Færsluflokkur: Bloggar
5.2.2012 | 23:36
Sunnudagur 5. febrúar 2012 - Meira um söng ...
Maður hefur "loksins" náð sér í fyrsta kvef vetrarins ... dagskráin riðlaðist öll þess vegna. Meiningin var að fara í Sunnerstabäcken að renna sér á snjóþotu en ég sagðist ekki nenna vera úti með bullandi kvef í brunagaddi, þannig að allt stöffið var slegið af ...
Þess í stað hefur lífið verið tekið rólega ...
---
Seinnipartinn fór ég að spá í tónlist, var að hlusta á lög og læra lög sem meiningin er að taka á hljómsveitaræfingu á morgun. Það verður gaman.
Svo er ég alveg að fá söng á heilann. Síðustu vikur hafa verið geysilega árangursríkar hjá mér, nýir hlutir að gerast og í fyrsta skipti á ævinni finnst mér ég vera farinn að syngja eins og maður. Að minnsta kosti eitthvað í þá veru sem alltaf er verið að segja manni að eigi að syngja ...
... og þess vegna fór ég í það að skrifa svolítið um söng, skrá niður hvað ég hef verið að gera og hvernig hlutirnir hafa verið virka. Ég skráði líka söngsögu mína sem spannar allt frá haustinu 1998.
Ég man ekki hvort ég er búinn að segja það áður ... en mér finnst það ótrúlegt að fyrst núna eftir 13,5 ár, sé maður loksins að skilja um hvað hlutirnir snúast. Það maður eigi bara góða möguleika að syngja hæstu tónana og geti gert það nokkurn veginn áreynslulaust.
En allavegana ... ég skrifaði 8 blaðsíður og mér finnst ég búinn að dekka svona 1% af því sem mig langar til að skrá niður.
Það sem ég verð að segja alveg fyrir mig er að mér finnst alveg ótrúlegt að hægt sé að læra söng í svona langan tíma án þess að labba út vitandi hvernig á að syngja ... en hinsvegar vita alveg svakalega mikið um það hvernig á ekki að syngja :) .
Síðustu daga hef ég mikið verið að líta á söngkennslu bæði á YouTube og hinum ýmsu vefsíðum. Maður les og hlustar á sömu rullurnar aftur og aftur ... rullur sem maður veit að virka bara ekki nema önnur ákveðin skilyrði séu fyrir hendi.
Það virðist oft ekki vera neinn skilningur á því hvað er orsök og hvað er afleiðing ... og mjög oft er verið að díla við afleiðingarnar án þess að nokkuð sé pælt í orsökinni ...
Cari Cole er kona sem ég var t.d. að hlusta á í dag ... hún er "celeb vocal coach" og eitthvað meira frábært.
Í einu video-i hennar er hún að tala um "nasality", þ.e. þegar mikið nefhljóð er í röddinni. Þetta er nú vandamál sem ég hef glímt lengi við.
Cole byrjar á því að segja að ef "röddin sé í nefinu" sé það venjulega vegna mjög þröngra "nefganga" (nasal passage).
Strax þarna kemst maður ekki hjá því að spyrja sig ... "ok, hvað á ég að gera í því?" Þröng nefgöng er ekki eitthvað sem maður getur reddað sí svona ... eftir því sem ég fæ best skilið þá eru nefgöngin beinastrúktúr sem er klæddur að innan með slímhúð ... jæja ok ...
Cole heldur áfram, því það er ekki nóg með að "nasal" maður sé með þröng nefgöng heldur kreistir (squeeze) hann líka vöðvana sem eru bakvið nefið ... "ok, hvað á ég að gera í því?" Strangt til tekið eru engir vöðvar bakvið nefið eftir því sem ég best veit. Það eru hinsvegar vöðvar í koki og mjúka gómnum sem skilur að nefholið og munnholið. Þetta er því ónákvæmni sem er gjörsamlega út úr öllu korti ... ég tala nú ekki um þegar maður er "celeb vocal coach". Það er ekki skrýtið að raddvandamál séu sífellt að aukast meðal frægra söngvara ...
Það er meira í þessu sem ég gæti tekið til athugunar en mig langar þó bara til að nefna eitt atriði, bara af því ég var að tala um orsök og afleiðingu. Cole segir efnislega að "nefhljóð í röddinni" sé tilkomið vegna þess að bakhluti tungunnar sé of hátt uppi og blokki því loftflæði út um munninn. Hún leggur því til æfingar sem byggjast á því að láta bakhluta tungunnar síga.
Ég hef heyrt þetta milljón sinnum og ég hef æft þessu svipað milljón sinnum og ég get fullyrt að þessi nálgun gengur ekki upp nema ef sjálf tungurótin og hálsinn séu laus. Sé það hinsvegar ekki málið myndast spenna á milli tungurótar og bakhluta tungu sem skapar bara önnur vandamál, fyrir utan hvað það er vont að gera þetta.
Á hinn bóginn ef tungurótin og hálsinn eru laus, þá er "nefhljóð í röddinni" örugglega ekki vandamál ... :)
Hver er þá niðurstaðan? Sennilega er grunnorsökin of spennt tungurót eða of spenntur háls, sem svo aftur þrýstir tungunni upp og afleiðingin er "nefhljóð í röddinni".
Að minnsta kosti er það þannig hjá mér að ef minnsta spennan gerir vart við sig í tungurótinni og hálsinum þá er komið nefhljóð ... gæti ég hinsvegar að því að hafa þetta laust, þá fer röddin ekki í nefið.
En þegar hér er komið sögu eru sjálfsagt allir hættir að nenna að lesa þessa færslu ... :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2012 | 23:42
Laugardagur 4. febrúar 2012 - Frost og beiðnir
Já ... núna er veturinn kominn hér í Uppsala ...
Liggur í mínus 17°C núna ... stefnir í 25°C í nótt ... samt eru það nú bara hlýindi miðað við hitastigið í norðurhluta landsins. Þar er kuldinn að rúlla niður fyrir 40°C. Fínt að vera ekki þar.
Skruppum í göngutúr í dag ... vorum í svona 1,5 klukkutíma og hitastigið það lækkaði um tæpar 8°C rétt meðan við vorum úti. Guddan, þrátt fyrir að vera vel búin, fraus næstum inn að beini þar sem hún sat á snjóþotunni.
Það var því ekki annað í stöðunni en að fara í "ljónaleik" og láta hana bara hlaupa heim, sem hún gerði ... rúmir 600 metrar, mér fannst það bara ágætlega af sér vikið í snjógalla og bomsum.
Ég hef verið mjög hugsi í dag yfir viðtalinu sem tekið var við skipbrotsmanninn sem var bjargað var í um daginn þegar Hallgrímur fórst, en ég hlustaði á viðtalið í gærkvöldi.
Þetta er ótrúlega áhrifarík saga sem hann hafði að segja ... og ómögulegt að gera sér í hugarlund þá þrekraun sem maðurinn gekk í gegn um.
Ég hjó sérstaklega eftir einu atriði í frásögninni og það var þegar hann sagðist trúa því að hugar manna gætu tengst. Þar sem hann veltist einn um úti á rúmsjó í kolvitlausu veðri, ákvað hann að tala og hugsa til vinar síns og tala við samferðamenn sína á skipinu sem þá þeim tímapunkti voru hvergi sjáanlegir. Hann bað um hjálp ...
Það rifjaðist upp fyrir mér samtal sem ég átti við mann á Akureyri fyrir um 15 árum, samtal sem ég raunar hugsa oft um, en sá maður sagði við mig að ef mig vantaði hjálp, þá ætti ég að tala við fólk, þó það væri víðsfjarri.
Ennfremur sagði hann við mig: "Hefurðu einhvern tímann setið alveg grafkyrr og allt í einu fundið eins og hreyfingu á loftinu í kringum þig, ofurlítill kaldur gustur, svona eins og einhver hafi gengið framhjá þér?"
Ég vissi ekki alveg hverju ég átti að svara ...
"Athugaðu þetta ... prófaðu að sitja grafkyrr og athugaðu hvort þú finnur þetta. Þetta er nefnilega fólkið þitt sem er að ganga í kringum þig ... pabbi þinn, ömmur þínar og afar ... og fleira fólk. Og allir vilja þeir þér vel. Talaðu við fólkið og sjáðu hvað gerist ... óskaðu eftir leiðsögn eða aðstoð ef þú þarft á að halda."
Þó ég sé ekki alveg viss hvað ég á að halda um þessa hluti, þá hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að best sé að útiloka ekkert í þessum efnum. Gefa hlutunum tækifæri. Þó ekki hafi verið sýnt fram á tilvist þessa með vísindalegum hætti finnst mér það alls ekki útiloka tilvist þess. Mér finnst það svolítið eins og að útiloka að vitiborið líf á öðrum hnöttum af því það hefur aldrei verið sýnt frá á það vísindalega.
Þess vegna hef ég prófað að tala við mitt fólk og satt best að segja, þá finnst mér það bara virka ... þ.e. þegar maður biður einlæglega og af einhverju viti ... um eitthvað sem skiptir raunverulega máli. Kannski er það bara hugarburður og ef maður tæki saman og skráði nákvæmlega árangurinn er ekki víst að neitt vitrænt kæmi út.
Mér fannst bara eitthvað svo magnað að heyra þessa aðferð notaða í því samhengi sem skipbrotsmaðurinn var í ... og það leit út eins og hún hefði hjálpað. Ég ætla að frekar trúa því en ekki. Jafnvel þótt einhver reynslubolti hafi sagt að líkurnar á að finna mann í svona aðstæðum séu nokkuð miklar ... það leit nú ekki beinlínis út þannig af frásögn Eiríks, já loksins man ég nafn skipbrotsmannsins ... já af frásögn Eiríks að dæma ...
Nóg í bili ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2012 | 23:13
Fimmtudagur 2. febrúar 2012 - Nokkrar línur
Alveg rífandi góður dagur að baki ...
Byrjaði á því að mæta með GHPL 20 mínútum fyrr á leikskólann í morgun, í samanburði við gærdaginn. Meiningin er að koma henni í skólann kl. 9 á morgnana. Undirbúningurinn tekur bara svolítið langan tíma. Ég var kominn á fætur kl. 7 í morgun en komst ekki út úr húsi fyrr en rétt fyrir kl. 8.30.
Systemið á auðvitað eftir að pússast svolítið til ...
Svo líða alveg 45 - 50 mínútur frá því maður lokar hurðinni hérna heima og þar til maður labbar inn um hliðið á leikskólanum ... svo þarf maður að koma sér til baka ... þannig að túrinn er í heildina tekur tíma sinn.
En dóttirin skal í skólann þannig að það þýðir ekki að pípa neitt um þetta ... tek bara með mér góða bók í vagninn og les á heimleiðinni.
Ég hef verið að lesa bókina hans Jan Gehl, eins og ég nefndi um daginn ... góð bók ... og góðar pælingar. Eins og vænta má er mikil skörun við það sem hann er að segja og það sem ég er að gera, enda erum við báðir að fást við upplifun fólks á götum úti. Hann kallar bara hlutina öðrum nöfnum en ég en í prinsippinu erum við á sama báti.
Gehl er nú ekkert að skafa utan af hlutunum þegar hann segir að uppbygging borga á síðustu áratugum sé afskaplega slæm. Hann er búinn að setja niður á blað fjölmargt af því sem ég hef verið að pæla síðustu misseri. Sem er auðvitað afar gagnlegt fyrir mig.
---
Vetur konungur hefur aðeins minnt á sig í dag og kvöld. Núna er hitastigið eins og það var vikum saman síðasta vetur ... -15°C núna ... gæti verið verra.
Ég skrapp út að skokka í kvöld og svei mér þá ef ég er ekki bara með talsvert kuldaþol eftir veturinn í fyrra. Mér fannst þetta ekkert svo rosalegt ...
---
Svo get ég bara ekki stillt mig um að minnast aðeins á fyrirtækið Já ... "Símaskrána" öðru nafni.
Eins og stóð í einu kommenti sem ég las í dag, þá er það með ólíkindum að fyrirtæki sem nánast einokar markaðinn og ætti hér um bil að geta rekið sig sjálft, hafi tekist að koma sér í slíkan bobba. Það sem kemur mér samt mest á óvart í þessu er hvað hægt er að skapa mikil læti utan um símanúmeraskrá.
Einu sinni var símaskráin alltaf með sama lúkkinu ... kort af Íslandi á kápunni og landinu var deilt upp eftir svæðisnúmerum. Svo var hún bara í misjöfnum lit eftir árum. Ekkert "fansí" en skilaði nákvæmlega sama árangri.
Aldrei hefði mann grunað þá að símaskráin gæti orðið slíkt þrætuepli í íslensku samfélagi að fólk skiptist í fylkingar með og á móti ... að fólk hreinlega þyldi ekki símaskrána, skilaði henni eða jafnvel henti henni.
Hér í Uppsala er símaskráin eitthvert það mest óspennandi sem fyrirfinnst, held ég bara ... of ég veit ekki til þess að neitt fjaðrafok hafi orðið vegna hennar ... þá sem vantar símanúmer fletta upp í skránni og punktur.
... að lokum ... límmiða-"múv" dagsins hjá Já var heimskulegt og lítilmannlegt ... fyrirtækið sóttist eftir þjónustu Gillz þegar allt lék í lyndi og nú þegar illa árar er stokkið frá borði, alveg eins og ítalski skipstjórinn gerði um daginn þegar skemmtiferðarskipið hans strandaði.
Annars er umhugsunarefni, kannski ekkert nýtt svo sem, hvað "frægðin" er óskaplega fallvölt. Stuttu áður en allt hljóp í baklás hjá Gillz var hann gjörsamlega út um allt ... og ég man að ég hugsaði hvað hann var í raun búinn að koma ár sinni vel fyrir borð ... því ekki leiddist honum athyglin.
Það var alveg á hreinu að drengurinn væri búinn að standa sig vel og nýta sitt tækifæri vel ... en svo hrynur bara allt eins og spilaborg ... á mettíma ... og þessi maður er gjörsamlega búinn að vera a.m.k. á því "formati" sem hann hefur verið síðustu ár.
Rétt í lokin ... ég held að þessi viðurkenning sem Já fékk frá Félagi kvenna í atvinnurekstri sé einhver mesti bjarnargreiði síðustu missera ... og er e.t.v. glöggt dæmi þess að "konur eru konum verstar" ;) .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2012 | 22:22
Miðvikudagur 1. febrúar 2012 - Alvöru verkefni í gangi
Nú hefur alvaran hafist ... Lauga farin að finna aftur eftir langt frí frá vinnu. Síðuhaldari er tekinn alfarið við stjórnartaumunum þegar morgunverkunum er sinnt.
Og engin vettlingatök nú ...
---
Ég hef síðustu daga verið að vinna í skýrslugerð fyrir Djúpavogshrepp. Það er framhald ferðamannakönnunarinnar sem ég vann að í fyrra.
Verið er að kanna upplifun fólks á svæðinu og afstöðu til náttúruverndar. Ég tek nýjan vinkil á náttúruverndina því ég er að kanna hvort afstaða fólks ráðist af því hversu vel fólki finnst náttúran hjálpa því að "hlaða batteríin".
Nálgunin er því það sem kallast má "ego-centrísk" ... það er að fólk einfaldlega vilji stuðla að verndun náttúru vegna þess að það sjálft hefur persónulegan hag af því að upplifa lítt raskaða eða óraskaða náttúru.
Þetta finnst mér vera mjög áhugaverður vinkill og lyftir umræðunni upp úr þeim hjólförum sem hún er vanalega í ... s.s. átökum um siðferði, líffræðileg vistkerfi og fjárhagslegan ávinning.
---
Svo eru í burðarliðnum tvær kostnaðaráætlanir fyrir tvær heilbrigðisstofnanir en óskað var eftir ráðgjöf varðandi endurbætur á umhverfi sínu.
Bæði tilfellin eru mjög áhugaverð og vandasöm, og gleðiefni að fólk skuli vera farið að leita í smiðju umhverfissálfræðinnar þegar kemur að því að betrumbæta umhverfið.
Betrumbætur á gangi dag- og göngudeildar krabbameinslækninga á LSH við Hringbraut, sem samtökin Umhverfi og vellíðan stóðu fyrir, hafa þótt til fyrirmyndar og hafa orðið mörgum hvati.
Þessa mynd tók Páll Jökull þegar verkefninu á krabbameinsdeild LSH lauk formlega með myndagjöf. Þá höfðu Umhverfi og vellíðan staðið fyrir sálfræðilegri rannsókn á þeim breytingum sem gerðar voru og svo var klikkt út með þessari myndagjöf með stuðningi Actavis.
Á myndinni eru Margrét Tómasdóttir frá LSH og fulltrúi Slippfélagsins í Reykjavík en Slippfélagið styrkti verkefni með því að gefa málningu og mála veggi á biðstofu og gangi deildarinnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2012 | 22:48
Mánudagur 30. janúar 2012 - Stubbur 9 mánaða
Í dag er sonur minn 9 mánaða gamall ... hvorki meira né minna.
Óhætt að segja að staðan sé töluvert önnur en hérna ... þegar hann var með húfuna ...
Eins og áður er helsta áhugamálið að vasast í uppþvottavélinni ...
... og svo er mikið reynt að standa á eigin fótunum ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.1.2012 | 22:56
Laugardagur 28. janúar 2012 - Nokkrir bitar
Setning dagsins er tvímælalaust þessi:
"Ég verð að baka áður en kökurnar brenna"
- GHPL þegar ég spurði hana hvort hún ætlaði að baka í dag.
---
Vorum með ofurlítið kaffiboð í dag. Hingað mættu Sverrir og Jóndi, Ari, Hrafnhildur og Viktor. Fínasta stemmning og veitingarnar hennar Laugu (já, og Guddunnar) góðar. Sjálfur nennti ég ekkert að gera til að undirbúa nema taka svolítið til.
---
Þessa dagana er Guddan að fatta Karíus og Baktus. Dana vinkona okkar var nefnilega svo afskaplega hugulsöm að lána okkur bókina um þá félaga um daginn.
Núna er Syd afar áhugasöm um að bursta tennurnar og ekki bara það ... hún rekur alla í tannburstun við hin ýmsu tækifæri. Og ef í harðbakkann slær, þá mætir hún með tannburstann og tannkremið og afhentir hlutaðeigandi ...
Það eru sumsé allir vel burstaðir hér.
---
Pípus hefur verið mjög mikill pípus síðustu daga ... það er eins og karlanginn sé svolítið slappur en samt er hann ekki með hita en hóstagelt svolítið.
Hann er eins móðursjúkur og hægt er að hugsa sér. Móðirin má ekki víkja spönn frá rassi án þess að gólið byrji og barningur um að komast aftur til hennar t.d. ef ég er með hann í fanginu.
Það má þó telja blessuðu barninu það til tekna að ef móðirin er bara víðsfjarri, þ.e. stödd utan heimilisins þá er hann eins og ljós. Málið snýst bara um að tryggja hæfilega fjarlægð á milli þeirra tveggja ... þá er ég með þetta í vasanum ... vægt til orða tekið.
---
Í næstu viku fer alvara lífsins að taka við. Lauga byrjar þá að vinna og börnin í minni umsjá frá yfir hádegið.
Það má því telja nokkuð víst að sumir komi til með að vinna frameftir á næstu vikum og mánuðum ef takast á að ljúka doktorsverkefninu í sumar og vinna einnig að öðrum mikilvægum verkefnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2012 | 23:09
Fimmtudagur 26. janúar 2012 - Magaveiki, salat og væl
Þessi dagur hefur nú ekkert verið neitt sérstakur ... sérstaklega þó fyrri partur hans. Upp úr miðnætti síðustu nótt fór að örla á magaveiki hjá síðuhaldaranum, svona rúmum klukkutíma eftir að spúsan tók að finna fyrir einkennum.
Nóttin fór sum sé í það að fást við einkenni magaveikinnar ...
Í dagrenningu fórum við að bera saman bækur okkar og niðurstaðan var sú að súrmjólkin sem við borðuðum í gærkvöldi væri orsakavaldurinn, því blessuð börnin fengu ekki súrmjólk úr sömu fernu og hafa ekki sýnt nein einkenni ... sem er auðvitað algjörlega frábært!
Það sem er svo auðvitað langskemmtilegast við að vera veikur er það að verða frískur aftur, því þá finnur maður svo óskaplega vel hvað það er dásamlegt að vera frískur. Ég vildi að ég hefði þetta oftar að leiðarljósi í hinu daglega amstri í stað þess að líta á það sem sjálfsagðan hlut að vera frískur.
Maður einhvern veginn tekur góðri heilsu svolítið eins og sjálfsögðum hlut, og fattar ekki mikilvægi hennar fyrr en krankleiki sækir á mann.
Slíkt á nú við um fleiri þætti í lífinu ... og þess vegna á spakmælið "enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur" svo oft vel við.
---
Seinni partinn í dag þegar ástandið var orðið þannig að mögulegt var að vinna svolítið, sat Guddan hjá mér í vinnuherberginu og las bók. Þetta hefur greinilega verið mjög merkileg bók því að hún endurtók hvað eftir annað: "Pizza-salat"!!
Ég reyndi að fá upp úr henni hvað "pizza-salat" væri ... en það var fullkomlega árangurslaust ...
Pizza-salat!!
---
Á síðustu vikum hefur færst í vöxt að GHPL tilkynni, þegar þannig árar, að hún sé "bálreið". Þetta er dálítið merkilegt, því við Lauga notum aldrei þetta orð ... þannig að uppruninn er dálítið óljós ... sennilega eru þó Strumparnir orsakavaldurinn.
Þeir voru það að minnsta kosti þegar GHPL var alltaf að segja "reipi, reipi" hér fyrir nokkrum mánuðum.
---
"Pabbi ... hættu þessi væli" er setning sem mjög oft heyrist á heimilinu og þá sérstaklega úr einum tilteknum 3,5 ára gömlum munni og þá helst þegar við erum ekki alveg sammála um hlutina.
Mér finnst stundum eins og stubburinn skilji ekki almennilega sjálfur hvað hann er að segja, því iðulega er ég ekki baun að væla þegar gripið er til þessa orðavals.
Uppruna þessa má að öllum líkindum rekja til mín og þá til þeirra tilfella þegar ég bið minn ástsamlegan son, herra Pípus, vinsamlegast um að slökkva á hátalaranum.
---
Það er alveg klárt hver er mesti svampheilinn á þessu heimili ...
... og alveg klárt hver þarf að fara að passa hvað hann segir ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2012 | 00:25
Þriðjudagur 24. janúar 2012 - Tvær tilvitnanir
"Ég hef oft sagt að karakterar fólks kristallist á fótboltavellinum" - Guðjón Þórðarson
Ég hef pælt svolítið í þessum orðum Guðjóns. Ef ég tala fyrir minn munn þá held ég að karakter minn komi ágætlega í ljós inn á fótboltavellinum, bæði veikleikar og styrkleikar.
Blanda af kappsemi, baráttu, stundum óstýrilátu skapi og heiðarleika :) ... er mitt mat á eigin karakter sé þessi aðferð notuð.
Þannig að vilji fólk kynnast sjálfu sér þá mæli ég með því að skreppa í fótbolta.
---
"Þetta er ljótt úr. Ég verð að viðurkenna það. Ég geri ekki ráð fyriri að nota það sjálfur. Ætli ég gefi ekki einhverjum það. Þetta er tækifærisgjöf" - Rúnar Kárason, nýliði í handboltalandsliði Íslands þegar hann var valin maður leiksins í leik gegn Spánverjum á EM 2012.
Ég gat ekki annað en glott út í annað. Frábært að fá þessa gjöf frá Rúnari. Alltaf gaman að fá ljótt úr að gjöf.
En annars verð ég að segja að mér fannst hann standa sig mjög vel í þessum leik og það var ekki sjá að þarna færi nýliði í landsliði í öðrum leik sínum á stórmóti.
Var að hugsa meðan á leiknum stóð hvað eins dauði er annars brauð ætti vel við ... þarna var þessi maður mættur í hægri styttustöðuna ... stöðuna sem besti handboltamaður Íslands hefur haldið nokkuð fast um í meira en áratug. Sá er nú meiddur og fyrsti "varamaður" hans er svo líka meiddur, og þá allt í einu er kastljósinu beint að þessum náunga, sem þoldi það vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2012 | 23:24
Mánudagur 23. janúar 2012 - Sambandsleysi
Aldrei þessu vant er mér orða vant nú ... ég hef ekki hugmynd um hvað ég á eiginlega að rita á þessa síðu nú í kvöld.
Ég hef verið að lesa og hugsa, já og skrifa umhverfissálfræði stóran hluta dagsins. Tók síðan góða söngæfingu hérna heima áður en ég hélt á 3,5 tíma hljómsveitaræflingu.
Það er alveg hrikalega gaman á þessum hljómsveitaræfingum. Hef örugglega sagt það áður á þessari síðu.
Helst myndi ég vilja fara á hljómsveitaræfingu einu sinni á dag, en það gengur ekki alveg upp.
Vorum að þreifa á nýjum lögum í kvöld. Þannig "repertoir-arið" stækkar óðum. Það verður rosalega gaman að taka þessi lög þegar búið verður að slípa þau betur til.
---
Af öðrum er bara allt gott að frétta.
Nafni er mikið að brölta við að koma sér upp á endann og vill helst hlaupa um íbúðina allan daginn ... en getur það ekki því enginn nennir að hjálpa honum við það nema stutta stund í einu.
Og svo er hann alveg óður í að komast í appelsínugula ljósið á fjöltenginu sem aðstoðar tölvuna og fleira dót að komast í rafmagn. Það þarf náttúrulega ekki að fjölyrða um myndi gerast ef hann kæmist í þann takka og næði að slökkva á honum.
---
En jæja ... eins og ég sagði ... ég er eitthvað stirður í hausnum og fingrunum núna, þannig að ég ætla að láta þetta duga.
Andinn hlýtur að fara að koma yfir mig aftur ... það hefur verið dálítið sambandsleysi við hann síðustu daga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2012 | 23:30
Sunnudagur 22. janúar 2012 - Plan og aðferðafræði
Það er alveg ljóst að ætli maður ekki bara að missa dagana út úr höndunum á sér, þá er gott ráð að plana þá fyrirfram. Helst hafa fleiri en einn möguleika.
Við ætluðum að taka góðan göngutúr í dag, ganga í Gottsundagipen en svo kom það bara upp úr dúrnum að heimasætan var með hitaslæðing ... og þá datt göngutúrinn upp fyrir og ekkert varð neitt úr neinu.
Sjálfur ætlaði ég þá að fara út að hjóla en kom mér aldrei í það ... og datt þess í stað að æfa svolítið söng ... en dagurinn náði aldrei að komast í almennilegan "rythma".
---
Í morgun settum við Lauga upp dæmi sem við köllum "X-factor" en "X-factorinn" er einfaldlega það að ganga frá hlutunum eftir sig. Af hverju "X-factor"? Hef ekki hugmynd.
En allavegana erum við bæði voðalega slæm með að skilja hlutina eftir á víð og dreif og eyða svo löngum tíma í að finna þá næst þegar þarf að nota þá.
Og núna í viku ætlum við að leggja áherslu á að ganga frá eftir okkur og minna hvort annað á ef hlutirnir eru ekki alveg að gera sig. En í stað þess að jagast, þá minnum við bara á "X-factorinn".
Svo innleiddum við aðra aðferðafræði. Ég hef stundum notað þessa aðferð þegar ég er einn að ganga frá í eldhúsinu en hún felst í því að ætla sér stuttan tíma til að ljúka tilteknu verki, t.d. að tína allt af eldhúsborðinu og ganga frá inn í ískáp og uppþvottavél á innan við tveimur mínútum.
Í matarboðinu hjá Gunna og Ingu Sif í gær ... sem nota bene var últragott ... barst viðameiri útgáfa af þessari aðferðafræði inn í umræðuna en hún felst í því að láta alla heimilismenn taka þátt í einhverju verkefni í tiltekinn tíma. En með þessum hætti er hægt að auka skemmtanagildi verkefnisins töluvert mikið, samvinna lærist og minni tími fer í verkefnið.
Ég hef trú á að eitthvað gott komi út úr þessu öllu saman ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)