Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
30.6.2008 | 23:18
50 cm markið er rofið!!
Já, góðir lesendur!!
Hér í Bourke Street gerðust hreint magnaðir hlutir í dag, þegar Guðrún Helga Sydney Houdini skaust, af lýtalausu öryggi, yfir 50 cm hæðarmörkin samkvæmt óopinberri mælingu foreldranna, sem gerð var í hádeginu. Reyndist hæð hennar vera heilir 51 sentimetrar, frá trýni að rófubroddi, eins og það er gjarnan kallað í dýrafræðinni.
Það þýðir um 2 cm vöxt á einni viku!!
Það er því greinilegt að talsvert keppnisskap hefur gert vart við sig á unganum, því hann ætlar greinilega að ná fullri líkamlegri stærð sem fyrst!!
Átið er líka yfirgengilegt ... því eins og ég rakti í síðustu færslu líður oft ekki nema ein klukkustund á milli matmálstíma.
Fyrstu fötin úreltust líka í dag ... sem þýðir að Gunna er orðin of stór í þau! Þessi föt voru keypt fyrir um hálfum mánuði, þegar fataúrvalið var af skornum skammti.
En það eru líka einu fötin sem við höfum keypt ...
... því fjölskylda Guddu hefur brugðist af slíkum krafti að allar fatahirslur eru orðnar yfirfullar. Nú síðast kom sending frá ömmu Guðrúnu, Toppu frænku, Bínu frænku, Nikka frænda, Sigrúnu frænku, Fúfú frænda, Steinu frænku, Stebba frænda, Snorra frænda og Trausta frænda. Það fyrir utan kom Fjóla frænka í Sydney, með heila "gommu" af fötum frá systur sinni, auk þess sem hún og Neil frændi, gáfu Gunnsu glæsilegan Kanadabol og smekk.
Þetta er náttúrulega allt saman alveg æðislegt!! Og sendum við þrenningin okkar allra bestu þakkir fyrir ... við erum í sjöunda himni!!
Ég nefndi í síðustu færslu, að ég myndi setja dótturina í myndabann ef hún hagaði sér ekki skikkanlega ... Og viti menn!! Stelpuskottið hefur verið eins og ljós síðan!!
Reyndar höfum við foreldrarnir gert uppgötvanir sem kannski skýra breytt hátterni að einhverju leyti. Við höfum áttað okkur á því að Guðrún er selskapsmanneskja ... og vill hafa eitthvað að gerast í kringum sig. Að liggja aðgerðarlaus í vöggu í steindauðu umhverfi, er henni ekki að skapi! Annars er merkilegt hvað fólki hættir til að halda að börn vilji helst vera í umhverfi þar sem ekki heyrist eitt einasta múkk og ekkert er að gerast!! Hver nennir því eiginlega!??!
Í öðru lagi höfum við ákveðið að nota taubleyjur í stað pappírsbleyja ...
Ó mæ goood ... nú er ég að skrifa um hlut sem ég var búinn að lofa mér að skrifa aldrei um á þessari bloggsíðu ...
... Góðir lesendur ... Páll Jakob Líndal er að tala um bleyjur!!!
...
... ok ... við ætlum að nota tau í stað pappírs. Hér í Sydney er nefnilega bleyjuþjónusta, sem lætur mann fá 70 bleyjur á viku. Innifalið í verði er að komið er með bleyjurnar og náð er í þær eftir viku um leið og nýr skammtur er afhentur.
Ég lofaði móður minni fyrir margt löngu að nota taubleyjur í stað pappírsbleyja ... og nú hef ég staðið við það!!!
Nú kemur í ljós hvort er betra, pappír eða tau!!
Í þriðja lagi höfum við gert nauðsynlegar lagfæringar á rúmi fröken hátignar, sem gerir dvöl hennar í vöggunni mun betri en áður!!!
Fyrir utan allt þetta endalausa barna- og bleyjutal ... má segja að það sé margt að gerast hér í Sydney þessa dagana ... það er dramatík í háum gæðaflokki!!
Ég segi ekki meira að sinni ... en það er eins og Lauga sagði við mig í gær: "Þú virðist vera gæddur þeim hæfileikum að það er aldrei lognmolla í kringum þig!!!"
Skyldi vera eitthvað til í því??
Tvær myndir fyrir þá sem hafa áhuga!
Fyrir myndastraffið ...
Eftir myndastraffið ... í stað þess að gráta úr augun og öskra úr sér lungun, brá einkadóttirin á leik, þegar hún kastaði upp á bringu föðursins og lagði svo höfuðið umsvifalaust ofan í herlegheitin, eins og sjá má á þessa ágætu mynd!!
Bloggar | Breytt 1.7.2008 kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.6.2008 | 05:53
Afleiðingar þjálfunardags nr. 1
Í síðustu færslu talaði ég fjálglega um að rólegu dagarnir í lífi dóttur minnar væru að baki ... flautað var til heljarmikilla þjálfunarbúða, í þeim tilgangi að herða barnið ...
... ég vara við slíku ...
... því sú litla kvittaði hressilega fyrir!!
Hún tók okkur í svo ærlega kennslustund núna um helgina að maður vissi vart hvort maður var að koma eða fara ... móðirin fékk þó óverðskuldað að kenna meira á því, en faðirinn sem þó skipulagði herlegheitin, það er þjálfurnarprógrammið!!
Og hver er staðan nú hér í Sydney klukkan rétt rúmlega 15:45? Móðirin liggur gjörsamlega marflöt ... sjá mynd sem tekin var fyrir fáeinum andartökum!!
En faðirinn stendur náttúrulega uppréttur eins og karlmanni sæmir og þvær tuskur og hengir til þerris!!
En hvað hefur eiginlega verið að gerast?!?
Já, í stuttu máli má segja að Gutta viljað fá eitthvað gott að drekka á svona klukkutíma fresti, hún hefur svo gert allhressilega í brækurnar að strjúka verður milli herðablaðanna á henni með volgum klút, þegar takast á að þrífa hana með fullnægjandi hætti, þar að auki hefur hún gubbað út umtalsvert magn af klútum, bolum og teppum. Og á milli þessa, gólar hún eins og stunginn grís, og harðneitar að sofa nema svona eina mínútu í einu!! En ef henni er boðið upp á að liggja í sínu rúmi, þá neitar hún alfarið svo mikið sem lygna aftur augunum. Hún virðir hringekjuna með höfrungnum, froskinum, kolkrabbanum og fjólubláa sæhestinum að vettungi, þó hún snúist eins og skopparakringla fyrir framan nefið á henni og gefur ekki fimmaura fyrir það sindrandi tónaflóð sem streymir frá spiladósinni sem hringekjan hangir í.
Það er því greinilegt að aðgerðir foreldrana um að herða upp ungann hafa komið beint í andlitið á þeim aftur!! Stundum er slíkt kallað að skjóta sig í fótinn!!
Þrátt fyrir þetta allt saman ríkir sátt að mestu leyti enn og mun ég því birta myndir af dótturinni með þessari færslu ... en ef hún verður mjög "óþekk" marga daga í viðbót, er ég búinn að segja henni að hún fari í myndastraff!!!
Ég ætla að sjá hvaða svör hún hefur við þessu bragði mínu ... hahahahaha!!!!
En svona gengu hlutirnir fyrir sig fyrir þjálfunardaginn ...
Og svona gengu þeir fyrir sig eftir þjálfunardaginn!!!
Já, það er óhætt að segja að það er vandasamt hlutverk að vera foreldri ... maður vill ákaflega vel, en hlutirnir eru túlkaðir með algjörlega öfugum hætti!! :D
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.6.2008 | 10:56
Þjálfunardagur nr. 1
Í morgun hófst hin eiginlega þjálfun hjá Guðrúnu ... hér er að sjálfsögðu átt við þá þjálfun sem er nauðsynleg til að geta staðið sig afburðavel í því lífi sem nú blasir við henni.
Já, í morgun hófst 20. dagurinn, tími hinna rólegu daga var liðinn ...
Stúlkan var færð upp í viðeigandi búning, bláan að lit með rauðu sjali og framan á bringunni stóð "Superhero in training" ... svo sannarlega orð að sönnu!!
Í upphafi dagsins leit "Superhero-ið" svona út mætti, tilbúin í slaginn, ... eins og glögglega má sjá á þessari mynd!!
Svo tók þjálfunin á sig hinar ólíklegustu myndir og reyndi það töluvert á hetjuna ...
Svo var tekið hlé ...
Og eftir hléið héldu þjálfunarbúðirnar áfram ...
... af fullri hörku!!
Þetta "attitude" fékk ljósmyndari dagsins beint í andlitið frá hetjunni ungu!!
Svo tók þetta sem betur fer að róast aðeins, þegar líða tók á daginn ...
Að þjálfun dagsins lokinni ...
Já, það er ekki tekið út með sældinni að vera í "Superhero"-þjálfun!!
Augljóst var að þjálfun dagsins var góð og strembin þennan daginn, því hin kappsama hetja kastaði mikið upp!! Samkvæmt alvöru æfingabókum fyrir sannar hetjur, telst það styrkleikamerki og vísbending um að æfing hafi verið góð ef ælt er reglulega meðan á æfingu stendur og eftir hana!!
Búningurinn verður þveginn í kvöld, þurrkaður í nótt og þjálfun heldur áfram af fullum krafti strax í bítið í fyrramálið!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2008 | 14:51
Mælingar og pakki
Það hefur talsvert gerst á þessum bæ, síðan síðast var bloggað á þessa síðu. Auðvitað er hér átt við hluti sem snúa að litlu mannverunni, sem í dag hefur lokið sínum 18 degi í þessari dásamlegu veröld. Já, sagan endalausa af skottinu heldur áfram, enda á það stóran hluta huga manns þessa dagana.
Hæst ber að nefna tvo hluti, annars vegar stóra pakkasendingu frá ömmunni og afanum á Sauðárkróki til handa barnabarninu og hins vegar læknisskoðun sem fór fram um miðjan dag á mánudaginn síðasta.
Og ég held að það sé við hæfi að byrja á læknisskoðuninni og gefa upp smá "statistik". Til að hafa allt á hreinu þá rifja ég það upp að litli Íslendingurinn sem fæddist þann 7. júní sl. var við fæðingu 2630 grömm. Hann var þremur dögum síðar vigtaður aftur og reyndist þá vera 2508 grömmu.
En það átti eftir að breytast því á mánudaginn síðasta eða þann 23. júní 2008, rúmum hálfum mánuði eftir fæðingu var þyngdin komin í 2910 g, eða sem samsvarar aukningu um 402 g. Slík aukning telst mikil, enda gert ráð fyrir, samkvæmt upplýsingum fróðra manna, að börn þyngist um 300 - 400 g fyrstu tvær vikurnar.
Sydney hefur líka vaxið töluvert, og mældist á mánudaginn heilir 49 cm, þannig að mjög fljótlega styttist í að 50 cm markið verði rofið!! Sem verður að sjálfsögðu mikill áfangi! Það telst líka mjög gott að lengjast um 3,5 cm á 2 vikum.
Þannig að blessað barnið virðist bara hafa það gott, sem er vel!!
Þá er komið að sendingunni miklu sem kom í hús í gær. Fullur kassi af alls kyns fötum og dálítið af góðgæti, súkkulaði og lakkrís! Ekki skorið við nögl hjá ömmunni og afanum frekar en fyrri daginn. Fataskúffa dömunnar er orðinn býsna þéttsetin, en samkvæmt öruggum heimildum eru fleiri sendingar á leiðinni.
Mér telst til að minnsta kosti þrjár sendingar einhvers staðar í háloftunum milli Íslands og Ástralíu ... já, það er gott að eiga góða að!
Og vel á minnst ... eitthvað hef ég ritað um kaup á barnavagni, og myndasúpa af fyrstu ferðinni var birt á síðunni. Hvergi var þess þó getið hver raunverulega keypti vagninn, en það var að sjálfsögðu afinn á Sauðárkróki, sá hinn sami og fröken Gudda deilir með afmælisdeginum!
Af öðrum fréttum er það helst að lífið gengur bara vel fyrir sig hér í Sydney ... annars er orðið framorðið núna og ég hreinlega nenni ekki að skrifa um það ... það mun koma síðar ...
Og að venju birti ég nokkrar myndir, sumu fólki til skemmtunar og yndisauka ...
Ein frá því í gær ...
Hér er Gunna í nýja kjólnum, sem var meðal þess sem leyndist í pakkanum. Fyrsti kjóllinn kominn í hús ... og vafalaust ekki sá síðasti. Okkur Laugu fannst ansi sérstakt að sjá hana í kjólnum, því hann náttúrulega undirstrikaði kynferði barnsins nokkuð augljóslega. En fram að þessu hefur Rúna bara verið í samfestingum og samfellum, sem gefa lítið til kynna um hvort sá sem ber fötin sé karl- eða kvenkyns ... hún er bara barn, ígildi hvorugkyns!
Ég bara nefni þetta svona, því það var fyndið að nákvæmlega sömu tilfinningar skyldu vakna upp hjá okkur báðum.
Þarna er svo önnur mynd af Gurru í kjólnum! Þess má geta að kjóllinn endaði fyrsta daginn í þvottinum, enda töluvert um uppsölur hjá þeirri ungu, seinnipart dagsins!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.6.2008 | 13:20
Reynslutúrinn
Í dag skruppum við í göngutúr ... og var Sydney keyrð um eins og greifynja í nýja vagninum. Byrjað var á að ganga niður Bourke Street, að Wooloomooloo, þaðan gengum við yfir í Konunglega grasagarð Sydneyborgar, um Bóndavíkina, út á Bennelong, þar sem óperuhúsið stendur. Því næst um Sydneyvíkina að Circular Quay og yfir í The Rocks. Þá héldum við heim á leið eftir George Street, yfir Hyde Park, Oxford Street, Riley Street og loks Bourke Street (sjá mynd, leiðin er mörkuð með hvítri línu) ...
Samtals voru þetta um 12,5 km ... sem ég verð að segja að er vel af sér vikið hjá konu sem fæddi barn fyrir réttum hálfum mánuði ... geri aðrir betur!!
Já, auðvitað gerði ég betur, því þegar við komum heim, fór ég út að hlaupa ... og hljóp um 7 km!!
Sú stutta svaf af sér meira og minna alla ferðina ... en kom þó upp úr vagninum í námunda við óperuhúsið. Ég benti henni á þessa merku byggingu og rakti sögu hennar í stuttu máli, en líklega hafa fáir verið jafn áhugalitlir um þetta "monument" en dóttir mín þennan daginn!! Henni var algjörlega skítsama um þetta allt saman!!
Göngutúrinn var frábær og skemmtum við Lauga okkur konunglega í nokkuð svölu (16°C), en björtu veðri ...
Læt myndir dagsins tala sínu máli ...
Reyndar hófst dagurinn með suðuþvotti. Hér eru skítug föt þvegin eftir kúnstarinnar reglum!
Barnunginn ákvað svo fyrirvaralaust að taka upp á því að vilja snuð í dag og saug það af áferju!
Montin móðir með nýja barnavagninn
Þarna er maður niður á Wooloomooloo. Í húsinu þarna á bakvið, býr Russel Crowe leikari en hvar nákvæmlega í húsinu hann býr veit ég hins vegar ekki alveg
Lauga nærri Macquaire Chair, hafnarbrúin trónir í baksýn
Þarna er stillt sér upp fyrir myndatöku í Konunglega grasagarðinum
Mér finnst þessi nokkuð góð, þannig að hún fær að fylgja með
Þessi var að sýna listir sínar niður við Circular Quay í dag ... ég er líka nokkuð ánægður með þessa mynd
Eftir að hafa kafað ofan í ruslatunnu sem stóð skammt frá okkur, var þessi náungi litinn einlægum aðdáunaraugum af mávunum, sem ákváðu að fylgja goðinu sínu eftir!!
Þarna er hinni miklu Guðrúnu Helgu gefin næring ... sem hún þáði með þökkum!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.6.2008 | 16:42
Af íslenskum nöfnum í Sydney
Ég var víst búinn að lofa að gefa upp nafn telpunnar í dag ...
... nei, reyndar var ég búinn að lofa að gefa það upp í gær ...
Jæja, en allavegana ætla ég að gefa það upp núna í þessari færslu!
Blessuðu barninu hefur verið gefið nafnið Guðrún Helga Pálsdóttir Líndal ... hvorki meira né minna! Guðrúnar-nafnið kemur náttúrulega beint frá föðurömmunni, sjálfri Guðrúnu Jónsdóttur arkitekt!! Og Helgu-nafnið kemur frá móðurömmunni, hinni einu sönnu Steinunni Helgu!! Pálsdóttir Líndal er svo eins og flestir væntanlega gera sér grein fyrir óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að hún er dóttir Páls nokkurs Jakobs Líndals.
Ef blessað barnið heldur Sydneyjar-nafninu um ókomna tíð ... þá mun það væntanlega blasa við að þurfa signt og heilagt að útskýra af hverju hún sé kölluð Sydney.
Ég þekki það af eigin skinni að slíkar útskýringar geta stundum verið afskaplega þreytandi og stundum pirrandi ... ekki það að fólk hefur fullan rétt á því að spyrja mann sem er heitir Páll Jakob, af hverju hann sé kallaður Bobbi!!
Margir hafa í gegnum tíðina bent mér á að það sé ekki heil brú í því ... en þeir um það!! Aðrir hafa reynt að tengja það Jakobs-nafninu. "Já, já, nú skil ég ... það er auðvitað vegna þess að þú heitir Páll Jakob ... sko Kobbi verður Bobbi!!!!"
Já, já blessaður ... þetta er hinn mesti misskilingur ...
En úr því ég er kominn út í þessa sálma er alveg eins gott að ég bara upplýsi af hverju ég er kallaður Bobbi ...
Ég er kallaður Bobbi vegna þess að þegar ég fæddist, fannst föður mínum og alnafna, ég líta út eins og kuðungur!! Og ... í stað þess að kalla mig Kuðung, þá kallaði hann mig Bobba (Guð blessi hann fyrir það!!), en fyrir þá sem það ekki vita, þá er bobbi er annað orð yfir kuðung!
En það fylgja því einnig kostir að hafa sérkennilegt gælunafn ... því það gerir mann sérstakan ... maður verður svona "einn sinnar tegundar". Það eru held ég ekki margir nafnar mínir kallaðir Bobbi, ég veit ekki um einn einasta!! Samt hef ég hitt þrjá Bobba um ævina, einn þeirra hét Brynjólfur, en ég man ekki hvað hinir tveir hétu, en þeir hétu ekki Páll, svo mikið veit ég!
Og hvað eru margar Guðrúnar kallaðar Sydney?!? Örugglega ekki fleiri en ein!!!
Það er gaman af því að segja fólki sem ekki talar íslensku, hvað barnið heitir ...
"Já, er hún kölluð Sydney!? Enn sætt!! En ... jú, segðu mér endilega íslenska nafnið!!", segir fólk eftirvæntingarfullt.
"Guðrún Helga", segi ég.
"Segðu þetta aftur!!!", segir fólkið.
"Guððð-rúúún Heee-lgaaaa", segi ég mjög hægt.
"Gugædsidfjglblahæs Helga", endurtekur fólkið, og raunverulega telur sig bera nafnið fram með nokkuð sannfærandi hætti!!
"Já, svona um það bil", segi ég og steinlýg því náttúrulega!
"Ég mun bara kalla hana Sydney", segir fólk og brosir.
"Ekkert mál!!", segi ég.
Þegar ég fór að ná í fæðingarvottorðið um daginn niður á Þjóðskrána, hafði snillingunum þar tekist að skrifa rangt nafn á vottorðið. Barnið hét samkvæmt plagginu Gurdun Helga ...
Ég lét leiðrétta það. Þá sagði blessaður maðurinn sem leiðrétti að þetta væru ansi glæsileg nöfn ... Guðrún Helga Pálsdóttir Líndal og Sigurlaug Guðrún Gunnarsdóttir ...
Er nokkur furða þó menn, sem heita Tom Jones, Jim Smith og Greg Foster fari aðeins út af sporinu þegar, þeir þurfa að skrifa þessa stafasúpu??
Ég held samt að Páll Jakob Lindal, sé nokkuð viðráðanlegt fyrir þá ... þó það sé ekki möguleiki fyrir fólk hér að bera nafnið mitt fram með viðunandi hætti ... Það eru "L-in" tvö í enda nafnsins sem er hinn mesti dragbítur!! Til dæmis fannst tveimur félögum mínum hér í Sydney, ég segja "fuck", þegar ég sagði Páll!!! Mér fannst það reyndar mjög fyndið ...
Aðalleiðbeinandi minn telur sig bera Páll fram jafnvel og íslenskur íslenskufræðingur myndi gera, en í mínum eyrum og allra þeirra sem kunna eitthvað í íslensku er framburður hans á nafninu mínu slíkur að mig langar mest til að löðrunga hann í hvert skipti!!!
Hann kallar mig "Pagg"!!!
Honum finnst sumsé "L-in" tvö í enda nafnsins hljóma eins og tvö "G"!!! Ég veit ekki hvað ég er oft búinn að segja honum að kalla mig bara Paul. En nei, nei ... því er ekki viðkomandi!!
Nóg af þessu!!
Af öðrum fréttum þessa dags er það helst að við þrenningin fórum í mikinn barnavagnaleiðangur, sem tók nú bara lungann úr deginum. Fórum í Toys R Us í Moore Park og í aðra búð sem heitir Baby Things, sem er í húsi nr. 145a við Anzac Parade. Í þeirri síðarnefndu keyptum við þennan líka forláta vagn ... ég man ekki hvað hann heitir í augnablikinu!! En við foreldranefnurnar voru bara býsna ánægð með kaupin!
... og ég þarf sjálfsagt ekki að nefna það að mér fannst rosalega gaman að skoða þessa barnavagna, ... og líkt og venjulega kom þessi áhugi mér algjörlega í opna skjöldu!! Annars er ég aðeins farinn að venjast því að vera svona ólíkur sjálfum mér ... !!!
Verð ég ekki að henda inn nokkrum myndum svona upp á fjörið?!?
Það var smá baðstand í gær ... hér er verið að þvo kollinn, eins og glögglega sést!!
Það er hin fagra móðir dóttur minnar á leiðinni í barnavagnabúðina
Ég er þarna með angann litla í pokanum góða sem við keyptum um daginn, og hún sefur alveg eins og grjót þegar hún liggur í þessum útbúnaði!
Nærmynd af Sydney ... meiningin var að ná mynd af frábærri handauppstillingu, en hún þurfti endilega breyta henni hálfri sekúndu áður en smellt var af ... þetta er því afraksturinn!!
Lauga með vagninn góða rétt fyrir utan búðina, sem hann var keyptur í.
Í dag náði skammdegið hámarki, því hér í Ástralíu var stysti dagur ársins í dag ... hér er því hávetur en veðrið skartaði þó sínu fegursta!! Nánast heiðskírt, hitinn eitthvað í kringum 16°C og svolítil gola.
Þessi mynd var tekin helst til að sýna hversu "stór" afkomandinn er ... kókflaskan hefur það hlutverk að gefa stærðarhlutföll til kynna.
Skal einhvern undra að stúlkan sé kölluð Sydney Houdini??? Ég var búinn að pakka henni svo rækilega inn í teppið nokkrum mínútum áður, að ég er viss um að sjálfur Harry Houdini hefði ekki getað losað sig ... en viti menn!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.6.2008 | 15:09
19. júní 2008
Jæja, þá er allt dottið í dúnalogn hér í Bourke Street ... mæðgurnar báðar nýsofnaðar!! Og það er eitthvað svo hrikalega notalegt að horfa á þær sofa með ábreiðurnar breiddar upp undir höku ... svo nudda þær höfðinu einhvern veginn við koddann, umla og smjatta af vellíðan, ... báðar tvær!! Sú yngri þó heldur meira en sú eldri!
Núna er ég eiginlega kominn á þann punkt í þessu föðurhlutverki, að ég man varla lengur hvernig lífið var áður en stelpuanginn fæddist. Það er alveg ótrúlega mögnuð tilfinning eftir að hafa verið faðir í ... tja ... 12 daga eða svo! Þessu hefði ég aldrei trúað upp á mig ... þó ég hefði svo sannarlega vonað það þetta yrði raunin!
Besta barn í heimi dafnar líka alveg rosalega vel ... mér finnst ég sjá mun á hverjum degi, og í dag, held ég að mér hafi næstum því tekist að fá hana til að brosa, í fyrsta skipti. En þess má geta að bros hafa ekki verið mörg hingað til, og hafa þau fyrst og fremst verið í tengslum við einhverja ólgu í maga þeirrar stuttu ... þá meira sem hluti af hreint ótrúlegu samsafni að alls kyns andlitsgeiflum.
Annars hefur þessi dagur liðið alveg svakalega hratt ... meiningin hjá mér var að drífa mig niður í skóla strax í morgun, en það var ekki hægt vegna anna við að þvo þvott. Já, góðir hálsar, ég hef verið iðinn, og meira að segja lúsiðinn í morgun, að handþvo og sjóða í potti á eldavélinni, allar helstu tuskur, klúta, ábreiður, lök og fleira sem til fellur af blessuðu barninu. Í morgun sauð ég til dæmis fjóra potta, sem er met!! Allt svo hengt út á snúru til þerris!!
Þessa suðuaðferð lærði ég af henni blessaðri ömmu minni, sem hér á árum áður, átti það til að smella nokkrum velvöldum tuskum í pott og sjóða drykklanga stund. Sparar aðferðin okkur háar peningaupphæðir, en þess má geta að um 230 kr. kostar fyrir okkur að setja í eina þvottavél.
Eftir þvottinn, fór ég svo niður á Þjóðskrá og fékk vottorð frá ástralska ríkinu um að barnið væri til ... verður vottorðið sent á morgun heim til Íslands og þar með ætti hin íslenska Sydney að komast blað.
Annars erum við búin að gefa stúlkunni nafn, en svona til að halda spennunni aðeins lengur, það er að segja fyrir þá sem eru yfirhöfuð eitthvað spenntir fyrir að vita nafnið, þá hef ég ákveðið að gefa það út hér á síðunni á morgun!
Að þessu öllu saman yfirstöðnu, hélt ég sem leið lá niður í skóla og vann þar allt til klukkan 7.30 í kvöld, hélt þá heim á leið og hitti þar dömurnar tvær ...
Í gær fékk ég þau skilaboð að nánustu ættingjar vildu fleiri myndir af títlunni litlu, ... helst ættu að birtast nýjar myndir daglega! Veit ekki hvort ég lofa því nú alveg ... hér eru þó fáeinar myndir til að sefa sárasta sultinn!!
Þetta er uppáhaldssvipur, þetta er svona gáfnasvipur ... augnabrúnum er lyft á sama tíma og munnurinn er hringaður og gerður svo lítill að hann sést varla. Engu líkara er en litla stýrið sé á barmi þess að afsanna afstæðiskenningu Einsteins ... það hefur þó ekki gerst ennþá!!
"Skipað gæti ég, væri mér hlýtt", sagði föðurafi þessarar ungu hnátu oft á tíðum við föður hennar þegar hinn síðarnefndi var barnungur að gefa fyrirskipanir hingað og þangað
... þessi tilvitnun gæti einnig átt við hér, þar sem litla skottið liggur afvelta á "skiptiborðinu" en hikar ekki við að gefa skipanir og bendingar í allar áttir.
Skyldi börnum finnast þessi látalæti skemmtileg?? Ég er sannfærður um að þarna fékk ég einkadótturina næstum því til að brosa. Hvort það er hinn raunverulegi sannleikur er allt annað mál!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.6.2008 | 14:16
18. júní 2008
Þetta hefur nú verið meiri hjólreiðardagurinn í dag ... kl. 23.00 að áströlskum tíma, taldist mér til að ég hefði lagt að baki um 40 km leið á hjólinu í dag. Hér er ekki verið að tala um eitthvert sléttlendi heldur yfir hóla og hæðir, og ofan í dali og lægðir. Já, það getur tekið á að hjóla hér í Sydney ... sem er gott ... það er góður liður í þjálfun minni fyrir Sydney-maraþonið sem verður 21. september nk.
Á fótboltaæfingunni í dag, hitti ég gamla fótboltakempu, Dennis Yaager. Ég geri nú ekki ráð fyrir að nokkur Íslendingur þekki til hans, en það breytir því ekki að hann er sannkölluð kempa. Hann lék til dæmis með Everton á Englandi á 7. áratug síðustu aldar, auk þess sem hann var liðsmaður bæði South Sydney Croatia og Sydney Hakoah, sem bæði voru sterk lið hér í Ástralíu á árum áður. Þar að auki á hann nokkra leiki með ástralska landsliðinu í upphafi 8. áratugarins. Þannig að, eins og ég hef sagt áður, ... hér verið að sannkallaða hetju!!
Maðurinn var eins og vænta mátti hafsjór af fróðleik um fótbolta og helvíti magnaður, og kom með mjög góða punkta fyrir liðið ... meira segja svo góða að aðalþjálfari liðsins var farinn að ókyrrast nokkuð, jafnvel óttast um stöðu sína innan liðsins. Ég tók hins vegar Yaager opnum örmum svo að segja ... lærði alveg rosalega margt í dag um fótboltaþjálfun!!
Af öðru hlutum er það að frétta að ég er aðeins farinn að mæta aftur niður í skóla ... til að reyna að fikra verkefninu mínu áfram. Það gengur bara ágætlega.
Átti til að mynda gott samtal við Terry aðstoðarleiðbeinanda minn í dag ... alltaf gaman að tala við hann ... og honum finnst greinilega líka áhugavert að tala við mig því þegar ég kvaddi hann í dag sagði "Thank you, it is always interesting to talk to you" ... þar hafið þið það lesendur góðir!!!
Svo gæti verið að einhverjir hefðu áhuga á fréttum af þeim mæðgum, Laugu og Sydney ... þær eru báðar í banastuði!!
Í dag skruppum við öll þrjú niður í bæ að versla baðkar handa telpukindinni ... hún fékk ekki að velja sjálf ... enda var hún sofandi frá því við lögðum af stað og þar til við komum aftur heim. Barnið naut sín greinilega vel í umferðarniðnum ... í raun var alveg ótrúlegt hvað hún svaf!!
Annars er með hreinum ólíkindum hvað þessi litla manneskja er þæg ... hún er alveg megaþæg, og það er bara ekkert vesen enn sem komið er. Hún vaknar bara, fær sér í gogginn, og sofnar svo yfirleitt mjög fljótlega aftur!! Það eru samt allir að vara okkur við ... "bíðið þíð bara ... "
Svo er reyndar mjög gaman að því að hlusta á hljóðin sem barnunginn er farinn að gefa frá sér, alls kyns ískurhljóð, stunur, jarm og fleira, allt alveg ótrúlega fyndið. Sama má segja um svipbrigðin sem maddaman sýnir, þau eru hreint út sagt stórkostleg, geiflur af besta "kaliberi"!
Vegna mjög einlægra óska um frekari myndbirtingar af einkadótturinni, eru hér fyrir neðan nokkrar myndir ...
Læt þetta duga í bili og munið ... spakmæli dagsins, sem er komið frá athafnamanninum Charles J. Givens (1942-1998), sem gjarnan var kallaður "The 100 Million Dollar Man" er eftirfarandi ...
"Að gera meira af því sem er ekki að ganga, fær hlutina ekki til að ganga betur!"
Þannig að ef þú ert það hjakka í sömu sporunum, daginn út og inn og finnst ekkert ganga, pældu þá í þessu spakmæli!
Þarna er nú Íslendingurinn að vakna að morgni 17. júní, umvafinn bleiku og gulu teppi. Ennfremur hanga yfir hausamótunum fjórar kynjaverur, sem saman mynda geysilega tilkomumikill óróa, sem hangir í spiladós og getur snúist í hringi ef svo ber undir. Þetta mikla "furðuverk" var gjöf frá hinum þremur vitru frændum Sydneyjar, þeim James, Rich og Jon og hefur algjörlega slegið í gegn!!
Um miðjan daginn ákvað daman svo að halda ræðu og var þessi mynd tekin í miðjum ræðuhöldunum.
Og svo þegar 17. júní hátíðarhöldin voru yfirstaðin, var meira og minna allt komið á hvolf, eins og sést á þessari mynd.
Fyrsta almennilega útiveran hjá sumum var síðan í dag, 18. júní 2008!! Á myndinni sést þegar lagt var af stað í langferð, og svokallaður Baby Sling notaður til að halda utan um yngsta ferðalanginn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2008 | 14:17
Heimasíðugerð ... úff ...
Í dag hef ég heldur betur fetað inn í frumskóginn ... já, svo sannarlega!!
Ég hef í nokkuð langan tíma, gengið með þá hugmynd að setja upp eigin vefsíðu. Svona vefsíðu sem er faglegs eðlis ... síðu þar sem fólk getur lesið sig til um umhverfissálfræði og jafnvel tekið þátt í ofurlitlum rannsóknum, eða athugunum. Já, það er ýmislegt sem ég er með á prjónunum í þeim efnum.
Og í dag hófst ég handa við að búa til heimasíðu ... og guð minn almáttugur ... þetta er nú ekki það auðveldasta sem ég hef komist í!!! Fyrir það fyrsta er færni mín á tölvur mjög takmörkuð, áhugi minn á tölvum minni en færnin og síðast en ekki síst, er þolinmæði mín þegar ég fæst við tölvur neðan við frostmark!!
Og til að bæta gráu ofan á svart, er þessi andskotans internet-tenging hér hjá okkur hægari en allt hægt!!! Klukkan 20:30 í kvöld var ég orðinn brjálaður!! Ég gleymdi mér meira að segja einu sinni og barði í skrifborðið en gætti þess ekki að hin háæruverðuga Sydney Houdini, svaf vært skammt frá. Þess má geta að hún kippti sér lítið upp við barsmíðarnar ... en móðir hennar brást ókvæða við!!
Það verður að segja eins og er að afrakstur dagsins er hörmulegur ... það má sjá hann með því að smella á eftirfarandi tengil www.palllindal.com ...
Augljóslega þarf ég eitthvað að líta betur á þetta ... en ef einhver kann eitthvað á heimasíðugerð, þá væri aðstoð vel þegin!
Af afkomandanum er allt gott að frétta, það hefur verið mikið um undankomur og töfrabrögð i dag ... en núna undir kvöld setti maddaman sig, algjörlega óaðvitandi, í slíkar stellingar að ekki var undan því komist að grípa myndavélina og hleypa af ...
Hvað getur maður sagt um þetta?? Barnið er rétt 8 daga gamalt og minnir mig helst á Kleopötru Egyptalandsdrottningu, eins og hún kemur fyrir í bókinni Ástríkur og Kleópatra, eftir þá Goscinny og Uderzo.
Já, og þetta ... ?!?
Og hérna stilla mæðgurnar sér upp fyrir myndatöku ... ekki amalegt myndefnið hér!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.6.2008 | 13:48
Houdini er endurborinn
Á fyrri hluta síðustu aldar var uppi maður kallaður Harry Houdini.
Það sem hann vann sér helst til frægðar, voru galdrar og undankomur, þannig að einu virtist skipta hvort búið var illa eða vel um hnútana, alltaf sá kappinn lausn á málinu. Eitt af atriðum sem Houdini hafði gaman af því að sýna fólki, var á þá leið að hann lét hífa sig upp á fótunum með krana, tjóðraður í spennitreyju sem hefði haldið mesta geðsjúklingi heimsins í heljargreipum. Tveimur mínútum og þrjátíu sekúndum eftir að kraninn hóf Houdini á loft, var hann búinn að losa sig úr viðjunum og veifaði til fólksins ... hin "ósigrandi" spenniteyja átti með öðrum orðum ekki roð í meistarann ...
Houdini lést svo nokkuð sviplega úr lífhimnubólgu árið 1926, en hún orsakaðist af sprungnum botnlanga sem hann hirti ekki um að láta lækna meðhöndla, meðan ráðrúm gafst ...
En aðdáendur Houdinis ættu ekki að þurfa að örvænta lengur ... því hún er stundum kölluð Sydney Houdini ... og þrátt fyrir ungan aldur, hefur hún sýnt betri tilþrif en sjálfur Houdini gerði á svipuðum aldri ...
Atriði hennar um þessar mundir beinist aðallega að því að losa sig úr teppavafningum. Atriðið hefst með þeim hætti að hin nýborna Sydney Houdini er vafin allrækilega inn í teppi og báðar hendur eru látnar liggja niður með síðum. Skeiðklukka er svo sett af stað og viti menn, á undraskömmum tíma tekst Houdini að losa báðar hendur og mjög fljótlega eru fætur einnig lausir!!
Kíkjum á myndir af þessum sjónhverfingum ...
Svona byrjar þetta ...
og stuttu síðar gerist þetta ...
Takið eftir gleðisvipnum í andlitinu, í sama vetfangi og losnar um hendurnar!!
Töluvert var um heimsóknir hjá okkur í dag ... sem var náttúrulega alveg frábært.
Rosa vinkona okkar bauðst til að fara í búðir fyrir okkur, og kaupa samfellur á Houdini og eitthvað sem kallast "baby sling", sem er einhvers konar poki sem hægt setja undankomumeistarann í þegar þarf að fara milli húsa ...
Þetta var alveg æðislegt hjá henni Rosu, ... hún er meiriháttar!!!
Crighton og Katy komu líka og stoppuðu lengi. Þau voru með gjöf meðferðis og einnig kort sem innihélt ljóð sem þau höfðu samið og er eftirfarandi:
Pall + Layla from Iceland had a new baby girl!
A beautiful Aussie; a sweet little pearl.
With the nose of her mum,
and the eyes of her dad.
She made everyone feel
happy + glad!
Ekki amalegur kveðskapur þetta!! :)
Nokkrar myndir af gestunum!!
Katy, hin þýska, var geysilega hrifin af Houdini, jafnvel þótt hin síðarnefnda hefði ekki verið upp á sitt allra besta
Crighton frændi kominn með Houdini í hendurnar og fílar það bara vel. Hann lagði talsvert á sig að reyna koma barninu í skilning um að það væri Ástrali en ekki Íslendingur!!
Já, það er gaman að vera lítill og fá svo mikla athygli að hálfa væri nóg!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)