lenda. Ferlíkið hafði þá þokað sér inn á brautina meðan allir fylgdust með mælinum.
Það athyglisverða í þessu er að, mælirinn var eins og áður segir, staðsettur í framrúðunni þannig að júmbó-inn var beinni sjónlínu fyrir "aftan" mælinn sem allir voru að horfa á.
Svo er verið að segja manni að halda einbeitingu á 10 tæknilegum atriðum, plús túlkun, plús trikkum þegar gefa á frá sér nokkra tóna!!
Per Bristow leggur áherslu á að fækka þessum atriðum sem þarf að halda einbeitingu, henda öllum trikkunum út í hafsauga, leggja meiri rækt við tilfinningu en hlustun, leggja meiri rækt við túlkun og performance og ... hafa gaman ...
Þetta er í grundvallaratriðum það saman og Jón Þorsteinsson söngkennari leggur áherslu á.
En auðvitað er þetta örlítið flóknara en þetta ... en eftir að hafa verið viðloðandi söng síðan 1998 gæti ég skrifað langan pistil um söngkennslu og söngtækni ... og geri það kannski einn daginn ;) .
---
GHPL er búin að finna út það hræðilegasta í þessum heimi ... Nappi refur (sá sem skýtur upp kollinum í þáttunum um Dóru landkönnuð), "monster" og "lirfa"(?!?).
Þessi þrjú fyrirbæri leynast að mér skilst í hverju skúmaskoti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2012 | 23:39
Þriðjudagur 3. janúar 2011 - Hopp í Friskis og skyldur á heimilum
Núna er fyrsta líkamsræktaræfingin á árinu 2012 að baki. Mikið svakalega var hún góð. Ég hef skipt um líkamsræktarstöð, þannig að ég er þó enn hjá sömu keðjunni, þ.e. Friskis og Svettis, en vegna búferlaflutninganna um daginn hætti ég á stöðinni á Väderkvarnsgatan og fór þess í stöðina í Ultuna.
Geri ráð fyrir að flestum sé nokkuð sama um þetta í sjálfu sér en það sem ég vildi segja er að þessi skipting hefur boðið upp á nýja möguleika því nú hef ég aðgang að stórum eróbikk-sal þar sem ég get gert öðruvísi æfingar en mögulegt var að gera á hinum staðnum.
Í dag, líkt og á æfingunum fyrir áramót, þá var ég að hoppa upp á palla. Var t.d. að hoppa upp á 60 cm pall í dag. Þessi hopp eru ótrúlega góð. Þetta eru afleiðingar þess að skoða cross-fit æfingar og horfa á video með Anný Mist hirða heimsmeistaratitilinn í cross-fit. Svo tók ég framstigsæfingar með stöng. Það vildi nú ekki betur en svo að ég fékk ótrúlegan sinadrátt aftan í lærið eftir um 20 framstig. Greinilegt að þessir vöðvar hafa ekki mikið verið notaðir upp á síðkastið.
En af því að ég var að nefna Anný Mist ... hvar er nafnið hennar á tilnefningalistanum fyrir Íþróttamann ársins 2011?? Það verður nú að segjast með ólíkindum að heimsmeistari nái ekki að komast á lista yfir 10 bestu íþróttamenn á Íslandi. Annars eru nú svo sem engin aumingjar á þessu tilnefningalista. Ég veit að vísu ekkert um þennan golfara ... en það segir nú sjálfsagt meira um mig en hann.
---
Yfir kvöldmatnum var Lauga að segja mér frá bók sem hún var að lesa ... man ekki hvað hún heitir eða hver skrifar hana en hún fjallar um fjölskyldur og samskipti innan þeirra.
Umræðan bar okkur að því álitaefni hvort börn eigi að fá "plikt" innan heimilisins ... m.ö.o. eiga börn að hafa skyldur innan heimilisins, náttúrulega svona fyrir utan að vera sæmilega húsum hæf?
Höfundur bókarinnar segir ekkert um það í sjálfu sér heldur ítrekar að slíkar skyldur bera að umgangast af mikill varfærni.
T.d. sagði hann að tilgangslaust væri að skylda barn allt upp að 10 ára aldri taka til í herberginu sínu þrisvar í viku. Barnið hefði einfaldlega ekki vitsmuni til að geta staðið við það. Þegar allt kæmi til alls skildi barnið ekki "dílinn".
Mér finnst þetta athyglisvert.
Reyndar verð ég að segja að ég er svona fremur andsnúinn því að börn fái tiltekið hlutverk innan heimilisins sem þau eiga að inna af hendi.
Frekar er ég hlynntur því að verkefni sem þarf að vinna, verkefni sem eru ólík og fjölbreytt, séu sett í einhvern áhugaverðan búning, þar sem lögð er áhersla á tilgang verksins. Verkið er svo unnið í góðri sátt og allir sem vilja fá að vera með en engu að síður er gefið svigrúm til að vera ekki með.
Dæmið er hinsvegar sett upp þannig að sá/sú sem vill ekki vera með er bara alveg rosalega "óheppin(n)" að vilja ekki vera með.
Pælingin hjá mér með þessu er að börnin fá að kynnast ólíkum verkum í stað þess að eiga alltaf að gera sama verkið, kannski á hverjum degi. Ekki síður, læra þau að vinna í hóp, þar sem fólk hjálpast bara að að vinna öll þau verk sem þarf að vinna og ekki skiptir máli hver vinnur hvað.
Þegar ég skrifa þessar línur dettur mér í hug, aðili sem starfaði á sama vinnustað og ég fyrir um 10 árum. Þessi aðili sem vann hin ýmsu verk innan stofnunarinnar, þverneitaði að skera fjórar vínarbrauðslengjur í bita á föstudagsmorgnum, vegna þess að það stóð ekki í starfslýsingunni. Breytti það engu um, þó í starfslýsingunni stæði að hann ætti að taka til leirtau fyrir máltíðir og ganga frá í matsal eftirá.
Ég er nú kannski ekki að segja að börn með skyldur á heimilum verði öll slagbrandar á við þennan, en ég er engu að síður hugsi yfir því, hvaða sjónarmið er verið að innræta með þessu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.1.2012 | 23:18
Mánudagur 2. janúar 2012 - Gleðilegt ár!!!
Ég ætlaði auðvitað að byrja árið á að setja góða og gagnmerka færslu inn á bloggið hjá mér í gær.
En hvað?
Svolítið miklu betra gerðist hjá mér en það ... ég talaði við Dóra vin minn í 4 klukkutíma á Skype í gærkvöldi ... það var eins og við hefðum talað saman í svona hálftíma þegar samtalinu lauk.
---
Nýja árið hefur verið okkur hliðhollt það sem af því er liðið og ef það heldur svona áfram gæti þetta bara orðið eitt besta ár ævi minnar.
Síðasta ár var það nú ekki alveg og segja má að maður hafi kvatt það með glans ... eða þannig ... við buðum Sverri, Jónda og Dönu í hátíðarmat á gamlárskvöld. Þríréttað í tilraunaeldhúsinu.
Sveppasúpa í forrétt ... sem var svona ágæt fannst mér ... of mikið piparbragð af henni fyrir minn smekk.
Pörusteik í aðalrétt. Aldrei gert pörusteik fyrr en mikið rosalega leit hún vel út þegar ég tók hana úr ofninum. Brúnaðar kartöflur, Waldorfsallat að hætti hússins og ýmislegt fleira. Reyndar gleymdi ég að kaupa rauðkál ... frekar glatað þegar maður er með pörusteik enda er rauðkál meðlæti nr. 1 í mínum huga.
Það hefði þó sloppið fyrir horn ef snillingurinn sem heldur úti þessari bloggsíðu hefði haft vit á því að kaupa ósaltað svínakjöt!!
Þó pörusteikin hafi litið vel út þegar ég tók hana úr ofninum fannst mér hún samt dálítið rauð ... en ég reyndi að bægja hugsuninni um að einhver skandall væri í uppsiglingu frá mér ...
En það var engin miskunn hjá Magnúsi ...
... framvindunni verður sennilega best lýst með því að segja að á nýjársnótt hentum við Lauga restinni af "saltkjötspörusteikinni með negulnagla- og lárviðarlaufsbragðinu".
Meðan allt lék nokkurn veginn í lyndi ...
Sverrir og Dana voru samt ósköp góð við okkur, sögðu að þetta væri bara gott og stríddu okkur ekkert. Í dag sagði Sverrir að þetta hefði alls ekki verið neinn skandall, en af einhverjum ástæðum væri hann búinn að syngja "Saltkjöt með pöru ... túkall!!!" síðan á nýjársnótt.
Í eftirrétt var svo einhver réttur sem Lauga bjó til og tókst hann ljómandi vel ... klárlega það besta á matseðlinum það kvöldið.
---
Svo var Skaupið bara mjög gott fannst mér ... á eftir að horfa á það aftur. Mér fannst Noregsbrandarinn frekar vondur þarna um kvöldið en eftir því sem ég hef pælt í því atriði hef ég eiginlega komist að því að meiningin hafi ekki verið að gera grín að þessum hörmungaratburðum í sumar. Miklu frekar hafi ætlunin verið að skjóta á þessa gríðarlegu þörf fólks, ekki bara Íslendinga, um að halda að grasið sé alltaf grænna hinum megin.
Noregur er í hugum margra Paradís á jörð en einmitt þar gerast svona martraðaratburðir ...
Þeir geta í sjálfu sér gerst hvar sem er ...
En Íslendingar vilja oft gleyma því að Ísland hefur gríðarlega marga kosti. Bara svona til að nefna einn sem örugglega fæstir hugsa um.
Á Íslandi hafa allt fram á þennan dag fáir þurft að hafa áhyggjur af skógarmítlum, þ.e. blóðsugum sem líma sig á spendýr og þá auðvitað á menn og geta borið með sér bakteríur sem valda skaða á taugakerfinu.
Þessi kvikindi eru mjög algeng hér í Svíþjóð og ég segi það fyrir mig að tilvist þeirra spillir mjög fyrir upplifun minni í náttúrunni hérna. Ég á ekki von á öðru en kvikindin finnist líka í Noregi.
Þegar við bjuggum í Ástralíu þurfti maður sífellt að hafa augun á sér varðandi einhver kvikindi. Andskotans kakkalakkarnir í eldhúsinu hjá okkur, já og maurarnir.
Þó mítlar og kakkalakkar, já og kannski maurar finnist á Íslandi er það, enn sem komið er, ekki í neinni líkingu við víða annars staðar.
... og það er alveg hrikalega mikill plús!!
---
Jæja ... hérna átti að koma voðalega fín nýjársdagsmynd af snillingunum hér á heimilinu ... ef ég hefði ekki þurrkað myndirnar út af minniskubbi myndavélarinnar núna í kvöld.
Maður er bara í því að gera það gott :) .
En þetta er mynd dagsins í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.12.2011 | 16:52
Gamlársdagur - 31. desember 2011 - Gleðilegt ár!!
Þá er árið á enda komið ...
... lærdómsríkt ár í meira lagi ... það er óhætt að segja.
Á árinu hafa verið færðar inn á þetta blogg um 190 færslur, sem þýðir færslu annan hvern dag að meðaltali.
Lesendafjöldinn hefur aukist svolítið frá því á síðasta ári en að meðaltali hefur rúmlega 21 einstaklingur rekið nefið inn á síðuna á degi hverjum. Þessi tala stóð í rúmlega 18 fyrir ári síðan.
Þetta er nú kannski ekki mest lesna bloggið í heiminum en ég verð samt að segja það fyrir mig að það að 21 einstaklingur skuli á hverjum degi finna hjá sér þörf til að lesa þetta sjálfmiðaða blogg mitt, er ótrúlegt.
Takk fyrir lesturinn!!
Við óskum þér gleðilegs nýs árs og vonum að nýja árið verði farsælt og skemmtilegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.12.2011 | 23:50
Föstudagur 30. desember 2011 - Að kunna að segja nei og kunna að velja
Húsfreyjan á heimilinu var að taka til morgunmatinn í morgun, þegar hún opnaði ísskápshurðina þannig að hún rakst af nokkru "afli" í ristina. "Áááiii" heyrðist í henni stundarhátt. GHPL stökk umsvifalaust af stólnum sínum, skreið undir borðið og þaðan í áttina að ísskápnum þar sem móðirin stóð.
Þegar hún kom að fætinum, leit hún upp og spurði: "Allt í lagi mamma?"
"Já, já ... þetta er nú allt í lagi, Guðrún mín."
Dóttirin taldi samt fulla þörf á að kyssa á bágtið og það gerði hún samviskusamlega. Svo skreið hún aftur undir borðið og klifraði upp á stólinn sinn.
Stuttu síðar rak faðirinn sig í (kannski meira svona til að kanna stöðu sína innan veggja heimilisins) ... og gaf frá sér kannski heldur meiri óhljóð en tilefni var til.
"Ég meiddi mig ... viltu kyssa á bágtið?", spurði hann sárþjáður.
GHPL leit við. "Neihei!!"
Þar með var það mál afgreitt.
---
"Má ég fá mjólk?", sagði dóttirin þegar hún sat niðurnegld fyrir framan Mikka mús í kvöld. Já, loksins var stundin runnin upp. Hennar hafði verið beðið allt frá því fyrir kl. 10 í morgun.
"Já, já ... viltu þá aðeins passa litla bróður þinn meðan ég fer fram og næ í mjólkina?" sagði móðirin.
"Neihei!!"
Ég skil ekki alveg hvar blessað barnið hefur lært þetta "neihei" ... ?!?
---
Talandi um að fá hlutina í "feisið" ... ég hef svo sem áður rætt um það á þessu bloggi ... en ég var með þá hugmynd fyrir nokkru síðan, þ.e. þegar Guddan var töluvert yngri en hún er núna, að börn lærðu þvergirðingshátt og neitun einfaldlega vegna þess að uppaldendur væru ávallt og eilíflega að segja "nei" og "nei" og "nei" við þau.
Einfalt prinsipp þar að baki ... börnin læra það sem fyrir þeim er haft.
Við Lauga ákváðum því að nota orðið "nei" mjög sparlega í öllum okkar samskiptum við Gudduna. Reyna frekar að beina athygli hennar í aðrar áttir eða finna lausn á málinu ...
En hvað???
Niðurstaðan er eitt mesta nei-barn í heimi ... hún segir nei við öllu.
"Heitirðu Guðrún?"
"Nei"
"Hvað ertu gömul?"
"Tveggja daga."
"Nú? Ertu ekki þriggja ára?"
"Nei!"
"Eigum við að koma í strætó?"
"Nei!"
"Eigum við að fara á leikskólann?"
"Nei!"
"Eigum við að lesa?"
"Nei!"
"Viltu púsla?"
"Nei!"
"Viltu horfa á Mikka mús?"
"Já!"
Þetta síðasta er undantekningin sem sannar regluna ;) .
Þrátt fyrir þetta er alveg ljóst að GHPL er besta dóttir í heimi ... að mínu mati ;) .
---
Í dag hef ég verið að vinna í markmiðum ... svolítið verið að móta næstu misseri ... áramótin eru svo sannarlega tími til þess.
Er kominn með 30 markmið sem ég hef verið að dýpka og útfæra.
Sumarið 2009 skrifaði ég 100 markmið eftir að hafa lesið það í bók eftir Jack Canfield að slík gæti verið gagnlegt.
Þessi markmið hef ég svo lesið reglulega yfir síðastliðin ár en núna er ég að taka þau til gagngerrar endurskoðunar. Það er er athyglisvert í þessu samhengi er hvað fókusinn hjá mér hefur breyst mikið því mörg þeirra markmiða sem ég setti á blað þarna um árið, skipta mig engu máli núna.
T.d. markmið um að komast á topp Kilimanjaro, hæsta fjalls Afríku. Ég hef komist að því að mig langar bara ekki baun til þess eins og staðan er í dag.
Ég hef þráfaldlega spurt sjálfan mig af hverju ég ætti að fara upp á þetta fjall? Eftir töluverðar vangaveltur komst ég að því að ég vildi helst fara upp á þetta fjall til að geta sagt öðrum að ég hefði farið upp á þetta fjall?!?
En af hverju?
Jú, til að fólk myndi dást að mér í 5 sekúndur ... jafnvel 10 eða 20 ...
Og hvað svo?
Ég veit það ekki ...
Ekki skilja þetta sem svo að mér finnist það að komast á topp Kilimanjaro vera eitthvað bull. Alls ekki. Ég er bara að tala fyrir minn munn.
Aðrir geta auðvitað fengið mikið út úr því að ganga á toppinn og það er bara frábært.
Ég á bara við ... að ef eina ástæðan til að komast á topp Kilimanjaro er til þess að geta sagst hafa gert það til að fá mjög skammvinna aðdáun, þá ætti maður að staldra við. Kannski finnur maður einhverja göfuga ástæðu innra með sér og þá fer maður að sjálfsögðu. En kannski finnur maður hana ekki og þá ætti maður kannski bara að sleppa því ... eða hvað?
Ég ætla að minnsta kosti að gera það og þess vegna hef ég rifið miðann sem á stóð "Komast á topp Kilimanjaro". Þess í stað set ég meiri kraft í "Sjálfboðaliðastarf í Afríku" og "Hálendisferð á hestbaki" sem dæmi séu tekin.
Verkefnin verða í mínum huga að hafa dýpri merkingu heldur en einhverja aðdáun annarra. Þau verða að hafa einhverja þýðingu ... gera mig að betri manni ... ef svo hátíðlega má komast að orði.
Bloggar | Breytt 31.12.2011 kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2011 | 23:37
Fimmtudagur 29. desember 2011 - Annar pabbi og málningarhristarinn
Í kvöld fékk ég kaldar kveðjur frá dóttur minni ... já, þegar hún var beðin um að fara og kyssa mig góða nótt harðneitaði hún og sagðist vilja fá annan pabba?!!?
Ég sem sat í næsta herbergi, kváði enda hafði ég ekkert til saka unnið umfram aðra hér á heimilinu. Jú, jú, GHPL ítrekaði bara þessa ósk sína. Ég lét mig hverfa en snéri skjótt aftur, stökk fram í eldhúsið með tilþrifum og sagði "tarammmmmm" en dóttirin rétt skaut á mig augunum og hélt svo áfram að sinna afar brýnu verkefni. Að hnýta band af jólapakka utan um einhvern strump.
Annars eru nú hlutirnir heldur að færast í rétt horf núna ... pípuorgelið hefur lítið pípt í dag og Houdini fór á leikskólann í fyrsta skipti í marga daga.
Ég minntist í gær á að Pípus væri sennilega að pípast mikið vegna tanntöku. Nú er komin önnur skýring en sú er að hann sofi ekki nægjanlega á daginn þegar hann hangir hér heima og við það virkjast pípið.
Þetta er ekki eins fráleit skýring og ætla mætti í fyrstu, því PP sefur æfinlega best í vagninum, helst þegar hann er á fleygiferð. Meiri hristingur, betri svefn.
Einnig er "málningarhristarinn" vel þekkt fyrirbæri innan veggja heimilisins, en PJPL finnst fátt betra en að sofna um leið og haldið er á honum í fanginu og hann svo hristur eins og 10L málningarfata. Allt venjulegt fólk myndi ekki undir nokkrum einustu kringumstæðum getað sofið í slíkum ógnarhristingi en nafni lygnir aftur augunum og gefur hvað eftir annað frá sér mjög langt og afar sannfærandi "aaaaaaaaaaahhhhhhhhhhhaaaaaahhhhh" sem auðvitað hljómar í fullum takti við hristinginn. Svoleiðis gengur það uns Óli Lokbrá tekur völdin ... sem gerist oftast frekar fljótlega sem betur fer því það tekur á að keyra "málningarhristarann" á fullu gasi, já og hlusta á sönginn ;) .
Ætli maður verði ekki að láta þetta duga núna ... klukkan er alltaf orðin svo drullumargt þegar maður loksins kemur sér í rúmið.
Ég ætla að hverju kvöldi að fara að leggja mig á skikkanlegum tíma. Það gengur aldrei eftir.
Við Lauga vorum aðeins að ræða þetta um daginn. Niðurstaðan var eiginlega sú að tíminn eftir klukkan 22 á kvöldin sé bara slíkur "quality time" að það sé eiginlega ekki hægt að nýta hann bara í svefn.
Maður ætti samt að koma sér fyrr í bælið ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2011 | 23:24
Miðvikudagur 28. desember 2011 - Vinna og Mikki mús
Jæja, þá er fyrsti alvöru vinnudagurinn að baki milli jóla og nýjárs ... í lok dags hafði ég skilað af mér svörum við athugasemdum sem gerðar voru við vísindagrein nr. 1. Nú strax eftir áramótin fara þessi svör til Journal of Environmental Psychology og vonandi duga til þess að ákvörðun verður tekin um að birta blessaða greinina ...
... satt að segja er ég orðinn nett leiður á að eiga við þessa grein, hún er búin að vera í vinnslu allt, alltof lengi. Þannig að bara "koma svo!!"
Svo svaraði ég nokkrum jóla-emailum ... einkum til vina og kunningja erlendis ... það er alltaf gaman að "katsja upp" við liðið endrum og sinnum.
Og loks vann ég örlítið í heimasíðunni minni ... ofurlitlar uppfærslur sem eru algjörlega nauðsynlegar ... bætti t.d. svona inn á heimasíðuna ...
Skil reyndar ekki alveg afhverju ég fæ alltaf tvo hnetti hérna ... en ég nenni samt eiginlega ekki að vera neitt að pæla í því ... þetta er töff!!
---
Nafni minn sem stundum er kenndur við pípu hefur aldeilis borið nafn með rentu í dag ... í vakandi ástandi hefur hann pípt nánast stanslaust eins og gufuketill í allan dag.
Eina ráðið til að fá hann til að þagna er einfaldlega að svæfa'ann ... sem gengur auðvitað ekki alltaf, því maðurinn er náttúrulega ekki alltaf þreyttur. Samt gengur það bara furðu oft.
Hann ætlar augljóslega að taka þessi fyrstu jól sín með stæl ... 40°C hita fylgt eftir með stanslausu pípi. Meira að segja móðirin er orðin mjög þreytt á pípinu ... og þá er mjög mikið sagt
Líklegt er þó reyndar að hann sé að taka fleiri tennur og það geti skýrt málið.
Hlaupabólan er í mikilli rénun hjá GHPL, en líkaminn ber þó enn merki um "hamfarirnar" ... hreint ekkert of glæsilegt á að líta.
En Guddan er í feikna stuði þessa dagana ...
Hún er í svo miklu stuði að mjög gaman er að taka smá "debatt" við hana ... en "debattarnir" eru iðulega um hvort hún megi horfa á Mikka mús eða ekki (hvað annað?!?!). Þá segir maður gjarnan eftir að vera búinn að svara spurningunni svona 10 sinnum: "Ég er búinn að segja þér að þú mátt horfa á Mikka mús eftir tvo daga". Sú stutta svarar þá fullum hálsi: "Já en ég var búin að segja að ég mætti horfa á Mikka mús núna!!" Stundum bætir hún snúðug við að maður eigi svo að "hætta þessu væli" og strunsar í burtu.
En stundum bregður hún á annað ráð ... og það er að hagræða sannleikanum svolítið með því að spyrja þá hitt foreldrið hvort hún megi horfa á Mikka mús og ef svarið er "nei" að segja þá hiklaust að hitt foreldrið hafi sagt "já".
Svo fann hún það út í dag þegar móðir hennar bauð henni að koma út að leika, að best væri að ég færi út meðan hún og mamma hennar, já og litli bróðir, væru inni ... og hún auðvitað að horfa á Mikka mús!
Jæja ... læt þetta duga í bili ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2011 | 23:57
Þriðjudagur 27. desember 2011 - Árið 2011: nokkrir punktar
Jæja ... þetta hefur sennilega verið besti jóladagurinn hingað til, sem sennilega ræðst af því að nú er búið að vindast vel ofan af þessu jóladæmi.
PJPL var nær eðlilegum líkamshita frekar en ekki.
GHPL var viðræðuhæf mestan hluta dagsins og til marks um það þá var frasi dagsins í dag "þetta er frábært!!" í stað "þetta er rugl!!" sem hefur verið allsráðandi undanfarna daga.
---
Í kvöld tók ég saman árið 2011, þó svo það sé ekki alveg búið, þá er ég nokkuð viss um að það munu engin rosaleg afrek verða unnin það sem eftir lifir árs.
Ég fór í gegnum dagbókina mína og fletti upp á völdum stöðum í hausnum á mér í leiðinni og niðurstaðan voru 28 atriði sem stóðu upp úr á árinu.
Uppgötvun ársins átti sér stað þann 4. október í tíma hjá Einari Gylfa sálfræðingi. Þá skildi ég loksins að óumbeðnar ráðleggingar er eitthvað sem fæstir hafa áhuga á að hlusta á. Himnarnir skyndilega opnuðust hjá mér og héldu áfram að opnast í margar vikur á eftir.
Það sem ég áleit vera góð og gagnleg ráð, gefin af gegnheilli umhyggju, eru ásakanir og aðfinnslur í eyrum þeirra sem orðin beinast að séu ráðin gefin óumbeðið og fyrirvaralaust. Það þekkja það allir ef þeir nenna að spá í það ... "heyrðu mig nú, ég held að þú ættir að hætta að drekka kók, þetta skemmir tennurnar og svo er svo mikill sykur í þessu. Veistu ekki að þetta lækkar sýrustigið í líkamanum hjá þér og veldur óþægindum og blablablabla ... "
Það hefur enginn áhuga á svona ráðleggingum sem koma eins og þruma úr heiðskíru lofti.
Mesta afrek ársins var þegar ég braut blað í rannsóknum á endurheimt umhverfis. Með því að búa til, reyndar með mjög mikilli hjálp danskra kollega, tvö gagnvirk tölvulíkön af borgarhverfum en uppbygging þeirra var byggð á niðurstöðum rannsókna minna, var stigið skref sem aldrei hefur áður verið stigið innan þessa geira.
Tæplega 60 nemendur við Uppsala-háskóla voru svo "testaðir" í þessum tveimur sýndarveruleikum. Niðurstöðurnar á margan hátt áhugaverðar og vísindagrein byggð á niðurstöðum þessar rannsóknar er nokkuð á veg komin.
Læt þetta duga í bili.
Bloggar | Breytt 28.12.2011 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2011 | 23:40
Annar í jólum - 26. desember 2011 - Lesið rangt í aðstæður?
Hjá okkur hafa jólin verið alveg ljómandi góð. Töluvert annasöm þó ... alltént í samanburði við fyrri jól.
Mikill spenningur var hér á aðfangadag þar sem GHPL mátti bíða og bíða og bíða eftir því að komast í pakkana. Mikið suð og dálítið "attitjúd" í gangi. Að lokum var gefið leyfi á að horfa á Mikka mús og þá lagaðist allt.
En svo nálguðust jólin óðfluga og dóttirin vinsamlegast beðin um að fara úr náttkjólnum og í almennilegan jólakjól. Þá byrjaði darraðardans mikill, þar sem kjóllinn var í sífellu tekinn og honum hent í gólfið undir því yfirskyni að allt væri þetta bara "rugl".
Loks tókst að koma henni í kjólinn og þegar verknaðurinn var yfirstaðinn, sat Guddan eftir í hjónarúminu, allsúr og tautaði: "Týpískt, týpískt."
Eftir að hafa tekið syrpu við kvöldmatarborðið, þar sem m.a. Guddan hellti appelsínusafa þráðbeint ofan í hálsmálið hjá sér, sem leiddi til að skipta varð um dress, var tekið hressilega til hendinni við pakka-upptökuna. Þar tók GHPL upp pakkana fyrir sjálfa sig og bróður sinn, en sá var með hugann við allt annað en pakka allt kvöldið. Þess í stað veltist hann um ýmist á gólfinu eða í sófanum.
GHPL var svo sofnuð svona tveimur mínútum eftir að síðasti pakkinn hafði verið tekinn upp.
Þá gafst okkur Laugu smá tími til að ræða málin og fá okkur svolítið góðgæti, áður en farið var að sofa.
Á jóladeginum vaknaði PJPL með 39°C hita, foreldrum sínum til mikillar gleði ... eða þannig. Og þannig rúllaði hann fram og aftur úr 38°C - 39,5°C í takti við virkni hitalækkandi lyfja sem honum voru gefin. Fjörugur fyrsti jóladagurinn hjá honum ... já eða þannig.
En systirin hans tók af honum ómakið, því hún sýndi gjörsamlega fráleita hegðun strax eftir að hafa risið upp af koddanum. Hegðun sem aldrei hefur hreinlega sést áður hjá þessu stelpuskotti. Tvisvar þurfti að grípa heldur hressilega inn í ... sem er ömurlega leiðinlegt.
Rétt eftir hádegið fór hún svo bara að leggja sig ... sennilega er hlaupabóla, jólapakkar, sælgæti, skógjafir, spenna og of mikil athygli móður á litla bróður slæmur hegðunarkokteill.
Reyndar verð ég að viðurkenna að sennilega hefur maður gjörsamlega vanmetið spennuna hjá Guddunni fyrir pökkunum og jólunum. Þetta er fyrstu jólin þar sem hún er að meðtaka pakkana og það að "fá í skóinn" ... og bara ekkert ráðið við þetta og við foreldrarnir alls ekki verið með á nótunum.
Þannig að það verður bara að skrifa þessa bombu á okkur.
Bróðirin hélt bara áfram að láta sér vera heitt síðdegis og Guddan var ögn rólegri eftir að hún vaknaði. Þá byrjaði bara suð um Mikka mús ...
Kaffi og spjall, já og púsluspil var það sem gekk á allt til kl. 18, þegar opnað var fyrir sjónvarpsdagskrána hjá GHPL. Eftir það var allt í himnalagi. Þetta er alveg ótrúlegt dálæti sem þetta sjónvarp hefur.
Kvöldið leið svo við púsluspil og sjónvarpsgláp, þar sem við horfðum á Liar, liar með Jim Carrey á Stöð 3.
Svo hélt púslið áfram hjá mér ... fram eftir nóttu.
Í morgun var svo stemmningin heldur tekin að róast. GHPL tók smá syrpu og ég smá syrpu og eftir það vorum við bara fín bæði tvö. Stubbur hélt áfram veru sinni í innbyggða kyndiklefanum.
Ég og Guddan fórum svo í jólaboð til Sverris, Jónda og Dönu eftir hádegið. Síðdegis bauð Sverrir svo upp á ferð á körfuboltaleik en ég hef ekki farið á slíkt síðan í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar. Það var ágætis skemmtun.
Aftur var farið í boðið og voru þar fjörugar umræður um klám, feminisma og fleira. Sitt sýndist hverjum í þeim efnum.
Nenni ekki að skrifa meira núna ... en ég ítreka að jólin voru góð hjá okkur. Það kann að vera að ég dragi upp nokkuð dökka mynd af ástandinu hér en það er kannski meira fyrir sjálfan mig til að muna hvernig hlutirnir æxluðust og hvernig má læra af þeim.
En hér er jólaveðrið í Uppsala 2011 ... það er um 30°C munur í hitastigi frá því í fyrra ... hvorki meira né minna ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)