Færsluflokkur: Bloggar
8.10.2011 | 19:46
Laugardagur 8. október 2011 - Aftur til Svíþjóðar
Þá er maður aftur kominn til Svíþjóðar eftir svolítið flakk.
Ráðstefnan í Eindhoven í Hollandi í lok september heppnaðist ágætlega. Alltaf gaman að kynna þau verkefni sem maður er að vinna að, þó svo ég hafi nú alveg átt betri dag í púltinu en þann 27. september sl.
Frá Hollandi hélt ég áleiðis til Íslands til að vinna þar í nokkra daga. Sú ferð gekk bara mjög vel og náði ég að koma nokkrum málum á góðan rekspöl.
Á Fróni lagði ég land undir fót og heimsótti Hellissand í fyrsta skipti á ævinni. Þó svo ég hafi nokkrum sinnum keyrt Snæfellsneshringinn hef ég aldrei haft fyrir því að líta við á "Sandinum". Veðrið hefði nú alveg mátt vera betra í þessari ferð en mígandi rigning var alla leiðina.
Að öðru leyti vann ég að húsakönnun bæði á Djúpavogi og Blönduósi, lagði hönd á plóg varðandi verkefni á Höfn í Hornafirði, fundaði með samstarfsmönnum á Landspítalanum og hitti Sævar félaga minn hjá Netspori. Þá er að sjálfsögðu ónefnd vinnan við ferðamálakönnunina sem fór fram á Djúpavogi í sumar.
Þar fyrir utan hitti ég auðvitað vini og vandamenn ... sumsé afar vel heppnuð ferð ...
---
Núna tekur við annars konar vinna ... það er við doktorsverkefi mitt og undirbúningur fyrir fjóra fyrirlestra sem halda á, á Íslandi og í Svíþjóð í byrjun næsta mánaðar.
Það er sumsé nóg framundan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2011 | 23:30
Föstudagur 23. september 2011 - Tónlistarstund
Húsnæðisleitin gengur nú ekkert sérstaklega vel ... talsvert búið að gera til að reyna að næla í íbúð en lítill árangur hefur náðst ... tja ... enginn árangur hefur náðst er nú sjálfsagt réttara.
Það virðist sem það sé bara engin íbúð á lausu í bænum ... við munum bara flytja til Sverris, Jónda og Dönu með þessu áframhaldi. Ég tilkynnti Sverri það í dag ... hann tók fréttunum af stóískri ró. Það er bara ein regla sem hann setur sem skilyrði fyrir að við búum hjá þeim ... að við skiljum ekki eftir logandi ljós ef það er engum til gagns.
Íslendingar eru nefnilega ansi gjarnir á að skilja ljós eftir logandi ... það hefur maður orðið mjög var við eftir að maður flutti til útlanda. Svo eru Íslendingar líka mjög ósparir á vatnið ...
En nóg um þetta ...
---
Það er mjög gaman að því hversu mikið GHPL er farin að vera meðvituð um sig og sitt umhverfi.
Þessa dagana má ekki nefna nafn hennar öðruvísi en hún taki það fram að "þetta sé Gí" eða "þetta sé Guðrún" og bendi á sjálfa sig.
---
Palli Pípus er þessa dagana að taka tennur og ber því nafn með rentu ... pípir heil ósköp ... en er þess á milli bara hress og glaður.
---
Annars skrapp ég á hljómsveitaræfingu í Stokkhólmi í gærkvöld ... ágætis æfing ... þar sem unnið var með sama efni og á síðustu æfingu, þ.e. Guns and Roses, ACDC og Rolling Stones.
Ítreka það sem ég sagði í síðustu viku ... þessi ACDC lög eru alveg hrikalega erfið í flutningi vegna þess hversu hátt laglínan liggur ...
Tónlistaráhuginn er að breiðast sannfærandi út meðal heimilismanna hér ...
... einn daginn á þetta eftir að verða eitthvað ;)
Bloggar | Breytt 24.9.2011 kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.9.2011 | 21:56
Miðvikudagur 21. september 2011 - Leikfimitími nr. 2
Leikfimitími nr. 2 var í dag hjá Guddunni. Svo mikið var fjörið að hún vildi alls ekki fara heim þegar tíminn var á enda runninn.
"Meira, meira" gólaði hún og spriklaði í fanginu á mér þegar ljóst var að hún myndi ekki yfirgefa salinn hjálparlaust ...
Það er óhætt að segja að GHPL hafi farið sínar eigin leiðir í tímanum líkt og í síðasta tíma ... en hún stóð sig samt afar glæsilega og var glöð og hress allan tímann ... sem er nú eiginlega það sem mér finnst þetta snúast mest um.
---
Innanhúsfótboltaskórnir voru dregnir fram í kvöld eftir langt hlé ... fótboltinn svona fremur stirður í fyrsta tímanum en það hlýtur að koma.
Svo er ég að velta fyrir mér hvort sé sé með brákað rifbein ... fékk hrikalegt högg í leiknum fyrir 10 dögum og svo aftur í leiknum um helgina á nákvæmlega sama stað. Síðan þá er eins og eitthvað "klikki" í einu rifbeininu.
Ég hef heyrt að það sé svo hrikalega vont að bráka rifbein, og þess vegna er ég í vafa ... því þetta er ekki hrikalega vont, þó vissulega sé vont í einhverjum tilfellum að reisa sig upp. Það er t.d. ekkert hrikalega vont að hósta ...
... kannski er ég bara svona hraustur ... :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2011 | 20:32
Þriðjudagur 20. september 2011 - Áheyrnarprufa
Skrapp í áheyrnarprufu í kvöld hjá Svenska Showorkestern Phontrattarne og tók þar tvö lög sóló og eitt í kvartett.
Gekk ágætlega með lögin tvö en kvartettinn var út og suður svo ekki sé meira sagt ...
Það gæti verið áhugavert að komast þarna að ... regluleg gigg og svo sýningar í vor og túr suður til Evrópu í sumar.
Annars er ég alveg hóflega bjartsýnn á að þetta gangi ... það verður gert kunngjört á næstu vikum.
---
Annars hef ég verið að undirbúa fyrirlesturinn fyrir Eindhoven-ráðstefnuna sem verður í næstu viku. Nokkur atriði þar sem þarf að fara betur yfir ... og það verður gert á morgun ...
---
Aðrir heimilismenn eru bara hressir ...
Svo gerðist sá merkisviðburður að Guddan borðaði í fyrsta skipti fisk í kvöld ... ég ætlaði hvorki að trúa mínum eigin augum né eyrum.
Stubbi er sem fyrr ákaflega duglegur við át og glittir nú meira að segja í tvær tennur sem munu gera átið auðveldara viðfangs í framtíðinni ef af líkum lætur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2011 | 21:09
Sunnudagur 18. september 2011 - Fótbolti
Þá er keppnistímabilinu í fótbolta lokið hér í Upplandi. Við fengum hlægilega útreið í síðasta leiknum sem fór fram í Knivsta.
Ekki var það vegna þessa að mótherjar okkar væru einhverjir sérstakir snillingar ...
Síðuhaldara tókst þó loks að setja mark í leiknum og það af dýrari gerðinni, en það mark breytti nú engu varðandi leikinn.
Það verður þó að segjast um þennan leik að sennilega hef ég snert boltann oftar í honum en samtals í síðustu þremur leikjum liðsins. Sverrir vinur minn orðaði það ágætlega um daginn þegar hann sagði það undarlega áráttu hjá liðinu að láta miðjumenn þess vera í hlutverki tennisnets leik eftir leik ... ég held að það segi allt sem segja þarf um leikskipulag liðsins.
Ég held að það sé ljóst að annaðhvort verða skórnir lagðir á hilluna eða ég mun fara leita mér að öðru liði.
Hugsa nú að hið síðara verði ofan á ... enda engin ástæða sérstök að leggja skónum.
---
Móttökurnar sem ég fékk þegar ég kom heim eftir kjöldráttinn í Knivsta voru hinsvegar afar góðar ... "hæ, pabbi ... kominn aftur heim til prinsessunnar!!" ... og svo hljóp hún til mín og kyssti í bak og fyrir.
Einhver sem getur toppa þetta??
---
Í hádeginu skruppum við fjórmenningarnir, þ.e. Lauga, Guddan, Pípus og ég, í fótbolta. Pípus tók nú reyndar lítinn þátt en gaf sitt samþykki fyrir aðgerðum með því að sofa og vera til friðs meðan leikar stóðu sem hæst.
Eins og stundum áður fór GHPL á kostum ... var 95% tímans með boltann, gaf helst ekki á aðra og þessi 5% tímans sem hún var ekki með boltann kallaði hún í sífellu "min tur, min tur" sem útleggst á íslensku "nú má ég gera, nú má ég gera".
En í dag skoraði hún sitt fyrsta mark ... svo því sé haldið til haga.
Fótboltinn enda svo skyndilega þegar GHPL átti að fara aftur í peysuna sína sem hún var búin að rífa sig úr.
Því var mótmælt hástöfum en án árangurs og þar með gat þessi fótbolti allur saman bara átt sig ...
Því miður gleymdist myndavélin að þessu sinni en ...
---
Guddunni er ýmislegt til lista lagt ... þessa mynd tók hún t.d. fyrir nokkrum dögum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.9.2011 | 21:42
Laugardagur 17. september 2011 - Uppeldi og sprell
GHPL gengur vasklega fram í uppeldishlutverkinu.
Síðastliðna daga hefur Palli P. fengið ákúrur frá systur sinni fyrir að halda ekki fyrir munninn þegar hann hóstar.
Hann er líka skammaður þegar hann sparkar í fólk. "Má ekki sparka í fólk!!" segir GHPL og horfir ákveðin í fullkomlega skilningsvana augu hans.
Guddan er líka alveg hörð á því að flugur heiti "fluvur" og þegar hún slær til þeirra, þá "stangar hún fluvurnar".
---
PJPL er mathákur mikill ... ólíkt systur sinni ... hann rúllar 2 - 3 glösum af barnamat upp á hverjum degi auk þess að fá sér mikið að drekka.
Já, og svo er hann bara slatta gráðugur. Þegar etið er með skeið, opnar hann ginið og slengir höfðinu snöggt í áttina að skeiðinni og kokgleypir hana og allt sem í henni er. Það er svo reyndar undir hælinn lagt hvort matvælin fara ofan í hann eða út úr honum ... ræðst af ýmsum hlutum ...
En það sem auðvitað það albesta með PJPL, og þetta hefur ég nefnt nokkrum sinnum áður, er hvað hann er glaður.
Þó hann eigi það til að pípa dálítið stundum og hefur af þeim sökum hlotið viðurnefnið Pípus, þá er hann alveg æðislega skapgóður.
---
Ég skrapp til Stokkhólms í dag að hitta Norsara einn, ... hljómborðsleikara sem reyndar býr í Uppsala ... og við vorum að kíkja á tónlist sem hann hefur verið að setja saman. Það var mjög skemmtilegt verð ég að segja ... tókum um 1,5 klukkutíma session ...
Það verður gaman að sjá hvernig vefst upp á þetta samstarf, sem við erum báðir áhugasamir um að láta halda áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2011 | 21:48
Miðvikudagur 14. september 2011 - Leikfimitíminn
Það er einfaldlega ekki hjá því komist að glotta út í annað þegar dóttir segist vilja á "kodda fleks" á diskinn sinn ... en á þá að sjálfsögðu við hið fræga Corn Flakes.
---
Í dag fór heimasætan á "fimleikaæfingu" ... eða kannski ætti bara frekar að kalla þetta "leikfimiæfingu".
Henni fannst víst gaman, eftir því sem áreiðanlegar heimildir herma ... ekki er nokkur lifandi leið að reyna að draga orð af viti upp úr barninu varðandi þessa æfingu.
Eina sem ég fékk uppgefið hjá ungfrúnni var að öskrandi ljón hefði verið í salnum og þegar ég spurði hvort ekki hefði verið gaman þegar fíllinn kom, þá kinkaði hún ákaft kolli.
Áreiðanlegri heimildir segja hvorki ljón né fíl hafa verið á staðnum. Hinsvegar hafi GHPL tekið leiðsögn fremur illa.
"Einbeitingin er nú ekki mikil hjá henni" sagði móðir hennar og setti aðeins í brýnar um leið.
GHPL stóð ekki röð eins og átti að gera, faðmaði kennara ótt og títt sem ekki var ætlast til að gert væri, hljóp út í miðjan salinn þegar átti að hlaupa að veggjunum og fór kollhnís þar sem átti ekki að fara kollhnís, einfaldlega vegna þess að það var gaman að fara kollhnís á þessum tiltekna stað.
"Hún stóð sem hinsvegar mjög vel í nafnakallinu ... það kom mér á óvart" sagði móðirin um það leyti sem frásögninni lauk.
---
Palli P. fór með í leikfimitímann og var bara hinn hressasti með það. "Ótrúlega duglegur" var einkunnin sem hann fékk.
Annars verð ég nú eiginlega að fara að segja einhverjar sögur af honum ... Guddan "dóminerar" allar frásagnir ... ef ég "dóminera" þær ekki sjálfur.
Nenni ekki að skrifa meira ... og nenni ekki að setja neinar myndir ... þannig að ...
... en ég vil fá eitthvert komment á þessa færslu ... það er of langt síðan einhver kommentaði síðast!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.9.2011 | 21:27
Þriðjudagur 13. september 2011 - Að spila veiðimann og velta sér
Guddan er búin að eignast sinn fyrsta alvöru vin ... svona samloku-vin ... vin sem hægt er að hanga með allan daginn út og inn.
Sá heitir Noa og með GHPL á leikskólanum. Alveg hreint dásamlegt! Persónulega myndi ég ekki geta unnið mér það til lífs að þekkja Noa úr hópi barna ... en það skiptir ekki öllu máli ... ef Guddan gerir það þá er það í sjálfu sér alveg nóg.
---
Í gær spiluðum við Lauga og Guddan veiðimann. Sú stutta spilaði með báðum liðum, fyrst með móður sinni gegn mér en svo sameinuðumst við feðginin.
GHPL tók mjög virkan þátt í spilamennskunni og fagnaði nánast hverju spili sem dregið var úr bunkanum.
"Þetta er fristur!!" hrópaði hún af einskærri gleði þegar ég dró þrist. "Þetta er femma" sagði hún svo þegar fimma birtist.
Þessi köll voru að sjálfsögðu nokkuð bagaleg fyrir spilamennskuna ... en það var Guddunni alveg sama um. "Níu" sagði hún þegar hún benti á sexuna sem ég var með á hendi.
Ég spurði hana hvaða spil við ættum að spyrja mömmu hennar um.
"Áttu A?" spurði GHPL þá og átti að sjálfsögðu við ás en eins og flestir vita stendur A á ásunum.
Svo kom aðalspurning spilsins: "Áttu prinsessu?"
"Það er engin prinsessa í spilastokknum ... bara drottning ... og svo kóngur og gosi"
"Nei ... prinsessa" sagði hún ákveðin.
Til að gera langa sögu stutta fékkst enginn botn í þetta, sama hversu mikið málið var útskýrt. GHPL vildi fá prinsessu og engar refjar.
Þess má svo geta að spilinu lauk með sigri okkar feðginanna ;) .
---
Svo verð ég auðvitað að nefna minn ástkæra son ... Palla Pípus ... sem er svo sérstaklega glaður og hress.
Hann er mikið að bardúsa í því að liggja á maganum og er farinn að velta sér töluvert fram og aftur. Veltingurinn reynist þó stundum þrautin þyngri, sérstaklega þegar velt er yfir á magann og önnur höndin lendir undir belgnum og situr þar föst.
Þá pípir hressilega í Pípusi.
---
Dagleg störf hafa verið hefðbundin þessa tvo virku daga vikunnar sem liðnir eru.
Ég ákvað hinsvegar að þiggja boð um hljómsveitaræfingu í Stokkhólmi í kvöld. Söng þar Rolling Stones, Guns and Roses og ACDC.
Það verður að segja með þessa ACDC slagara að þeir eru alveg djöfulli erfiðir viðfangs ... laglínan liggur svo hrikalega hátt að það er nánast ógjörningur að syngja þessi lög nema rústa hreinlega í sér röddinni.
Stones-lagið steinlág og Guns and Roses var ok.
Ég ætla að sjá aðeins hvað setur með þessa hljómsveit ... kíki á aðra æfingu í næstu viku ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2011 | 21:03
Sunnudagur 11. september 2011 - Menningarnótt í Uppsala
Í gær var Menningarnótt hér í Uppsala og við drifum okkur út skömmu eftir hádegið ...
... veður gott og allt leit bara ljómandi vel út ...
Við hittum Sverri, Jónda og Dönu fljótlega eftir að við komum niður í bæ, fengum okkur aðeins að borða og svo fórum við að leita að einhverjum menningarlegu fóðri.
Eins og stundum á svona dögum þá er úrvalið svo hrikalega mikið að maður veit varla í hvorn fótum maður á að stíga ... og loks er ákvörðun tekin og lagt af stað, tja ... eiginlega í þeim eina tilgangi að vera mættur á staðinn þegar atriðið er búið.
Það gerðist nokkrum sinnum í gær ... en sumu náðum við ... og það var nú mismerkilegt ...
Þó verður að segja að gospel-tónleikar sem haldnir voru í Konserthuset voru frábærir ... reyndar máttum við þakka fyrir að geta hlustað á því að Guddan tók eina öfluga syrpu rétt áður en tónleikarnir hófust ...
... en blessað barnið hafði sofnað í vagni bróður síns, meðan við vorum í röðinni að bíða eftir að komast inn í salinn og tók það vægast illa upp að fá ekki að sofa ótrufluð áfram en þess á geta að vagnar voru ekki leyfðir í tónleikasalnum.
Nafni skemmti sér hinsvegar ákaflega vel og var mjög hugfanginn af "ljósashowinu" sem í boði var.
Já og svo enduðum við herlegheitin á að hlusta á tónleikana hjá snillingunum sem ég fór á æfingu með um daginn ... Jimi Hendrix bandið ...
... ég þakka guði fyrir að hafa kúplað mig út úr því ... ekki beint glæsilegt ... segi ekki meira ...
Kvöldið endaði svo í afskaplega góðri grillveislu heima hjá Sverri og Dönu.
Dana og nafni í gær
---
Í dag voru hlutirnir með öðrum hætti því ég við vorum bara heima ... ég að vinna og já bara allir að vinna ...
Svo var leikur í kvöld í mígandi rigningu ... enn tapar maður ... mikið er maður orðinn þreyttur á því ... en liðið er nú bara ekki burðugara en þetta.
Og svei mér þá ... ég er bara lemstraður eftir þennan leik ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2011 | 21:46
Föstudagur 9. september 2011 - Rólegur föstudagur
Þetta hefur verið svona hálfgerður letidagur í dag ...
... reyndar hitti ég leiðbeinandann minn eftir hádegið og við vorum að ræða málin allt til klukkan var orðin langt gengin fimm.
Vísindagrein nr. 2 er langt á veg komin og við stefnum að því að senda hana inn til einhvers vísindatímarits í lok mánaðarins eða í byrjun þess næsta.
Svo vorum við að ræða hvernig ætti að taka á fyrirlestrinum sem ég á að halda í Eindhoven í Hollandi eftir rúmar 2 vikur.
Það er sumsé allt í gangi ...
---
Aðrir fjölskyldumeðlimir eru við ágætis heilsu ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)