Færsluflokkur: Bloggar

Sunnudagur 11. desember 2011 - Jingle All The Way

Í dag var farið í könnunarleiðangur um nýja hverfið ... fundum bæði DVD-leigu og pizzastað ... meira að segja tvo.  Föstudagskvöldunum er þar með reddað, því við höfum svolítið verið í því að fá okkur pizzu og video á þeim kvöldum. 

Síðasta föstudagskvöld fór t.d. svolítið úr skorðum af því að við vorum ekki búin að afla okkur þessara "basic"-upplýsinga. Þess vegna enduðum við í Næturvaktinni, sem er eins og ég hef áður nefnt er tær snilld. Þar á undan höfðum við reynt að horfa á stórmynd með Arnold Schwarzenagger ... Jingle All The Way eða eitthvað álíka "konfekt".

Satt best að segja finnst mér hálfkjánalegt að vera setja það fram hér að ég hafi eytt hluta úr lífi mínu í að horfa þá þessa Schwarzenagger mynd. Fyrir utan að vera tómt rugl, var þetta svo hrikalega illa leikið að mann verkjaði. En jæja ... tveir tímar á föstudagskvöldum eru annars einu klukkustundir vikunnar sem ég nenni að horfa á sjónvarpskjá enda finnst mér harla tilgangslaust að sitja grjótfastur í sófanum og horfa á líf, ástir og örlög annars fólks. Ég hef tekið þann pól í hæðina að vera frekar í því að skapa og taka þátt í eigin tilveru. 

Af þessari ástæðu verður mér alltaf dálítið illt þegar rætt er um "afþreyingu" ... til hvers þarf maður afþreyingu? Afþreying er stórkostlega ofmetið fyrirbæri að mínu mati ... ekki síst í ljósi þess að maður fær nokkur ár í þessum heimi og algjörlega óvíst um framhaldið eftir það ...

Hefur maður virkilega ekkert betra við tímann að gera en að drepa hann? Vera helst í þannig stöðu að maður taki ekki eftir tímanum? Flýta sér að klára lífið?

Mörgum finnst ofboðslega leiðinlegt að bíða. En af hverju að láta sér leiðast þegar maður bíður? Ef maður bíður í 10 mínútur og lætur sér leiðast, þá hefur maður í raun sólundað 10 mínútum af lífi sínu í ekkert nema ónauðsynleg leiðindi. Af hverju ekki að finna blóðið renna um æðarnar þessar 10 mínútur eða kanna hvort öndunin sé grunn eða djúp? Eða slaka á í kjálkunum ... eða upphugsa brandara eða margfalda 2417 x 243 í huganum? Rifja upp höfuðborgirnar í Evrópu eða bara gera ekki neitt?

Margir hafa kvartað í mín eyru yfir því hvað er leiðinlegt að fljúga ... og þá er ég ekki að tala um fólk sem er flughrætt heldur bara þeir sem segja að það sé "ekkert að gera". Hvað með að taka með sér skrifblokk og skrifa niður 100 markmið sem gaman væri ná áður en yfir lýkur. Þriggja tíma flug til Evrópu er allt of stutt til þess arna.
Einu sinni sat ég í vélinni frá Stokkhólmi til Keflavíkur og horfði út um gluggann alla leiðina og hugsaði ekkert. Á sama tíma fylgdist með önduninni hjá mér og fann hvernig losnaði um hvern vöðvann á fætur öðrum. Var gjörsamlega í núinu í um þrjá klukkutíma og var mjög frískur þegar ég kom til Keflavíkur.

Hver þarf á því að halda að horfa á Jingle All The Way?!? 

... jæja ... gæti haldið áfram ... ætla samt ekki að gera það. Þarf að fara að sofa.


Laugardagur 10. desember 2011 - Söngæfing og kaffiboð

Þetta hefur verið nokkuð langur og strangur dagur í dag ... en klárlega mjög skemmtilegur.

Hjá mér hófst þetta allt með því að fara á skemmtilega söngæfingu í morgun heima hjá Jóhönnu og Bjarna. Það er nefnilega verið að útbúa prógrammið fyrir jólamessuna sem verður um næstu helgi. Stefnir í ágætis stuð þar. Það var ákveðið að poppa dálítið upp og sleppa því að syngja "Nóttin var sú ágæt ein" ... persónulega er ég mjög ánægður með það. Það er nú búið að syngja það síðustu tvær jólamessur.

Æfingin tók svolítinn tíma og þegar henni lauk, var ekki annað en að þjóta niður í bæ til að hitta Laugu og pottormana. Leiðin lá í kaffiboð hjá Jónínu og Jóa í Lövstalöt. Þar var nokkuð um manninn, bara fínasta stemmning og góðar veitingar. 

Við komum heim upp úr klukkan 8 og þá var málið að skreppa aðeins út í búð, elda eitthvað smotterí og kljást við litlu snillingana. Við vorum búin að borða klukkan 10. Að klára að borða á þeim tíma sólarhringsins er absúrd í Svíþjóð. Örugglega eitthvað í líkingu við ef kvöldmatur væri borðaður milli kl. 1 og 2 eftir miðnættið á Íslandi. Enda er það svo að maður horfir út um eldhúsgluggann meðan etið er og það er slökkt hjá öllum nágrönnunum ... allir farnir að sofa ... geri ég ráð fyrir.

Er þetta ekki orðið fínt? 


Föstudagur 9. desember 2011 - Afmælisbarn dagsins og ónæmi fyrir hlaupabólu

Í dag er afmælisdagur pápa míns og hann væri orðinn alveg snargamall ef hann væri enn á lífi ... eða 87 ára gamall. Ég hef oft spáð í hvaða átt líf hans hefði tekið á efri árum hef til þess hefði komið ... og satt best að segja hef ég alls ekki komist að neinni niðurstöðu.

En allavegana ... afmælisdagurinn hans er í dag og af því tilefni fengum við okkur pizzu og kók í kvöld. Og svo drógum við fram Næturvaktina. 

Ég efast nú um að pápi hefði haft húmor fyrir Næturvaktinni en ef ég tala bara fyrir minn munn þá eru þessi þættir hreinasta snilld. Jón Gnarr og Pétur Jóhann eru hreint stórkostlegir og svo má ekki gleyma þeim ágæta pilti sem leikur Flemming Geir.
Æ já, það er kannski heldur seint í rassinn gripið að vera að ræða Næturvaktina núna í lok árs 2011 ...

Samt var gaman í þessu samhengi að minnast á auglýsingar sem fylgja með þáttunum og eru inn þeim miðjum. Þar láta Landsbankinn, Kaupþing ("með þér alla leið" var slagorðið þeirra - sannarlega orð að sönnu) og Ingvar Helgason hressilega til sín taka. Að ógleymdum snillingunum í BT sem eiga um fimm auglýsingar í hverjum auglýsingatíma. Ekkert til sparað á þeim bænum ... fóru þeir ekki líka sannfærandi á hausinn skömmu eftir bankahrunið?

---

Annars er allt gott að frétta ... nafni er sennilega að ná yfirhöndinni í baráttunni við hlaupabóluna.  Svo höfum við verið að undra okkur á ónæmi GHPL gagnvart "bólunni" en það er alveg sama hvað reynt er að smita hana ... það gerist bara alls ekkert.

Lauga lét sé detta í hug að sennilega hefði GHPL verið bólusett gegn hlaupabólu í Ástralíu en þar eru bólusetningar mun viðameiri en bæði í Svíþjóð og á Íslandi. Eftir að hafa skoðað bólusetningargögnin erum við alls ekki viss ... því það hefur nú ekki verið merkt sérstaklega við hlaupabóluna ... þetta er því allt hið dularfyllsta mál ... en vonandi skýrist á næstu dögum.

---

Jæja en svona er þetta núna ... sjálfur er ég búinn að vera að vinna við skrif í nánast allan dag, skrapp þó að hitta leiðbeinanda minn og skrapp líka að ná í annað hjólið okkar í viðgerð. Fínn hjólatúr þar sem ég hjólaði um 10 km leið á fullu gasi.

Læt þetta duga núna. 

 


Miðvikudagur 7. desember 2011 - Aftur til Svíþjóðar

Jæja, þá er maður kominn aftur til Uppsala. Í þetta sinnið í aðra íbúð en áður hefur tíðkast hér.

Samkvæmt fréttum gengu flutningarnir afar vel og eiga þeir sem aðstoðuðu við það verk miklar og góðar þakkir skildar. Án þeirra hefði einfaldlega ekki verið flutt þann 1. desember sl. 

---

Lauga hefur haft í mörg horn að líta þessa viku, því auk þess að díla við að koma hlutunum á sinn stað, hefur hún þurft að kljást við fyrrum leigusala sem er ekki alveg jafn vinsamlegur og hann hefur verið. Svo hefur reynst þrautin þyngri að fá póstinn til að skilja að við erum flutt en pakki var sendur á gamla heimilisfangið okkar. Sá bíður nú á pósthúsinu og er með öllu óvíst hvort við gengur að koma honum í hús ... slíkar eru reglurnar ... mér skilst að lágmarki 10 símtöl fram og aftur séu að baki í því skyni að greiða úr þessu máli, með tilheyrandi bið og þvaðri.

Á sama tíma og þetta hefur gengið á hefur nafni verið með hlaupabólu. Það er þó skammgóður vermir því hann er "ónæmisfræðilega" of ungur til að fá hlaupabólu, þannig að það getur verið að hann þurfi að fá hlaupabólu aftur þegar hann er orðinn svolítið eldri til að verða ónæmur fyrir henni. 

 

En það er óhætt að segja að Lauga hafi staðið sig feykilega vel í þessu öllu saman.

---

Sjálfur hafði ég í Íslandsferðinni í fjölmörg horn að líta. Skrapp m.a. á Snæfellsnes þar sem ég hélt stutta tölu á fundi þar sem hugmyndir að jarðvangi voru reifaðar. Vann að húsakönnun í Djúpavogshreppi, setti saman hugmyndir varðandi framtíðarskipulag í Reykjavíkurhöfn og ræddi um fyrirhugað Ríkarðssafn á Djúpavogi.

Svo hitti ég góða vini og fjölskyldumeðlimi og var í góðu yfirlæti hjá blessaðri móður minni. Það eina sem örlítið skyggir á ferðina er að mér tókst að týna veskinu mínu ... sannarlega þarft verk ... eða þannig.

 

 


Miðvikudagur 30. nóvember 2011 - Undirbúningur flutninga í algleymingi

Við Lauga rétt mundum eftir því í dag að nafni er 7 mánaða í dag. Nákvæmlega ekkert gert með það enda allt á fullu í það að undirbúa flutningana á morgun. Þrífa og pakka niður er "beisklí" það sem búið er að gera í dag.

Mjög skemmtilegt :) .

Þetta er farið að taka á sig mynd hjá okkur. Í fyrramálið mæta svo gallvaskir félagar okkar og málið tekið föstum tökum. Sjálfur stíg ég upp í flugvél kl. 13.20 og held til Íslands í nokkurra daga vinnuferð.

En þessi færsla verður sú síðasta  úr þessari íbúð sem við höfum dvalið í síðan 23. mars 2009. Þá mættum við með tvær ferðatöskur og einn barnavagn.


Þann 23. mars 2009 leit þetta svona út. 

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá enda erum við nú að flytja sjö svarta ruslapoka, þrjár ferðatöskur, átta plastpoka fulla af bókum, já og sitthvað fleira.


Þann 30. nóvember 2011 leit þetta svona út.

En þetta verður síðasta færslan úr þessum híbýlum ...

 


Þriðjudagur 29. nóvember 2011 - Að láta moka sér út

Ég var sennilega heldur fljótur á mér í gær þegar ég fullyrti um að veturinn væri kominn ... snjófölina tók nefnilega upp í dag.  Nokkuð sannfærandi meira að segja.

Annars hefur þessi dagur verið svolítið sérstakur. Aldrei fyrr hef ég búið á stað þar sem húsgögnin eru hreinsuð út ... bara rétt sisona.
Það gerðist í dag.
Við flytjum á fimmtudaginn og í dag kom eigandi íbúðarinnar sem við höfum leigt af síðastliðin 2,5 ár og tók mestan hluta af dótinu sínu. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um að ætla bara að taka skápa, varð niðurstaðan sú að eldhúsborð, eldhússtólar, stofusófi, stofustóll og sófaborð var fjarlægt en skáparnir standa enn ásamt fullt af dóti sem á bara að ná í á laugardaginn þegar við erum flutt.

Samt var alls ekki sjéns að bíða bara með þessa flutninga fram á laugardag. 

Ekki nóg með það, heldur þurfti Lauga að vera heima í allan dag til að hafa auga með því sem hér fór fram. Einfaldlega til þess að dótið okkar yrði nú ekki fjarlægt í öllum hamaganginum enda var því rutt fram og aftur eftir því sem ástæða þótti til. Þrátt fyrir það tókst að hafa af okkur þrjú reiðhjóladekk en þeim á bara skila þegar það hentar þeim sem tóku þau.

Það verð ég að segja að þetta eru nú eitthvert "egósentrískasta" framferði sem ég hef orðið vitni af. 

---

Í kvöld skrapp ég svo á hljómsveitaræfingu. Hún var frábærlega góð og hressandi. 


Mánudagur 28. nóvember 2011 - Veðurfréttir

Nú lítur út fyrir að vetur sé skollinn á hér í Uppsala ...

 

Snjórinn er nú kannski ekkert yfirþyrmandi ... en málið er nú bara þannig að þegar snjó hefur fest að hausti þá fer hann ekki fyrr en í apríl.

Í gær var hinsvegar ekta íslenskt haustveður ... dálítið hlýtt, svolítið hvass og úrkoma ... þetta eru því óvenjumiklar veðurfarslegar sveiflur hér í Upplandi. Annars var nú óveður bæði sunnan og norðan við okkur þannig að engin ástæða er til að kvarta.

Ég hef haft af því spurnir að Íslendingar séu ekki hressir með yfirvofandi kuldakast ... þann 28. nóvember í fyrra fórum við niður í bæ hér í Uppsala að fylgjast með árlegri flugeldasýningu dagblaðsins UNT ... þá voru -12°C ... með vindkælingu -20°C.


28. nóvember 2010 - GHPL á leiðinni í bæinn ... og vildi alls ekki hafa vettlinga ... 

Og þessi dagur var upptakturinn fyrir veturinn þar sem hitastigið fór mörgum sinnum niður fyrir -20°C og ég fullyrði að vikum saman hélst hitinn neðan við -15°C. 

Þannig að einhver einn eða tveir sólarhringar með tveggja staða mínustölur drepur engann. 


Sunnudagur 27. nóvember 2011 - Jólasveinaleit og pökkun

Það var jólasveinaleit hér í Uppsala í dag ... tveir jólasveinar með móður sína Grýlu í eftirdragi voru svo sannarlega áttavilltir því þeir héldu að þeir væru komnir til Íslands ...

... en það var svo sannarlega ekki rétt ...

---

Undirritaður brá sér í gervi jólasveins en segja verður að undirbúningurinn hefði átt að vera og verður að vera betri ... alvegt hafði láðst að rifja upp helstu jólasöngva og þegar átti á fara að syngja og tralla, var ekki um auðugan garð að gresja ...

Þannig að næst þegar síðuhaldari verður jólasveinn þá verður það tekið fastari tökum.

 

---

Guddan var mjög lukkuleg með að hitta jólasveinana í dag. Sagðist hafa spjallað við þá (sem er haugalygi) og þegið mandarínur og sælgæti (sem er satt).
Hið rétta varðandi spjallið er að hún hljóp undan jólasveininum eins og hræddur héri.

---

Í morgun fór fram allsherjar pökkun hjá okkur Laugu og er nú mestur hluti dótsins okkar kominn í poka, tilbúinn til flutnings. 

 


Föstudagur 25. nóvember 2011 - PJPL í sparifötunum

Ég held að menn verði nú ekki mikið flottari en þetta ...

... PJPL á leið í útskriftarveislu í kvöld en Inga Sif vinkona okkar varði doktorsritgerð sína í dag ...

Drengurinn stóð sig eins og hetja í afskaplega góðri veislu.

Á meðan lifði GHPL í vellystingum hjá uppáhöldunum sínum ... Sverri, Jónda og Dönu. 


Fimmtudagur 24. nóvember 2011 - Flæði, Ronja og Eric Carr

Ég er búinn að sitja við skriftir í bókstaflega allan dag ... og dagurinn hefur gjörsamlega þotið áfram. 

Í jákvæðari sálfræði er fyrirbærið þegar maður gjörsamlega gleymir sér í viðfangsefni sínu, kallað flæði. Eftir því sem ég fæ best skilið næst flæði þegar viðfangsefnið er krefjandi en þó í fullu samræmi við getu einstaklingsins. Sá sem á heiðurinn að þessari speki heitir Mihaly Csikszentmihalyi bandarískur háskólaprófessor af ungverskum ættum.

---

Hjá Laugu var dagurinn af allt öðru sniði, þar sem hún var á stöðugum þönum frá klukkan 11 í morgun til klukkan 19 í kvöld. Og Þristurinn með.

Svo voru tímamót í danskennslu hjá GHPL þar sem hún í fyrsta skiptið fór ein (lestist: án Laugu) inn í kennslustofuna og tók fullan þátt. Ástæða þessara sinnaskipta er að nú hefur Guddan eignast vinkonu í dansinum. Sú heitir hvorki meira né minna en Ronja. 

---

Það má einnig geta þess að í dag eru 20 ár síðan sá mikli söngvari Freddie Mercury lést. Já, tíminn er fljótur að líða.

En svo einkennilega vill tíl að í dag eru líka 20 ár síðan trommuleikari KISS Eric Carr lést. Ég man enn það augnablik þegar ég rak augun í frétt af dauða Eric, en birtist hún mér eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það segir nú kannski mest um fréttaflutninginn á þessum árum því Eric hafði barist við sjaldgæfa tegund af hjartakrabbameini í heilt ár áður en hann dó.

Það er fremur kaldhæðnislegt til þess að vita að Eric Carr hafi verið fyrstur meðlima KISS til að kveðja þennan heim en hann var, að sögn kunnugra, stakur reglumaður og í mjög líkamlega góðu formi. Það verður nú ekki sagt um fyrirrennara hans, trymbilsins Peter Criss, sem gafst upp á verunni í KISS árið 1979 eftir að dóp og áfengisdrykkja höfðu tekið öll völd. Það verður heldur ekki sagt um gítarleikarann Ace Frehley sem auk þess að drekka ótæplega, stofnaði sér og samborgurum sínum margoft í lífsháska með óhefluðu háttarlagi sínu. Báðir þessir menn lifa enn ...

En svona er þetta bara ... hér er Eric Carr árið 1982 í banastuði ... allir eldri en 5 ára og með einhvern vott af beini í nefinu þekkja þennan rokkslaga ... sem upphaflega gerði síðuhaldara að KISS-aðdáanda, sennilega til eilífðarnóns ... ;) 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband