Færsluflokkur: Bloggar
20.1.2012 | 23:56
Föstudagur 20. janúar 2012 - Sittlítið af hverju
Þá eru hér um bil liðnar þrjár vikur af nýja árinu ... rosalega líður tíminn ...
Ísland komið í milliriðil í þessum blessaða handbolta. Leikurinn var sýndur hér í Svíþjóð, þannig að ég ómakaði mig til að horfa á hann.
Arfaslakur leikur verð ég að segja ... held að íslenska liðið sé lítið að fara að gera í þessum milliriðli.
En tíminn verður svo sem bara leiða það í ljós ...
---
Dagurinn fór í lestur rannsóknagreina ... svipað stöff og í gær ... bara skemmtilegt að brjóta heilann um þetta og púsla þekkingunni saman atriði fyrir atriði.
---
Milli umhverfissálfræðilegra pælinga hefur maður aðeins spáð í þetta ótrúlega Geirs Haarde mál.
Á sínum tíma fannst mér hallærislegt að senda Geir einan á "vígvöllinn", hinir þrír áttu auðvitað að fylgja með ... þó reyndar ég hafi ákveðna samúð með Björgvini, sem virðist nú bara hafa verið rangur maður á röngum stað á röngum tíma.
En úr því sem komið er, er náttúrulega ekki nokkur leið að hætta bara við þetta allt saman ... ef Geir hefur ekki brotið af sér, þá fellur dómurinn væntanlega honum í hag og málið er úr sögunni.
Sé hann sekur, þá verður það bara að vera svo.
Sú röksemdarfærsla að það eigi að sleppa Geir vegna þess að hinir sluppu gengur bara ekki upp að mínu mati. Þá má ekki gleyma því að Geir var æðstráðandi og því fylgir auðvitað ábyrgð. Hann sóttist eftir þessu embætti á sínum tíma og þá verður hann bara að sitja uppi með þá ákvörðun sína.
En sanngirnin í því að aðrir stjórnmálamenn, núverandi og fyrrverandi, sem augljóslega bera líka ábyrgð, strjúki nú um frjálst höfuð, er náttúrulega engin.
Ef það væri einhver dugur í þessu liði þá myndi það biðja um að fá að axla ábyrgð og láta dómstóla skera úr um hvort það hefði gerst brotlegt við lög eða ekki.
Það er svoleiðis slegist um að halda um valdasprotann, allir gaspra um hvað þeir séu miklu hæfari og betri til þess arna en um leið og hlutir fara á annan veg en ætlað er, þá er það öllum öðrum að kenna og allir aðrir svo vondir ...
Held að það hefði verið nær að taka þetta Landsdómsmál á þeim forsendum hvort ekki væri hægt að greiða aftur atkvæði um að senda hina þrjá ásamt Geir og nokkra í viðbót fyrir dóm ... að mönnum hafi einfaldlega orðið á mistök þarna um árið.
Bloggar | Breytt 21.1.2012 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2012 | 23:21
Fimmtudagur 19. janúar 2012 - Eitthvað að gerast
Nokkrir ágætir áfangar sem náðust í dag.
Þar bar hæst viðtal sem Læknablaðið tók við mig varðandi sem rannsókina á krabbameinsdeildinni sem ég í slagtogi við aðra stóð fyrir á síðasta ári. Það er alltaf gaman þegar einhver sýnir áhuga á því sem maður er að gera.
Viðtalið verður sennilega birt í næsta eða þarnæsta hefti Læknablaðsins.
Svo ræddi ég við stórvinkonu mína, Auði Ottesen í dag. Allaf hressandi að spjalla við hana. Við vorum að ræða verkefni sem eru á döfinni hjá okkur. Mjög spennandi verkefni sem að sjálfsögðu tengjast umhverfissálfræði.
Seinnipartinn lá ég svo yfir mjög skemmtilegri rannsóknargrein þar sem verið var að kanna tengslin milli dálætis (preference) og sálfræðilegrar endurheimtar, en hið síðarnefnda er það sem doktorsverkefnið mitt snýst um.
Það er alveg óþarfi að óttast þetta mikla hugtak "sálfræðileg endurheimt", því með svolítilli einföldun má segja að sálfræðileg endurheimt sé það sama og "hlaða batteríin" ... ekkert flókið við það.
Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að dálæti okkar á tilteknu umhverfi er að töluverðu leyti tilkomið vegna mats okkar hvort umhverfið hjálpi okkur að hlaða batteríin. Þetta á sérstaklega við ef við erum þreytt.
Þar sem nútíma borgarumhverfi er mjög ágengt og þreytandi er dálæti okkar á því almennt minna en á náttúrunni, þar sem við teljum okkur í flestum tilfellum hafa tækifæri til að hlaða batteríin.
En jæja ... þetta var nú bara smá umhverfissálfræði ... hún er skemmtileg ...
Já ... af hverju ekki að nefna það hér að ég verð einmitt með námskeið í umhverfissálfræði hjá Endurmenntun HÍ í mars nk. ... tvö pottþétt kvöld ...
Tékkið á þessu: Austurvöllur - Hlemmur: Áhrif umhverfis á líðan fólks
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2012 | 23:45
Miðvikudagur 18. janúar 2012 - Þrjár bækur
Í gær fékk ég senda í póst bók - Cities for People - eftir Jan nokkurn Gehl, danskan prófessor sem er nú einn fremst ráðgjafi heims í hvernig hanna á borgarumhverfi til að auka lífsgæði fólks.
Gehl fékk fyrst alvöru athygli þegar hann tók þátt í því að gera Strikið í Kaupmannahöfn að göngugötu á 7. áratugnum og nota rannsóknarliteratúr og athuganir til að þróa prójektið. Á 7. áratugnum skrifaði hann svo bókina "Livet mellam husene", bók sem náði síðar gríðarlegum vinsældum og er álitið mjög gagnlegt og merkilegt rit. Og skemmtilegt.
Það sama verður sagt um þessa bók sem ég fékk í hendurnar í gær ... maður sogar hvert einasta orð í sig ... og sjaldan hef ég verið í jafnmiklu "sinki" við eina bók.
---
Áður en ég fékk þessa bók í hendurnar hafði ég nýlokið við ævisögu gítarsnillingsins Ace Frehley ... fyrrum gítarleikara KISS. Hann kom dýrðinni fyrir á rúmum 300 bls. sem ekki tók mjög langan tíma að rúlla í gegnum.
Þessi saga hans er nú mjög áþekk sögum annarra tónlistarmanna sem leiðast út í drykkjuskap og dópneyslu.
Það sem mér þótti samt merkilegast í þessari bók var hversu fljótt Ace fékk leið á því að vera í KISS. Ég hélt að það hefði ekki verið fyrr en í kringum 1980 en það var strax í lok árs 1975, aðeins tæpum þremur árum eftir að bandið var stofnað.
Ástæðuna segir hann hafa verið hversu "business-orienteraðir" félagar hans í hljómsveitinni hafi verið. Meiri áhersla á "business" og "show" en á tónlistina.
---
En svo er það játningin ... eftir að hafa lokið við ævisögu Ace ákvað ég að fá mér Laxdælu á rafrænu formi. Það er víst hægt að fá hana ókeypis á einhverri síðu sem ég man ekki lengur hvað heitir.
Eftir að vera búinn að lesa rúm 10% af bókinni (í Kindle eru ekki blaðsíður heldur prósentur) gafst ég upp ... þetta er alveg hrútleiðinleg saga.
Endalausar nafnarunur, lýsingar af einhverjum atburðum og ferðalögum sem segja manni ekki neitt, og svo eru bara allir orðnir fúlir og þá byrja menn bara að drepa hvern annan. Frábær söguþráður.
Það má auðvitað ekki tala svona um þessar þjóðargersemar sem Íslendingasögurnar eru ... æi ég veit það ekki. Það eru bara sumir hlutir þannig að það rúmast bara ein skoðun. Sé maður á öndverðum meiði þá er maður bara "menningarsnauður fáráðlingur".
Annars get ég ekki séð menninguna í því að lesa um fólk sem útkljáir flestar ef ekki allar sínar deilur með því að drepa hvert annað. Ég held að það væri nú nær að setjast bara niður og ræða málin af einhverju viti ... en nei, nei ...
... ég er bara orðinn afskaplega þreyttur á hversu drápum, vopnaburði og stríðsrekstri er gert hátt undir höfði. Sjónvarp, útvarp, blöð, video, tölvuleikir, bækur o.s.frv.
Ég skil bara ekki þessa tilhneigingu hjá fólki að sogast að þessum hlutum. Vinsælustu bækurnar á Íslandi fyrir jólin var annars vegar hryllingssaga og hins vegar sakamálabull.
Ég held bara að þetta geti ekki verið hollt ...
Persónulega nenni ég aldrei að horfa á stríðs-, sakamála- eða glæpamyndir, nenni alls ekki að lesa þessar bókmenntir (að undanskildum þessum 10% af Laxdælu) og nenni alls ekki að lesa, horfa eða hlusta á stríðsfréttaflutning eða fréttir af glæpum, morðum eða einhverju viðlíka ...
Svo er sumt fólk sérlegt áhugafólk um orrustur, vopn, skriðdreka, orrustuflugvélar o.s.frv. ... frábært að sjá og vita til þess að verið er að framleiða vélbyssu sem getur skotið 200 skotum á sekúndu í 10 mínútur samfleytt ... eða eitthvað álíka ...
Æi ... nú er ég kominn út í það að vera að dæma aðra ... sem sagt út í tómt rugl ...
... en Jan Gehl er góður ... alveg djöfulli góður ... !!
Bloggar | Breytt 19.1.2012 kl. 00:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2012 | 22:44
Þriðjudagur 17. janúar 2012 - Lykt, uppþvottavél og kaflaritun
"Mmmmm ... góð lykt!" sagði dóttirin þegar hún gekk inn í ruslageymslu hverfisins í kvöld.
"Ha?!" sagði ég.
Hún endurtók sömu setninguna.
Ég hristi hausinn. "Jæja ... þú segir það!"
Já, það er óhætt að segja að hlutirnir birtist börnum og fullorðnum með ólíkum hætti.
Þessi "góða" lykt var hæfileg blanda af lykt upp úr gömlum bjórdósum, 100 kg af lífrænum úrgangi, almennu heimilissorpi, dopíu af pappa og einhverju fleira jukki.
... en hún um það.
---
Það er ekkert sem vekur viðlíka kátínu hjá mínum gervilega syni og þegar uppþvottavélin er opnuð.
Óðara og maður lýkur vélinni upp, skríkir hann af fögnuði og kemur æðandi að á fjórum fótum. Svo reisir hann sig upp á endann með hjálp hurðarinnar og djöflast í þvottagrindunum og/eða leirtauinu, þannig að maður má hafa sig allan við ef ekki á illa að fara.
Maður getur sannarlega sagt að það þarf ekki mikið til að gleðja blessað barnið.
---
Síðustu daga hef ég verið að rita kafla í bók, sem gefin verður út í Þýskalandi fljótlega og mun kaflinn því verða þýddur yfir á þýsku. Efni kaflans er að sjálfsögðu umhverfissálfræðilegt og mun kaflinn (enska útgáfan auðvitað) verða hluti af doktorsverkefninu mínu.
Þetta doktorsverkefni er alveg að verða eitthvað sem maður getur verið ánægður með. Einn bókarkafli og þrjár rannsóknargreinar, plús inngangur og niðurstöður. Svei mér þá ...
Ritunin hefur verið ofurlítill hausverkur, því kaflinn á að vera um aðdraganda þeirra rannsókna sem ég hef unnið að á síðustu árum. Það er svolítið erfitt að vinna þannig að maður þarf eiginlega að vinda sér svona þrjú ár aftur í tímann og láta sem maður viti ekki margt af því sem maður veit núna. En í morgun náði ég utan um verkefnið þannig að aðeins á eftir að reka smiðhöggið ... það verður gert á morgun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2012 | 21:32
Sunnudagur 15. janúar 2012 - Bakað og blöðrur
Nú þegar þetta er skrifað er mikill eltingaleikur í gangi hér ... systkinin elta hvort annað til skiptis ... sá stutti nýtur aðstoðar móður sinnar.
Ágætis æfingar fyrir svefninn ...
---
Dagurinn hefur liðið fremur rólega hér. Svolítið hefur verið grautast í vinnu.
Lauga og Guðrún bökuðu líka þessa fínu gulrótarköku í dag ...svipmyndir frá því ...
Og til að gæta fyllsta hlutleysis ... þá dúndra ég þessu inn líka ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2012 | 23:19
Laugardagur 14. janúar 2012 - Bara stutt
Þessi dagur hefur nú verið rólegri heldur ég hafði hugsað mér ... ég ætlaði að verja mestum hluta hans í skrif á bókarkafla sem ég þarf að skila inn á miðvikudaginn en einhvern veginn varð minna úr því en efni stóðu til.
Þess í stað ræddum við Lauga saman um hin ýmsu mál, það var lagað til í íbúðinni, spilað við Gudduna, hlustað á tónlist, æfður söngur eða kannski heldur raddtækni, spilað svolítið á gítar, passað sig á að fara ekkert út til að maður fengi örugglega ekki ferskt loft í lungun og sitthvað smálegt fleira.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2012 | 23:47
Fimmtudagur 12. janúar 2012 - Skil og gítarleikur
Óskaplega var góður árangur sem náðist í dag ... mér tókst að loksins, já loksins að senda inn svör við athugasemdum við fyrstu vísindagreinina mína til ritstjóra Journal of Environmental Psychology.
Þessi vegur hefur verið þyrnum stráður. Óhætt að segja það.
Það tók langan tíma að koma greininni saman en hún fór til JEP 20. janúar 2011 ... fyrir rétt tæpu ári. Svo heyrðist bara ekkert frá blaðinu fyrr en 30. ágúst sl. ... þ.e. 7 mánuðum síðar. Venjan hjá þessu blaði er að ekki líði meira en 3 mánuðir frá því maður sendir inn og þar til maður fær eitthvert svar.
Þann 30. ágúst fékk ég sum sé svar ásamt umsögnum. Tvær voru mjög pósitífar og ein mjög neikvæð ... sagði bara allt ömurlegt og vildi ekki sjá þessa rannsókn á prenti.
Þegar rýnt var í þessa umsögn kom í ljós einhver mesta þvæla sem ég hef lengi lesið. Sá sem skrifaði sagði tæknina sem ég notaði í rannsókinni, sem var þrívíddar tækni sem aldrei hefur verið notuð fyrr í rannsóknum innan þess geira sem ég starfa, úrelta og sagði að tölfræðilegu greiningarnar mínar væru rugl og alltof flóknar, en viðurkenndi svo að reyndar að tölfræði væri ekki hans sterkasta hlið.
Í lokin sagðist hann ekki geta metið hvort niðurstöður mínar væru góðar eða vondar því þetta væri bara allt svo lélegt ...
... persónulega held ég frekar að mat á gæðum niðurstaðna hafi byggst á því að viðkomandi aðili skildi ekki baun í því sem verið var að gera í rannsókninni.
En jæja, það þurfti að verja töluverðum tíma í að vinda ofan af þessari vitleysu og svara henni. Það getur nefnilega verið mjög erfitt að svara gagnrýni sem byggist að megninu til á tómri vitleysu.
Með aðstoð leiðbeinanda míns hafðist það svo af í kvöld, þremur mánuðum eftir að því átti að vera lokið.
Það er von okkar að greinin verði samþykkt í þetta sinnið ... án teljandi athugasemda ...
---
Í kvöld vorum við Lauga búin að ákveða að vinna áfram í laginu sem við erum að semja ... en það fór allt í rugl því ég var svo lengi að senda greinina frá mér ... var ekki kominn heim fyrr en um 8-leytið og við borðuðum ekki fyrr en um 10-leytið.
Allt í bullinu sum sé ...
... en Lauga ákvað að grípa í gítarinn engu að síður ...
Það er hægt að telja á skiptum annarrar handar þau skipti sem hún hefur tekið í gítar ... og það verður að segjast eins og er að framfarirnar eru ótrúlega miklar á ótrúlega stuttum tíma ... :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2012 | 23:53
Miðvikudagur 11. janúar 2012 - Söngur, skrif og Fitbook.com
Skrapp í minn fyrsta söngtíma á árinu. Það gekk nú alveg ágætlega en það er alveg merkilegt hvað eilíflega er verið að benda manni á sömu skekkjurnar ... það er ekki bara þessi söngkennari, því þessar ábendingar eru búnar að hringla í eyrunum á mér árum saman.
Það sem ég var að díla við í kvöld var það að fara ekki beint á tóninn þegar ég byrjaði á nýju versi, já og bara alltaf þegar ég byrjaði aftur eftir þögn sem var lengri en kannski einn taktur. Þetta er leiðindaávani að svinga upp og niður fyrir tóninn þangað til maður finnur að maður hittir á hann. Maður á nefnilega bara að negla hann í fyrsta ... ;)
Með Per Bristow tækninni finnst mér samt eins og þetta tónasvig hafi minnkað en ég hef töluvert spáð í af hverju ég geri þetta. Niðurstaðan eins og mál standa í dag, er að hálsinn og tungurótin eru ekki nægjanlega afslöppuð og því tekur alltaf smá tíma að stilla "græjurnar". En séu þessi atriði í lagi, ásamt nokkrum öðrum, þá ætti maður að komast hjá þessu ...
... en jæja ... þetta er nú bara svona pæling ...
---
Og svo er hér önnur pæling.
Ég skráði mig nefnilega á Fitbook.com um daginn. Þetta er vefsíða sem heldur utan um mataræðið hjá manni, reiknar út næringargildi, kaloríur o.s.frv. maður getur skráð inn æfingar o.s.frv. o.s.frv.
Ekkert vitlaust að kíkja á þetta ... það er frír aðgangur í viku og svo 600 kall/mán.
En jæja ... ætlaði nú ekki að fara að auglýsa þessa síðu neitt sérstaklega. Heldur þvert á móti.
Það sem ég fattaði í dag er að þessi Fitbook.com er bara ekki að gera neitt fyrir mig og í raun er hún í andstöðu við mína hugmyndafræði um heilsu og heilsueflingu.
Af hverju?
Jú, ég komst að því eftir að hafa fyllt matardagbókina út í tvo daga að matur var farinn að vera "áhyggjuefni" hjá mér.
Bæði það að ég fyllti dagbókina ekki út af nægjanlega nákvæmlega en ekki síður ... og þetta er miklu stærra atriði ... neysla á mat var farin að valda mér samviskubiti. Hversu fáránlega hljómar það?
Allt í einu var kaloríufjöldi og hlutfall kolvetna, fitu og próteina farið að verða aðalmálið, í stað þess að ég fylgdist bara með eigin líðan eins og ég hef gert síðustu misseri.
Í mörg ár hef ég verið að æfa mig í því að fylgjast með eigin líðan og hvaða áhrif ólíklegustu hlutir hafa á hana. T.d. hef ég látið eigin líðan stjórna líkamsræktarprógramminu hjá mér um nokkurt skeið. Á þeim tíma hef ég fundið út úr fjölmörgum hlutum.
Af hverju fannst mér leiðinlegt að hlaupa úti?
Af hverju fannst mér leiðinlegt að lyfta?
Af hverju fannst mér leiðinlegt að synda?
Allt eru þetta dæmi um eitthvað sem ég hef leyst með því að horfa inn á við.
Mesti sigurinn í þessum efnum var svo í sumar þegar ég áttaði mig loks á verkjum í hásinum og kálfum sem ég hef þurft að kljást við árum saman. Ég hafði leitað í fjölmargra aðila, s.s. lækna, nuddara, sjúkraþjálfara og stoðtækjasérfræðings. Allir höfðu þeir "lausnina" en engin þeirra virkaði og það var einmitt þá sem ég ákvað að taka málin í mínar hendur.
Það tók töluverðan tíma að finna ástæðu þessara verkja enda var hún tvíþætt. Tvö óskyld atriði sem unnu saman, annars vegar of lágt sýrustig í líkamanum vegna gosdrykkjaneyslu, lítillar vatnsneyslu og of mikils sykuráts, en lágt sýrustig hefur neikvæð áhrif á vöðva, liðbönd og sinar og hinsvegar slæmur stóll, ódýr IKEA stóll, sem ég sat á við vinnu mína.
Hljómar kannski ekki flókið en það var snúið að finna út úr þessu, því til að finna út úr þessu þurfti ég að taka út bæði þessi atriði á sama tíma í nokkra daga meðan líkaminn var að jafna sig.
Ef ég hefði farið að ráðum sérfræðinganna, drykki ég enn mikið kók, sæti í vonda stólnum, æti bólgueyðandi töflur, ætti rándýra hlaupaskó með sérsmíðuðum innleggjum og þyrfti að eyða stórfé í nudd og/eða sjúkraþjálfun.
Síðastliðna 9 mánuði hef ég svo sérstaklega fókuserað á mataræðið hjá mér ... og núna er ég kominn aftur að Fitbook.com ...
Ég hef verið að horfa til þess hvaða matur veldur vellíðan og hvaða matur velur vanlíðan. Og það er bara þannig að þegar vel er að gáð þá veldur hollur matur vellíðan en óhollur vanlíðan. Of mikill eða of lítill matur veldur vanlíðan, hæfilegur skammtur veldur vellíðan.
Ég hef t.d. skorið pizzuskammtinn minn niður úr einni og hálfri pizzu með miklu pepperoni í hálfa pizzu án pepperonis. Bara af því að mér líður ekki vel af því að borða hið fyrrnefnda.
Af sama skapi drekk ég innan við 20% af því kókmagni sem ég drakk áður. Bara af því mér líður ekki vel ef ég drekk mikið meira kók en það.
Ég borða helmingi minni skammt af hafragraut á morgnana en áður. Bara af því mér leið ekki vel af því að borða of mikinn hafragraut.
Einfalt? Já.
Segir Fitbook.com mér eitthvað um þetta? Nei. Fitbook.com telur bara kaloríurnar og reiknar hlutföll.
Og hvað?
Ef maður fær sér glas af undanrennu og kleinuhring með súkkulaði, þá eru kaloríurnar ekkert svo hrikalega margar og meira að segja er hlutfall próteins, kolvetna og fitu mjög nálægt því að vera eins og ráðlagt er.
Hollt? Ekkert sérstaklega. Verður manni gott af þessu? Ekkert sérstaklega.
Í mínum huga taka aðferðir eins og Fitbook.com býður upp á, já og margir fleiri, fókusinn af því sem maður ætti að einblína á og setja hann á það sem maður ætti ekki endilega að vera að einblína svo mikið á.
Af hverju að horfa á kaloríufjölda og hlutföll, já auðvitað að ógleymdu mittismáli og kílóatölu sem í raun segja takmarkaða sögu ef maður getur hreinlega fundið áhrifin sjálfur? Maður finnur það alveg hvenær eitthvað fer vel í maga og hefur góð áhrif á líkamann, ef maður nennir bara að bera sig eftir því. Þarf eitthvað forrit til að segja manni það að óæskilegt sé fyrir líkamann að borða löngu eftir að maður er orðinn saddur? Hélt ekki. Af hverju treystir maður ekki bara á þá tilfinningu?
Núna er ég alveg að detta í gírinn að fara að skrifa um tilhneigingu fólks til að leita alltaf lausna utan eigin líkama, vitsmuna og/eða tilfinninga ... ætla ekki að gera það ... því færslan er orðin alltof löng og klukkan alltof margt.
En eins og áður segir ... þetta með Fitbook.com er pæling.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2012 | 23:27
Mánudagur 9. janúar 2012 - Aðferðafræðin að virka og enska töluð
Syd Houdini opnaði dyrnar inn í vinnuherbergið mitt af mikilli gætni seinnipartinn, gægðist inn og spurði undirljúft: "Hvort vilt þú fá heitt kakó eða kalt kakó?"
"Ég vil fá heitt kakó ... þakka þér fyrir", svaraði ég.
"Alltílagi", sagði hún, lokaði hurðinni varlega og hljóp svo fram í stofuna.
Ég heyrði mömmu hennar spyrja tíðinda varðandi kakóið.
"Pabbi minn er alltaf svo góður við mér! Hann vill fá heitt kakó!", sagði sú stutta á sænsksyngjandi íslensku.
Ég kinkaði kolli þar sem ég sat fyrir framan tölvuna ... glæsilegur vitnisburður um hversu vel nýja aðferðafræðin mín er að virka.
Meðan ég var á hljómsveitaræfingu í kvöld, ákvað GHPL að hringja í mig ... reyndar úr sínum eigin síma. Mér skilst að samræðurnar hafði verið einhvern veginn á þessa leið.
"Pabbi ... ég er búin að segja þér að nú á ég að fá tyggjó og horfa á Mikka mús!"
Þögn í smástund.
"Neeeiiii pabbi ... ég er búin að segja þér að ég á að fá tyggjó og horfa á Mikka mús og bara budda!!" (við skiljum ekki alveg hvað þetta budda-dæmi er en það er ósjaldan notað í rökræðum).
Eitthvað virtist ég nú vera tregur á hinni línunni því tyggjó-, Mikka mús-, budduumræðan hélt áfram nokkra stund.
Svo allt í einu lauk samtalinu.
Þetta má líta á sem annan vitnisburð um að aðferðafræðin sé að virka ... því GHPL hefur aldrei áður haft fyrir að "hringja" í mig þegar ég hef verið einhvers staðar út í bæ að "hitta mennina" ...
---
Guddan upplýsti það í hádeginu í dag, hún var sko heima því það var starfsdagur á leikskólanum ... ég veit að það er útþynnt umræða að undra sig á sérstökum starfsdögum í skólum eins og ekkert sé gert þar alla hina dagana ... skil ekki af hverju kennarar eru ekki löngu búnir að finna eitthvað annað heiti á þessa daga, þetta er alveg mega "devaluering" á þeirra störfum ...
... en jæja, þeir um það ...
Guddan sumsé upplýsti það í fullkomlega óspurðum fréttum að litli bróðir hennar tali "ensku". Bablið í honum, sem ekki nokkur maður fær nokkurn einasta botn í, er sum sé enska í eyrum hinnar ástsælu dóttur.
Ég bað hana um að tala svolitla "ensku", sem hún gerði umsvifalaust, bróðurnum til mikillar gleði. Brást hann við með því að tala enn meiri "ensku" og úr varð dálítið samtal milli systkinana ... á "ensku".
Það er kannski ágætt að þau geti rætt saman á "ensku", því stundum grípum við Lauga til þess að ræða saman á annars konar "ensku" ef "potta-eyrun" eiga ekki að skilja umræðuefnið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2012 | 22:37
Sunnudagur 8. janúar 2011 - Elvis og strætóævintýri
"Kóngurinn" er sennilega frægasta afmælisbarn dagsins ... 77 ára ...
Það væri gaman að vita hvar Elvis Presley væri staddur í lífinu en hann væri enn lifandi.
Ég varð Elvis-aðdáandi á "einni nóttu" árið 2003. Hafði aldrei nennt að hlusta á "kónginn", þó svo vissulega hefði maður heyrt eitthvað í honum í gegnum árin.
En eftir að hafa komið við í Memphis og heimsótt slotið Graceland í Ameríkuferðinni okkar Laugu var ekki aftur snúið.
Ætlaði varla að nenna þangað, lét mig hafa það ... sennilega ein mesta "safnareynsla" ævinnar varð niðurstaðan. Mér leið eins og nánum vini "kóngsins" þegar ég labbaði út og augun vöknuðu þegar ég gekk framhjá grafreitnum hans.
Við keyptum "ELVIS as recorded at Madison Square Garden" - og á hann var hlustað upp á hvern dag það sem eftir lifði ferðarinnar og líka oft eftir að henni lauk.
Fann plötuna "komplet" á YouTube ... þvílík snilld!!
Fyrir utan þessi mál er ýmislegt að gerast hérna í Uppsala ...
... loksins í gær, já í gær, upplifði ég að vera í strætó sem villtist. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort strætóbílstjórar lendi aldrei í því að gleyma hvaða leið þeir eru að aka og fari eitthvert tómt rugl.
Ég meina, ef maður er búinn að keyra sömu leiðina aftur og aftur og aftur og aftur og ... þá er ekkert nema eðlilegt að maður "forritist" og fari leiðina án þess að vera nokkuð að pæla í því.
Leifur, blessaður frændi minn, blessuð sé minning hans, var t.d. alveg skæður með þetta. Það var eiginlega alveg sama hvert hann var að fara, hann hafði tilhneigingu til að enda alltaf inn hjá Múlastöð Landsímans við Suðurlandsbraut, ef maður var ekki sjálfur þeim mun betur á nótunum. Hann vann sko í Múlastöð Landsímans við Suðurlandsbraut lengi og var orðinn fullkomlega "forritaður".
En aftur að strætóunum ...
Við vorum að koma úr bænum, tókum 7-una til Gottsunda og svo bara við bensínstöðina þar sem hann á að fara beint áfram, tók stjórinn hægri beygju.
Fattarinn hjá mér var gríðarlega langur á þessu augnabliki en þetta var eitthvað skrýtið og sjálfsagt hefði strætóinn endað í Hågaby ef ekki hefðu 10 - 12 ára guttar stokkið fram í vagninn og spurt bílstjórann hvert hann væri eiginlega að fara.
Þá rankaði herrann við sér ... og tilkynnti í hátalakerfið að hann væri svo vanur að keyra 6-una, sem einmitt endar í Hågaby. Hann varð því að snúa strætónum við, sem sjálfsagt var ekkert auðvelt því þetta var "nikkustrætó". En það tókst ... og bílstjórinn tilkynnti að núna myndum við vonandi enda í Gottsunda.
Þrátt fyrir mikla innri gleði með þessi tímamót í mínu lífi hefðu þau vel mátt vera við ögn skemmtilegri aðstæður, því GHPL var gjörsamlega að pissa í buxurnar ... eiginlega svo mikið að hún var farin að gráta ... þannig að útúrdúrinn var kannski ekki alveg það sem þurfti. En það bjargaðist allt saman fyrir rest.
Það er samt eitt alveg ótrúlegt í þessu.
Fullur vagn af fólki, meira segja fullur "nikkuvagn" af fólki þannig að það hafa örugglega verið 40 - 50 manns í vagninum. Flest allir fullorðnir. Margir sennilega búnir að fara þessa leið oftar en tvöhundruð sinnum.
Það þurfti barnaskólastráka til að stíga fram og benda á þróun mála.
Hinir fullorðnu, og ég þar með talinn, sátum bara og veltum því fyrir okkur hvað þetta væri skrýtin leið sem væri farin þetta skiptið. Það er nú ekki eins og ferð í strætó sé einhver óvissuferð ... og maður endi bara einhvers staðar ...
Minnti dálítið á nýju fötin keisarans .... ó hvað fullorðið fólk getur stundum verið ömurlega hallærislegt ... :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)