Færsluflokkur: Bloggar

Fimmtudagur 8. september 2011 - Dansskóli og höfuðverkur

Dóttirin fór í fyrsta danstímann í dag ... eftir því sem fréttir herma var sá dans í meira lagi skrautlegur.

Hún vék ekki spönn frá kennaranum allan tímann.  Ja ... vék ekki spönn frá kennaranum ... jú, í eitt skiptið þegar hún settist út við vegg til að horfa á ...

Mér skilst að þátttaka hennar í tímanum hafi verið eitthvað dræm - það var helst undir lok tímans að hún fékkst til að gera eitthvað. 

Kannski fannst henni dansinn ekki við hæfi ... hún er vön að dansa við alvöru rokktónlist, vera í kjól og snúa sér í hringi ... í tímanum var boðið upp á "höfuð, herðar, hné og tær"!!

Höfum það líka í huga mín elskulega dóttir var sú eina sem mætti í dansskóm í tímann ... allir hinir voru á skokkaleistunum. 

Það verður spennandi að sjá hvað gerist næst ...

---

Lauga hefur alltaf sagt að ég sé ofboðslega lélegur sjúklingur ... ég verði alltaf svo rosalega veikur, þó að "það sé ekkert að mér", eins og hún kýs að orða það.

Og af þessum sökum, þá ætlaði ég hreinlega ekki að verða eldri í morgun þegar ég vaknaði með dúndrandi höfuðverk fjórða daginn í röð ...

En það er ekkert skemmtilegt að lesa vísindagreinar og spá í gagnagreiningu verandi með súrrandi hausverk ... enda hef ég verið geðstirður ... jesús minn ...

Núna er ég þó allur að hressast ... hausverkurinn á undanhaldi ... bjartsýnin farin að láta á sér kræla.

---

Já og svo er kominn gálgafrestur á íbúðina ... við fáum 3 mánuði í viðbót þannig maður ætti að hafa tíma til að skera sig niður úr snörunni ... 

Nóg í bili ...

 

 


Þriðjudagur 6. september 2011 - Svona dagur

Ekki hefur leitin að nýrri íbúð borið árangur í dag ... 

... en unnið er að því hörðum höndum að setja allar klær út.  Það er ómögulegt að hafa þetta svona.

---

Til að gera þessa leit og allt mitt starf enn skemmtilegra hefur kvefið heldur sótt í sig veðrið í dag ...

---

Lauga fór til tannlæknis í dag ...

---

Það er enginn matur til í ísskápnum ...

---

Guddan pissaði á stofugólfið í dag ... í fyrsta skiptið í 250 daga.

--- 

Ég fór ekki á fótboltaæfingu í kvöld ...

 

...

æi ... hlutirnir einhvern veginn ekki alveg að gera sig í dag ...  


Mánudagur 5. september 2011 - Að láta sparka sér út úr íbúðinni

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er ég kominn með bullandi kvef núna ... skil að bara alls ekki ... en svona er þetta bara.

Það er komið á hreint að það á að sparka okkur út úr íbúðinni hið fyrsta ... alltaf hressandi ... þannig að það bíður okkar að finna nýja.
Þetta er auðvitað ekki alveg það sem er allra skemmtilegast í heiminum að gera en þarf engu að síður að gera stundum. Það sem setur samt smá skorður er leikskólavistin hjá fröken GHPL.  Maður nennir eiginlega ekki að vera að hjóla einhverjar ofsavegalengdir til að koma henni í og úr skóla.  

Svo vorum við einmitt svo glöð um daginn að við fundum einhvern fimleikahóp í nágrenninu hjá okkur og skráðum Gudduna í hópinn.  

Það er sum sé ofurlítil pressa að fara ekki mjög langt frá núverandi stað.

---

Annars er þetta bara með kyrrum kjörum. 


Sunnudagur 4. september 2011 - Sirkus, listasafn og 3-1

Guddan er "fíllinn"!  Eða svo segir hún sjálf ...

Þessi dægrin er hún sum sé í hlutverkaleik og nær hann yfirleitt hámarki í rúminu okkar en þar lætur "fíllinn" sig falla ótt og títt með miklum tilþrifum ... "fíllinn er að detta", öskur og svo dúar allt herbergið og hristist.

"Fíllinn" fær sér líka að "grekka" (drekka), hann fer að pissa og þarf að klæða sig ... og meira segja var "fíllinn" svo óheppinn í morgun að hann meiddi sig á fætinum.

Þessi fílasótt hefur verið í mjög örum vexti frá því að við fórum í Cirkus Maximum í gær.

 
Poppílát úr sirkusnum

Þegar GHPL er spurð hvað hafi verið skemmtilegast í sirkusnum, segir hún umsvifalaust að fílarnir hafi verið skemmtilegastir ...

... sem er alveg stórfurðulegt því það voru engir fílar á sýningunni, að ég best veit.

En Guddan nennir ekkert að hlusta á svoleiðis úrtölur ... 

 
Þessir hundar, já og póný-hesturinn, voru hinsvegar á sýningunni

---

Í dag skruppum við svo á listasafn Uppsala ... heldur betur fjör að vera þriggja ára þar!  Sérstaklega innan um keramikið ... einn safnvörðurinn fékk hér um bil slag þegar GHPL var langt komin í þeirri vinnu að taka upp stóran og mikinn frosk sem var með kórónu á höfðinu.  

"Ómetanleg verðmæti" sagði þessi ágæti vörður þegar hann hafði jafnað sig eftir mesta sjokkið.  ""Grúdan" (froskur á sænsku) með kórónu" sagði Guddan á móti og andlit hennar ljómaði eins og sól í heiði. 

Þessi ágæti safnvörður leit ekki sekúndu af okkur eftir þetta atvik og tók ávallt spígsporandi á móti okkur þegar við stigum út úr lyftunni sem flytur gesti milli hæða á safninu.  Hlýtur að hafa hlaupið eins og eldibrandur upp stigana ... 


Fyrir utan listasafnið sá GHPL þessa "fossa"

---

Leikur í kvöld í Rosernberg ... hann tapaðist 3-1 ... hlutdrægasti dómari sögunnar blés í flautuna.

Síðuhaldari lét það fara í taugarnar á sér og það endaði með því að fá gult spjald eftir að hafa neglt einhvern snillinginn niður af fullkomnum ásetningi ... ójá, þetta skap ... eftir spjaldið var karl rólegri en þar með er ekki sagt að hann hafi verið rólegur.


Föstudagur 2. september 2011 - Klipping og fyrsta máltíðin

Þá eru hlutirnir teknir að skýrast ... það er óhætt að segja að það sé nóg framundan ...

Þann 25. september fer ég til Eindhoven í Hollandi á ráðstefnu og verð með erindi þar ... sem verður skemmtilegt.  Frá Hollandi verður svo haldið til Íslands, þar sem ótal verkefni bíða mín og þaðan mun ég svo fara aftur til Svíþjóðar í byrjun október.

Svo verður gerð önnur atlaga og farið aftur til Íslands í lok október til að takast á önnur verkefni. 

Í millitíðinni þarf ég að vinna að greina- og fyrirlestraskrifum ... ég myndi eiginlega segja að stundaskráin sé að verða full, því svo þarf auðvitað að sinna fjölskyldu, vinum, fótbolta og tónlist. 

---

Í gær fór GHPL í klippingu í fyrsta skiptið á ævinni ... tja ... reyndar ekki í fyrsta skiptið.  Þetta var í annað skiptið en hinsvegar í fyrsta skiptið sem hún fór í klippingu og fékk klippingu.

Sú var nú heldur betur lukkuleg áður en farið var af stað.  Tilkynnti öllum, kunnugum sem ókunnugum hvert ferðinni væri heitið og hvað ætti að gera.

Hún settist hróðug í stólinn hjá rakaranum, sagði honum hvað stæði til, sagði konu sem kom inn á rakarastofuna einnig hvað væri í pípunum og svo var lagt í 'ann.

Allt gekk vel til að byrja með ... eða allt þar til klipparinn fékk þá flugu í höfuðið að úða vatni yfir hárið á henni.
Já, nei, nei ... hingað og ekki lengra ... þetta hafði GHPL ekki hugsað sem hluta af dílnum.  Hún algjörlega útilokaði frekari aðgerðir, reif af sér svuntuna og bjó sig til heimferðar.
Eftir miklar sáttatilraunir fékkst hún þó til að setjast aftur í stólinn ... en þá bara með þeim skilyrðum að hún myndi ekki hafa neina svuntu framan á sér og enga vatnsúðun - takk!! 

Af mikilli varfærni hélt klipparinn áfram starfi sínu og í þetta sinnið var vatni sprautað í greiðuna og hún svo borin ofurgætilega í hárið.
Þessi aðferð gekk allsæmilega þar til sú stutta fékk nóg ... ástæða þess var að svo mikið af hári var komið inn undir nærbolinn hennar að ómögulegt var að sitja kyrr ...

Aðgerðum var hætt áður en upp úr sauð ... dóttirin fékk afslátt af klippingunni því verkinu var langt frá því að vera lokið og toppurinn rammskakkur ...

Því miður hefur algjörlega láðst að taka mynd af hinni nýklipptu dóttur ... en það kemur ... 

---

Nafni er búinn að haga sér vel í dag ... eins og nánast alltaf ... hann fæst mest við að rúlla sér af baki yfir á maga og öfugt ... eða minnsta kosti reyna það.

Jú, og svo hámar hann í sig ávaxtamauk ... en slíkt er nú leyfilegt að gefa honum ...


Miðvikudagur 31. ágúst 2011 - Veltingur, dans og gjafir

Í dag sneri nafni sér yfir á magann í fyrsta skiptið ... sem er ekki lítill áfangi við 4 mánaða aldur ... allir lukkulegir með það.

Að öðru leyti hafa hlutirnir verið í nokkuð föstum skorðum í dag ... já nema að ég skrapp í fyrsta söngtímann minn í kvöld ... þ.e.a.s. fyrsta söngtímann síðan í maí.  Það var mjög skemmtilegt.

GHPL hefur auðvitað átt sína spretti eins og alltaf en ég bara man ekki neinn þeirra í augnablikinu.

 

Það má reyndar geta þess að Guddan er með algjöra dansdellu núna ... gengur um í kjól (eins og hún er búin að gera í marga mánuði reyndar) og dansskóm.

Ég var varla stiginn fram úr rúminu í morgun þegar hún kom til mín og bað mig um að kveikja á KISS svo hún gæti dansað ...

... það var gert stuttu síðar og dansinn dunaði um alla íbúðina áður en haldið var í leikskólann.

Já og þetta var óskalagið ...

Jú svo er gaman að segja frá því að þegar GHPL kemur heim úr leikskólanum færir hún mér alltaf gjöf.
Gjöfin samanstendur af hlutum sem hún finnur á leiðinni heim úr skólanum ...

Þetta gaf hún t.d. á mánudaginn ...
... reyniber (sem hún reyndar kallaði appelsínur), tvö blóm og flautu (sem reyndar var sogrör sem hafði munað sinn fífil fegurri)

 

Í gær færði hún mér fleiri reyniber (sem reyndar þá hétu vínber) og lítið brot sem ég hélt að væri glerbrot en var víst úr plasti ...

 


Þriðjudagur 30. ágúst 2011 - Allt að gerast

Þetta hefur verið hinn ágætasti dagur ... það sem stendur upp úr er auðvitað fjögurra mánaða afmæli míns ástkæra sonar.

Við héldum upp á það í kvöld ... 

 

Svo fékk ég afar jákvæða umsögn frá hljómsveitinni sem ég hitti á sunnudaginn.  Umsögnin var eitthvað á þá leið að ég hefði verið frábær ... sérstaklega þegar við æfðum saman Rock and roll all nite með KISS.
Það er mikil synd að þetta skyldi ekki ganga upp vegna vegalengdar milli staða ... en auðvitað er ekki hægt að eyða næstum 2 klukkutímum í að koma sér á milli staða ... eða hátt í fjórum tímum í það heila, einu sinni eða tvisvar í viku.

Þá gerðist það í kvöld að loksins fékk ég svar frá vísindatímaritinu sem ég sendi grein til 20. janúar sl. Eins og mér skilst að raunin sé í langsamlega flestum tilfellum, þá fékkst greinin ekki samþykkt í fyrstu lotu en ritstjóri þess vill að ég lagi hana m.t.t. þeirra athugasemda sem gerðar voru en þrír yfirlesarar fóru yfir hana.  

Þeir voru eiginlega eins ósammála um gæði hennar og hægt er.  Einn segir hana mjög vel gerða og segist hlakka til að sjá hana á prenti, næsti segir hana góða og vel gerða en kemur með nokkrar athugasemdir en sá þriðji hefur þetta meira og minna allt á hornum sér.

Nú þarf að leggjast yfir þetta og koma þessu svo aftur til blaðsins.  

 

Síðast en ekki síst er vert að geta þess að við Guðrún skelltum okkur í sirkus í dag ... og GHPL fannst það stórkostlegt ...

"Meiri sirkus" sagði hún um leið og sýningunni lauk ... en þess má geta að við stefnum á að fara í Cirkus Maximum, líkt og við gerðum í fyrra, um helgina.

 


Mánudagur 29. ágúst 2011 - Annasamir dagar!

Jæja ... síðustu dagar hafa verið mér að skapi ... með öðrum orðum, það hefur allt verið á útopnu.

Á laugardaginn fórum við fjórmenningarnir í giftingarveislu til Stokkhólms, en þar voru Rolf frændi minn og Sandra að gifta sig.

Ég verð bara að segja það, með allri virðingu fyrir öllum giftingum sem ég hef farið í um ævina, að þessi fer klárlega á "topp þrjú".  Hún var hrein snilld bara ...

Það var gott garðpartý sem byrjaði klukkan 14 í glæsilegu veðri, svo var létt en afar vel útilátið hlaðborð kl. 15. Vígslan var svona um 5-leytið, svo kaka og ball og leikir. Svo hætti hljómsveitin um tíu-leytið og þá var komið grillhlaðborð ... 

Allt og allir bara í léttum gír ... formlegheitin afskaplega hæfileg og bara almenn gleði ... 

Samt held ég að enginn hafi eignast fleiri nýja vini í þessu partýi en GHPL ... hún gekk á milli borða og spjallaði við fólkið, brá á leik við suma, dansaði, lék á trommur og hristur, ... og já, gerði bara það sem henni datt í hug, alveg þangað til hún lognaðist útaf kl. 22.

Á heimleiðinni var henni svo skellt í barnavagninn, en í honum hefur hún ekki sofið síðan hún var 6 mánaða.  Til frekari skýringar má geta þess að hægt er að setja tvær mismunandi körfur á vagninn.  Sú sem er í notkun núna er fyrir börn 0 - 6 mánaða, hin er frá 6 mánaða til 4 ára aldurs.  
Það fór ekki á milli mála að blessuð dóttirin hefur stækkað mjög mikið ... 

Nafni var hinsvegar settur í "Baby-Björn" enda auðveldara að bera hann sofandi framan á sér, heldur en hina "stóru" systur.

---

Sunnudagurinn var líka ævintýralegur, þó ævintýrin hafi verið dálítið annars eðlis.

Ég byrjaði á því að ég fór alla leið suður í Gottsunda á hljómsveitaræfingu ... með gaurunum sem ætla að spila Jimi Hendrix á Menningarnótt eftir 2 vikur.
Ég var nú fljótur að átta mig á því að Jimi Hendrix er sennilega ekki sá listamaður sem ég ætti mikið að fókusera á sem söngvari ... í það minnsta fann ég mig engan veginn ...

Þar fyrir utan leist mér alveg temmilega vel á þessa ágætu menn.  Standardinn var frekar lágur og enginn fílingur ... í það minnsta hjá mér ...

Eftir 1,5 tíma var bara pakkað saman og meðleikarar mínir virtust bara himinlifandi yfir "session-inni" ...

Sjálfur var ég mjög efins ... svo efins að í morgun, dró ég mig út úr þessu dæmi ...  

---

Ég fór heim og næst á dagskrá var bara að fara að undirbúa fótboltaleik kl. 18 ... en þá kom góður tölvupóstur.

Hljómsveit í Stokkhólmi vildi fá mig í prufu ...

Þá þurfti bara að "cancella" leiknum og fara að undirbúa prufuna ...

Óhætt er að segja að "session-in" í Stokkhólmi hafi verið skemmtileg ... hún var alveg ógeðslega skemmtileg ... og það var rokkað alveg út í eitt ... flottir gaurar með góðan metnað og góðir á hljóðfærin og með sama tónlistarsmekk og ég ... þetta var fullkomið!!

Þessir ágætu menn vildu ólmir að ég kæmi inn í bandið og ég var mjög ánægður með það ...

... en svo kom babb í bátinn ...

Þegar ég sagði þeim að ég byggi í Uppsala kom efatónn ... og í morgun sögðu þeir að þeim fyndist ómögulegt að hafa söngvara sem byggi svona langt frá ... 

... og ég man ekki hvað er langt síðan ég varð jafn spældur!!!  Og ég er búinn að vera hrikalega spældur í allan helvítis dag ...

En koma tímar koma ráð!! 

Hér er sýnishorn af því sem tekið var í gær ...

 


Föstudagur 26. ágúst 2011 - Dagurinn í dag

Fór og hitti leiðbeinandann minn í dag ... það er víst meiningin að taka hlutina föstum tökum í haust með það að markmiði að sigla þessari doktorsgráðu í höfn á næsta ári.

Ég ætti að vera kominn algjörlega með þetta á beinu brautina ... ja eða næstum því ... ofurlítið praktískt mál sem þarf að leysa og áður en á beinu brautina er komið.

---

Annars hefur þessi dagur liðið eins og margir aðrir fyrir framan tölvuna, þar sem unnið er að því að leysa vandamál heimsins.

---

Allir við hestaheilsu hérna ... og bara reddí fyrir giftingu sem við erum að fara í á morgun í Stokkhólmi.

Meira um það síðar.

Núna fer maður bara og leggur sig.

 


Fimmtudagur 25. ágúst 2011 - Tíska, Jimi og ungir Íslendingar sem ná árangri

Mér er sagt að það hafi verið magnað í morgun kl. 6 þegar Guddan reisti sig upp í rúminu sínu og sagði glaðlega: "Hæ mamma, ég er vöknuð!!"

En svo lagði hún sig bara aftur og svaf í 2,5 tíma í viðbót.

---

Það er búið að græja dansskóna ... og Guddan hefur ekki fengist til að fara úr þeim síðan ... gengur um íbúðina í kjól, með hálsmen og armbönd, já og í dansskónum ...

Ég segi það aftur ... ég skil ekki hvernig þriggja ára gamall barn getur haft svona mikinn áhuga á þessu ... það er allavegana ljóst að ég ber ekki ábyrgð á þessu verandi 99% í gallabuxum, T-bol og rauðri flíspeysu, sem allir eru að fá ógeð af nema ég sjálfur ... 

Svo byrjaði blessað barnið á þessu í dag ... sjá myndband ...

---

Nafni hefur verið á ferð og flugi með móður sinni í allan dag ... mér skilst hann hafi verið dálítið vælinn, jafnvel gæti hann verið að taka tennur ... það er þó ekki vitað ...

---

Svo allt í einu í kvöld bar leit mín að hljómsveit árangur ... þrjú tilboð bárust á klukkutíma ...

Niðurstaðan er allavegana sú að ég er búinn að boða mig á hljómsveitaræfingu á sunnudaginn næsta.  Það er bara meiningin að byrja létt eða þannig ... planið er að vera með Jimi Hendrix prógramm á Menningarnótt 2011 hér í Uppsala þann 10. september nk.

Málið er að ég hef aldrei sungið Jimi Hendrix ... mér hefur bara aldrei dottið í hug að syngja Jimi Hendrix og þessi lög sem þessir gaurar eru með í huga ... ég hef aldrei einu sinni heyrt þau ...

... en ég ætla að sjá hvað ég get gert í málinu ... smá "challenge" ... ég er alveg kominn í þörf fyrir slíkt. 

---

Svo sá ég afar hallærislega frétt á DV.is í dag sem fjallaði um að Kastljósstýran fyrrverandi, Ragnhildur Steinunn væri að gera heimildarmyndir um unga Íslendinga sem hefðu náð árangri.

Að sjálfsögðu var tíndur til tónlistarmaður, fatahönnuður og íþróttamaður, auk tveggja leikara.

Auðvitað ætla ég ekki að gera lítið úr árangri þessa fólks, hann er allrar athygli verður og sjálfsagt hafa þessir aðilar þurft að hafa verulega fyrir hlutunum.  Það hallærislega í þessu er að það er alltaf eins og enginn geti náð árangri í neinu nema vera listamaður, hönnuður eða íþróttamaður.

Það er fullt af fólki t.d. á sviði raun- og félagsvísinda sem er að gera frábæra hluti og hefur náð árangri sem er alveg á pari við það hönnuðina, lista- og íþróttafólkið. 
Það er fólk í heilbrigðisgeiranum sem er að gera mjög merkilega hluti.  Hvað með iðnmenntað fólk? Fólk sem starfar innan landbúnaðargeirans eða á sviði ferðamála?

Manni finnst stundum að það megi alveg líta aðeins upp og í kringum sig ... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband