18. júní 2008

Þetta hefur nú verið meiri hjólreiðardagurinn í dag ... kl. 23.00 að áströlskum tíma, taldist mér til að ég hefði lagt að baki um 40 km leið á hjólinu í dag.  Hér er ekki verið að tala um eitthvert sléttlendi heldur yfir hóla og hæðir, og ofan í dali og lægðir.  Já, það getur tekið á að hjóla hér í Sydney ... sem er gott ... það er góður liður í þjálfun minni fyrir Sydney-maraþonið sem verður 21. september nk.

Á fótboltaæfingunni í dag, hitti ég gamla fótboltakempu, Dennis Yaager.  Ég geri nú ekki ráð fyrir að nokkur Íslendingur þekki til hans, en það breytir því ekki að hann er sannkölluð kempa.  Hann lék til dæmis með Everton á Englandi á 7. áratug síðustu aldar, auk þess sem hann var liðsmaður bæði South Sydney Croatia og Sydney Hakoah, sem bæði voru sterk lið hér í Ástralíu á árum áður.  Þar að auki á hann nokkra leiki með ástralska landsliðinu í upphafi 8. áratugarins.  Þannig að, eins og ég hef sagt áður, ... hér verið að sannkallaða hetju!!
Maðurinn var eins og vænta mátti hafsjór af fróðleik um fótbolta og helvíti magnaður, og kom með mjög góða punkta fyrir liðið ... meira segja svo góða að aðalþjálfari liðsins var farinn að ókyrrast nokkuð, jafnvel óttast um stöðu sína innan liðsins.  Ég tók hins vegar Yaager opnum örmum svo að segja ... lærði alveg rosalega margt í dag um fótboltaþjálfun!!

Af öðru hlutum er það að frétta að ég er aðeins farinn að mæta aftur niður í skóla ... til að reyna að fikra verkefninu mínu áfram.  Það gengur bara ágætlega. 
Átti til að mynda gott samtal við Terry aðstoðarleiðbeinanda minn í dag ... alltaf gaman að tala við hann ... og honum finnst greinilega líka áhugavert að tala við mig því þegar ég kvaddi hann í dag sagði "Thank you, it is always interesting to talk to you" ... þar hafið þið það lesendur góðir!!!

Svo gæti verið að einhverjir hefðu áhuga á fréttum af þeim mæðgum, Laugu og Sydney ... þær eru báðar í banastuði!!
Í dag skruppum við öll þrjú niður í bæ að versla baðkar handa telpukindinni ... hún fékk ekki að velja sjálf ... enda var hún sofandi frá því við lögðum af stað og þar til við komum aftur heim.  Barnið naut sín greinilega vel í umferðarniðnum ... í raun var alveg ótrúlegt hvað hún svaf!!

Annars er með hreinum ólíkindum hvað þessi litla manneskja er þæg ... hún er alveg megaþæg, og það er bara ekkert vesen enn sem komið er.  Hún vaknar bara, fær sér í gogginn, og sofnar svo yfirleitt mjög fljótlega aftur!!  Það eru samt allir að vara okkur við ... "bíðið þíð bara ... "

Svo er reyndar mjög gaman að því að hlusta á hljóðin sem barnunginn er farinn að gefa frá sér, alls kyns ískurhljóð, stunur, jarm og fleira, allt alveg ótrúlega fyndið.  Sama má segja um svipbrigðin sem maddaman sýnir, þau eru hreint út sagt stórkostleg, geiflur af besta "kaliberi"!

Vegna mjög einlægra óska um frekari myndbirtingar af einkadótturinni, eru hér fyrir neðan nokkrar myndir ...

Læt þetta duga í bili og munið ... spakmæli dagsins, sem er komið frá athafnamanninum Charles J. Givens (1942-1998), sem gjarnan var kallaður "The 100 Million Dollar Man" er eftirfarandi ...

"Að gera meira af því sem er ekki að ganga, fær hlutina ekki til að ganga betur!"
Þannig að ef þú ert það hjakka í sömu sporunum, daginn út og inn og finnst ekkert ganga, pældu þá í þessu spakmæli!


Þarna er nú Íslendingurinn að vakna að morgni 17. júní, umvafinn bleiku og gulu teppi.  Ennfremur hanga yfir hausamótunum fjórar kynjaverur, sem saman mynda geysilega tilkomumikill óróa, sem hangir í spiladós og getur snúist í hringi ef svo ber undir.  Þetta mikla "furðuverk" var gjöf frá hinum þremur vitru frændum Sydneyjar, þeim James, Rich og Jon og hefur algjörlega slegið í gegn!!


Um miðjan daginn ákvað daman svo að halda ræðu og var þessi mynd tekin í miðjum ræðuhöldunum. 


Og svo þegar 17. júní hátíðarhöldin voru yfirstaðin, var meira og minna allt komið á hvolf, eins og sést á þessari mynd.


Fyrsta almennilega útiveran hjá sumum var síðan í dag, 18. júní 2008!!  Á myndinni sést þegar lagt var af stað í langferð, og svokallaður Baby Sling notaður til að halda utan um yngsta ferðalanginn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband