Laugardagur 3. mars 2012 - Að vilja ekki gera hlutina ...

Guðrún kemur oft með mjög góðar hugmyndir ...

Í morgun stakk hún t.d. upp á því að fá tyggjó í morgunmat frekar en hafragraut eða jógúrt.

Því næst lagði hún til að horfa á Mikka mús þangað til hún yrði hitalaus en hún var með 3 kommur í morgun.

Oft telur hún líka heppilegra að hún fái ís frekar en almennilegan mat.

Já og svo núna þá er hún ýmist mjög þreytt eða illt í maganum þegar hún þarf að borða eitthvað annað en ís og kökur.

Annars verður það að segjast um blessuð börnin bæði tvö að þau eru afskaplega miklir vælukjóar þessa dagana. GHPL ýmist rífur kjaft í allar áttir eða er vælandi yfir óréttlæti heimsins. Stubbi vælir bara yfir óréttlætinu ... sem felst í því að mamma hans nennir ekki að halda á honum og leika við hann 24/7. 

Ég neita því ekki að ég er dálítið hugsi yfir dótturinni ...

---

Í dag lauk ég svo við gerð fyrirlestranna fyrir námskeiðið hjá Endurmenntun HÍ, þetta verður fínt námskeið ... vona bara að sem flestir láti sjá sig þar ...

---

Við Lauga áttum líka gott spjall í dag ... ræddum um mikilvægi þess að vera ekki sama um hlutina.

Það er mín einlæga trú að ef fólk lætur eftir sér "að vera sama" um menn og málefni, þá rýri það í raun líf þess.
Alltof margir afgreiða fjölmarga hluti einfaldlega með því að segja "ég hef ekki áhuga á þessu" og í mörgum tilfellum er það án þess að hlutirnir hafi nokkurn tímann verið íhugaðir eða reyndir. 

Sjálfur var ég lengi þannig að ég var ekki tilbúinn að gefa hlutunum tækifæri.
Ég hlustaði bara á KISS og ég spilaði bara fótbolta. Ég horfði aldrei á Eurovision og mátti ekki heyra minnst á sálfræði. Ég gekk bara í jogging-fötum. Bara svona til að nefna eitthvað ...

Ef ég var spurður hvort ég vildi ekki hlusta á eitthvað en annað en KISS, gera eitthvað annað en að spila fótbolta, horfa á Eurovision, tala um sálfræði og ganga í öðru en jogging-fötum aftók ég það með öllu. 
Einn góðan veðurdag vitkaðist ég svo ... ég fann út að það var rými fyrir aðra tónlist en KISS, og guð minn góður ... síðan þá hefur opnast fyrir mér gjörsamlega nýr heimur og líf mitt hefur orðið ríkara, þó KISS sitji enn í hásætinu. Ég fór að sinna öðrum hlutum en bara fótbolta ... skrifa, mála, syngja, leika, spila á gítar, synda ... nýr heimur opnaðist, nýir möguleikar. 
Núna missi ég ekki af Eurovision ... íslenska undankeppnin, sænska undankeppnin, öll kvöldin í aðalkeppninni ... ég leita stundum að Eurovision-lögum á YouTube til að hlusta og hafa gaman ... og já, sumt af stöffinu er bara mjög skemmtilegt.
Á sálfræðina þarf ég ekki að minnast ... en ég man alltaf þegar ég hét því eftir hafa verið í sálfræðitímum í Háskólanum á Akureyri á vormisserinu 1995 að ég skyldi aldrei læra aftur sálfræði, stóð reyndar ekki við það, því í "klásusnum" í læknisfræðinni þá um haustið tók ég aftur sálfræðikúrs. Ætlaði aldrei að lesa staf meira eftir það ...

Verð að viðurkenna að þetta með fötin er enn svolítið vandamál ... ;)

Þessi þvergirðingsháttur að vilja ekki prófa hlutina, gefa þeim sjéns ... þetta rýrir bara tilveruna hjá manni ... og því ástæðulaust að vera að eitthvað sérstaklega metnaðarfullur í því að vilja ekki gera hlutina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband