Færsluflokkur: Bloggar

Aðfangadagur jóla - 24. desember 2011 - Gleðileg jól!!

 


Fimmtudagur 22. desember 2011 - Hlaupabóla og íslensk tónlist

Það var aldrei að Guddan fengi ekki hlaupabóluna ... já takk, þetta er rosalegt!  Síðasta nótt var heldur óskemmtileg þar sem GHPL grét af kláða drjúgan hluta nætur og hafnaði algjörlega allri aðstoð sem henni stóð til boða.

Ég hef svo sem ekki mörg tilfelli til viðmiðunar, en þetta tilfelli á heimilinu hlýtur að vera töluvert krassandi. Meira segja svo að ég kann hreinlega ekki við að sýna myndir af blessuðu barninu í þessu ástandi hér á blogginu, en búkurinn er alsettur myndarlegum, vökvafylltum útbrotum bæði að framan og aftan.  

--- 

Dagurinn hefur farið í jólaundirbúning, þar sem ég bjó til eins og eitt jólakort til að senda rafrænt, fór í bæinn ásamt nafna og keypti nokkrar jólagjafnir. Restin verður svo tekin á morgun ... enda svo sem ekkert annað í stöðunni ef yfirleitt á að kaupa gjafirnar fyrir jól.

Já og svo keypti ég "antihistamín" fyrir GHPL ... sem er kláðastillandi ... vonandi að það virki vel í nótt :) . 

---

Svo datt mér í hug að hlusta svolítið á íslenska tónlist í dag meðan ég var í kortadæminu. Yfirleitt hlusta ég frekar lítið á íslenska tónlist þannig að þetta var kærkomin tilbreyting (talandi um tilbreytingu sbr. blogg gærdagsins) ... en jæja ég hlustaði á hitt og þetta.

Að einhverju leyti hlýt ég að vera tónlistarlegur bastarður því það er alveg sama hvað ég hlusta á Mugison ... ólík lög eða sömu lögin aftur og aftur ... ég er bara ekki að ná honum.  Meðan allir eru að pissa í sig af hrifningu er ég bara ekki með'etta.  Ég ætla samt að halda áfram og sjá hvort ég "vitkist" ekki eitthvað.

En þessi "fáviska" er jafn borðleggjandi þegar kemur að bæði Sigurrós og Björk. Ég fór á Bjarkartónleika um daginn þegar ég var á Íslandi ... hafði áður lesið einhverja gagnrýni í Mogganum frá þessum tónleikum, þar sem gagnrýnandinn var nærri farinn yfir móðuna miklu af hrifningu.
Þrátt fyrir að hafa verið eins opinn og móttækilegur og mér var frekast unnt, þá hefði ég ekki gefið þessum tónleikum meira en 5 af 10 mögulegum.

Þetta er voða leiðinlegt að vera svona ...  

Mér til bjargar get ég þó sagt að ég hlustaði svolítið á Valdimar sem mér hefur verið sagt að sé góð hljómsveit ... og já, ég er alveg inn á þeirri línu. Þeir eru nokkuð þéttir ... og söngvarinn hefur flotta rödd finnst mér, þó kannski söngtæknilega sé hann ekkert sérstaklega góður. En það skiptir ekki máli í þessu samhengi.

Mér fannst líka Of Monsters and Men fín ... þarf samt að hlusta meira á hana til að dæma almennilega.

Annars held ég að menn ættu bara að leggja meira upp úr þessu og minna upp úr hinu ;)

 


Miðvikudagur 21. desember 2011 - Hlaupabóla og jólastemmning

Þessi dagur hefur nú farið fyrir heldur lítið ... óhætt að segja að lítið sem ekkert af viti hafi verið gert. Stundum eru dagarnir þannig og við það verður að una, þó svo litli púkinn á öxlinni sé iðinn að láta mann vita af aðgerðarleysinu.

Það er því best að slá bara botninn í þennan dag ... fara að leggja sig og vakna hress og glaður í fyrramálið. Á morgun verða víst vetrarsólstöður eftir því sem ég best veit.

Guddan glímir nú við hlaupabóluna af fullum þunga ... útbrot um allan strokkinn, kláði og fleira fínt.  Hefur fengið að borða þrjá græna frostpinna vegna ástandsins ásamt því að horfa á video. Það fylgja því kostir og gallar að vera veikur ...

 

Jólaandinn fer nú vonandi að koma yfir mann ... þetta jólastand síðustu ár hefur svolítið misst marks þar sem jólastemmningin hefur að mestu látið á sér standa. Ég hef mikið velt því fyrir mér hvernig hægt sé að vekja upp þessa stemmningu og af hverju maður finnur svona lítið fyrir henni.

Í bókinni hennar Margrétar Pálu, þeirri sömu og ég vísaði til um daginn, hef ég fundið bestu skýringuna hingað til. Þar segir að jólin feli ekki í sér neina tilbreytingu lengur. Almennt feli þau bara í sér að meira sé af öllu þessu "hversdagslega".

T.d. borðar maður nánast á hverjum degi góðan mat, það er alltaf verið að narta í eitthvað sælgæti, drekka svolítið gos, kaupa sér eitthvað smávegis, gefa eitthvað smávegis, tala við fólkið heima á Íslandi, það er verið að leiga sér video o.s.frv. o.s.frv.
Og á jólunum er bara gert meira af þessu öllu ... sem er náttúrulega engin tilbreyting heldur bara óhóf.

Eftir að ég fattaði þetta, fór ég að hugsa meira út í tilbreytinguna. Þá rifjaðist upp fyrir mér mjög óformlegt jólaboð sem var heima hjá Huldu systur og Mugga fyrir nokkrum árum. Ég og mamma höfðum verið í jólaboði á jóladag og þegar við komum heim þá hringdi ég í Huldu sem spurði hvort við vildum ekki bara kíkja í heimsókn. Hún sagðist geta boðið upp á smá hangikjöt og með'í ... ekkert massíft dæmi neitt.

Þetta kvöld sem leið við skemmtilegt spjall og rólegheit og áhorf á einhverja íslenska mynd er sennilega besta jólamóment lífs míns ... þetta var eitthvað svo mikil tilbreyting frá hversdeginum, þó ég átti mig ekki alveg á því, enn sem komið er, í hverju tilbreytingin fólst. 

En þarna finnst mér ég vera kominn með einhvern grundvöll til að vinna út frá í því skyni að gera jólin að þeim tíma sem þeim ber ... því sannarlega eru þessar hátíðir mikilvægur tími í margvíslegum skilningi og engin ástæða til annars en að hafa þær ánægjulegar ... 


Þriðjudagur 20. desember 2011 - Jólahlaðborð, hlaupabóla og Kódak-móment

Í dag skrapp ég til Gävle. Sú heimsókn var ekki af verri endanum því mér hafði verið boðið þangað í jólahlaðborð Institutet för bostads- och urbanforskning (IBF) sem er batteríið hér í Svíþjóð sem ég formlega tilheyri. 

Réttir dagsins á hlaðborðinu voru afar ljúffengir og rammsænskir held ég, t.d. síld, jólaskinka, kjötbollur og Jansen's kartöflur (held ég að það heiti), já og þá var julmust drukkið með. Svo voru fjörugar samræður við borðið og bara allt í þessu fínasta.

Eftir matinn vann ég fram til kl. 18.30 með leiðbeinanda mínum en nú erum við að leggja lokahönd á svör okkar við athugasemdum sem gerðar voru við greinina sem við sendum til birtingar hjá tímaritinu Journal of Environmental Psychology þann 20. janúar sl. Nú er bara að vona að ritstjóri tímaritsins verði svo vænn að samþykkja greinina til birtingar.  Við erum býsna bjartsýnir á það enda er þetta "rock solid" grein og góð rannsókn sem þarna var gerð.

---

Guddunni brást ekki bogalistin og var heima í dag með hlaupabólu. Enn sem komið er eru útbrotin fremur væg og hún sjálf bara hress þrátt fyrir að vera með 38°C.

Þristurinn tekur stórstígum framförum á hverjum degi. Átti stórleik þegar hann stóð upp undir matarborðinu. Er klárlega sá eini í fjölskyldunni sem getur gert slíkt án þess að rekast upp undir. Því miður var myndavélin ekki í seilingarfjarlægð ... sannarlega Kodak-móment þar.

Í það heila er sumsé allt í himnalagi ... 


Mánudagur 19. desember 2011 - Að komast upp á lappirnar

Nú er stubbur kominn upp á endann. Já, hlutirnir gerast hratt hér í Uppsala þessa dagana. Hann verður fljótlega farinn að ganga þessi ágæti litli snillingur.


Þarna má sjá glitta í hinn stórkostlega tanngarð sonarins ...  

Að öðru leyti er Guddan sennilega, loksins að fá hlaupabóluna sem beðið hefur verið eftir ... þannig að hún er ekki ónæm eins og við vorum farin að halda. Morgundagurinn mun skera úr um þetta mál.

Í dag hef ég skrifað heilmikið og merkilegt ... sem ég bara held að ég ætli ekki að fara út í að svo stöddu.

Og Lauga hefur varið deginum að mestu leyti í strætó ... var ekkert sérstaklega hress með það þegar allt kom til alls. 


Sunnudagur 18. desember 2011 - Jólaundirbúningur og "gæðastundir"

Núna er jólaundirbúningurinn kominn á skrið hérna hjá okkur ... kannski ekki seinna vænna.

Í dag voru t.d. keyptar jólagjafir ... passlega seint þannig að þær munu sennilega ekki ná að komast undir jólatréin á Íslandi í tæka tíð. Svoleiðis er það nú bara en þær komast þó vonandi á leiðarenda ... þá í formi áramótapakka.

Í gærkvöldi var svo reynd jólamyndataka af blessuðum börnunum ... árangurinn var í fullu samræmi við þroska þeirra sem sátu fyrir.

Þetta er uppáhaldsmyndin mín ... segir meira en mörg orð hvernig þessi myndataka fór fram.

Í gær var líka jólaball Íslendingafélagsins. Óvenjumargt um manninn að þessu sinni. Síðuhaldari tróð upp með söng, sem tókst alveg bærilega. Hann brá sér svo frá akkúrat þegar jólasveinarnir mættu í hús og kom aftur mjög stuttu eftir að jólasveinarnir hurfu á braut.

Óheppinn karlinn ... GHPL sagðist hafa rætt ítarlega við annan jólasveininn og fengið hjá honum nammi. 

---

Þá má nefna að nafni er að fá sína fjórðu tönn ... efri framtönn hægra megin.  Hann er sumsé að verða gríðarlega vel tenntur.
Það sem er samt hreint ótrúlegt er að drengurinn hefur, með sínar þrjár tennur, verið afar iðinn við að gnísta tönnum ... þetta eru slík óhljóð að þau smjúga inn að merg, fyrir utan það náttúrulega hvað tilhugsunin um að verið sé að gnísta saman framtönnunum er eitthvað svo hrikalega "gæsahúðarvaldandi"...

Þristurinn er einnig orðinn mjög liðtækur við að skríða og það nýjasta nýtt er að krjúpa á hnjánum, sem gerir hann afar mannalegan.

 

Frussið byrjaði á afmælisdaginn minn, þegar herrann var á hlaðborði í fínni siglingu yfir Eystrasaltið ... fann svo sannarlega staðinn og stundina til að byrja á þessum "ósóma". 

--- 

Ég hef síðustu daga verið að lesa uppeldisbók Margrétar Pálu Hjallastefnustofnanda. Mjög merkileg bók finnst mér og skemmtileg aflestrar enda talar og skrifar konan mjög góða og kjarnyrta íslensku að mínu mati.
Þau eru nokkur atriðin sem hafa vakið mig til umhugsunar. Ekkert þó jafn rækilega og "gæðastundirnar". Margrét Pála segir "gæðastundir", þ.e. stundir þar sem foreldrar einblína á barnið og þarfir þess án þess að skeyta neitt um annað í umhverfinu á sama tíma, vera stórlega ofmetið fyrirbæri. 

Ég varð svo innilega glaður þegar ég las þetta ... einfaldlega vegna þess að mér hefur alltaf fundist "gæðastundir", fyrir utan hvað þetta orð er hrikalega "korný", vera alveg gjörsamlega út í hött. Þar höfum við Lauga alls ekki verið sammála enda hún iðin við að veita GHPL "gæðastundir".

Árangurinn hefur orðið sá að GHPL gengur sífellt meira og meira á lagið, þannig að hún stundum getur varla verið til nema móðirin sé með stanslausa skemmtidagskrá eða sitji heilu og hálfu klukkutímana í "kaffiboðum" í barnaherberginu.
Á meðan bíða önnur verkefni ... sum jafnvel brýnari en að "þamba kaffi". Og þá er ég ekkert endilega að tala um uppvask eða eitthvað slíkt, heldur einfaldlega verkefni sem Laugu langar til að sinna ... t.d. að lesa eitthvað, hvíla sig, spjalla við e-n í síma, skreppa í tölvuna eða jafnvel ræða við mig. 

"Gæðastundirnar" eru því tvíeggja sverð því um leið og verið er að skapa "æðisleg" samskipti, þá skapast afar kröfuharður, lítill stjórnandi sem erfitt getur verið að fá til að taka sönsum og líta á hlutina örlítið öðrum augum heldur bara frá eigin sjónarhorni.

Af hverju ekki bara að láta heimilislífið líða áfram í sátt og samlyndi, í stemmningu þar sem allir fá andrými, allir eru virtir að verðleikum og allir fá að vera með. Af hverju þarf að vera að draga ákveðna einstaklinga sérstaklega út og einblína sérstaklega á þá í tiltekinn tíma á hverjum einasta degi?
Mér finnst þetta ekki vera til þess fallið að skapa liðsheild en fjölskyldulíf á fyrst og síðast snúast um það að mínu mati.

Ég gæti haldið áfram með þetta ... ætla samt ekki að gera það ... 


Föstudagur 16. desember 2011 - Óvissuferðin

Tja ... hún var nú af dýrari gerðinni afmælisgjöfin frá spúsunni ... 

... rétt um miðjan dag var maður rifinn af stað frá tölvunni og lagt á vit ævintýranna. Það dugði ekkert minna en ferð með skemmtiskipinu MS Victoria I sem gert er út af skipafyrirtækinu Tallink Silja Line. Pláss fyrir um 2.500 manns í þessu ágæta skipi.  

Ferðinni var heitið til Tallinn í Eistlandi. En það hékk meira á spýtunni ... því við vorum varla stigin um borð þegar Lauga dró upp boðsmiða á jólahlaðborð í skipinu.
Afar ljúffengt!

 

Svo var bara stanslaus skemmtun um borð, kók og hnetur frameftir öllu ... reyndar verður að láta þess getið að GHPL tók upp á því að týnast um kvöldið. Smá kikk það ... seinna kom í ljós að hún hafði staðið svona 5 metra frá okkur allan tímann, reyndar bakvið súlu þar sem hún fylgdist með andakt með dönsurum kvöldsins.

Við stigum á land í Tallinn um kl. 10 í gærmorgun og dvöldum þar í um 8 klukkutíma. Skemmtileg borg. Mörg flott hús og flottar götumyndir ... ekki amarlegt fyrir þann sem stúderar umhverfissálfræði.

 

GHPL var nú ekki alveg eins hrifin af þessu borgarrölti og foreldrarnir og vildi helst af öllu bara komast í skipið aftur ... komast í fjörið og ekki síst að leika við krakkana í "Boltalandinu", já og horfa á fólkið dansa og syngja.

 

 

Sama fjörið var uppi á teningnum um kvöldið á heimsiglingunni. Það var heldur meiri alda í það skiptið þannig að það bætti á stemmninguna.  Allir kúfuppgefnir upp úr miðnættið, jafnvel PJPL sem gerði samt lítið annað en að sofa í borgarreisunni.

Til Stokkhólms var komið eftir að hafa snætt indælis morgunverð ... sem að sjálfsögðu var hluti af afmæligjöfinni ...

Sumsé í alla staði snilldarferð ...

---

Ég er algjör landkrabbi ... núna tæpum 12 klukkustundum eftir að komið var í land er ég með slíka sjóriðu að mér finnst allt vera á fleygiferð. 

--- 

GHPL fann það út í kvöld eftir að hafa borðað 1/3 úr pizzusneið og 1/3 af epli og drukkið 0,2 l af perusafa og ofurlitla mjólk á hálftíma að sér væri illt í maganum af því hún hefði borðað svo hratt!!!

Sá verkur hvarf strax þegar hún mátti horfa á video ... 


Miðvikudagur 14. desember 2011 - Afmælisbarn dagsins

Í athugasemdaboxinu verður tekið við afmæliskveðjum í allan dag og einnig næstu daga ... vertu ófeimin(n) að skilja eftir kveðju ...

... síðuhaldara finnst fátt skemmtilegra en að taka við afmæliskveðjum ...

 

Alltaf gaman að eiga afmæli ... 


Þriðjudagur 13. desember 2011 - Afmælisbarn dagsins

Afmælisbarn dagsins í dag ... er 25 ára ...

... man þegar ég hitti kauða nýkominn af fæðingardeildinni. Fyrsta kommentið mitt var eitthvað á þá leið að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að hafa útstæð eyru.

Í það skiptið reyndist ég sannspár ...

Tuttuguogfimm árum síðar er drengurinn að kokka norður á Akureyri og stendur sig svona líka fjári vel. Og já, hann er með bíladellu ...

Þetta er auðvitað stórfrændi minn Stefán Jepp junior ...

Hér er afmælisbarnið ásamt GHPL ... 

---

 

 

Uppfærsla vegna bloggfærslu í gær 12. desember

Afmælisbarnið á gullaldarárunum ... ungur og fallegur ... staddur í Þýskalandi að hringja í farfuglaheimili í Evrópureisu okkar í júlí 1999.

Ég fann bara ekki þessa mynd í gær ... 

 


Mánudagur 12. desember 2011 - Afmælisbarn dagsins

Mér finnst stórkostlegt til þess að vita að minn góði vinur, Dóri er fertugur í dag. Skrýtnast er til þess að hugsa að hann er bara pínu eldri en ég sjálfur.

Hér er mynd af afmælisbarninu ... þetta er algjörlega besta myndin sem ég átti í fórum mínum  ...

... klárlega er þessi tekin þegar afmælisbarnið mátti muna sinn fífil fegurri ...  

 

Kúturinn kominn á fimmtugsaldurinn ... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband