Færsluflokkur: Bloggar
24.8.2011 | 22:30
Miðvikudagur 24. ágúst 2011 - Sokkabuxur, æsingur og rólegheit
Þegar Guddan er að fara að sofa kemur iðulega upp ofurlítið vesen. Það felst í því að hún vill alls ekki fara úr sokkabuxunum sínum ... sem reyndar skýtur skökku við í ljósi færslu gærdagsins.
Í kvöld þurfti töluverðar samningaviðræður til að fá hana til að yfirgefa sokkabuxurnar ... hafðist þó að lokum með orðunum: "Aaaahhhhh ... gott að vera ber!" Svo skreið hún undir sængina og sofnaði stuttu síðar.
---
Guddan mætti í skínandi skapi úr leikskólanum í dag. Og henni til enn frekari gleði voru henni færðir dansskór, svartir með skrauti, enda stendur fyrir dyrum að dóttirin hefji dansnám eftir hálfan mánuð.
"Þeir eru fallegir" sagði blessað barnið hugfangið þegar það tók skóna upp úr pokanum. Svo dreif hún sig í þá.
En Adam var ekki lengi í Paradís, því dóttirin var varla stiginn í skóna þegar allt fór á hvolf. Hún reif þá af sér með miklu látum og hélt svo langan reiðilestur yfir öllum viðstöddum, tók skóna og henti þeim út í horn, lagðist í gólfið, ýtti bókum framaf stofuborðinu og lét bara öllum illum látum.
Hvað hafði þá gerst? Jú, skórnir voru aðeins of litlir!
Það þarf sumsé að fara aftur í búðina og fá númerinu stærri skó.
Já, það þarf oft ekki mikið.
---
Bróðirin er öllu rólegri. Er eiginlega búinn að vera svo rólegur í dag að annað eins rólegheitabarn er sennilega vandfundið.
Ég geri ráð fyrir að það muni eldast af honum. Man ekki betur en GHPL hafi verið með eindæmum róleg á sama aldri ... ólíkt því sem nú er :) .
---
Sjálfur er ég búinn að vera að vinna í rannsóknargrein sem ég stefni á að skila inn sem fyrst. Ég er ekki frá því að það sé farið að hilla undir lok þessa doktorsnáms ... svei mér þá bara ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.8.2011 | 21:45
Þriðjudagur 23. ágúst 2011 - Fatasmekkur og sýrustig
Á hverjum morgni þessi dægrin upphefst mikil umræða um það hvort dóttirin eigi að fara í sokkabuxur eða ekki. Hún er alveg gallhörð á því að hún eigi ekki að fara í sokkabuxur.
Engu að síður endar umræðan alltaf á sama veg ... hún fer í sokkabuxur.
Þá upphefst gífurlegt kvart og kvein yfir því hvað sokkabuxurnar séu sérdeilis viðbjóðslega óþæginlegar.
Hvaða kjól skal svo farið í? Um það er þrasað í töluverðan tíma. Og svo er það regngallinn frá 66°N. Það eru hörkuslagsmál að koma blessuðu barninu í slíka múnderingu.
Aldrei hefði mig órað fyrir því að óreyndu hvað skoðanir á fatavali gætu verið miklar hjá þriggja ára gamalli stúlku.
---
Nafni var vigtaður í gær ... hann reyndist vera 6,6 kg og þegar ég fletti upp í gagnasafninu mínu þá sé ég að GHPL var orðin hér um bil 6 mánaða þegar hún var 6,6 kg ... nafni er nú bara rétt tæplega fjögurra.
Það verður líka að segjast að samskipti systkinanna eru algjörlega frábær ... GHPL er svo hrikalega góð við PJPL að það er ótrúlegt. Stundum er góðvildin kannski svona í það mesta, mikið kram og kjass ... kosturinn við það er að PJPL verður örugglega þolinmóðasti maður í veröldinni þegar fram líða stundir.
---
Síðustu misseri hef ég mikið verið að pæla í sýrustigi líkamans. Þetta er eitthvað sem ég held að flestir ættu að pæla í en rétt sýrustig skilar sér í margfalt betri líðan bæði andlegri og líkamlegri.
Núna hef ég gætt mjög vel að sýrustiginu hjá mér og það hefur skilað því að ég hef t.d. ekki fengið neinn einasta vott af harðsperrum s.s. eftir leikinn á sunnudaginn né heldur eftir lyftingarnar í gær, þrátt fyrir að hafa verið í góðri pásu í 2 mánuði. Fór svo á fótboltaæfingu í kvöld og fann ekki fyrir neinu ... engin eftirköst ... bara ekkert ...
Það sem ég hef verið að gera til að viðhalda réttu sýrustigi er fyrst og fremst að gæta að vatnsneyslu minni. Sérstaklega hef ég fókuserað á að drekka alltaf um hálfan lítra af vatni með sítrónusafa á morgnana. Stundum drekk ég sítrónuvatn líka á kvöldin. Þar fyrir utan drekk ég ekki gosdrykki enda er það vísasta leiðin til að setja sýrustigið algjörlega á haus að drekka slíkt.
Eins og ég segi ... hvet alla til að kíkja á þetta ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.8.2011 | 23:22
Mánudagur 22. ágúst 2011 - Færsla dagsins
Þá er nú allt að komast á fullan gír aftur ... botnlaust að gera ... meira en maður ræður við.
Kannski bara best þannig.
Skrapp í ræktina í dag í fyrsta skipti síðan 21. maí en síðan þá hefur líkamsræktarstöðin mín verið lokuð. Hún opnaði svo aftur í dag eftir gagngerar breytingar. Öll tæki eru glæný og hægt er að spegla sig í gólfinu.
---
Annars ætlaði ég að segja einhverjar æðislegar sögur í kvöld en klukkan er orðin svo fjári margt hér í Svíþjóð.
Allir við ágæta heilsu bara ...
æ ... djöfull er þetta eitthvað glatað ...
... bara mynd í lokin ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2011 | 23:27
Sunnudagur 21. ágúst 2011 - Vinna, átrúnaðargoð og fótbolti
Þessi dagur hefur að mestu verið tileinkaður vinnu en ég er nú að fást við mjög áhugavert verkefni sem snýst um að koma með tillögu að úrbótum á 100 fermetra stigapalli á 5. hæð Landakotsspítala
Breyta á gímaldi í hlýlegar vistarverur fyrir sjúklinga og gesti.
---
Í kvöld spilaði ég minn fyrsta fótboltaleik í tvo mánuði þegar Vaksala sem er mitt lið lék á móti GUSK. Eftir að hafa náð forystu á fyrstu mínútum síðari hálfleiks, töpuðum við leiknum 2-1. Svona er þetta stundum.
---
Annað heimilisfólk fór í heimsókn til Sverris, Dönu og Jónda í dag. Var mikil hamingja þar, sérstaklega hjá ungfrúnni sem hitti átrúnaðargoðið sitt í fyrsta skipti í margar vikur.
Það er nú best að hafa þetta ekki lengra enda á ég eftir að vinna töluvert enn ...
En börnin hafast ólíkt að ...
Nafni horfir á endur ...
... en Guddan spilar á gítar af mikilli innlifun ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2011 | 22:39
Laugardagur 20. ágúst 2011 - Sumarið gert upp í mjög stuttu máli
Jæja ... þá ætlar síðuhaldari að rísa upp úr öskustónni, tveimur mánuðum eftir að síðasta færsla var sett inn á síðuna.
Á þessum tveimur mánuðum hefur auðvitað ótal margt gerst ... margt skemmtilegt og annað ekki jafn skemmtilegt ... bara svona eins og gengur og gerist.
Einn af góðu punktunum í sumar var skírn blessaðs drengsins sem fór fram þann 6. ágúst í blíðskaparveðri í Borgarfirðinum.
Nafnið var í frumlegri kantinum en drengurinn er alnafni föður síns, en þó skírður í höfuðið á afa sínum sem einnig er alnafni föðursins.
---
Ég og mamma skruppum til Djúpavogs í sumar eins og við höfum gert síðustu sumur. Að venju var það skemmtileg heimsókn og árangursrík.
Þarna er mamma í eldhúsinu í gamla húsinu að Hamri í Hamarsfirði ásamt Braga í Berufirði og Ingvari Sveinssyni.
---
Svo voru farnar ferðir norður í land ... t.d. á Sauðárkrók en Lauga og co. dvöldu þar í nokkrar vikur í sumar í góðu yfirlæti.
Guddan talar við hund á Sauðárkróki.
---
Einnig var dvalið í Borgarfirðinum um töluvert skeið.
Drumbur tekinn léttilega í fangið ... alltof létt ...
Læt þetta duga sem fyrstu færslu eftir sumarfrí ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2011 | 17:50
Mánudagur 20. júní 2011 - Borgarfjörður, brúðkaup og fleira
Þessi færsla er nú meira svona til að halda lífinu í þessari bloggsíðu ...
Síðustu daga hef ég verið hvorki nálægt tölvu né internettengingu en við slíkar aðstæður er erfitt að koma bloggi frá sér.
Ég hef nefnilega verið í sveitinni minni uppi í Borgarfirði, að slá gras og klippa tré. Sem er náttúrulega stórkostlegt.
Einnig hef ég verið í brúðkaupi hjá Fjólu og Neil. Afskaplega velheppnað allt saman og skemmtilegt.
Í tengslum við brúðkaupið hafa félagar okkar frá Ástralíu komið og svolítill tími hefur farið í að sinna þeim.
---
Auk þessa er ýmislegt að gerast hérna hjá mér ... hér hefur verið boðið að koma með "input" í kúrs við Háskóla Íslands um sjálfbært skipulag og svo hef ég verið beðinn um að vera aðstoðarleiðbeinandi í mastersverkefni við sálfræðideildina í HÍ.
---
Þetta er sumsé allt saman gott og blessað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.6.2011 | 18:05
Þriðjudagur 14. júní 2011 - Íslandsveran hafin
Nú er maður kominn til Íslands ...
Vinnan komin á fullt ... safna verkefnum fyrir næstu misseri og hafa gaman.
---
Ættingjarnir koma sterkt inn hjá GHPL ... það er svo sannarlega ekki eins og hún hafi ekki hitt þá í marga mánuði.
Meira eins og hún hefði hitt þá í gær.
---
Tani H kemur sterkt inn líka ... tók flugið í gærkvöldi með vinstri ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.6.2011 | 21:16
Sunnudagur 12. júní 2011 - Að vera tekinn í kennslustund
Í dag lék ég minn annan leik fyrir Vaksala SK ...
... við vorum gjörsamlega teknir í kennslustund af einhverju liði sem ég man ekkert hvað heitir ...
Ég ætla ekkert að draga neinn sérstakan fram í dagsljósið í þessu samhengi en verð bara að segja að fótboltalið sem þorir ekki spila boltanum, dekkar hörmulega og enginn segir neitt við neinn, er ekki að fara að gera neinar rósir.
Veðrið var hinsvegar afskaplega gott og því eins og stundum áður, voru allar forsendur til að hlutirnir myndu ganga frábærlega ... en svona er þetta bara ...
Jarðaðir ... amen.
---
En til að taka eitthvað jákvætt út úr þessu má segja að þetta hafi verið ágætis hreyfing ... því vissulega tekur það á að vera í stöðugum eltingarleik í 70 mínútur.
---
Meðan þessi ósköp gengu á á fótboltavellinum í Vallentuna ... tóku aðrir heimilismenn á móti gestum, þeim Gunnari, Ingu Sif, Óla Má og Gerðu Maríu.
Mér skilst að það hafi gengið bara nokkuð vel, fyrir utan það hversu óstýrilát heimsætan var ... hlaupandi út um allar trissur, hlýðandi engu.
---
Í kvöld var svo farið á China River þar sem etinn var kínverskur matur á samt Sverri, Dönu og Jónda ... það lukkaðist með ágætum og allir fóru saddir og sælir heim þegar klukkan var eitthvað gengin í 10.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2011 | 21:18
Föstudagur 10. júní 2011 - Að rústa kerru
Þessi dagur fór í það að gefa eina undirskrift.
Já, afrakstur dagsins er að fara til Stokkhólms og fá neyðarvegabréf fyrir blessaðan drenginn, kvitta fyrir og fara heim.
Ferðin hefði á margan hátt getað verið skemmtilegri en það gaf tóninn þegar ég hrasaði við að stíga inn í lestina hér í Uppsala í morgun. Það verður ekki sagt um þessa lest sem fer milli Uppsala og Stokkhólms að hún sé í fyrsta flokki hvað aðgengismál varðar, en til að komast upp í hana þarf bæði að troðast inn um tiltölulega þröngar dyr og fara upp ein þrjú eða fjögur þrep til að komast upp á mjög þröngan pall en frá honum er svo gengið inn í farrýmið.
Ég tók því kerruna hennar Guðrúnar með hana innanborðs í fangið, eins og ég hef gert þúsund sinnum áður og ætlaði að stökkva inn í lestina, enda vorum við á síðasta snúningi með að ná henni, en þá vildi ekki betur til að vinstri fóturinn á mér fór beint ofan í bilið milli brautarpallsins og lestarinnar. Ég datt því inn í lestina og ofan á kerruna, og lagði bæði hana og GHPL saman.
Við nánari athugun kom í ljós að einhver járnstöng hafði bognað og eitthvað fleira látið undan ...
... en allavegana ... kerran var í fremur slæmu "ökuástandi" sem er auðvitað frekar óskemmtilegt þegar maður þarf að rúlla henni í fljótheitum á milli staða.
Annað í þessari ferð var í þessum anda ... þannig að skemmtanagildi dagsins var fremur lítið ... því miður því það voru svo sannarlega allar forsendur fyrir öðru.
Það verður bara að gera betur næst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2011 | 23:57
Þriðjudagur 7. júní 2011 - Guddan 3ja ára
Í dag rann upp sá mikli gleðidagur sem afmælisdagur Guddunnar er ...
Þrjú ár liðin síðan GHPL leit dagsins ljós í Sydney í Ástralíu. Þá var staðan svona ...
Í dag var öldin önnur ...
Þetta var ánægjulegur afmælisdagur ... þar sem ýmislegt var brallað ... teknar upp afmælisgjafir og borðuð afmæliskaka.
Veðrið lék líka á alls oddi ... hitinn fór hátt í 33°C í dag, sól og þægileg gola svona til að kæla mannskapinn svolítið.
---
Á þessum tímamótum má fara yfir nokkrar staðreyndir.
1. Guddan er 95,5 cm á hæð og vegur rúmlega 12 kg.
2. Guddan er með æði fyrir prinsessum og fer Öskubuska þar fremst í flokki.
3. GHPL finnst gaman að leika með strumpa og á eftir daginn fimm slíka.
4. Epli eru uppáhaldsávöxturinn og næst koma appelsínur og rúsínur.
5. GHPL finnst skemmtilegast af öllu að horfa á video.
6. Hún hefur komið til 11 landa.
7. Uppáhaldsbókin síðustu misserin hefur verið Prinsessubókin frá Walt Disney, Benni og Bára eru líka töluvert vinsæl.
8. GHPL notar ekki bleyju og hefur ekki gert það í nokkra mánuði.
9. Guddan blandar sænsku og íslensku saman í einn graut, þannig sjaldnast kemur óbrengluð setning út úr henni.
10. Syd Houdini getur verið ansi frek á köflum en nánast undantekningarlaust er þó hægt að tala hana til og ná góðu samkomulagi.
11. Hún ræðir aldrei um bróður sinn öðruvísi en að tala um "litla barnið".
12. Sverrir, Jóndi og Dana eru bestu vinir GHPL og getur hún ekki nefnt eitt þeirra á nafn öðruvísi en hin tvö nöfnin fylgi í kjölfarið.
13. GHPL hefur mikla tilhneigingu til að detta fram úr rúminu sínu á nóttunni. Rúmfjöl er því nauðsynleg.
14. Syd var geysilega hrifin af Barbapapa í marga mánuði en hefur nú alveg misst áhugann á þeim fígúrum.
15. GHPL kann að fara kollhnís.
16. Guðrún borðar aldrei hafragrautinn sinn á morgnana hjálparlaust.
17. GHPL kallar móðurbróður sinn "sleikjó" af því að hann gaf henni einu sinni sleikjó. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki tekist að leiðrétta það ennþá.
18. Houdini er hrædd við hunda en kann vel við ketti.
19. Guddunni finnst ís afskaplega góður.
20. GHPL kann stundum stafrófið en stundum ekki ... algengasti ruglingurinn er að kalla K X. Það er eins með tölustafina, stundum kann hún að telja upp að 13 en stundum ekki. Helsta vandamálið er að muna eftir þremur.
21. Guðrún þekkir þjóðfána Möltu. Svo kallar hún pólska þjóðfánann "mömmu" og fána Mónakó "Gí". Veit ekki af hverju.
22. Alltaf þegar Ísland ber á góma segir Guðrún alltaf "Ísland ... hitta fólkið".
23. GHPL finnst ákaflega gaman að dansa ... sérstaklega þegar KISS er spilað.
---
Hér er svo afmælisvideoið ...
Bloggar | Breytt 8.6.2011 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)