Færsluflokkur: Bloggar
21.2.2012 | 22:08
Þriðjudagur 21. febrúar 2012 - "21-02-2012"
Það er ótrúlegt að verða vitni að því að þriggja og hálfs árs gamalt barn skuli vera komið með áhuga á að setja maskara í augnhárin á sér. Svo kom hún fram og depplaði augunum ótt og títt, alveg eins og allra hörðustu hefðarkonur gera ...
Óhætt að segja að snemma beygist krókurinn ...
Á sama tíma og þessi mikla dama er að skreyta sig fyrir framan baðherbergisspegilinn, þá hefur hún ákveðið að færa sig af klósettinu yfir á koppinn. Svo fannst koppurinn fyrir tilviljun hálffullur upp í rúminu okkar Laugu ... ?!?
---
Ég hef í dag verið að leggja drög að námskeiðinu sem stefnt er á að halda í lok mars. Allir sem vettlingi geta valdið ættu að láta sjá sig þar.
Hægt er að nálgast upplýsingar með því að smella hér.
En ég get nefnt það að um er að ræða námskeið í umhverfissálfræði. Þetta verður bara svona kynning á áhrifum borgarumhverfis á fólk, ég tek dæmi og velti upp spurningum varðandi umhverfið og allt bara á léttum og skemmtilegum nótum.
Af þeim um almennum 20 fyrirlestrum sem ég hef haldið á undanförnum 3 árum hefur nær undantekningarlaust verið gerður góður rómur að þessu spjalli mínu.
En sumsé smella hér ef áhugi er á tveimur góðum kvöldstundum í lok mars.
---
Svo var ég á alveg massífri hljómsveitaræfingu í gær ... mikið svakalega er þetta gaman ...
Þessi hljómsveit er svolítið svona "secret-dæmi" ... það muna allir eftir bókinni "The Secret" og "Law of Attraction", þ.e. að maður dragi að sér það sem mann langar raunverulega í.
Það bara smellur svo innilega allt í þessari sveit ... flott frumsamið efni, rosalega góðir meðspilarar og góðir gæjar. Þetta var nákvæmlega eins og ég vildi hafa það ... og ekki spilla uppgötvanir mínar í söngnum á síðustu vikum fyrir.
Persónulega væri ég til í að æfa á hverjum degi ... eins og ég hef áður sagt á þessari síðu ... en er greinilega sá hluti sem ég hef ekki "secretað" nægjanlega vel ... eða ... kannski hef ég bara "secretað" aðra hluti líka, þannig að niðurstaðan verður þessi.
Maður klárar náttúrulega ekki doktorsverkefni og hitt og þetta með því, nema gefa sér tíma til að sinna því.
En ég er alveg á því að "secret" virkar ... þ.e.a.s. ef maður "secretar" það sem mann raunverulega langar en ekki eitthvað sem maður heldur að mann langi.
---
Annars verð ég að láta þess getið að dagsetning dagsins í dag er mjög flott þegar betur er að gáð ... 2102 - 2012 ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.2.2012 | 23:49
Sunnudagur 19. febrúar 2012 - Viðskiptahugmynd og göngutúr
Ég er með viðskiptahugmynd fyrir hvern sem áhuga hefur á ... sjálfur hefur ég ekki áhuga á því að fylgja henni eftir en myndi örugglega fjárfesta í henni.
Tæki sem gæti skráð hugsanir manns þannig að maður gæti fengið Word-skrá á USB-lykli. Þessa dagana fæ ég svo margar hugmyndir að ég hef ekki við að halda þeim í hausnum á mér. Ég held að ég geti með sanni sagt að það er allt að gerast.
Skrapp út í búð í dag ... datt einhver snilld í hug en var búinn að gleyma henni allri saman þegar ég kom heim og ætlaði að fara að skrifa hana niður. Sama þegar ég fór út að skokka í kvöld, var með hreina snilld en meira og minna allt dottið út þegar ég kom heim.
Og hvers eðlis eru þessar hugmyndir? Þær eru út um allt en kannski fyrst og fremst eru þetta hugmyndir sem fást með því að tengja saman ólíka þætti í tilverunni og búa til eitthvað nýtt úr þeim, ásamt því að sjá einhverja nýja og áhugaverða vinkla á þeim hlutum sem ég er að fást við í leik og starfi.
Á hlaupunum úti í kvöld tókst mér t.d. að tengja saman í eitt prójekt; söng, umhverfissálfræði og sjálfsstyrkingu.
Gæti ekki unnið mér það til lífs að muna hvernig ég gerði það. Þarna hefði verið gott að hafa skráningartækið sem ég nefndi áðan.
Jæja ... ég er búinn að skrifa svo mikið inn á tölvuna hjá mér í dag að ég er ekki viss um að sé hreinlega hollt að skrifa meira ...
---
Svo verð ég auðvitað að nefna það að PJPL er alveg að meika það núna. Í gær og í dag hefur hann tekið mikilvæg "skref" í átt þess að geta gengið. Í dag rölti hann t.d. úr stofunni og fram á gang einn og óstuddur, jafnvel yfir þröskuldinn.
Missti ekki jafnvægið fyrr en hann áttaði sig á því að hann var einn og óstuddur.
Það er alveg ljóst að nú verður að fara að munda videokameruna og góma þessi ómetanlegu augnablik í ævi sérhvers manns, já og allra foreldra einnig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2012 | 22:33
Laugardagur 18. febrúar 2012 - Skortur á sænskukunnáttu og Bond
Skruppum til Stokkhólms í dag. Matarboð og hittingur hjá Söndru og Rolf. Alveg hrikalega góður matur ... og bara fín stemmning.
Fékk alveg svakalega mikinn og stóran skammt af sænsku í dag. Sænskukunnáttan hjá mér er náttúrulega fyrir neðan allar hellur eftir þennan tíma hér í Uppsala.
En svona er það bara ... ég hef lítið komið mér í þá aðstöðu að hafa þurft að tala sænsku hérna. Sit heima með sjálfum mér á daginn og skrifa á ensku og les á ensku. Umgengst mest Íslendinga þar fyrir utan.
Þetta er annað en Lauga sem þurfti á degi nr. 1 að byrja að tala sænsku í vinnunni. Enda er hún bara orðin ansi góð finnst mér ...
... það er samt eitthvað svo hrikalega, ömurlega hallærislegt að vera svona lélegur ennþá ...
---
Skilaði af mér í gær ágætri skýrslu þar sem viðhorf ferðamanna á Djúpavogi voru athuguð. Fínt að koma því frá sér.
Það má nálgast stöffið hér ef áhuga er á.
---
Jæja, ætli sé ekki best að fara að horfa á "The world is not enough" ... James Bond mynd á TV4 í kvöld. Hálfpartinn búinn að lofa Laugu að horfa með henni ...
... ágætt að fara að standa við það ... myndin er örugglega meira en hálfnuð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.2.2012 | 23:52
Föstudagur 17. febrúar 2012 - Johnny, sushi og met
Gott kvöld á enda runnið ... keypt var sushi og með því og Johnny English Reborn settur í DVD-ið ...
Rowan Atkinson kemur alltaf vel út ... það er alveg merkilegt hvað maður getur endalaust hlegið af sömu bröndurunum, jafnvel þó fyrirfram sé alveg ljóst hvert stefnir.
---
Já og hvað er málið með þetta sushi ... mér fannst ekkert varið í það fyrir nokkrum mánuðum og mér fannst svona sushi-rúllur hreinn viðbjóður. Þær brögðust eins og þurrhey ... í kvöld át ég fjóra svoleiðis sushi-bita (það voru ekki fleiri svoleiðis bitar á bakkanum) og líkaði vel.
Þetta er alveg nákvæmlega sama og málið með ólífurnar á sínum tíma ... hreinn viðbjóður og svo bara allt í einu hrein snilld!
Skrýtið!
---
Svo gerðust þau merkilegu tíðindi í dag að stubburinn tók fimm skref óstuddur ... það er persónulegt met og allir ánægðir með það.
Það er alveg klárt má að það skemmtilegasta sem PJPL gerir núna er að labba með hjálp móður sinnar (uppþvottavélin er komin í annað sætið). Hefur ekki svo mikinn áhuga á að ég hjálpi sér og hann nennir alls ekki að labba ef maður heldur bara í aðra höndina.
Karlpútan hefur andskoti mikið skap og getur orðið eldrauður í framan og gapandi af bræði ef móðirin reynir skorast eitthvað undan ...
Systir hans getur líka látið ansi vel í sér heyra ... er ekki alveg að skilja hvaðan blessuð börnin fá þetta skap. Sennilega er það móðurættin sem ber ábyrgð á þessu :) ...
---
Plástrarnir eru að koma mjög sterkt inn þessa dagana. Þeir hafa hreinan undramátt og lækna allt ... í morgun rakst Guddan á sár á vörinni á mér. Var ekki lengi að útvega plástur sem hún skipaði mér að setja á vörina.
Einkar þægilegur staður til að hafa plástur ...
Þessi var tekin í vikunni þegar hersingin kom heim af leikskólanum ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2012 | 23:34
Miðvikudagur 15. febrúar 2012 - Hnífar, lok og dellur
Í kaffitímanum í dag gerðist GHPL mjög ábúðarmikil þegar hún tók að ræða í löngu máli um það hversu stórhættulegur brauðhnífur getur verið.
"Strikið hérna er mjög hættulegt" sagði hún og benti á egg hnífsins. Svo endurtók hún það nokkrum sinnum. Svo benti hún á annan hníf töluvert minni. "Strikið hérna er mjög hættulegt!"
Ég hef samt ekki hugmynd um af hverju hún kýs að kalla eggina strik.
Hún ætlaði svo að fara að taka stóra brauðhnífinn upp til að leggja enn frekari áherslu á hversu lífshættulegt þetta verkfæri væri. Var brugðist hratt við því og sýnikennslan kæfð í fæðingu. Upp úr því fjaraði umræðan út og önnur atriði eins og kókómalt urðu fyrirferðarmeiri.
---
Annars gekk lífið nokkuð sinn vanagang í dag. Undirbúningur fyrir lok doktorsverkefnsins míns er farinn að taka á sig mynd en ég stefni að skila inn fyrir 31. ágúst. Kannski var ég búinn að segja það áður ... man það ekki.
Mér finnst það bara ágætis þróun ... sérstaklega eftir að hafa fengið í hendurnar reikninginn frá Háskólanum í Sydney. Það er ágætis summa sem þarf að greiða í skólagjöld ...
---
Ég skrapp í söngtíma í kvöld. Ágætis tími og söngtæknin er smátt og smátt að púslast saman í hausnum á mér. Best finnst mér að nota tímana í því að bera saman þá tækni sem ég tel vera rétta og þá tækni sem kennarinn segir mér að nota.
Varla þarf að taka það fram hvor tæknin er að virka betur ... kennarinn heldur að ég sé að nota sína tækni og var feykilega ánægður með árangurinn. Taldi að mikið hefði gerst á síðustu vikum.
Ójá ...
---
Lauga keypti sér bók um daginn ... bók um augu og augnsjúkdóma ... og núna er hún eins og barn í leikfangabúð. Hún er gjörsamlega heltekin af bókinni og notar hvert tækifæri til að ræða við mig um augu.
Ég vissi ekki að það væri hægt að ræða svona mikið um augu ...
Annars er þetta svo sem ágætis mótvægi við söngumræðuna hjá mér ...
... við erum sumsé með sitthvora delluna.
Augu og söngtækni ... anyone?!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2012 | 22:46
Þriðjudagur 14. febrúar 2012 - Að fara öfugu megin framúr
Dagurinn byrjaði nú ekki gæfulega ... því ég fór þráðbeint öfugur fram úr rúminu. Það er orðið svo langt síðan það gerðist síðast að ég vissi varla hvernig ég átti að haga mér.
Og það fóru fleiri öfugt framúr í morgun ... minn ástkæri sonur var hreint ekki með á nótunum því eftir að hafa fengið gómsætan hafragraut í skál, tók hann ekki í mál að sporðrenna nema einni skeið.
GHPL sem hafði farið kórrétt fram úr át hinsvegar sinn graut með góðri list ...
Eftir nokkra geðillsku af minni hálfu og margar talningar upp á 10, tókst að koma dótturinni og syninum í strætóinn upp úr kl. 8.30.
Í strætónum skánaði stemmningin nokkuð ... þar sem við ræddum um liti á húsum og fötum, sungum og gerðum nokkra "fagur fiskur í sjó". Aðalfjörið í litaumræðunni er þegar ég spyr GHPL hvaða litur sé á tilteknum hlut og á spurningin, skv. fyrirmælum GHPL, að vera leiðandi þannig að ég spyr t.d. "er gallinn þinn grænn?" og liturinn sem ég spyr um á alltaf að annar en hann er í raun og veru. Með þessu móti fær Guddan tækifæri til að leiðrétta föður sinn aftur og aftur.
Greinilegt er að dótturinni líkar þetta allt saman því þegar mamma hennar náði í hana í dag sagði hún: "Það er gaman að vera í strætó með pabba ... já, og það er líka gaman að vera í strætó með mömmu."
En ... Guddan skilaði sér á leikskólann upp úr kl. 9.30 og þá var svona mesti hrollurinn úr mér en stubbi var ekki búinn að segja sitt síðasta orð.
Á leiðinni heim vaknaði hann í strætónum ... eitthvað sem ekki hefur gerst áður ... og þegar við komum heim, kærði hann sig ekki um neinn mat.
Svo allt í einu eftir svona hálftíma, þá fann hann það út að vilja borða. Bara lítið samt, og samfara átinu nuddaði hann ákaft á sér augun. Sem er oftast nær mjög augljóst þreytumerki.
Ruglið náði svo hámarki þegar ég ákvað að leggja hann kl. 11.30 og við steinsofnuðum báðir í einn og hálfan klukkutíma.
Það er sem ég segi ... vitleysan var ekki öll eins þennan morguninn.
Í kjölfarið var unnið sleitulaust til kl. 21.30 í kvöld, þá var farið út að hlaupa í 45 mín og í kjölfarið nánast beint farið í að gera raddæfingar ... því söngnámið heldur áfram, þó daglegar æfingar fari oftast nær fram upp úr kl. 22.30 eða síðar. "Það verður að vera agi í hernum", sagði Svjek og ef maður ætlar að syngja á La Scala einhvern tímann þá er nú víst betra að æfa sig svolítið ;) .
Sem betur fer eru þetta ekki æfingar sem þarfnast þess að maður blási allt út ... þetta er laufléttar og skemmtilegar tækniæfingar.
---
Í fyrradag hringdi Sverri vinur minn í mig ... "það er bara komið vor!" sagði hann glaður í bragði enda full ástæða til því veðrið var virkilega fínt.
"Já, er það ekki bara?" svaraði ég eins og fífl, enda búinn að steingleyma því að 8. febrúar í fyrra, sagði Sverrir nákvæmlega þessa sömu setningu og þá svaraði ég henni með nákvæmlega sama hætti. Enda full ástæða til, því þá var veðrið virkilega fínt.
Í fyrra fylgdi þessari "vorspá" svo hroðalegur kuldi að það verður lengi í minnum haft. Mínus 20 til 30 stiga gaddur í nokkrar vikur.
Í kjölfar þess skipaði ég Sverri að láta af öllum frekari spádómum um að vorið væri á næsta leyti.
Í fyrradag gleymdi ég mér svo. Og hvað? Snjónum kyngir niður í þessum skrifuðum orðum!
Sverrir!! Nú hættir þú þessari veðurspámennsku!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2012 | 23:47
Sunnudagur 12. febrúar 2012 - Að ná árangri og verða "happy"
Ég horfði á myndbandsfyrirlestur í gærkvöldi þar sem fyrirlesarinn fjallaði um tengsl árangurs og hamingju ... man ekki hvað fyrirlesarinn hét ...
... en það sem hann sagði var að það þyrfti að snúa formúlunni við.
Á Vesturlöndum hefur formúlan verið þessi um langt skeið: Vera duglegur, ná árangri, verða hamingjusamur.
Efnislega sagði hann að við ættum að byrja á því að vera jákvæð og þá kæmi hitt í kjölfarið af mun meiri krafti en ef við værum neikvæð.
Mér finnst mjög gaman af þessum pælingum og hef lesið nokkra hillumetra af þessum "literatúr", auk þess sem ég hef hugsað um þetta í tengslum við fótbolta, leiklist og söng, já og svo sem ýmislegt fleira.
Ég er alveg sammála kauða í því að formúlan sem mest er notuð og hefur verið mest notuð á Vesturlöndum er slæm.
Nýjasta dæmið í því er sviplegt fráfall söngkonunnar Whitney Houston í gær ... hún hefur lagt hart að sér, hún hefur svo sannarlega náð árangri ... en síðasta breytan í formúlunni hefur staðið illilega á sér. Afleiðingin? Nánast stjórnlaus áfengis-, lyfja- og dópneysla í meira en áratug.
Á föstudaginn var ég einmitt að velta þessari vonlausu formúlu fyrir mér ... hættan við hana er sú að maður fer að setja samansemmerki á milli eigin persónu og árangurs. Sjálfsmynd manns fer að mótast af árangrinum.
Vafasamt? Í besta falli já. Hvað gerist ef maður tengir sjálfsmyndina við árangur? Þá er allt í lagi þegar vel gengur. En hvað gerist þegar illa gengur?
Og hvernig gengur að rífa sig upp þegar illa gengur þegar sjálfsmyndin er brotin af því að illa gengur?
Það sér hver maður að slíkt getur reynst þrautin þyngri. Sjálfur barðist ég við þetta í mörg herrans ár. Sjálfsmynd mín tengdist getu minni á fótboltavellinum. Svo sterk voru tengslin að sjálfsmyndin gat tekið heljarstökk fram og aftur, upp og niður á mínútufresti. Oft þurfti ekki nema eina feilsendingu ... og himnarnir hrundu.
Það er meira en að segja það að spila fótbolta undir þessum kringumstæðum ...
Mín reynsla er því sú að formúlan: Vinna mikið, ná árangri og verða "happy" er eitthvert mesta "crap" sem til er.
Það var því gaman að hlusta á þennan fyrirlesara segja efnislega það sama og ég hafði verið að hugsa deginum áður ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2012 | 23:27
Laugardagur 11. febrúar 2012 - Viðtal í Læknablaðinu
Varstu ekki örugglega búinn að lesa þetta viðtal við mig í Læknablaðinu?
Ég er alveg klár á að þetta er örugglega í fyrsta skipti sem fjallað er um umhverfissálfræði í 98 árgangasögu Læknablaðsins ... að minnsta kosti um mitt sérsvið þ.e. sálfræðilega endurheimt.
Lít svo á að þessi birting sé hápunktur þessarar viku.
---
Eins og stundum áður var ég búinn að láta mér detta í hug fullt af "gáfulegu" stöffi sem ég ætlaði að skrifa um í kvöld ... flest, ef ekki allt, er horfið núna þegar til stundin er runnin upp.
Þannig ... lestu endilega þessa grein í Læknablaðinu ... hún er skemmtileg ...
Bloggar | Breytt 12.2.2012 kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2012 | 22:17
Miðvikudagur 8. febrúar 2012 - Mataræði og met
Eitt af því sem ég hef alltaf verið mjög áhugasamur um er heilsan, bæði líkamleg og andleg. Og ekki virðist ég einn um þann áhuga.
Í gegnum tíðina hef ég verið alveg sæmilega duglegur í því að viða að mér efni um heilsuna, kannski meira varðandi andlega heilsu en þá líkamlegu. Það er þó eitt sem ég hef aðeins nýlega byrjað að spá í ... og það er mataræði.
Lengi vel vildi ég ekki horfast í augu við mataræði skiptir afskaplega miklu máli fyrir almenna vellíðan, ég áleit mat bara orkugjafa og meðan jafnvægi væri á milli orkuneyslu og orkunotkunar þá væri bara allt í fínu lagi.
Það verður auðvitað hver að finna út úr því fyrir sjálfan sig en í mínu tilfelli hef ég komist að því að það er ekki hægt að líta á mat einungis sem orkugjafa án þess að spá í gæðum hans. Upphafið að þessu má rekja til hásinavandamála minna sem stöfuðu að stóru leyti, leyfi ég mér að segja, af rangri orkuinntöku.
Eftir að ég fann orsakavaldinn, sem voru gosdrykkir í töluvert miklu magni, þá hef ég ekki fundið til í hásinunum í eina sekúndu. Þetta hefur orðið mér hvatning til að líta á mataræðið í víðara samhengi.
Af þessari ástæðu hef ég verið að kíkja á greinar sem fjalla um mataræði og ég verð að segja það að það er alveg ótrúlega mikið af alls konar rugli í gangi ... maður er eiginlega bara hissa ...
Hvað er t.d. málið með allt þetta prótein-dæmi sem svo margir eru að innbirgða. Ég er ekki saklaus af því ... rankaði svo við mér einn daginn og spurði sjálfan mig af hverju? Hef ekki fundið svarið ennþá.
Þetta minnir mig á "kreatín"-umræðuna sem var í gangi fyrir tæpum 20 árum, þegar ég var á fullu í fótbolta. Allt liðið var taka kreatín. Einn daginn datt mér í hug að tala við Sigga Bjarklind sem þá var líffræði- og lífeðlisfræðikennarinn minn. Siggi sagði einfaldlega að inntaka á kreatíni skipti engu máli fyrir fótboltamenn sem spiluðu leiki í 90 mínútur því líkaminn nýtti kreatínið á fyrstu tveimur mínútunum eða eitthvað álíka ... Siggi vissi hvað hann söng því enn hafa engar vísindalegar rannsóknir sýnt fram á mikilvægi kreatíns fyrir íþróttamenn sem stunda annað en "sprett-íþróttir".
Í þessari mataræðisumræðu er líka alltaf verið að tala um hitaeiningar og fitu náttúrulega. Ég las t.d. eina grein á DV.is í dag þar sem verið að fjalla um hversu lengi maður þyrfti að hlaupa til að nýta alla orku sem væri að finna í hinum ýmsa mat og drykk. Sagt var að það taki 86 kg þungan mann einn klukkutíma að brenna upp orkunni úr 1,5 lítra af kóki.
Eflaust er þetta alveg rétt ... mér finnst samt þetta svo skringleg framsetning og samhengislaus. Hvaða breytur eru eiginlega teknar inn í þessa útreikninga? Er grunnbrennslan, þ.e. orkuþörfin til að líkamskerfunum gangandi tekin með? Bara hún tekur um 70% af orkunni, þar af tekur heilinn um 20%. Ef 1,5 lítri af kóki telur um 645 kílókalóríur, þá ætti grunnbrennslan að taka um 450 kkal og þá eru eftir um 200 kkal. 86 kg maður þarf ekki að hlaupa í 60 mínútur til að brenna 200 kkal.? Hann þarf að hlaupa um 2,5 km sem tekur í mesta lagi 15 - 20 mín, allt eftir formi og stemmningu.
Væri þá ekki réttara að taka fram í þessum pistli sem ég var að lesa í dag, að þessar tölur miðuðu við að engin orka færi í aðra ferla en það að hlaupa. Upplýsingar eru því ekkert endilega rangar en þær eru ansi villandi og það er hætt við að ofeldið í heiminum væri á álítið öðru plani ef maður þyrfti að hlaupa í klukkutíma eftir að hafa drukkið 1,5 lítra af kóki.
Það má vel vera að ég sé gjörsamlega úti á túni í þessari færslu minni ... en þetta eru allavegana vangavelturnar í kvöld.
---
Svo var sett persónulegt met í dag. Það hafa aldrei fleiri farþegar stigið inn í strætó sem ég sit í, en gerðu við Stadshuset kl. 9.15 í morgun.
32 farþegar stigu inn í vagninn í einni lotu!
Mér var hugsað til þess hvað strætókerfið hér í Uppsala er vel nýtt ... víða annars staðar hefði þetta þýtt 32 bíla úti á götunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2012 | 22:18
Mánudagur 6. febrúar 2012 - Hlutirnir að gera sig
Ó það er svo dásamlegt að vera kvefaður og með hálsbólgu ... eða þannig ... samt er það nú ekki nokkur hlutur til að vera að nefna nema ...
... og ég ætla að eins að nefna söng aftur :) .
Ég fór á 2,5 tíma hljómsveitaræfingu í kvöld. Var nú ekki sérlega bjartsýnn á að geta eitthvað og gera eitthvað.
Svo byrjaði dæmið og rokkið og rólið steinlá 80% af tímanum, háir sem lágir tónar. Með því að segja "steinlá" á ég við að ég gat sungið megnið af "stöffinu" áreynslulaust og eftir æfinguna finn ég ekki fyrir neinu. Þetta segir bara eitt ... tæknivinnan er að skila sér ... :)
Sem er náttúrulega ótrúlega gaman fyrir mig eftir allt þetta streð í svo langan tíma. Ekki þó svo að skilja að ég sé kominn á endastöð og fullnuma ... það er nóg eftir, sem ég þarf að tileinka mér ... en allavegana er maður á réttri leið.
... ok ... ekki meira um það ...
---
Í dag var ég að leggja lokahönd á ferðmannakönnun fyrir Djúpavogshrepp, stefni að senda hana á morgun, ætla að eins að sofa á henni.
Ég er orðinn svo ruglaður í því hvað ég er búinn að skrifa á þetta blogg á síðustu dögum og vikum, þannig að ég man ekkert hvort ég var búinn að fjalla eitthvað um niðurstöðurnar.
Það merkilegasta í þessu finnst mér það að viðhorf fólks til náttúruverndar ræðst að einhverju leyti af væntingum þess til náttúrunnar sem umhverfis sem "hleður batteríin". Þetta þýðir að vel er mögulegt að fara að ræða um verndun náttúrunnar á öðrum forsendum en gert hefur verið á síðustu áratugum ... en núna sé ég ... þegar ég athuga færslunarnar á þessu bloggi að ég minntist eitthvað á þetta fyrir tæpri viku ... nánar þann 1. febrúar :) .
---
Þá ætla ég bara að breyta um kúrs ... tala um börnin sem voru svo óskaplega hress og glöð í dag. Meira að segja var GHPL svo hress að þrír kennarar hennar minntust á það þegar Lauga sótti hana í dag á leikskólann.
Þetta er auðvitað markmiðið ... ala börnin þannig upp að þau séu hress og glöð ... það er algjörlega leiðarljósið hjá okkur Laugu. En slíkt er svo langt frá því að vera auðvelt mál.
Persónulega finnst mér ég hafa séð hreina stökkbreytingu á GHPL eftir að ég breytti áherslum í byrjun desember sl. Þá fór ég að taka virkari þátt í uppeldinu, vera meira til staðar fyrir hana og bara sinna henni betur.
Ég hætti að vera "leiðinlegi" gaurinn og fór að vera "stundum leiðinlegi og stundum skemmtilegi" gaurinn ... svínvirkar alveg ...
---
Nafni hefur líka tekið breytingum bara í síðustu viku ... þ.e. eftir að ég tók við stýrinu á morgnana. Nú þurfum við að eiga í samskiptum í nokkra klukkutíma á hverjum degi og við höfum lært mjög hratt hvor á annan.
Þegar Lauga tók við honum í dag eftir hádegið var hann firnahress og var með skemmtiatriði í strætónum þegar mæðginin fóru að ná í GHPL á leikskólann.
Allavegana er þetta gaman þegar hlutirnir eru að gera sig ... og þeir eru að gera það núna ... ;)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)