Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Mánudagur 31. janúar 2011 - Snilld og kanína

Jæja ... maður hefur varla við að segja sögur af velgengni spúsunnar ... 

Nú er það bara orðið þannig að samnemendur hennar vilja að hún kenni þeim ... "þú ert miklu betri en kennarinn" sagði einn þeirra í dag.

Það er alveg ótrúlega gaman að þessu.  Ef fram heldur sem horfir sýnist mér að ég geti þakkað fyrir ef ég fæ að vera í uppvaskinu hjá henni ... 

---

Af Guddunni er allt harla gott að frétta ... "Gaman í leikskólanum" segir hún þessa dagana þegar maður nær í hana síðdegis. Þessu ber náttúrulega sérstaklega að fagna enda fjarri því að allir geti gefið leikskólavist sinni viðlíka einkunn.

Í dag fékk hún svona næturlampa ... þ.e. ljós sem hægt er að kveikja á að nóttu til án þess að allt verði flennibjart. Ljósið er í laginu eins og kanína og var stubbur alveg hæstánægður með gripinn. Lét hann treglega af hendi en kaus heldur að ganga um íbúðina, eins og sá sem valdið hefur, með logandi kanínuna í höndinni og endurtaka í sífellu "greyið kanínan".

Kanínan var svo loks tekin úr umferð seint í kvöld eftir að eigandinn hafði átt í mestu vandræðum með að sofna.  Kannski ekki skrýtið þar sem skíðlogandi kanínan varð, allt þar til hún var fjarlægð, að vera staðsett beint fyrir framan nef eigandans meðan hann var að festa svefn. Það er nú kannski álíka árangursríkt og að snúa andlitinu mót sólu þegar er að reyna að sofna ... jafnvel þó þetta sé næturlampi. 

 
Pinnamatur borðaður í kvöld ... umrædd kanína til hægri ...

---

Sjálfur er ég góður ... í dag var ferðamannakönnun sem ég gerði á Djúpavogi í sumar sett á vefinn. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sé slíkt geta smellt hérna

Svo er væntanlega allt að smella með rannsóknina sem á að fara fram á Landspítalanum mjög fljótlega.

Og loks má segja að vel líti út með síðustu rannsóknina í doktorsverkefninu mínu en í dag fékk ég að vita að tveir nemendur við Uppsala háskóla væru áhugasamir um að sjá um gagnasöfnun í þeirri rannsókn ... sem væri ekki bara snilld heldur gjörsamlega, algjörlega tær snilld ...

Jæja, nóg í bili ... 


Sunnudagur 30. janúar 2011 - Til hvers að vera blogga um þetta?

Þá er þessi dagur að kveldi kominn ...

Allur annar dagur en í gær og í fyrradag ... já, vel á minnst ... ég hef fengið nokkrar athugasemdir varðandi síðasta blogg ...  

Í grófum dráttum eru allar athugasemdirnar eins ... þ.e. til hvers að vera blogga um þetta? 

Svar mitt er: Af því það er full ástæða til þess ...

Ég hugsa þessa bloggsíðu fyrst og fremst sem dagbók fyrir sjálfan mig og vettvang þar sem ég get skráð niður punkta úr lífi Guddunnar, sem gaman og fróðlegt getur verið að eiga síðar meir. 

Og í mínu lífi eru hæðir og lægðir ... stundum blasir lífið við, mér finnst ég geta allt og allt er bara í rosalega miklu gúddí. Svo stundum eru hlutirnir bara drullufúlir og ýmsar ástæður geta legið að baki því.

Og þar sem bloggið er aðallega hugsað, frá mínum bæjardyrum séð, sem dagbók sé ég enga ástæðu til að vera með einhverja sögufölsun og blekkingarleik um að það sé alltaf allt svo æðislegt hjá mér ... því það er það svo sannarlega ekki.

Hinsvegar get ég ekki neitað því að mér finnst afskaplega margir vera í slíkum leik.

Maður les facebook-statusa, blogg og blaðagreinar þar sem fólk iðulega tjáir sig um hvað líf þeirra sé æðislegt og allt svo rosalega skemmtilegt, hvað þeir elski lífið mikið, hvað verið sé að borða æðislegan mat, hvað þeir séu þakklátir fyrir hvað allir eru æðislegir og hvað þeir hafi það rosalega "næs".  

Oft finnst mér holur hljómur í þessu og eins og það sé einhver keppni í því að eiga sem æðislegast líf, vera sem jákvæðastur og þakklátastur ...

... ég skil ekki alveg til hvers og við hvern er eiginlega verið að keppa ...

En sem dagbók á netinu er ekkert óeðlilegt við það að hér séu stundum ritaðir persónulegir hlutir. En alltént er hér enginn leikur á ferðinni og það er ekkert verið að reyna að fegra hlutina með neinum hætti. Flestir hlutir eru sagðir umbúðalaust, þó þess sé gætt að höggva ekki ódrengilega í einn né neinn.

Oftar en einu sinni hefur fólk fengið hland fyrir hjartað yfir því sem hér er skrifað ... og það er verður bara að vera svo ...

Ég vil stunda opin og heiðarleg samskipti, ég hef ekki áhuga á feluleikjum eða brengluðum frásögnum ... ég hef bara áhuga á lífinu eins og það kemur fyrir af skepnunni og legg mig fram á hverjum degi um að verða jákvæður einstaklingur og góð manneskja.

Stundum tekst það og stundum ekki ... 

---

Að öðru leyti gerðist það í dag að við Guddan fórum í handbolta í stofunni ... það var eftir úrslitaleikinn á HM.

Ég veit ekki hver hún var en ég var Kristján Arason.

Nema hvað ... í miðjum leik uppgötvaði GHPL að hendur hennar voru útmakaðar í kókómalti.

"Æjæj ... gleyma þvo hendur!" Svo hljóp hún fram á bað og þvoði hendurnar.

Svo kom hún aftur. Leikar um það bil að hefjast á nýjan leik, þá kom aftur babb í bátinn.

"Bíddu ... skítug .. þvo hendur!" Aftur fram á bað.

Svo kom hún aftur. Aftur fram á bað ... og svona gekk þetta trekk í trekk.

"Kristján Arason" var alveg orðinn ískaldur þegar Guddan krafðist þess loks að leik yrði haldið áfram.

Það varð orðið við þeirri beiðni og Syd fékk boltann, hljóp fram í eldhús, henti boltanum (sem reyndar var appelsínugul borðtenniskúla) undir eldhúsborðið.  Hún þverneitaði að ná í boltann en sagðist vilja fá eitthvað að borða ...

... þannig lauk fyrsta alvöruhandboltaleik á þessum bænum ...  


Laugardagur 29. janúar 2011 - Að vera ekki alveg nógu hress

Ég er í ótrúlega litlu skriftarstuði þessa dagana.

Nóg að gera ... kannski of mikið ...

Fór í söngtíma í gær þar sem tekið var upp svolítið efni ... var svona stúdíótími. Alveg hrikalega skemmtilegt.
Upptakan er söguleg enda heyrir maður alveg helling af atriðum sem gera þarf betur. Það er oft sagt að í söng læri maður mest af því að heyra upptöku af sjálfum sér.

Það er nefnilega þannig að það sem maður heyrir sjálfur er ekki það sem allir aðrir heyra ... það þekkja allir sem hafa einhvern tímann heyrt upptöku af sjálfum sér tala.  Manni finnst röddin skrýtin ...

Svona upptökur eru harður húsbóndi, því þær láta ekkert framhjá sér fara ... allir villur og allir tæknilegir feilar eru "nóteraðir".

---

Annars er það nú að frétta að upp öllu sauð í gærkvöldi þegar sló í brýnu milli okkar feðginanna.

Málið var að í gærmorgun hélt ég fyrirlestur í Uppsalaháskóla og var satt að segja ekkert of ánægður með frammistöðuna og svona fremur súr í allan gærdag ... 

... þegar Guddan var svo hérna heimafyrir sífellt að segja mér að hætta að tala við Laugu, sífellt að grípa fram og var með almennan dólgshátts ... fór þolinmæðin þverrandi ...

Hún, þ.e. þolinmæðin, loks brást klukkan 22.30 í gærkvöldi þegar Syd Houdini vaknaði eftir að hafa sofnað 10 mínútum áður og reif í kjölfarið stólpakjaft þegar henni var neitað um að fá að horfa á Dóru landkönnuð. 

Lauga sagði okkur að hætta að rífast ... en það dugði ekki til ... úfið geðslag og breyskleiki föðursins varð til þess að Lauga fór inn í svefnherbergi með fokreiða Guddu. "Þú ættir nú að sjá það sjálfur að það þýðir nú lítið að vera að rífast í 2,5 ára barni sem varla veit hvað það heitir af þreytu" voru kveðjuorðin.

Eftir í stofunni sat fokreiðari faðir.

--- 

 

Það er langt síðan svona skapstyggð hefur komið upp í mér ... og fór allur dagurinn í dag að vinda ofan af þessu.

Það var meðal annars gert með því að skamma Laugu talsvert, pirra sig á mörgum ólíkum hlutum og vera bara almennt leiðinlegur. Alveg merkilegt hvað maður er alltaf til í að láta eigin "óstuð" bitna á öðrum.

---

Svona dagar eru því alleiðinlegustu dagar sem maður upplifir. Það er bara einhvern veginn endalaus mótvindur, ekkert gengur upp og ekkert mun ganga upp nokkurn tímann ... ;)

Dagurinn á morgun verður skemmtilegur ... ég er búinn að ákveða það :) .  Samt mikil synd að fara svona illa með þennan dag sem kemur aldrei aftur ...

... jæja ... en svona er þetta bara ...

... það var þó lagað til hérna heimafyrir í dag. 


Guddan býður upp í dans í fyrradag ... 


Miðvikudagur 26. janúar 2011 - Lauga að gera það gott

Lauga er gjörsamlega að brillera í vinnunni ... hún er í verknámi núna á augnskurðstofunni ... og fær svo mikið lof fyrir frammistöðuna að hún kemur heim á hverjum degi 10 cm hærri en þegar hún fer út á morgnana.

... og ég fæ að vita allt ... auðvitað.

Stundum er það sem hún segir mér mjög áhugavert ... eins og t.d. það að mögulegt er að láta hjartað hætta að slá ef maður togar of fast í einn tiltekinn augnvöðva, en þeir eru, eftir því sem mér skilst, sex talsins.

Þetta finnst mér merkilegt ...

Stundum eru frásagnirnar út og suður, eins og t.d. í matnum í kvöld ...

... eftirfarandi frásögn gerði nákvæmlega engin boð á undan sér.

"Já og heyrðu ... svo þurftum við að senda aftur niður í "centralið" 40 pakka. Þá var hitinn í þessu of hár hjá okkur ..."

"Nú?"

" Já, þetta var greinilega alltof heitt ... og hún var ánægð að það var bent á þetta."

Ég hallaði undir flatt og lyngdi aftur augunum.

"Hvað nennirðu ekki að hlusta á þetta?"

"Nei, eiginlega ekki ... "

"Af hverju ekki?"

"Af því að ég skil ekkert í því sem þú ert að segja ... "

"Hvað skilurðu ekki?"

"40 pakkar?? Er það mikið eða lítið?"

"Það er rosalega mikið!!"

"Ok ... og hvað er í þessum pökkum? Hvað er þetta "central"? Hvaða hún var ánægð? Í hverju var of mikill hiti o.s.frv. ... þú talar bara eins og ég sé innsti koppur í búri á þessum spítala!!!

"Já ... ok ... ég skil þegar þú segir þetta ... (þögn) ... heyrðu, Guðrún borðaði víst tvær pönnukökur á leikskólanum í dag ...

---

Í kvöldmatnum lagði Guddan sig fram á borðið og sofnaði á mettíma ... rétt eftir að hún var búin að lýsa því hátíðlega yfir að hún væri ekkert þreytt og ætlaði að fara að sofa "á molgun" (svo þetta sé haft algjörlega orðrétt eftir fröken hátign). 

 


Þriðjudagur 25. janúar 2011 - Umhugsunartími, ræðuhöld, já og sirkus

Jæja, áfram heldur baráttan ... býsna annasamur dagur að baki.

Fyrirlestrarskrif og pælingar í gangi, ásamt því að skrifa nokkur email og þvo stórþvott.

Nútímamaður gerir nokkra hluti samtímis ... 

---

Það er að æra óstöðugan að minnast á stjórnlagaþingið, miklu nær væri að velta fyrir sér hvað gerðist eiginlega í heilabúi konunnar sem byrjaði að éta sófa og stóla eftir að foreldrar hennar skildu þegar hún var 10 ára.

Þetta er nú eiginlega með því klikkaðasta sem ég hef nokkurn tímann heyrt ... 

Maðurinn sem giftist bangsanum sínum virkar nú bara 110% eðlilegur í samanburði við þetta.

---

Nýjasta æðið hjá Syd er að segja "öööö ... hmmm ... " með tilheyrandi þögnum áður en hún svarar spurningum sem fyrir hana eru lagðar.  Nokkurs konar umhugsunartími greinilega.

"Hvaða bókstafur er þetta?"

(Ööööö ... mmmm ... )  "B."

"En hver er þetta?"

(Ööööö ... mmmm ... ) "Kjartan [galdrakarl - innskot síðuhaldari]." 

---

Svo eru orðin töluverð slagsmál um hver fær að hafa orðið, t.d. við kvöldmatarborðið. 

Iðulega er ég beðinn um að halda mér saman ...

Þá lítur stubbur þunglega á mig, sýnir mér flatan lófann og segir: "Pabbi ... sluta tala ... mamma tala ... Gí

"Ok" segi ég þá.

GHPL tekur þá til óspillra málanna ... iðulega einhvern veginn svona:
"Mamma ... (e-ð óskiljanlegt) ... ... (e-ð óskiljanlegt) ... tala ... sirkus ... (e-ð óskiljanlegt) ... 1, 2, 3, 5, 7, 8  leikskóla ... (e-ð óskiljanlegt) ... Dóra, Klossi ... (e-ð óskiljanlegt) ... heim!"

Þá segi ég: "Ok."  
En Lauga segir yfirleitt: "Ha!?"

Og enginn skilur neitt ... 

 

Illskiljanlegast finnst mér þó hvernig blessuðu barninu tekst alltaf að koma þessum sirkus inn í umræðuna ...

---

Þessi ferð í Cirkus Maximum þann 5. september sl. hefur greinilega haft meiri áhrif á Gudduna en mann óraði fyrir ... 


Mánudagur 24. janúar 2011 - Að hanga inni

Djöfull mundi ég ekki nenna vera í íslenska handboltalandsliðinu núna ... 

... 17 karakterar (þ.e.a.s. ef ég tel aukamanninn sem situr upp í stúku með), plús þjálfarateymi, plús aðstoðarfólk ... allir grautfúlir og rosasvekktir.

Mér finnst þessi vinna sem búið er að vinna með þetta lið á síðustu árum, ótrúlega flott ...

Þetta er svona til marks um hvað er hægt að gera fólk hefur stefnu í lífinu ... setur einhverja línu, hefur ránna í þeirri hæð að ekki er vitað hvort náist að hoppa yfir hana. Svo er allt sett í botn.

Ég man þegar Óli Stef hætti eftir Ólympíuleikana 2004 ... svaka svekktur ... sagðist hafa ætlað sér að ná í verðlaun á leikunum.

Ég horfði á Kastljósið þar sem verið var að ræða þessi mál við hann og hugsaði með mér: "Sjénsinn ... "

Fjórum árum síðar var karl kominn með Ólympíusilfrið um hálsinn ... 

Þetta var mér mikill lærdómur ... því þetta sýnir mér að það er allt hægt ... maður þarf bara að trúa og gera. Maður þarf að hanga inni ...

---

Aðdáun mín á KISS byggist líka mikið á þessu ... hvað er hægt að gera þegar maður hefur trú á verkefninu og vinnur eins og motherf****r. 

Tveir gaurar, bláfátækir hittast árið 1970.  Þeir eru ákveðnir í að verða rokkstjörnur ... og þeir verða rokkstjörnur.  Þeir hafa upplifað hæstu hæðir og lægstu lægðir ... samt alltaf haldið áfram.

Þeir hafa hangið inni hvað sem tautað hefur verið og raulað. Í dag fara þeir í tónleikaferðir sér til skemmtunar og spila fyrir mörg þúsund manns oft í viku mánuðum saman.

---

Það eru auðvitað til mörg svona dæmi ... en í mínum augum er þessi tvö dæmi rosalega flott ...

En það að lifa eftir þessu er ekki alltaf gaman ... það er mikið lagt undir og því er sárt og svekkjandi þegar uppskeran verður ekki eins og vonast er eftir ... 

... þá er mikilvægast af öllu að .. einmitt ... hanga inni ... halda áfram ...  

 ---

Hér er t.d. síðasta andartak leiksins í dag ... mega-svekkelsi fyrir landsliðið.

 

Guddan var svo áhugasöm um þennan landsleik að hún krafðist þess að fá að horfa á barnatímann í miðjum leik.

Ég hélt nú ekki.

Þreif hún þá umsvifalaust fjarstýringuna og ég fékk hin mikilvægu stjórntæki ekki aftur í hendur fyrr en hún var búin að kría út súkkulaði.

Svo plantaði hún sér beint fyrir framan skjáinn meðan hún át súkkulaðið ... og reif kjaft þegar ég sagði henni að fara frá.

Sem betur fer kom Lauga heim í sömu andránni ... 

Þetta er nú meiri frekjan!! 


Sunnudagur 23. janúar 2011 - Sitt af hverju

23. dagur þessa árs að kveldi kominn.

Alveg hreint prýðilegur þessi dagur. Hófst á rólegum nótum með slagsmálum í rúminu í morgun ... ég á móti Guddunni.

Svo fékk Syd aldrei þessu vant að horfa svolítið á DVD, en það entist nú ekkert lengi.  Það er nefnilega dálítið merkilegt að eftir að við settum stífar reglur á sjónvarps- og DVD-áhorf hefur hún að miklu leyti misst áhugann á því ... jafnvel þó hún sé alltaf að tala um Dóru, Klossa, Dodda og Strumpana.

Þetta er svolítið merkilegt, finnst mér.

Á meðan gátum við Lauga unnið í sitthvoru horninu ... sem var algjörlega nauðsynlegt fyrir okkur bæði ...

Um þrjúleytið skruppum við niður í bæ ... á kaffihús.

Stubbur brá á það ráð að sofna á leiðinni á áfangastað og sofa lungann af dvölinni á kaffihúsinu. Ég væri lygari ef ég segði að okkur Laugu hefði ekki fundist það bara alveg ágætt ;) . 

Það var komið hartnær kvöldmatur þegar við komum aftur heim, eftir viðkomu í matvörubúðinni ...

... og svo fótbolti í kvöld hjá mér ...

---

Pissuævintýrið heldur áfram hjá heimasætunni og árangurinn afar góður.  Mikið sport.


Í gærmorgun með tvær skálar á höfðinu ...


Í gær þegar við skruppum út í hjóla- og leiktúr ...


Legið undir tré í námunda við E4 hraðbrautina.


Í heimsókn hjá Sverri og Dönu ... þarna er verið að horfa á Brúðubílinn ... 


Fimmtudagur 20. janúar 2011 - Langþráðum áfanga náð

Paul Stanley skrautfjöður KISS á afmæli í dag ... ok ...

Mesta snilldin er samt að það eru tveir vinir mínir búnir að óska mér til hamingju með karlinn :) ... sem er, svo ég endurtaki mig ... hrein snilld!!

 

Í dag náði ég svo mjög, mjög, mjög langþráðu takmarki ... þegar ég sendi mína fyrstu vísindagrein til tímarits. Það var Journal of Environmental Psychology sem varð fyrir valinu og taldi lokaútgáfa greinarinnar tæplega 10.000 orð sem er svona í lengra lagi þegar horft er til vísindagreina sem þessarar.

En ég er alveg óskaplega glaður yfir að þessi grein sé frá ...

Svo þarf að að bíða í nokkra mánuði með að sjá hvort hún fæst samþykkt en áður en það kemur í ljós, þarf hún að fara í gegnum yfirlestur og athugasemdaskrif hjá minnst þremur öðrum vísindamönnum.

Endanlegt samþykki (nú eða synjun ... sem er ekki að fara gerast!!!) fæst svo eftir nokkra mánuði ... sennilega 6 - 12 mánuði ... þannig að björninn er síður en svo unninn. 

---

Hvað er hægt að segja um Gudduna ... ?

Jú, það er hægt að segja það að hún er komin með "pissuæði" ... að pissa í klósettið er núna mesta sport sem til er ...

Hún tilkynnir öllum viðstöddum að nú þurfi hún að fara á klósettið að pissa. Svo pissar hún og um leið og hún stekkur af klósettsetunni, heimtar hún umsvifalaust að fá að pissa meira.

... svona rétt eins og það sé hægt að panta slíkt hjá okkur foreldrunum ...  bara svona eins og að fá ís ...

En það sem kemur mér mest á óvart er hvað þetta hefur komið fljótt hjá henni ... 

... fyrir viku pissaði hún í buxurnar eins og bleyjubarn en núna er bara eins og hún sé búin að pissa í klósett alla sína ævi.

Alveg merkilegt hvað þessi blessuðu börn eru fljót að læra ...

 

Aðalspennan er þó sú hvort og hvenær tungumálin fara að flækjast fyrir Guddunni ... því á sænsku þýðir "kyssa" að "pissa" ...

Og við Lauga erum alltaf að biðja hana um að kyssa okkur ...  

---

Eitt að lokum ... þetta var umræðuefnið í kvöld hjá okkur Laugu ...

Nasistar fóru hörmulega með gyðinga í síðari heimstyrjöldinni. Ófáar frásagnir eru til af ódæðisverkum þeirra í útrýmingabúðunum.

Spurningin er ... hefði verið réttast eftir stríð, ef náðst hefði í valdamestu menn nasista, að láta þá kenna á eigin meðali?  Þ.e. að láta þá upplifa sama þrældóminn, vosbúðina, hungrið og barsmíðarnar í refsingarskyni?

---

Hér er svo "yfirklósettpissari" heimilisins ... myndin er tekin tveimur árum áður en þessi mikli pissu-áhugi vaknaði ... sumsé í janúar 2009.

 


Miðvikudagur 19. janúar 2011 - Að vera úti á túni

Lesandi bloggsíðunnar setti sig í samband við síðuhaldara í morgun og lýsti yfir megnri óánægju með færslu gærdagsins.

"Bara eitthvert umhverfissálfræðilegt kjaftæði!!"

"Hvað viltu að sé skrifað um?"

"Nú ... auðvitað eitthvað um Gudduna!!"

Það er óhætt að segja að maður sé einhvers staðar rammvilltur í tilverunni ... því ég hélt að lesendur væru fyrst og fremst að lesa síðuna til að vita hvað ég væri að gera og hugsa :D . Það er greinilega einhver svaðalegur misskilningur :)

---

Ég þori ekki annað en að taka tillit til þessara kvartana ... þannig að ég sauð saman video með Guddunni þar sem hún syngur og spilar Gamla Nóa af sinni alkunnu snilld.

Þess fyrir utan þá átti ég við dóttur mína alveg stórmerkilegt samtal í dag ... ætlaði að muna það en er búinn að gleyma því.


Þriðjudagur 18. janúar 2011 - Allt í góðu og smá vangaveltur

Geysilega góður dagur að baki óhætt að segja það ... sem endaði með góðum sigri í handboltanum núna í kvöld.

Þau hlaðast inn verkefnin hjá mér ... núna er ástandið næstu vikurnar þannig að ég sé bara ekki út úr augum.

Það er því ekkert annað í stöðunni en bara ráðast á hauginn og pæla sig í gegnum hann ...

---

Stemmningin á heimilinu er afskaplega góð.

Engin heimsmet sett í dag ... svo vitað sé ... ágætt að hafa frídaga í því öðru hverju.

---

Já, annars er bara lítið að segja núna ... það hringlar bara umhverfissálfræði í hausnum á mér núna og ég er nú ekki í stuði til að fara að skrifa mikið um það.

... og þó ... eitt stutt en merkilegt ...

Las grein í gær sem fjallaði um það hvernig umhverfið hefur áhrif á hugsunarhátt fólks.

Það voru bornir saman hópar fólks sem upplifðu náttúrulegu umhverfi og í "ekki náttúrulegu" umhverfi.

Og í ljós kom að það hugsun fólks sem var í náttúrulega umhverfinu einkenndist meira af umhyggju fyrir öðrum, dýpri samskiptum við aðra og því að þroskast sem persóna meðan hugsun fólks í "ekki náttúrulegu" umhverfi snerist meira um ytri gæði, frægð, peninga og ímynd.

Í ljósi þess hvernig gildsmat og hugsunarháttur í vestrænum samfélögum er og hefur þróast, þ.e. þar sem frægð, peningar og ímynd, er það sem mestu máli skiptir, eru þetta að mínu mati stórmerkilegar niðurstöður.

Um 75% fólks á Vesturlöndum býr í "ekki náttúrulegu" umhverfi, þ.e. í þéttbýli og þessar niðurstöður óneitanlega styðja þá ályktun að það eitt að svo mikill meirihluti fólks búi í slíku umhverfi sé ástæða þess að hinn "veraldlegi" hugsunarháttur sé jafn almennur og raun ber vitni. 

Maður hefur margoft heyrt talað um mikilvægi sjónvarps, internets, blaða o.s.frv. í þessu samhengi en aldrei fyrr hef ég séð neitt um áhrif hins efnislega umhverfis.

Afar merkilegt finnst mér.

---

Mynd af "gítarsnillingum" heimilisins en ótrúlegur áhugi er á gítarleik meðal allra heimilismanna.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband