Mælingar og pakki

Það hefur talsvert gerst á þessum bæ, síðan síðast var bloggað á þessa síðu.  Auðvitað er hér átt við hluti sem snúa að litlu mannverunni, sem í dag hefur lokið sínum 18 degi í þessari dásamlegu veröld.  Já, sagan endalausa af skottinu heldur áfram, enda á það stóran hluta huga manns þessa dagana.

Hæst ber að nefna tvo hluti, annars vegar stóra pakkasendingu frá ömmunni og afanum á Sauðárkróki til handa barnabarninu og hins vegar læknisskoðun sem fór fram um miðjan dag á mánudaginn síðasta.

Og ég held að það sé við hæfi að byrja á læknisskoðuninni og gefa upp smá "statistik".  Til að hafa allt á hreinu þá rifja ég það upp að litli Íslendingurinn sem fæddist þann 7. júní sl. var við fæðingu 2630 grömm.  Hann var þremur dögum síðar vigtaður aftur og reyndist þá vera 2508 grömmu.

En það átti eftir að breytast því á mánudaginn síðasta eða þann 23. júní 2008, rúmum hálfum mánuði eftir fæðingu var þyngdin komin í 2910 g, eða sem samsvarar aukningu um 402 g.  Slík aukning telst mikil, enda gert ráð fyrir, samkvæmt upplýsingum fróðra manna, að börn þyngist um 300 - 400 g fyrstu tvær vikurnar.

Sydney hefur líka vaxið töluvert, og mældist á mánudaginn heilir 49 cm, þannig að mjög fljótlega styttist í að 50 cm markið verði rofið!!  Sem verður að sjálfsögðu mikill áfangi!  Það telst líka mjög gott að lengjast um 3,5 cm á 2 vikum.

Þannig að blessað barnið virðist bara hafa það gott, sem er vel!!

Þá er komið að sendingunni miklu sem kom í hús í gær.  Fullur kassi af alls kyns fötum og dálítið af góðgæti, súkkulaði og lakkrís!  Ekki skorið við nögl hjá ömmunni og afanum frekar en fyrri daginn.  Fataskúffa dömunnar er orðinn býsna þéttsetin, en samkvæmt öruggum heimildum eru fleiri sendingar á leiðinni.

Mér telst til að minnsta kosti þrjár sendingar einhvers staðar í háloftunum milli Íslands og Ástralíu ... já, það er gott að eiga góða að! 
Og vel á minnst ... eitthvað hef ég ritað um kaup á barnavagni, og myndasúpa af fyrstu ferðinni var birt á síðunni.  Hvergi var þess þó getið hver raunverulega keypti vagninn, en það var að sjálfsögðu afinn á Sauðárkróki, sá hinn sami og fröken Gudda deilir með afmælisdeginum!

Af öðrum fréttum er það helst að lífið gengur bara vel fyrir sig hér í Sydney ... annars er orðið framorðið núna og ég hreinlega nenni ekki að skrifa um það ... það mun koma síðar ...

Og að venju birti ég nokkrar myndir, sumu fólki til skemmtunar og yndisauka ...


Ein frá því í gær ...


Hér er Gunna í nýja kjólnum, sem var meðal þess sem leyndist í pakkanum.  Fyrsti kjóllinn kominn í hús ... og vafalaust ekki sá síðasti.  Okkur Laugu fannst ansi sérstakt að sjá hana í kjólnum, því hann náttúrulega undirstrikaði kynferði barnsins nokkuð augljóslega.  En fram að þessu hefur Rúna bara verið í samfestingum og samfellum, sem gefa lítið til kynna um hvort sá sem ber fötin sé karl- eða kvenkyns ... hún er bara barn, ígildi hvorugkyns!
Ég bara nefni þetta svona, því það var fyndið að nákvæmlega sömu tilfinningar skyldu vakna upp hjá okkur báðum.


Þarna er svo önnur mynd af Gurru í kjólnum!  Þess má geta að kjóllinn endaði fyrsta daginn í þvottinum, enda töluvert um uppsölur hjá þeirri ungu, seinnipart dagsins!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku fjölskylda,

Við mæðgur súpum barasta hveljur yfir fegurð frumburðarins og getum ekki hætt að brosa hér fyrir framan tölvuna!

Hlökkum alltaf til að lesa nýtt blogg :o)

Kærar kveðjur úr Mávahlíðinni

Anna og Ása

Anna Klara (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 21:08

2 identicon

Svakalega er Sydney sæt í kjólnum :)

Dagrún (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 23:20

3 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Takk, takk, takk ... !! :D

Páll Jakob Líndal, 26.6.2008 kl. 04:01

4 identicon

Dömuleg! :O) Og það er ekki skrítið að barnið drekki og drekki - eitthvað þarf af smíðaefni í 3,5cm og 402g!!

Huppukveðjur frá mér til mömmunnar og Skál! frá HB til Guddu

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 12:55

5 identicon

Halló elsku bestu Bobbi, Lauga og Guðrún Helga.

Innilega til hamingju með nafnið, það held ég að ömmurnar verði glaðar. Nú geta mamma þín og mamma mín líka rætt saman um nöfnurnar sem heita svo skemmtileag í höfuðið á þeim að viðbættu nafninu Helga. Guðrún Helga og Aðalbjörg Helga, haldiði að þær verði spenntar næst þegar þær hittast hihi.

Elsku Bobbi takk fyrir skemmtileg skrif, það er alveg ótrúlega gaman að lesa þetta hjá þér, keep up the good work.

Hlakka til að sjá ykkur-hvenær sem það nú verður- en þangað til get ég allavega fylgst með hér og skoðað myndir af ykkur fallega fjölskylda.

ástarkveðjur til ykkar allra, Iðunn.

Iðunn (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 17:59

6 identicon

Bitte nú myndi afi Sigfúsar Steingrímur segja við þetta tækifæri eða amman obb bobb bobb hvað maður er dætur í þessari múnderingu.

Sigrún Steingríms (IP-tala skráð) 29.6.2008 kl. 23:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband