Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Svona gengur þetta nú fyrir sig ...

Nú um stundir er ástandið einhvern veginn á þessa leið.  Barnunginn sefur svefni hinna réttlátu, sæll, mettur og glaður með aðra hönd undir kinn, móðirin er í heitri sturtu, gjörsamlega búin á því andlega og líkamlega og faðirinn er einhvers staðar þarna á milli.

Þetta eru búnir að vera merkilegir dagar síðan ég bloggaði síðast ...

... á miðvikudaginn komu þær mæðgur heim af sjúkrahúsinu.  Það sem helst bar til tíðinda í þeirri ferð var að hin sallarólega spúsa mín sýndi indverskum leigubílstjóra heldur betur klærnar, þegar hann var að segja henni að setja barnið í barnastólinn í leigubílnum.  Mislíkaði henni talsmáti bílstjórans svo, að hún klauf hann í herðar niður með orðunum einum.

Þegar heim var komið blasti alvaran við, eða minnsta kosti hinn ískaldi raunveruleiki.  Nú var búið að fjarlægja bómullina ... engar hjúkkur, ljósmæður eða læknar til að grípa inn í ...
... ég verð að viðurkenna að ég var fremur andstuttur af streitu, þegar við komum heim ... mér fannst röðin vera komin að mér að standa mig í stykkinu.

Hin tæplega hálfa metra langa hnáta var mjög fljótlega eftir heimkomuna, háttuð niður í rúm og látin sofa úr sér ferðaþreytuna.  En á meðan reyndi ég að ná einhverjum áttum.  Lauga var saliróleg yfir þessu öllu.

Fyrsta nóttin var fremur tíðindalaus nema hvað maddama Sydney þurfti tvisvar á aðstoð að halda ... það mátti nú ekki minna vera!!

Gærdagurinn leið við svo mikil rólegheit að ég hef sjaldan orðið vitni að öðru eins.  Sjálfur var ég alveg eins og tuska ... gat ekki einbeitt mér að neinu og hélst þar af leiðandi ekki við nokkurn skapaðan hlut.  Allan daginn stóð til að fara út að hlaupa og hreyfa á sér spikið, en klukkan 22.30 hætti ég að hugsa um það.  Mæðgurnar léku hins vegar við hvurn sinn fingur, ýmist sofandi eða vakandi.  Ekki slæmt það!!

Önnur nóttin var ívið meira krefjandi en sú fyrsta, því einkaerfinginn vildi fá bæði meiri og betri þjónustu, en áður.  Vaknaði fjórum sinnum og lét heldur ófriðlega á köflum.  Móðirin hafði hins vegar ráð undir rifi hverju og gat öllu svarað með snjöllum mótspilum.  En slík varnarbarátta kostaði þó þrek og í dag hefur aðkomandinn sótt stíft og móðirin varist fimlega. 
Niðurstaðan nú er eins og lýst var í upphafi ... sæll, mettur og glaður barnungi en gjörsamlega uppgefin móðir.
Faðirinn er svo einhvers staðar þarna á milli ... sýður tuskur, þvær þvott, fer út í búð og eldar, sinnir litla stýrinu við og við og passar að allt gangi svona nokkurn veginn snurðulaust fyrir sig.

Best að hætta þessu blessaða röfli ... hér eru nokkrar myndir ...


Spúsan og fröken Sydney komnar heim heilu á höldnu


Telpan komin undir sæng og teppi stuttu eftir heimkomuna


Maður man sem betur fer ekki frá þeim tíma, sem maður sjálfur var í þessari mjög svo afleiddu stöðu.  Nýbúið að kasta upp og höfuðið fast í einhverju sem helst mætti líkja við glussatjakk.


Þessi undirhaka á mér er algjör skandall!!!  Ég skil þetta bara ekki!!!  Maður hjólar að lágmarki 70 - 80 km í hverri viku og svo er þetta niðurstaðan!!


Hér eru sumir alveg svakalega hressir!!


Jon, sem er einn af hinum þremur vitru frændum, mætti í heimsókn ásamt þeim hinum tveimur vitru frændunum, þeim James og Rich


Svo mættu Rosa og Nick og kíktu á Sydney ... það fer nú bara vel á með þeim frænkunum!!


Enn meira tal um föðurhlutverkið

Hlutirnir í hausnum á mér halda áfram að taka á sig vægast sagt undarlegar myndir ...

Sko ... fyrir viku hefði ég aldrei trúað því að ég ætti eftir að hafa gaman af því að góna á smábarn.  Mér hafa yfirleitt leiðst 0 ára smábörn, en undanskil þar litlu frændur mína Nikkson og Steinusyni, sem hafa náð innfyrir hjá mér.  En svona almennt séð, þá hef ég bara ekki verið svona smábarnakarl, svona "gúllígúllí"-karl.  Ég hef meira gefið mig út fyrir að vera raunverulegt karlmenni með haka og skóflu í hönd, frekar en einhver mjúkur metrógaur!!!  En í sannleika sagt held ég að bakvið grímuna hafi bara verið feiminn náungi, sem var hræddur við börn ...
Það er kannski ekkert normalt að vera feiminn, hvað þá hræddur við lítil börn sem vita ekki einu sinni hvað þau heita ... en svona er eða öllu heldur var þetta bara.

Í kvöld baðaði ég smábarn í fyrsta skipti ... og viti menn, ... það var alveg meiriháttar upplifun!!  Alveg ótrúleg!!  Að sjá hvað unganum þótti gott að fara í bað var með hreinum ólíkindum, ég segi það bara!  Mig langaði bara til að baða einkadótturina í alla nótt og hefði örugglega gert það ef hjúkkan hefði ekki hnippt í mig.  Aldrei nokkurn tímann hefði ég trúað þessu upp á mig ... ég er að tala um Pál Jakob Líndal!!  Þetta er algjört rugl!!

Og svo til að kóróna allt saman, þá finnst mér rosalega gaman að skipta á barninu.  Ef mér hefði verið sagt það fyrir viku að það yrði staðreyndin, hefði ég gengið í höfnina.  Hvernig í veröldinni getur maður sem á af einhverju undarlegum ástæðum, erfitt með að kaupa klósettpappír úti í búð haft gaman að því að skipta á gegnsósa bleyjum?!? 
Æi, kannski er ég bara að blanda saman algjörlega óskyldum hlutum ... en þetta er alltént afskaplega undarlegt!

Fyrir fæðingu afkomandans og raunar í nokkra klukkutíma eftir hana, var ég hreinlega ekki viss um að barnið myndi snerta eina einustu taug í mér.  Satt best að segja hafði ég dálitlar áhyggjur af því.  Fannst það einhvern veginn ekki sanngjart hlutskipti að sitja uppi með barn sem manni væri alveg sama um ... þannig lagað, og maður myndi bara sinna því að skyldurækni, frekar en áhuga.  Það þarf nú ekkert að ræða um hvort það væri gott fyrir blessað barnið, að eiga áhugalausan föður ... slíkt hefur aldrei talist sérlega heillavænlegt fyrir börn!

Dóri vinur minn, sagði að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu, föðurtilfinningin myndi blossa upp, eins og olíu væri hellt á eld.  Samt var ég ekki viss um hvort ég ætti að taka mark á honum ... mér fannst ekki óhugsandi að ég væri undantekningin sem sannaði regluna!?!
Núna á fjórða degi hef ég endanlega sannfærst og er óendanlega sannfærður um að ... Dóri sagði satt!!!  Blessaður karlinn!!

Ég hef tekið hlutverk mitt sérlega alvarlega ... í gær söng ég íslenska þjóðsönginn yfir dótturina.  Mér fannst það við hæfi að það væri fyrsta lagið sem sungið væri fyrir hana utan legs.  Þjóðsöngnum var svo fylgt eftir með The International Rock and Roll Anthem "Rock and Roll all Nite", eftir þá félaga Simmons og Stanley.  Í dag las ég fyrir hana í fyrsta skipti og varð Nóbelskáldið fyrir valinu ... Brekkukotsannáll 7. kapítuli ... ekki dónalegt það!

Hér eru nokkrar myndir ...


Móðirin, blómvöndurinn, bleiki bangsinn og barnið


Karin, hollenska vinkona okkar, leit við hjá okkur og kynntist Sydney ágætlega.  Þetta var kveðjuheimsókn Karinar, sem hélt áleiðis til heim til Hollands í dag ... hennar verður sárt saknað


Baðferðin ógurlega ... þarna sjá traustar hendur hjúkrunarfræðingsins, sem ég man ekki hvað heitir, til þess að allt fari eftir settum reglum


Hér aftur á móti, reyna fremur ótraustar hendur að fylgja settum reglum


Þetta er svo niðurstaðan ... búið að baða!!!


Sydney í Sydney

Hún var óneitanlega skrýtin tilfinningin sem var innra með mér þegar ég vaknaði í morgun ... það er náttúrulega ekki á hverjum morgni sem maður vaknar upp í fyrsta skipti sem faðir. 
Ef mér reiknast rétt til þá gerist það bara einu sinni í þessu jarðlífi, þannig að ... já, ... það er öðruvísi ... svo mikið er víst ...

Það var einhver svona spenna sem samt var ekki spenna, en var samt spenna ... ekki var það kitl, ekki óþægindi, myndi samt ekki kalla það vellíðan, en samt einhvers konar vellíðan ...

Allavegana, eins og nefnt var hér að ofan, var tilfinningin skrýtin ...

Mér tókst að klúðra málunum af miklu öryggi í morgun, því ég svaf yfir mig! Ég sem er vanur að vakna klukkan 7 á morgnanna, svaf eins og hrútur til klukkan 10 ... og missti því að heimsóknartímanum milli kl. 9 - 11.  Klukkan 11 er feðrum nefnilega hent út af deildinni!!  Og ástæða þess er að milli kl. 11 - 14 þurfa móðir og barn að hvílast!!!  
Ég held að það sé kominn tími til að líta eitthvað aðeins yfir þessar reglur aftur ... og uppfæra þær til samræmis því að um þessar mundir er árið 2008 en ekki 1908 eða 1808!!

Og þar sem ég brenndi af og gerði í brækurnar svona strax í upphafi ferils míns sem föður, þá var meiningin að vera mættur við sjúkrahúsdyrnar kl. 14, þegar yfirvöldin myndu veita ólátabelgjunum aftur inngöngu í himnaríki.
Aftur tókst mér að klúðra málunum ... mætti alltof seint!  Það skýrist af því að ég var hálfnaður niður á sjúkrahús þegar ég áttaði mig á því að ég hafði gleymt um það bil helmingnum af því sem ég hafði ætlað að taka með mér.  Ég sneri því við og náði í það sem gleymdist.

Lauga var algjörlega uppgefin þegar ég loksins mætti.  Hinn háæruverðugi afkomandi hafði þó látið nokkuð prúðmannlega allt frá því að ég hafði yfirgefið samkvæmið kvöldið áður.  Hinsvegar hafði hóstakjöltur verið töluvert, ásamt slímlosun og uppsölum.  Allt þetta hafði svo sannarlega haldið móðurinni við efnið.  Maður sefur kannski ekkert rosalega vel eða mikið þegar höfuð erfingjans blánar upp með reglulegu millibili, vegna þess að það er slím í lungunum sem vill ekki fara upp!

Þessar miklu lýsingar voru nú ekki beint til að stútfylla mig af öryggi og ánægju með frammistöðu mína eða öllu heldur frammistöðuleysi þennan morguninn!! Hvað hafði ég eiginlega verið að spá??!?!

Jæja, ... en í framhaldinu ég tók hlutverk mitt mjög alvarlega, skipaði Laugu að fara að sofa og skipaði Sydney að hætta að hósta og æla og fara að sofa.  Ég var nefnilega minnugur föðurlegra ráða sem Jón Þór stórfrændi, sendi mér í gær í formi smáskilaboða, en þar stóð að ég skyldi muna að það er karlmaðurinn sem ræður og ekkert múður!!
Svo kom ég mér vel fyrir í stólnum og datt alveg ofan í Halldór Laxness ... Brekkukotsannál ... stórkostlega bók ... á milli þess sem ég skaut augunum yfir á hinn tæplega hálfa metra langa afkomanda!!  Sem minnir mig á það að ég fór ranglega með tölur á blogginu í gærkveldi, því barnunginn var 45,5 cm þegar hann kom í heiminn en ekki 44,5 cm.  Sannarlega glapparskot þarna hjá mér ... það er nú ekki eins og blessað barnið sé svo stórt, að það megi við að draga af því heilan sentimetra ...

Upp úr klukkan 17 vöknuðu mæðgurnar svo aftur ... sú eldri á undan þeirri yngri ...

... og kl. 18.30 mættu fyrstu gestirnir í heimsókn, en það var aðalleiðbeinandi minn Gary Moore og Meloni kona hans.  Meðferðis var stór blómvöndur og bangsi.  Þau voru hjá okkur í nokkra stund ...

Klukkan 20 var mér svo skipað út af deildinni aftur ... sennilega því móðir og barn þurftu að fara að hvíla sig, eftir allan sirkusinn sem hafði fylgt mér!!

Tilfinningin í lok dags var allt önnur en sú sem var í morgun ... ég er kominn á þá skoðun, í fyrsta skipti á ævi minni að það sé gaman að eiga barn.  Fram að þessu hef ég stórlega efast um það!  Meira talið að fólk segði þetta bara, því það hefði engra annarra kosta völ!!  Það þýðir nú lítið að eiga barn og finnast bara ömurlega leiðinlegt að eiga barn ...

... en eftir daginn í dag, hef ég áttað mig á því að þetta er ekki bara eitthvert blaður út í loftið ... það er alveg stórmerkilegt að eiga barn!! 

Jæja, ... það er komið nóg af bulli ... hér eru nokkrar myndir, til að fóðra hungraða ættingja og vini ...


Þarna er allt svo sannarlega með kyrrum kjörum og allir lúta heraga!!


Drengurinn í næsta herbergi gólaði eins og óður, og hvað gerði Sydney?  Já, aðeins tæplega sólarhringsgömul hafði hún vit á því að leggja höndina fyrir eyrað ... geri aðrir betur!!!

IMG_6197
Ég er bara velta því fyrir mér hvort það gangi hreinlega í erfðir að sofa með hendurnar í þessari stöðu?!?!


Gary og Meloni dást að hinum nýborna Íslendingi


Sydney er mætt!!!

Þá er búið að henda manni út af sjúkrahúsinu í kvöld ...

... og hvað gerir maður ekki þá, annað en að fara heim og skrifa bloggfærslu um það sem hefur gerst í dag.
Það er óhætt að segja að dagurinn í dag hafi verið stór dagur ...  eiginlega markar þessi dagur 7. júní 2008 þáttaskil í mínu lífi, svo um munar. 
Þeir verða eiginlega ekki mikið stærri dagarnir, en ég skal fyllilega viðurkenna að ég er eiginlega ekki búinn að ná atburðum dagsins ... þeir munu vætla inn á næstu dögum ...

Hún er kölluð Sydney, og fæddist í dag kl. 17:50 að staðartíma, eða klukkan 7:50 að íslenskum tíma.  Hún fæddist á 65. afmælisdegi afa síns á Sauðárkróki ... sem er alveg frábært!!!  Hún er lítil, ekki nema 10,5 merkur og 44,5 cm.  Ekki stærsta barn í heimi, en örugglega það besta í heimi. 

Mamma kváði þegar ég sagði að kölluðum barnið Sydney ... "Ekki ætlið þig að láta barnið heita Sydney?!?!?"
Nei, nei, við ætlum ekki að láta barnið heita Sydney, hins vegar verður það kallað Sydney af fólki sem mun ekki geta borið hið eiginlega nafn rétt fram, sem er um það bil allt fólk sem getur ekki talað íslensku.
Barnið mun fá rammíslenskt nafn ... því verður lofað ...

Ég læt það vera að lýsa deginum í einhverjum smáatriðum, ég mun láta Laugu um það ... hún vann verkið!
Ég stóð bara og lét kreista á mér höndina með vissu millibili og bauð upp á vatn að drekka.

Ég ætla hins vegar að frumsýna hina margrómuðu Sydney ...
Því miður fórst mér myndatakan ömurlega úr hendi að þessu sinni ... en það verður ekkert gert í því héðan af ...


Fyrsta myndin sem tekin er af Sydney ... eftir aðeins 2 mínútur


Þarna er nú Lauga eftir að allt húllumhæið var um garð gengið ...


Vigtun fer fram ...


Ljósmóðirin Emily fer höndum um Sydney


Ég þykist vita að einhverjir ættingjar mínir hafi beðið lengi eftir þessari mynd ...

Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem sendu okkur skilaboð eða hringdu í okkur, kærlega fyrir ... stuðningur ykkar er ómetanlegur!!!!

 


Sitt lítið af hverju

Í dag hefur rignt mikið ... ójá, eftir að hafa fært íbúum Sydney þurrasta maímánuð í manna minnum, hófust veðurguðirnir strax handa þann 1. júní síðastliðinn við að vökva ... og það sem af er mánuðinum hefur ekki stytt upp og það er ekkert útlit fyrir að það muni gera það á næstunni.

En það er gott fyrir gróðurinn, og það er gott fyrir vatnsbúskapinn hér í borginni að droparnir hrynji ofan af himnunum.  Ég er satt að segja bara hæst ánægður með það.  Það eina sem þessi bleyta kallar á, er að ég taki mig til og fjárfesti í brettum á hjólhestinn minn.  Það er nefnilega lítið grín í því að láta dekkin á hjólinu ausa yfir sig regnvatninu af götunum.  Maður rennblotnar á auga lifandi bragði bæði að framanverðu og aftanverðu.
Þegar brettin verða komin á, verður bara gaman að hjóla í rigningunni ... tæplega 20°C hiti, logn og rigning ... það er bara ekkert að því!!

Fyrsta rannsóknin mín er að komast á koppinn ... það er alveg rosalega spennandi.  Loksins fara hugmyndirnar sem ég hef verið að ganga með í maganum, að verða að veruleika.  Ég er að búa til sýndarveruleika þessa dagana, auk þess sem ég er að viða að mér upplýsingum um "information rate" og "complexity".  Þetta verður flott hjá mér ... ég er viss um það! 
Þegar þessari rannsókn lýkur, tekur svo við önnur og svo enn önnur.  Það er á stefnuskránni hjá mér að ljúka við að minnsta kosti þrjár rannsóknir á þessu ári.  Markmiðin hjá mér hljóða að minnsta kosti upp á það eins og er ...

... og "if you talk the talk, you got to walk the walk" ...

Þetta er frasinn sem ég lifi eftir þessa dagana.  Mér finnst hann algjörlega frábær ... hann er svo ótrúlega réttur og uppörvandi.  Það er líka bara svo gaman að segja hann ... hann hljómar rosaleg kúl!  Prófaðu að segja þetta upphátt og ýktu svolítið "attitudið": "Hey man, if you talk the talk, you gotta walk the walk!!!"  Þetta svínvirkar!!

Mér finnst allt of margir vilja bara tala um hlutina en nenna eða þora svo ekki að gera neitt.  Sitja eða standa einhvers staðar úti í horni, gagnrýna, fordæma og kvarta, eins og þeir eigi lífið að leysa.  Séu þeir svo spurðir af hverju þeir gera ekkert í málunum, þá koma iðulega hræódýrar afsakanir og eitthvert bull, sem enginn heilvita maður nennir að hlusta á.
Dale Carnegie, sá ágæti maður, segir í bók sinni Vinsældir og áhrif: "Hvaða fífl sem er getur kvartað, gagnrýnt og fordæmt - og flest fífl gera það líka!  Það krefst hins vegar visku og stjórnstjórnar að geta skilið og fyrirgefið".

Boðskapur dagsins er því einfaldur ... "stattu við það sem þú segir, og í stað þess að fordæma, kvarta og gagnrýna, skaltu fyrirgefa og skilja".
Ég veit svo sem ekki hvort það sé heil brú í þessari færslu minni, en engu að síður, blasir tilveran í dag við mér með þessum hætti.


Helgin

Þá er þessi helgin yfirstaðin ... en hún var nú bara býsna fróðleg, skal ég segja ykkur ...

Hún byrjaði með leik gegn Stanmore á laugardagsmorguninn.  Undanfari þess leiks var heldur dramatískur hjá mér, því á leiðinni þangað sprakk enn einu sinni á hjólinu hjá mér!!  Og varð ég því að ganga um 4 km leið til að komast á áfangastað, sem er í sjálfu sér ekki mikið mál ef maður hefði haft nægan tíma milli handa.  Því var ekki til að dreifa í þetta skiptið.

Og til að bæta gráu ofan á svart, þá kom ég við á bensínstöð til að dæla í dekkið, bara til að sjá hvort ég gæti ekki nuddast eitthvað pínulítið áleiðis á reiðskjótanum, til að spara svolítinn tíma.  Sú ráðstöfun tókst nú ekki betur en það að þegar ég var hér um bil kominn á áfangastað, áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt kortabókinni á stöðinni.  Þá var um tvennt að ræða, að láta bókina um lönd og leið, taka "sjensinn" á því að villast og þurfa svo að splæsa í aðra kortabók eða fara til baka og ná í bókina.  Ég valdi síðari kostinn og þar bættust við 3 km.

Ég, með öðrum orðum, mætti á svæðið 25 mínútum fyrir leik ... og yfirþjálfarinn var ekkert sérlega hrifinn.

Leikurinn tapaðist 3 - 0.  Annar leikurinn í röð sem tapast 3 - 0 og liðið hefur aðeins fengið 4 sig úr síðustu 5 leikjum.

Greinilega er eitthvað mikið að ... og til að bregðast við því skrifaði ég þjálfaranum þriggja blaðsíðna skýrslu um hvað ég teldi að væri að og hvernig ég teldi að ætti að bregðast við því.  Ég fékk fjórar línur til baka þegar sem hann sagðist hafa aðra sýn á málið en ég ...

... það sem er svo undarlegt við þennan þjálfara er að hann telur alls ekki að liðið þurfi að spila fótbolta á æfingum!!  Hann telur líka algjörlegan óþarfa að æfa skot á mark og það hvernig á að klára upplögð marktækifæri.  Hornspyrnur og aukaspyrnur eru heldur aldrei æfðar!

Hann virðist aftur á móti hafa mikla trú á því að halda langa töflufundi þar sem allt er útskýrt í þaula ... hann vill bara að æfa liðið og allar "stragedíur" bóklega ...
Þessir löngu töflufundir bitna svo á þreki og úthaldi liðsins ... 40 mínútna töflufundur, auk 20 mínútna útskýringa úti á velli, á 2 klukkutíma æfingu, er ekki vænlegt til árangurs að mínu viti.

Ég er búinn að sprikla eins og fiskur í neti að reyna að benda honum að fótbolti gengur ekki svona fyrir sig, og þar sem hann ber alltaf fyrir sig að við séum að misskilja hvorn annan, þá var skýrslan á laugardaginn hugsuð til þess að hann vissi nákvæmlega um hvað ég er að tala.  Það er nefnilega ekkert grín að rökræða við innfædda á þeirra eigin tungumáli, sérstaklega þegar þeir vilja ekki skilja mann ...

Jæja, en nóg um þetta ...

Á laugardagskvöldið fórum við Lauga á prýðilega tónleika í St. Andrew´s Cathedral, sem er niður í bæ og hlustum þar á Sydney University Musical Society flytja Mozart Requiem og tvær óratoríur eftir Handel.  Þetta voru fyrstu tónleikarnir sem við förum á hérna í Sydney, þar sem klassísk tónlist er á boðstólnum.  Það var mjög gott að upplifa það aftur, maður hefur aðeins saknað þess, en miðar í óperuna hérna eru náttúrulega bara grín, slíkt er verðlagið!!
Þar er enginn nemendaafsláttur gefinn ef maður er erlendur nemandi ... hversu gáfulegt er það nú eiginlega??? Og engir hræódýrir miðar eru í boði, þar sem maður getur staðið einhvers staðar upp í rjáfri og fylgst með ... nei nei ...

Váá ... þetta er nú meira kvartið í mér!!! 

Í gær fórum við á World Press Photo Exhibition á State Library, og sáum helstu fréttaljósmyndir síðasta árs.  Mér fannst myndin af Benazir Bhutto nokkrum sekúndum áður en hún var myrt, vera ótrúlega sterk.  Hún veifandi til fólksins og allir í sjönunda himni, og svo bara "búmm" ...

Við fórum á kaffihús á eftir.

Um kvöldið hittum við Nick og Rósu.  Skruppum á Wood & Stone og fengum okkur pizzu, mjög gaman að því.  Þau voru fjallhress að handa.  Nick nýkominn frá því að horfa á leik Ástralíu og Íraks í fótbolta, sem Ástralir unnu 1 - 0.  Rósa var aftur á móti að koma úr atvinnuviðtali ...

Svona eru athafnir mannanna misjafnar!!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband